14.12.1976
Sameinað þing: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

1. mál, fjárlög 1977

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það hefur nokkuð borið á því að undanförnu að málgögn hæstv. ríkisstj. hafa látið í það skína að ríkisstj. hafi tekist tiltölulega vel upp í baráttunni gegn verðbólgu. Þetta hefur mátt sjá í málgögnum hæstv. ríkisstj., og eftir því mætti ætla að stuðningsflokkar hæstv. ríkisstj. væru tiltölulega ánægðir með árangurinn. Það er fróðlegt að glugga aðeins í skýrslur um þetta efni. Það liggur fyrir skýrsla um hækkun neysluvöruverðlags á síðustu 12 mánuðum, þ.e.a.s. frá ágúst 1975 til ágúst 1976, og þetta á við um OECD-löndin og þar kemur í ljós að verðbólguvöxtur hefur minnkað í þessum löndum um 40%, en á sama tíma hefur hann minnkað um 26% hér á landi.

Þá hefur einnig verið látið að því liggja að nokkuð öruggur bati hefði átt sér stað í viðskiptajöfnuði. Hallinn á árinu 1975 var um 20 milljarða kr., og menn eru að gera sér vonir um að hann verði um 8–10 milljörðum minni á árinu 1976.

Það er eðlilegt, þegar slíku er velt upp, að menn spyrji hverjar séu ástæður fyrir slíku, að menn eru bjartsýnni í spám nú heldur en verið hefur að undanförnu, og menn spyrja í áframhaldi af því: Er hér um að ræða bata vegna stefnu hæstv. ríkisstj. í peninga- og efnahagsmálum eða eru það utanaðkomandi áhrif sem hafa orðið þess valdandi að hér hefur orðið breyting á?

Í fyrsta lagi er það ljóst, að viðskiptakjör hafa batnað. Innflutningur skipa hefur minnkað um 2400 millj., innflutningur hráefnis til álvers hefur minnkað um tæplega 3 milljarða og útflutningur á eldri birgðum hefur aukist til júlíloka um rösklega 4 milljarða kr. Sem sagt, þessir þrír liðir: minnkandi innflutningur skipa, batnandi viðskiptakjör og vegna betri markaða varðandi álútflutning, þá nema þessir þrír liðir samtals nokkuð svipaðri upphæð, þ.e.a.s. röskum 9 miljörðum kr., og talið er að viðskiptajöfnuður batni á árinu 1976. Það er því á engan hátt hægt að segja að þann bata, sem orðið hefur að þessu leyti, sé á nokkurn hátt hægt að rekja til stjórnvisku hæstv. ríkisstj. varðandi fjármál og efnahagsstefnu.

Í fyrrahaust, þegar fjárlagafrv. fyrir árið 1976 var til umr. hér á Alþ., voru í grg. með því frv. boðaðar breytingar á lögum og reglum sem tryggja áttu verulega útgjaldalækkun á árinu 1976 miðað við það sem ella hefði orðið, og með því átti að gera kleift að framkvæma umtalsverða skattalækkun með niðurfellingu vörugjalds. Þetta voru að sjálfsögðu fögur fyrirheit og kærkomnar yfirlýsingar af hálfu hæstv. ríkisstj. með frv. til fjárlaga fyrir árið 1976 um að stefnt skyldi að því að fella niður hið illræmda vörugjald sem hæstv. ríkisstj. setti á. En það fór samt svo að það var ekki um það að ræða við lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1976 að vörugjaldið væri í áföngum fellt niður, heldur var ljóst að hæstv. ríkisstj. ætlaði sér að ekki einungis að halda því vörugjaldi, sem fyrir var, heldur varð staðreyndin sú að það var hækkað úr 12% í 18%, eins og öllum er kunnugt.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1977, sem hér er til umr., er jafnstaðfastlega gert ráð fyrir því að 18% vörugjald haldist út árið eins og gert var ráð fyrir því að fella það niður í fjárlagafrv. fyrir árið 1976. Engu skal um það spáð hvort mál fara eins eða á svipaðan veg nú og þá gerðist, þ.e.a.s. þá var gefið fyrirheit um niðurfellingu gjaldsins, en efndirnar urðu þær að það var látið óbreytt standa og síðar hækkað. Nú eru gefin fyrirheit um að það skuli standa óbreytt 18%. Vonandi snýst þetta við þannig að það verði í reynd svo að hæstv. ríkisstj. sjái að sér og aflétti þessari mjög svo ranglátu skattheimtu sem hér er um að ræða.

Það þarf væntanlega ekki að rifja það upp hér hversu hv. þm. Sjálfstfl. sem stjórnarandstæðingar í tíð fyrrv. ríkisstj. gerðu harða hríð að þeirri stjórn, fyrst og fremst vegna þess að hún var að þeirra mati talin skattheimtustjórn hin versta og talin nýta alla færa möguleika til skattpíningar, eins og hv. þm. Sjálfstfl. orðuðu það oft og iðulega sem stjórnarandstæðingar. Það er því fróðlegt, þegar þessir hv. þm. Sjálfstfl. og nú Framsfl. eru búnir að halda um stjórnvölinn frá kosningum 1974, að íhuga aðeins hver hefur orðið þróun mála í sambandi við skattálagningu til ríkissjóðs, annars vegar miðað við árið 1974, þ.e.a.s. síðasta ár fyrrv. ríkisstj., og hins vegar árið 1976, þ.e.a.s. annað fjárlagaár hæstv. núv. ríkisstj. Ef þetta er skoðað, þá kemur í ljós að skattstofnar fjárlaga frá árinu 1974 til ársins 1976 hafa hækkað allríflega. Innflutningsgjöld hafa t.d. hækkað úr 8500 millj. í 15 500 millj. kr. Söluskattur hefur hækkað í skattheimtu til ríkissjóðs úr 7300 millj. í 23 300 millj. eða um 16 milljarða kr. á þessu tveggja ára tímabili. Tekjuskattur einstaklinga hefur hækkað úr 5800 millj. í 7200 millj. eða um 1400 millj. En tekjuskattur félaga hefur aðeins hækkað úr 922 millj. í 1070 millj. eða einungis um 148 millj. kr. Hækkun á skattstofnum fjárlaga annars vegar ársins 1974, síðasta árs vinstri stjórnarinnar, og hins vegar ársins 1976 hafa því hækkað um samtals 24 milljarða 400 millj. kr. á tveim árum. Þetta er allrífleg hækkun, og ef litið er til þess sem sagt var af hálfu núv. stjórnarsinna, fyrst og fremst sjálfstæðisþm., í tíð fyrrv. ríkisstj, að hafi sú stjórn verið skattpíningarstjórn, hvaða heiti nær þá yfir það sem gerst hefur í valdatíð núv. ríkisstj. þann tiltölulega stutta tíma sem hún hefur þó setið að völdum ?

Hér er nú til umr. þriðja fjárlagafrv. núv. hæstv. ríkisstj. Í gegnum öll frv. og fjárlög núv. ríkisstj. hefur það gengið sem rauður þráður að fjárlög hafa hækkað langt umfram verðlagsog launahækkanir. Rekstrargjöld hafa farið sívaxandi og hækkað miklum mun meira en almennar verðlagshækkanir hafa gefið tilefni til, Raungildi framlaga til samfélagsins og framkvæmda á vegum ríkissjóðs og sveitarfélaga hefur stórlega minnkað. Og ef litið er á fjárlagafrv. fyrir árið 1977, þá er engu líkara en kjörorð hæstv. ríkisstj. sé að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1977 skuli skattar af innflutningi og seldum vörum og þjónustu og vörugjaldi a.m.k. vera 45000 millj. kr. hærri en á síðustu fjárlögum fyrrv. ríkisstj. Þetta liggur ljóst fyrir ef skoðaðar eru þessar tölur, að í fjárlagafrv. fyrir árið 1977 blasir þessi mynd við: 45000 millj. kr. meiri skattheimta að þessu leyti heldur en var fyrir tveim árum, í tíð fyrrv. ríkisstj.

Það hefur komið hér fram, og raunar þarf ekki að endurtaka það, að nú við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 1977 eru svo margir þættir varðandi fjárlagagerðina óvissir að í raun og veru er sáralitla mynd hægt að gefa sér í sambandi við það hver reyndin verður við lokaafgreiðslu fjárlaga við 3. umr. Ég held að það sé rétt, sem fram kemur í upphafi nál. frá minni hl. fjvn., að afgreiðsla frv. í fjvn. til 2. umr., sem átti sér stað s.l. laugardag, hafi fyrst og fremst að forsendum til verið hversu skammur tími er þar til þinghlé verður gert nú fyrir jól, — ekki það að vinnan við endanlega gerð fjárlaga fyrir árið 1977 hafi verið komin á það stig að í raun og veru væri hægt að skila málum hér til 2. umr., heldur fyrst og fremst tímahrak. Er þetta því miður ekki í fyrsta skipti sem slíkt á sér stað. Það er engu líkara en núv. hv. stjórnarliðar ætli að fara að nota sem aðalreglu það sem gerðist á síðasta Alþ. þegar allt var í óefni komið varðandi afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1976.

Eins og einnig hefur komið fram, eru fjöldamargir málaflokkar sem eru óafgreiddir nú við 2. umr. fjárlagafrv. Þar er um að ræða tekjuáætlun, málefni Pósts og síma, Rafmagnsveitna ríkisins, Orkusjóðs, héraðsskóla, Íþróttasjóðs, eftirlaunagreiðslur og skiptingu fjárveitinga til flugmála, ferjubryggjur og sjóvarnargarðar, auk þess lánsfjáráætlun, skattamálin, og svo mætti lengi telja. Í grg. fjárlagafrv. fyrir árið 1977 er tekið fram að lánsfjáráætlun fyrir árið 1977 muni verða lögð fram fyrir eða um miðjan nóv., í síðasta lagi um miðjan nóv. Nú er komið fram í miðjan des. og enn hefur ekkert sést af þessu plaggi frá hæstv. ríkisstj. Hið sama má segja um skattamálin. Í fjárlagaræðu sinni gerði hæstv. fjmrh. grein fyrir því að hann mundi leggja tiltölulega fljótlega fram hér á Alþ. frv. til l. um breyt. á tekjuskattslögum, þannig að hægt væri að afgr. þann málaflokk áður en jólaleyfi þm. hæfist. Enn hefur ekkert sést af þessu. Það kemur raunar ekki á óvart því að í fjárlagaræðu fyrir einu ári, við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1976, hafði hæstv. fjmrh. sömu orð að því er þetta varðar. Og þetta var endurtekið í umr. á Alþ. vorið 1976. Þá átti að liggja fyrir hv. Alþ. frv. til l. um breyt. á tekjuskattslögunum. Ekkert af þessu hefur gerst, og það er útséð um það nú að a.m.k. verða ekki afgr. ný tekjuskattslög áður en Alþ. fer í jólaleyfi.

Einn er sá þáttur sem gerð er grein fyrir í grg. fjárlagafrv. og víkur að heilbrigðisþjónustunni, en í grg. fjárlagafrv. fyrir árið 1977 segir um það mál m.a., með leyfi forseta:

Ríkisstj. hyggst koma breyttri skipan á fjármál og skiptingu kostnaðar af sjúkratryggingum sem hafi það meginmarkmið að samhæfa betur stjórnaraðild og fjárhagslega ábyrgð á heilbrigðisþjónustu í landinu. Í þessu frv. hefur verið stigið það skerf að áætlaður kostnaður af ríkisspítölunum er færður í A-hluta fjárlaga og er þá reiknað með því að ríkið kosti stofnanir þessar að öllu leyti. Hins vegar hefur í B-hluta verið reiknað með því að sveitarfélögin greiði hluta sinn af heildarkostnaði sjúkratrygginga samkv. gildandi reglum og jafnframt verði 1200 millj. kr. af kostnaðinum bornar af fjáröflun sem samsvari núv. 1% sjúkratryggingagjaldi af útsvarsstofni. Í frv. er ekki tekin afstaða til þess hvort þessi fjáröflun verði á vegum ríkisins eða sveitarfélaga, enda hlýtur sú ákvörðun að biða niðurstöðu viðræðna sem áformaðar eru um fjárhagslegt skipulag sjúkratrygginganna og skiptingu kostnaðar af þeim milli ríkis og sveitarfélaga. Þá virðist einnig brýnt í þessu sambandi að endurskoða reglur um þátttöku hins opinbera í kostnaði af hinum ýmsu þáttum heilbrigðisþjónustunnar. Áður en endanleg afgreiðsla fjárlagafrv. fer fram mun heilbr.- og trmrh. leggja fram till. um nauðsynlegar breytingar á tryggingalöggjöf sem tryggi fyrirhugaða nýskipan.“

Áður en endanleg afgreiðsla fjárlaga fyrir árið 1977 fer fram, — hér er nú verið að ræða þetta frv. við 2. umr. og ljóst er að það er aðeins ein víka eftir af starfstíma Alþ. áður en endanlega verður gengið frá fjárlögum fyrir árið 1977, og enn hefur ekkert sést af því sem hér er boðað í grg. með fjárlagafrv. Það liggur því í augum uppi að það er vart hægt að neinu marki að gera sér í raun og veru grein fyrir því með hverjum hætti hæstv. ríkisstj. ætlar sér að standa að afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1977 þegar svo margir eru óvissuþættir, stórir málaflokkar margir eru óleystir og liggja nú hjá fjvn. — og líklega fremur að segja hæstv. ríkisstj. til skoðunar, án þess að nokkur vissa sé fyrir því fengin á hvern hátt þetta á að leysast. Það er ljóst að nú í annað skiptið verður staðið þannig að afgreiðslu fjárlaga að óviðunandi verður að teljast. Þar er ekki um að sakast við fjvn. að mínu mati. Hér er fyrst og fremst hægt að sakast við hæstv. ríkisstj. því að það er hennar ákvörðun sem stendur á. Það liggja ekki fyrir neinar ákvarðanir varðandi þessa stóru málaflokka, hvernig með þá skuli farið.

Það væri freistandi að fara hér út í það að fjalla um ýmsa af þeim málaflokkum sem þegar hafa verið afgr. í fjvn. og ýmsir þeirra eru að sjálfsögðu mikilvægir fyrir framgang mála á árinu 1977. Ég skal þó reyna að vera ekki um of langorður í sambandi við það, en ég get þó ekki stillt mig um að fara hér um þá nokkrum orðum.

Það hefur nú svo til algjörlega hjaðnað allt tal hv. stjórnarþm. um stóreflda byggðastefnu í tíð núv. ríkisstj. Lengi vel eftir að núv. ríkisstj. var mynduð mátti bæði heyra og lesa fjálglegar yfirlýsingar stjórnarliða um stóreflda byggðastefnu undir handarjaðri hæstv. ríkisstj. Nú hafa þessar raddir gjörsamlega þagnað og skrif hafa nú síðustu vikur og mánuði vart sést af hálfu stjórnarliða um ágæti þessarar miklu byggðastefnu sem sett var á stefnuskrá hæstv. ríkisstj. Það hefur í raun og veru verið brotið blað varðandi uppbyggingu í atvinnulífi, félagsog menningarmálum og alhliða uppbyggingu frá því sem var í tíð fyrrv. ríkisstj. Það væri hægt að nefna ótalmörg dæmi þessu til rökstuðnings. Ég skal aðeins minna hér á nokkur.

Það liggur t.d. fyrir að með ákvörðun meiri hl. fjvn. núna við afgreiðslu fjárlagafrv. til 2. umr., eins og n. hefur afgr. það frá sér, ef við tökum heilbrigðismálin, þá tæki það 15 ár, miðað við hlutfallslegar fjárveitingar eins og nú er gert ráð fyrir, að ljúka þeim framkvæmdum sem þegar hefur verið byrjað á varðandi heilbrigðisþjónustuna, hvað þá ef inn ætti að taka nýjar framkvæmdir frá því sem nú er. 15 ár tæki að ljúka þeim framkvæmdum, sem nú hefur verið hleypt af stað og eru í gangi. Ég hygg að ýmsir verði orðnir langeygðir að þeim tíma liðnum ef engin breyting á sér stað að því er þennan málaflokk varðar og fjárveitingar til hans.

Það er ekki heldur óglæsileg frammistaða hæstv. ríkisstjórnar varðandi dagvistunarheimilin! Það liggur fyrir samkv. upplýsingum frá menntmrn. að til þess að fullnægja þeirri þörf, sem nú er varðandi þann málaflokk, þarf um 240 millj. kr. í fjárveitingum á fjárlögum ársins 1977. Í frv., þegar það var lagt fram, voru 85 millj. kr. ætlaðar til þessa. Nú er sú tala við afgreiðslu til 2. umr. 110 millj. kr. og engar líkur á því, að ég tel, ef haldið verður fast við þá stefnu af hálfu meiri hl. sem nú er uppi, að hækkun fáist á þeim lið, — 110 millj. kr. upp í þörfina sem er 240 millj.

Svona mætti halda áfram að fara yfir hvern málaflokkinn á fætur öðrum og sýna fram á hvernig ástatt er eftir rúmlega tveggja ára valdatíð núv. hæstv. ríkisstj.: og hæstv. fjmrh. sem var að ganga í salinn.

Einn er sá málaflokkur sem virðist ætla að verða gjörsamlega út undan hjá hæstv. ríkisstj. og meiri hl., en það er íþróttastarfsemin í landinu. Það var búið í tíð fyrrv. ríkisstj. að ganga þannig frá þeim málum að á árunum 1973 og 1974 var búið að ganga frá samkomulagi við sveitarfélögin um að það yrði slétt borð varðandi greiðslur ríkissjóðs á þeim hala sem hafði myndast í tíð þeirrar ríkisstj. sem sat til ársins 1971. En dæmið lítur þannig út eftir tveggja ára setu núv. hæstv. ríkisstj., að við síðustu fjárlagaafgreiðslu var skuldahalinn aftur orðinn 132 millj. rúmar, — skuldahalinn af hálfu ríkissjóðs við Íþróttasjóð. Og miðað við þá afgreiðslu sem allt útlit er fyrir að verði á fjárlögum ársins 1977, þá mun skuldahalinn verða kominn upp í 198 millj. kr. rúmar á árinu 1977, og þá er ekki gert ráð fyrir að taka eina einustu nýja framkvæmd inn, miðað við það, — ekki eina einustu nýja framkvæmd. Þetta er sá skilningur sem hæstv. ríkisstj. sýnir þessum málaflokki, þ.e.a.s. íþróttastarfseminni í landinu, og þykir mér og líklega fleirum þeim hafa lítið á unnist, þeim hv. þm. Sjálfstfl. sem lengi hafa verið í fararbroddi innan íþróttahreyfingarinnar í landinu. Þeim hefur lítið orðið ágengt innan síns flokks í sambandi við betri stuðning við íþróttastarfsemina í landinu heldur en verið hefur. Ég harma að svo skuli vera á málum haldið, því að ég held að engum dyljist að það er full þörf á því að sýna meiri skilning og meiri stuðning við íþróttastarfsemina heldur en verið hefur.

Þá kem ég að þeim málaflokknum sem kannske hvað oftast hefur verið til umr. hér, en það er í sambandi við hafnamálin. Það var látið í það skína af hæstv. samgrh. að þegar lokið væri þeim stórframkvæmdum í hafnamálum, sem staðið hafa yfir annars vegar í Þorlákshöfn og hins vegar í Grindavík að undanförnu og látnar hafa verið í hundruð millj. kr. í þær framkvæmdir, þá var látið í það skina að að þeim loknum mundi verða tekið til við að greiða frekar fyrir fiskihöfnum víðs vegar í kringum landið í auknum fjárveitingum þeim til banda. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1977, þegar það var lagt fram, var gert ráð fyrir 850 millj. kr. til þessa málaflokks, — 850 millj. til allra fiskihafna í landinu á árinu 1977. Þessi tala hefur nú hækkað í meðförum fjvn. upp í 930 millj. kr. En á sama tíma og á að setja rúmar 900 millj. í allar fiskihafnir á landinu ætlar hæstv. ríkisstj. að setja 450 millj. í eina höfn, að vísu að mati hæstv. ríkisstj. mikilvæga, höfnina á Grundartanga í Hvalfirði, — 450 millj. í þá höfn eina á móti 900 millj. til allra fiskihafna í landinu. Þetta er rausnarskapur hæstv. ríkisstj. Þetta eru efndirnar á þeim loforðum sem hæstv. samgrh. hefur gefið um að stórauka hlutdeild fiskihafnanna í landinu í fjárveitingum þegar lokið væri þeim stórframkvæmdum sem nú hefur verið unnið að annars vegar í Þorlákshöfn og hins vegar í Grindavík.

Það hefur verið sagt að undanförnu að hæstv. samgrh. færi nú mun tíðar í bestu fötin heldur en áður gerðist, og þegar menn tala um bestu fötin, þá er átt við loforðabuxurnar, eins og menn kalla það. Ekki alls fyrir löngu var hæstv. samgrh. við vígsluathöfn í Þorlákshöfn. Það var verið að fagna unnum sigri þar í sambandi við hafnarframkvæmdir sem hafa kostað mikið í fjárframlögum. En hæstv. ráðh. þótti ekki nóg að gert þar. Hann mun hafa gefið loforð um að á árinu 1977 mundi verða bætt þarna við um 150 millj. kr. vegna grjótgarðs sem á þyrfti að halda til varnar hinum nýju hafnarmannvirkjum. Það væri að sjálfsögðu ekkert við þetta að athuga ef aðrir aðilar sætu við eitthvað svipað borð í sambandi við fjármögnun á framkvæmdum eins og hefur verið gert í sambandi við Þorlákshöfn og Grindavík og eins og virðist vera ætlunin að gera. Það er því miður orðið allt of títt að einstakir ráðh. í hæstv. ríkisstj. gefi loforð og gefi fyrirheit um svo og svo stórar fjárveitingar, svo og svo stórar gjafir í ýmsar áttir sem Alþ. virðist svo standa frammi fyrir sem orðnum hlut eftir þeirra loforð.

Það er alveg augljóst mál, og það veit ég að hæstv. ríkisstj. er mjög kunnugt, að staða hafnarsjóðanna í landinu er með þeim hætti að það er gjörsamlega vonlaust að láta þessi mál ganga svona áfram eins og gert hefur verið. Og það verður að teljast furðulegt að ekki skuli fást meira fjármagn til framkvæmda í fiskihöfnunum heldur en raun ber vitni, þegar það virðist liggja á lausu að hægt er að eyða hundruðum, ef ekki þús. millj. kr. í eina og eina höfn sem þó er í sumum tilvikum ekki hægt að flokka undir útflutningsframleiðsluna eða skili arði sambærilega við það sem fiskihafnirnar gera. Hér verður að verða á breyting fyrr en síðar, og það er ljóst að haldi áfram sem horfir í þessum efnum, þá verður ekki langt að biða þess að ekki bara hafnarsjóðir, heldur a.m.k. margir sveitarsjóðir verða gjaldþrota vegna hinna gífurlegu skuldabyrða sem þeir bera vegna mjög svo dýrra hafnarframkvæmda í fiskihöfnum landsins.

Það er rétt að minna á það hér, að með setningu nýrra hafnalaga á árinu 1974 var ráð fyrir því gert að auka hlutdeild ríkissjóðs í hafnarframkvæmdum úr 75% upp í 90% á þeim stöðum sem verst væru settir í sambandi við hafnarframkvæmdir — dýrar hafnarframkvæmdir. Þetta hefur ekki komið til framkvæmda, því miður, og er þar ekki einungis um að sakast við núv. hæstv. ríkisstj. Það var einnig um að sakast við fyrrv. ríkisstj. í þeim efnum og þá fyrst og fremst hæstv. samgrh. núv., þáv. fjmrh., sem neitaði að fara þessa leið þrátt fyrir það sem er í hafnalögum frá árinu 1974.

Þá vil ég aðeins nefna flugmálin. Það var mikið rætt um það við fjárlagaafgreiðsluna fyrir ári, þegar verið var að afgr. fjárlög fyrir árið 1976, hvernig í raun og veru væri staðið að fjármögnun framkvæmda í flugi. Eins og mál standa í þeim málaflokki nú við 2. umr. fjárlaga, þá er gert ráð fyrir, að mig minnir, 375 millj. kr., 300 millj. + 75 millj. í lántöku, ef ég man rétt, þannig að við skulum telja fjárhæðir til framkvæmda í flugmálum, þ.e.a.s. beina fjárveitingu á fjárlögum og heimild til lántöku, 375 millj. kr.

Það liggur fyrir nú og lá raunar fyrir alveg ljóst við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1976 að það er stórkostlegt hættuástand í sambandi við flugmálin. Það er víðast hvar svo úti á landsbyggðinni að lágmarksöryggisþjónustu og öryggisbúnaði er ekki sinnt, lágmarksöryggisbúnaður er ekki fyrir hendi á hinum ýmsu flugvöllum hringinn í kringum landið. Það er því allsendis óverjandi að ekki skuli fást meira fjármagn en 370 millj. kr. til framkvæmda varðandi flugmál, þ.e.a.s. varðandi flugvelli, varðandi öryggismál öll í sambandi við flug, þegar það liggur fyrir að ástandið er með þeim hætti eins og lýst hefur verið, og er kannske nærtækast þá að vitna í blaðaviðtal sem átt var við flugmálastjóra í dagblaðinu Tímanum um það leyti sem verið var að ganga frá fjárlögum fyrir árið 1976. Þar er lýst algjöru hættuástandi í sambandi við flugmálin. Og það má kannske ekki nefna það hér, en það skal þó gert, að það er einkennilegt að hugsa til þess, að á sama tíma og neitað er um lífsnauðsynlegar fjárveitingar til þess að efla öryggisþjónustu í flugi, þá virðist vera á sama tíma hægt að fjölga flugvélum í landinu fyrir a.m.k. 1 milljarð, og á ég þar við flugvélakaup af hálfu Landhelgisgæslunnar. Það er stefnt, að því er virðist, leynt og ljóst að því að stórauka flugflotann á sama tíma og neitað er um brýnustu öryggisþjónustu að því er varðar þennan flota. Þetta er að mínu viti öfugþróun. Það á ekki beinlínis að stefna að því að auka flugflotann, nema þá því aðeins að hægt sé að sinna því brýna verkefni sem öryggisþjónustan krefst. Ég er ekki að segja þetta hér eða vitna til þessa í sambandi við Landhelgisgæsluna vegna þess að ég sé í raun og veru andvígur slíku, en mér finnst þetta stangast á. Ef til er fjármagn til þess að kaupa flugvélar fyrir næstum því milljarð, þá hlýtur þess að verða krafist að það sé hægt að láta meira en 300 millj. í framkvæmdir allar varðandi flugmál, eins og öryggisþjónustunni er nú háttað í þeim málaflokki.

Það hefur verið sagt hér og það vil ég endurtaka, að hækkun fjárlaga í tíð núv. ríkisstj. stafar fyrst og fremst af útþenslu í rekstri ríkiskerfisins sjálfs. Það sýnir t.d. að í grg. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að liðurinn önnur rekstrargjöld hækki um 58% á sama tíma og almennar verðlagshækkanir eru ekki nema 30%, þannig að höfuðorsök svo gífurlegrar hækkunar sem er á fjárl. milli ára er útþensla í ríkisrekstrinum sjálfum, en á sama hátt samdráttur í öllum framkvæmdum og samfélagslegum fjárveitingum af hálfu ríkissjóðs.

Þegar fjárlagafrv. var lagt fram fyrir árið 1977 var það 24 milljörðum kr. hærra en fjárl. ársins 1976. Líklegt er nú við 2. umr. að í meðförum fjvn. hafi þetta hækkað um 900 millj. til 1 milljarð, þannig að eins og dæmið stendur í dag er fjárlagafrv. við 2. umr. að öllum líkindum 25 milljörðum kr. hærra fjárl. ársins 1976. Þetta er yfir 41% hækkun milli ára. Og enn er vitað að stórkostlegar fjárfúlgur eiga eftir að koma inn til hækkunar um það er lýkur, þannig að það er augljóst mál að hér verður mun meiri hækkun milli ára en eins og dæmið lítur út í dag.

Ég hjó eftir því í ræðu formanns fjvn., hv. þm. Jóns Árnasonar, hér í dag, að hann vék að því nokkrum orðum hvernig ýmis ríkisfyrirtæki leyfðu sér að haga starfsemi sinni, annars vegar í sambandi við ákveðnar fjárveitingar til ákveðinna framkvæmda og hins vegar hvernig þau höguðu sér í framkvæmdavali. Ég tek mjög undir þetta. Það nær að mínu viti ekki nokkurri átt að sumum ríkisstofnununum skuli líðast það ár eftir ár að sniðganga fjárveitingavaldíð á þann hátt sem þær hafa gert á undanförnum árum. Nægir í þessu sambandi að nefna Póst- og símamálastjórnina. Það hefur skeð núna tvö ár í röð að hún hefur virt að vettugi, ákveðnar fjárveitingar til ákveðinna framkvæmda, — sniðgengið þær og veitt fjármuni í aðrar framkvæmdir sem embættismannakerfið eða a.m.k. einhver angi í því hefur talið sér betur henta eða talið meiri þörf á þannig að hér er virt að vettugi ákvörðunarvald fjárveitingarvaldsins og embættismannakerfið grípur inn í og framkvæmir að eigin geðþótta. Þetta ber að vita og þetta á Alþ. ekki að líða, að þannig sé á málum haldið. Það væri hægt að nefna fleiri dæmi um þetta, en því skal sleppt að sinni. En ég tek mjög undir þau orð formanns fjvn.Alþ. á ekki að líða slíka meðferð á fjárveitingum sem það hefur sjálft ákveðið til hinna einstöku framkvæmda. Það á að fylgja því eftir að ríkisfyrirtækin framkvæmi á þann veg sem fjárveitingavaldið og Alþ. hefur ákvarðað um.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa þessi orð öllu fleiri. Ég ítreka það, að það er varla hægt, eins og mál nú standa við 2. umr. fjárlaga, að gera sér nokkra grein fyrir heildarmyndinni sem kemur til með að verða við endanlega afgreiðslu, vegna þess hversu margir og stórir málaflokkar eru óafgreiddir og margir endar eru lausir í fjárlagadæminu fyrir árið 1977. Og ég tek undir það sem frsm. minni hl. fjvn., hv. þm. Geir Gunnarsson, sagði hér áðan: Það er óraunhæft með öllu að afgr. fjárl. fyrir árið 2977 grundvölluð á áframhaldandi kjaraskerðingarstefnu núv. ríkisstj.

Ég vil svo að lokum aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir brtt. sem ég flyt hér ásamt þeim hv. þm. Skúla Alexanderssyni og Braga Sigurjónssyni, en sú brtt. er við liðinn til jöfnunar á námskostnaði. Í brtt. fjvn. er gert ráð fyrir 170 millj. kr. í þennan lið, en brtt. okkar þremenninganna er um að í stað 170 millj. kr. komi 205 millj., en það er sú tala sem til þarf til þess að dæmið standi nokkuð svipað og það gerði árið 1974. En þá er að sjálfsögðu ekki tekið tillit til raunverulegrar jöfnunar á námskostnaði, eins og upphaflega var gert ráð fyrir og stefnt að með þessum lið. Það er sem sagt okkar till. að það verði haldið í við það sem var á árinu 1974, og til þess að það verði gert þarf þessi upphæð að vera 205 millj. kr. Það skal viðurkennt að milli áranna 1975 og 1976 helst þetta nokkuð í hendur, þessi upphæð miðað við vísitöluhækkun. En þá ber þess að geta, að það var herfilega með þennan lið farið við fjárlagaafgreiðslu á s.l. hausti fyrir árið 1976, og fyrir árið 1975 raunar líka, þannig að þó að betur sé að staðið af hálfu meiri hl. nú heldur en var gert þá, þá var illa með þetta farið á árunum 1975 og 1976 og þarf hér betur að gera til þess að halda því sem var fyrir árið 1974. Og það er tilgangur inn með okkar till. að ekki sé verra ástand í þessum málum á árinu 1977 heldur en var við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1974.