19.10.1976
Sameinað þing: 6. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

240. mál, hafnarmál Suðurlands

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. á þskj. 17. Svo hljóðandi till. til þál. var samþ. á Alþ. 29. apríl 1974:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka hafnamál Suðurlands og gera tillögur um nýja höfn á suðurströnd landsins. Til að hefja rannsóknina og gera tillögur um framkvæmdir skal samgrn. skipa n. 5 manna. Skal einn tilnefndur af sýslunefnd Árnessýslu, einn af sýslunefnd Rangárvallasýslu, einn af sýslunefnd Vestur-Skaftafellssýslu, einn af bæjarstjórn Vestmannaeyja og einn af samgrn. án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.“

Ráðh. skipaði n. samkv. þál. N. hefur væntanlega starfað eftir skipunarbréfi og í samráði við samgrn. Þykir mér því rétt að spyrjast fyrir um hvað störfum n. líði. Ekki skal efast um að n. hefur starfað samkv. því sem ætlast er til með þál. Væntanlega hefur n. gert sér nokkra grein fyrir hafnaraðstöðu á suðurströndinni og kallað sérfróða menn til ráðuneytis. Nokkrar rannsóknir höfðu áður farið fram á ýmsum stöðum á ströndinni frá Ölfusá til Víkur. Frumranasóknir hafa farið fram við Dyrhólaey, Þykkvabæ, Þjórsárós, Eyrarbakka og Stokkseyri. Með nútímatækni er mögulegt að gera höfn þótt skilyrði séu erfið ef fjármagn er fyrir hendi. Hlutverk hafnanefndarinnar er að rannsaka til hlítar hvar skilyrðin eru hagkvæmust með tilliti til stofnkostnaðar og notagildis. Fsp. er fram borin til þess að fá upplýsingar um hversu langt n, er komin með það starf sem henni er ætlað að vinna samkv. fyrrnefndri þál.