15.12.1976
Sameinað þing: 33. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

112. mál, landhelgismál

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. — Hér er til umr. í kvöld till. til þál. um landhelgismál þar sem gert er ráð fyrir að vegna þeirrar vitneskju, sem fyrir liggur um veika stöðu helstu fiskstofna við landið, lýsi Alþingi yfir því, að nýir samningar um veiðiheimildir útlendinga í fiskveiðilandhelgi Íslands komi ekki til greina. Ástæðan fyrir flutningi þessarar þáltill. er sú, að átt hafa sér stað að undanförnu svonefndar könnunarviðræður milli fulltrúa ríkisstj. og fulltrúa Efnahagsbandalags Evrópu um fiskveiðimál og fyrir liggur að framhaldsviðræður munu eiga sér stað 16. og 17. des. n. k., þ. e. a. s. á morgun og föstudag.

Í fréttum Ríkisútvarpsins í kvöld var frá því greint að fulltrúar Efnahagsbandalags Evrópu mundu á þessum fundum á morgun og föstudag leggja höfuðáherslu á gagnkvæm veiðiréttindi til langs tíma. Hæstv. ríkisstj. hefur hins vegar lýst því yfir að fulltrúar hennar á þessum viðræðufundum muni aðeins ræða fiskverndarmál. Hér stangast enn einu sinni á fullyrðingar þessara tveggja aðila sem til viðræðu eru að fara.

Mikil áhersla hefur verið á það lögð af hálfu hæstv. ríkisstj. að hér væri aðeins um að ræða könnunarviðræður, en ekki samningaviðræður. Það vakti athygli að í fyrstu tveim atrennum þessara könnunarviðræðna tóku þátt tveir hæstv. ráðh„ tveir alþm. og átta embættismenn auk sjálfs forsrh. hæstv. Að þessum tveim fundum loknum var svo gefin út yfirlýsing þess efnis að aðilar væru sammála um að efna til formlegra samningaviðræðna um langtímasamning á milli aðila sem varðaði fiskverndarmál og stjórnun á fiskveiðum. Síðan er í yfirlýsingu þessari tekið fram að síðar muni fjallað um hugsanlegar gagnkvæmar veiðiheimildir á fiskimiðum hvors aðila um sig, og það er greinilega á þessu stigi sem fulltrúar Efnahagsbandalags Evrópu telja þann fund sem fyrirhugað er að verði á morgun og föstudag, þ. e. a. s. til að ræða fyrst og fremst um gagnkvæm fiskveiðiréttindi. Fulltrúi Efnahagsbandalagsins, Gundelach, sem hingað kom til þessara viðræðna, gaf svo út sérstaka tilkynningu og lagði þar á það áherslu að hann teldi alveg víst að samkomulag mundi nást sem a. m. k. tryggði að þjóðir Efnahagsbandalagsins þyrftu ekki að hætta snögglega veiðum sínum hér við land. Og síðan hafa verið að berast stöðugar fréttir og yfirlýsingar frá þessum sendimanni Efnahagsbandalagsins, svo sem að hann væri viss um að samningar yrðu gerðir fyrir jól sem tryggðu bretum áframhaldandi veiðar hér og nú fyrir nokkrum dögum frétt um að bretar mundu fá leyfi fyrir 12 togara til veiða hér við land.

Allar þessar yfirlýsingar og fréttir, sem sendimaður Efnahagsbandalagsins dælir út til fjölmiðla eru á allt annan veg en það sem hæstv. ráðh. hafa sagt íslensku þjóðinni. Þeir hafa svarið og sárt við lagt að ekkert hafi gerst á þeim fundum sem haldnir hafa verið, annað en það að þeir hafi hlustað og aftur hlustað á það sem sendimaðurinn hafði fram að færa. Og enn sagði hæstv. utanrrh. hér í kvöld: Við munum aðeins taka við og hlusta á fulltrúa Efnahagsbandalags Evrópu, við gerum ekkert.

Hafa menn heyrt þetta áður? Minnast menn nokkurra slíkra yfirlýsinga áður en þýski samningurinn var gerður eða Oslóarsamkomulagið var gert? Já, vissulega minnast menn slíkra yfirlýsinga rétt í þann mund að þessir samningar voru frágengnir.

Nú er það að vísu ekkert nýtt fyrir okkur íslendinga að fá fréttir erlendis frá um það sem er að gerast í landhelgismálinu. Það hefur verið föst regla hjá hæstv. núv. ríkisstj. í öllu því samningamakki, sem hún hefur staðið að í landhelgismálinu, að fullyrða hér heima fyrir að ekkert væri að gerast og að allar yfirlýsingar og fréttir erlendis frá væru ósannar. Reynslan hefur þó sýnt að allt of oft hefur það reynst rétt sem haldið hefur verið fram af hinum erlendu aðilum.

Öll meðferð landhelgismálsins í höndum hæstv. ríkisstj., sem að málsmeðferð lýtur, hefur því vægast sagt verið býsna einkennileg. Það er einkennandi varðandi málsmeðferð hæstv. ríkisstj. að svo til alltaf hefur orðið að knýja fram umr. um málið hér á Alþ. og þá utan dagskrár. Öðruvísi hefur málið ekki fengist rætt. Og þó að tekist hafi að knýja fram umr. hér með þeim hætti, þá virðist því miður útilokað að fá fram hjá hæstv. ríkisstj. hvaða stefnu hún ætlar að hafa í þessum viðræðum. Ríkisstj. þykist aldrei neitt vera að gera nema hlusta á útlendingana. En síðan stöndum við frammi fyrir því einn góðan veðurdag að samningar hafa verið gerðir, sbr. Oslóarsamningana á s. l. vori. Þá kappkostaði hæstv. ríkisstj. að senda Alþ. heim svo hún gæti snúið sér að samningsgerð um veiðiheimildir bretum til handa.

Þannig virðir hæstv. ríkisstj. Alþingi að vettugi og leynir þjóðina því í lengstu lög hvað er í raun og veru að gerast í málinu. Þm. stjórnarliðsins er þannig stillt upp við vegg, flokksfjötrunum smeygt á þá og þeir þannig knúðir til þess að samþ. gerðir ríkisstj. burt séð frá eigin skoðun eða sannfæringu um málið. bað er til marks um vinnubrögðin að stjórnarliðar hér á hv. Alþ. rétt náðu að staðfesta Oslóarsamkomulagið áður en samningurinn féll úr gildi. Sá samningur var búinn að gilda í 5 mánuði eða nær allt samningstímabilið þegar Alþ. fékk hann til umfjöllunar. Slík málsmeðferð er auðvitað fyrir neðan allar hellur og ekki sæmandi að sniðganga þannig löggjafarsamkomuna. Hér var því óþingræðislega og ólýðræðislega að málum staðið og slíku ber harðlega að mótmæla.

Ég held að fróðlegt væri fyrir ykkur, hlustendur góðir, að rifja upp með nokkrum orðum hvernig hæstv. ríkisstj. og stuðningslið hennar hefur staðið að meðferð landhelgismálsins. Hæstv. sjútvrh., Matthías Bjarnason, sagði hér áðan: Sjálfstfl. markaði þá stefnu 1973 að landhelgin yrði færð út í 200 mílur. Hver var stefna Sjálfstfl. í landhelgismálinu þegar hann sat í viðreisnarstjórninni veturinn 1970–1971? Því hefði hæstv. sjútvrh. einnig átt að greina frá. En stefna Sjálfstfl. var þá sú að vera andvígur því að færa landhelgina út í 50 mílur.

Allir muna hinar fjálglegu yfirlýsingar hæstv. sjútvrh., stuttu eftir að hann tók við embætti, um það að enginn samningur yrði gerður við neina þjóð um veiðiheimildir innan landhelginnar nema því aðeins að bókun 6 kæmi til fullra framkvæmda. Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar var samið við vestur-þjóðverja án þess að bókun 6 kæmi til framkvæmda. Vestur-þjóðverjar fengu að veiða hér við land í 5 mánuði án þess að tollfríðindin kæmu til framkvæmda.

Röksemdir hæstv. ríkisstj. fyrir samningnum við vestur-þjóðverja voru fyrst og fremst þær, að þar með gætum við einbeitt okkur að baráttunni við breta eina. Þann tíma, sem vesturþýski samningurinn var í gildi án þess að bókun 6 kæmi til framkvæmda, notaði ríkisstj. til þess að undirbúa jarðveginn fyrir samninga við breta. Við stjórnarandstæðingar héldum því fram að samningurinn við þjóðverja væri grundvöllurinn að því að samíð yrði við breta. Þetta var augljóst, því að einungis með því að semja við breta kom bókun 6 til framkvæmda, því þeir einir neituðu tollfríðindum samkv. EBE-samningum nema hví aðeins að þeir fengju veiðiheimildir hér við land. Þetta kom á daginn, því fljótlega eftir að þýski samningurinn var gerður lét ríkisstj. málgögn sín fara að undirbúa jarðveginn fyrir samningana við breta með því að koma á framfæri þeim boðskap að vonlaust væri að fá tollfríðindin fram nema því aðeins að hafa breta góða. Þessum boðskap var síðan skipulega haldið að þjóðinni allt þar til Oslóarsamningurinn var gerður.

Það kom glöggt fram í umr. á Alþ. í nóv. 1975, þegar þýski samningurinn var til umr„ að margir stuðningsmanna ríkisstj. voru andvígir þeim samningi og lýstu því óspart yfir, en féllu fyrir þeirri lævísu blekkingu að með samningnum væri verið að einbeita sér einvörðungu að bretum. Og á tímabilinu frá því í nóv. 1975 þar til í maí 1976 hafði ríkisstj. og þó sér í lagi hv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, sem er guðfaðir ríkisstj. og helsti pólitíski sérfræðingur hennar í landhelgismálinu ásamt hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, tekist að halda þannig á málum og róa liðið svo, að þeir töldu óhætt að semja við breta, en töldu þó vissara að senda þm heim áður og leyfa þeim að jafna sig enn frekar á sjötta mánuð áður en þeim væri ætlað að rétta upp höndina með samningnum við breta sem þeir höfðu marglýst yfir að þeir væru andvígir. Þannig tókst hæstv. ríkisstj., Þórarni og Guðmundi að leiða stjórnarhjörðina sem blind væri frá því að vera andvíg öllum samningum í okt. 1975 til þess að samþ. alla samninga í júní 1976. Þannig voru þm. stjórnarliðsins á þessu tímabili leiddir sem ómálga börn frá því að gera það, sem þeir vildu og töldu rétt, til þess að gera það, sem þeir vildu ekki og töldu rangt. Hér eiga enn við orð Biblíunnar sem segja: Hið góða, sem ég vil gera, það geri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég.

Þetta er í stuttu máli saga og gjörðir hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsliðs hér á Alþ. í landhelgismálinu. En hvað er fram undan? Það er augljóst mál að fulltrúi Efnahagsbandalags Evrópu er hér á ferðinni einungis til þess að knýja á með það að koma veiðiskipum frá bandalagsþjóðum Efnahagsbandalagsins inn á okkar fiskimið. Það er ástæðan fyrir ferðum hans hingað. Það er ástæðan fyrir þeim umr. sem fram hafa farið. Þetta á hæstv. ríkisstj. að viðurkenna og segja þjóðinni sannleikann, en ekki eilífar vífilengjur og villandi upplýsingar.

Ljóst er að fiskifræðingar okkar telja óvarlegt, að veiða meira en 275 þús. lestir af þorski á Íslandsmiðum á næsta ári eða svo til sama aflamagn og við veiðum sjálfir í ár. Af þessu er ljóst að það er ekki neitt til að láta í té. Það er ekki af neinu að taka. Þrátt fyrir þetta virðist hæstv. ríkisstj. enn vera að fikta við þann möguleika að gera samning við Efnahagsbandalagið um heimildir bretum til handa til veiða hér við land, og af ummælum hæstv. ráðh. og vinnubrögðum þeirra verður ekki annað séð, því miður, en að þeim sé fyllsta alvara með að semja, en þora ekki að segja það.

Hæstv. forsrh. lýsti því yfir í umr. hér á Alþ. fyrir nokkrum dögum, að nú væri þess beðið að Efnahagsbandalagið legði fram tilboð sem síðan yrði vegið og metið hvort aðgengilegt væri. Þetta endurtók hv. þm. Þórarinn Þórarinsson hér í kvöld, þetta endurtók hæstv. utanrrh. hér í kvöld, og þetta sagði enn fremur hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson rétt áðan. Þessi orð forsrh. verða ekki skilin á annan veg en hann, að það eigi að semja ef hagstætt tilboð komi að mati hæstv. ríkisstj., og við vitum hvað það þýðir.

Ástæðan fyrir flutningi þessarar þáltill er fyrst og fremst ótti við það að enn einu sinni ætli hæstv. ríkisstj. að bregðast og falla flöt fyrir ágangi og ásælni hinna erlendu vina. Það er skýlaus krafa að ríkisstj. hætti þeim hráskinnaleik í meðferð landhelgismálsins sem hún hefur leikið. Ríkisstj. hefur ekki enn fengist til þess að gera hreint fyrir dyrum og lýsa yfir hver stefna hennar sé í málinu. hafi hún há einhverja stefnu. Þess verður að krefjast að hæstv. ríkisstj. geri hreint fyrir sínum dyrum og segi þjóðinni hvað hún ætlar sér. Fáist ekki skýr svör frá hæstv. ríkisstj. um það hvort hún ætlar sér að semja og þá á hvern veg er augljóst að hæstv. ríkisstj. þorir ekki að segja sannleikana og ætlar að halda áfram hráskinnaleiknum og leynimakkinn eins og verið hefur.

Eftir því verður vissulega tekið hvort hæstv. ríkisstj. tekst enn einn sinni með óþingræðislegum vinnubrögðum að villa svo um fyrir stuðningsliði sínu hér á Alþ. að það verði lokkað eða leitt í enn eina gildruna og hlekkjað til fylgis við það sjónarmið áhrifaafla innan ríkisstj. að það beri að semja við Efnahagsbandalagið um veiðiheimildir bretum til handa innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Enginn vafi er á því að áhrifaöfl innan Sjálfstfl. vinna að því bak við tjöldin að samningar verði gerðir, og leiðari Morgunblaðsins s. l. sunnudag ber þess glöggt vitni að nú skal hert á áróðri fyrir samningsgerð við Efnahagsbandalagið. Og þið hafið í kvöld, hlustendur góðir, heyrt tal hæstv. ráðh. Það er allt með sama marki brennt og áður: Engin hrein svör um það hvað ríkisstj. ætlar sér í málinu. Enn er þjóðin leynd því ráðabruggi sem hæstv. ríkisstj. lifir og hrærist í varðandi samninga, og er það í samræmi við þá stefnu hennar, að forðast beri allar yfirlýsingar um það sem í vændum sé, best sé að þjóðin fái ekkert að vita fyrr en allt sé klappað og klárt og frá öllu gengið. Spurningin er hvað alþm. ætla lengi að líða það að svo freklega sé gengið fram hjá Alþ. í þessu máli eins og hæstv. ríkisstj. hefur gert.

Að öllum líkindum verður lagst á þá till., sem hér er til umr., og hún ekki afgr., Alþ. sent heim, þannig að ríkisstj. hafi frítt spil fram í lok janúar n. k. til að ganga svo frá málum að engum vörnum verði við komið. En það segir líka sína sögu ef hæstv. ríkisstj. þorir ekki að láta ganga til atkv. um þessa till. Af hálfu okkar flm. mun ekki verða lagt til að henni verði vísað til n., heldur verði hún borin undir atkv. strax að umr. lokinni. Þið skuluð, góðir hlustendur, taka eftir því hver viðbrögð verða hjá hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsliði hér á Alþ. Þið heyrðuð viðbrögðin áðan hjá hv. 4. þm. Reykv., Þórarni Þórarinssyni, sem er reiðubúinn með till. upp á vasann um að leggja til að till. sé vísað til n. Af því getið þið sjálf fengið vitneskju um hvað er að gerast og hvað undir býr. Fari svo að hæstv. ríkisstj. knýi það hér fram í krafti síns meiri hl. að till. verði vísað til n. og ekki afgr. fyrir þinghlé, þá er það ótvírætt svar um það að hún þorir ekki að leggja málið í hendur Alþ. nú og telur sig þurfa lengri tíma til að handjárna stjórnarliðið undir ægivald flokksagans. Þinghléið á því að nota til þeirrar iðju, svo þokkaleg sem hún þá er eða hitt þó heldur.

Þessi till. er fram borin með það fyrir augum að Alþ. fái að tjá sig um málið áður en samningar verða gerðir. Komi hæstv. ríkisstj. í veg fyrir að sá tilgangur þessarar þáltill. náist, þá vinnur hún illt verk.

Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs. — Góða nótt.