20.10.1976
Efri deild: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

26. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil láta koma fram við 1. umr. þessa máls, að ég tel að undanþágur á borð við þá, sem aldraðir njóta hjá Ríkisútvarpinu, séu í sjálfu sér mjög óæskilegar og það er skoðun innheimtumanna Ríkisútvarpsins að þessar undanþágur hafi verið mjög verulega misnotaðar. En þar fyrir utan er útvarpið í stöðugri fjárþörf, eins og 1. flm. gat um, og það er ekki hægt að segja að það sé sérstök ástæða til þess að sú stofnun sem slík leggi af mörkum peninga í þessu skyni, til þess að greiða fyrir öldruðum, því að hún hefur vissulega ekkert aflögu. Þá má eins hugsa sér að bæta það eftir öðrum leiðum. Annað er e.t.v. enn þá verra í þessu kerfi, eins og það hefur verið hjá okkur, að útvarpið sjálft, innheimta þess, hefur enga möguleika til þess að fylgjast nokkurn skapaðan hlut með því sem þarna er að gerast, fær bara tilkynningar frá Tryggingastofnuninni og verður að haga sér eftir þeim.

Ég er sammála innheimtumönnum Ríkisútvarpsins að svona undanþágur bjóði misnotkun heim. Án þess að fara nokkuð út í að rekja einstök dæmi um það, þá vil ég aðeins geta þess að persónulega er mér kunnugt um atvik þar sem ungur maður seldi ömmu sinni sjónvarpið sitt. Ég ætla ekki að fara að rekja svona dæmi, en bæði liggur þetta í hlutarins eðli og það er reynsla þeirra sem næst þessu hafa komið, að það sé nokkuð um þetta.

Hitt er svo annað mál, að ég er hv. 1. flm. sammála um að þörf sé lagfæringar á kjörum aldraðra. Það er svo annað mál. En ég tel eðlilegt að í sambandi við aðgerðir til úrbóta þar, almennar aðgerðir, yrðu þessar undanþágur afnumdar, þær sem verið hafa, en ekki útvíkkaðar, þær yrðu niður felldar, og þá yrði að bæta þann skaða, sem aðilar yrðu fyrir af þeim sökum. eftir einhverjum öðrum leiðum. Ég tel sem sagt óeðlilegt að viss hluti af framfærslu aldraðra sé færður yfir á tilteknar ríkisstofnanir sem geta ekki fylgst að neinu leyti með því hvernig slíkt er framkvæmt.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram hér og ég árétta það, það er búið að koma þessu á. Ég er ekki að mæla með að því verði svipt burt án þess að eitthvað komi í staðinn. En ég legg eindregið til, þar sem mér skilst að nú sé fram undan að taka til skoðunar kjör aldraðra, að þegar það verður gert, þá verði íhugað að fella niður þessar undanþágur, sem í gildi hafa verið, og bæta það upp á annan hátt.