17.12.1976
Efri deild: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

100. mál, söluskattur

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það kemur í ljós nú með þessu frv., sem við óttuðumst í stjórnarandstöðunni, að hið svonefnda olíugjald eða eitt stig í söluskatti yrði að föstum tekjustofni fyrir ríkissjóð. Þetta frv. staðfestir það, að það á að reyna að fá lög um það innan skamms. Það kemur fram í frv., að ætla má að eitt söluskattsstig nemi 1.6 milljarði kr. Hins vegar á að ráðstafa þessu þannig, samkv. því sem hæstv. fjmrh. var að segja nú rétt áðan, að 700 milli. kr. fari í niðurgreiðslu á olíu, í gegnum ríkissjóð þá þar sem þetta gjald á að fara í gegnum fjárl. nú í fyrsta sinn, og afgangur renni í Orkusjóð, sem gæti þá numið fast að milljarði, eftir því hvað gjaldið gefur mikið, 1600–1700 millj. kr.

En þá er að athuga eitt, hve margir aðilar í landinu, sem hafa olíuupphitun, greiða nú söluskattinn. Ef svo er, að þeir, sem nota olíu, borgi í söluskatt 500–600 millj. kr., þá er raunveruleg hjálp aðeins á annað hundrað millj. kr. og er það orðið algerlega gagnstætt því sem þetta gjald átti að vera í upphafi. Það átti að vera til að létta því fólki, sem hafði olíukyndingu, vegna þeirrar hækkunar sem varð á olíu hér á landi, og um það voru þm. sammála á sínum tíma. En það hefur verið ágreiningur um að taka þetta og skipta því með allt öðrum hætti en upphaflegur tilgangur gjaldsins var.

Ég vil því mótmæla þessari ráðstöfun mjög eindregið og tel að raunverulega sé þetta ekki hægt. Ef við ætlum að hjálpa þessu fólki, eins og upphaflegur tilgangur var með þessum gjaldstofni, þá er ekki hægt að ráðstafa þessu fé með þessum hætti. Það er ekki hægt, því að fólkið, sem borgar söluskatt og fær svo fé til baka vegna olíukyndingar hefur sama og engan ávinning af því. Þá er Alþ. því miður búið að taka það skref að láta verulegan hluta þjóðarinnar bera olíuverðhækkunina einhliða.

Um hitt má líka deila, hvort fjármögnun hitaveituframkvæmda á að vera á svona háu stigi samtímafjármögnun. Við höfum ekki enn séð lánsfjáráætlun fyrir næsta ár, þó að nú sé mjög liðið að því að þingfundum verði frestað fyrir jól, en það var þó boðað við 1. umr. fjárl. að við ættum að sjá lánsfjáráætlun. Verðum við í stjórnarandstöðunni því að giska á hvar þar felst. Ég get ekki fallist á þessi vinnubrögð og tel að hér sé skakkt að staðið.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu og tel að hér sé brostin forsenda að bera fram slíkt frv., miðað við þær upplýsingar sem við höfum hvað varðar dreifingu á þessu gjaldi. Og þess var óskað af hæstv. ráðh. að þetta mál yrði afgreitt nú strax. Það getur vel verið að meiri hl. knýi það í gegn. En hvorki í frv. né ræðu hæstv. ráðh. eru nálægt því tæmandi upplýsingar um þetta gjald og hvað þeir, sem það bera í gegnum söluskattinn, fá til baka. Það eru áætlunartölur. Frv. gerði ráð fyrir 600 millj., nú er það skyndilega komið upp í 700 millj. vegna gagnrýni og kann að hækka enn meira eða þörfin vera enn meiri. En um þetta fáum við ekki meira að vita þar sem svigrúm með tíma er ekki neitt.