16.12.1977
Neðri deild: 33. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

129. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. meiri hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Hæstv. forseti. Þetta mál hefur verið til meðferðar í fjh.- og viðskn og í n. varð bæði samkomulag og ósamkomulag. Það varð samkomulag um það að Vegasjóður hefði fulla þörf fyrir þann tekjuauka sem frv. fjallar um, eins og líka kemur fram í nál. hv. minni hl., þar sem segir á þessa leið: „Ljóst er af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að ekki muni Vegasjóði veita af þeim tekjuauka sem frv. gerir ráð fyrir.“ Um þetta voru sem sagt bæði meiri hl. og minni hl. sammála. Hins vegar náðist ekki samkomulag um tekjuöflunina. Eins og sakir standa nú í stjórnmálum landsins treystir minni hl. sér ekki til að fylgja frv. og mun verða á móti því. Hins vegar er meiri hl. frv, samþykkur og mælir með því að það verði samþ. óbreytt.