16.12.1977
Neðri deild: 33. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

129. mál, fjáröflun til vegagerðar

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af till. hv. 2. þm. Austurl. og þeim hjartnæmu orðum, sem hann mælti hér úr ræðustóli áðan, vil ég geta þess, að svo er nú fyrir komið með þann vegaskattsauka, sem hér er um að ræða, að söluskattur af honum fer ekki í ríkissjóð, heldur í Vegasjóð, Hann er innifalinn í því framlagi sem frá ríkissjóði kemur í vegáætlun nú og meira en það, því hann er lækkaður, þessi skattur, nú við meðferð fjárlaga hér á hv. Alþ., en framlag ríkissjóðs er hins vegar ekki lækkað þrátt fyrir það og er það náttúrlega gleðiefni.

Nú verð ég að segja það frá syndum mínum gagnvart vegum, að þegar ég var meira að segja í stjórnarandstöðu, þá var ég jafnhjartnæmur og hv. 2. þm. Austurl. og studdi alla skatta á umferðina. jafnvel þó að söluskatturinn fylgdi þá ekki með. Og það var m.a. af þeim skilningi, að almennir skattar ættu ekki að tilheyra umferðinni, heldur sérskattarnir, og þannig hefur túlkun mín verið á þessu.

Ég minnist þess hins vegar þegar hv, 1. þm. Suðurl. var samgrh. 1971, þá varð samkomulag milli okkar, allra þessara ágætu þm., hv, 2. þm. Austurl. og 1. þm. Suðurl. og mín, og fleiri góðra manna um að hækka vegaskattinn, og þá tókum við að okkur í leiðinni að ná söluskattinum af þeirri skatthækkun með. Hafði þáv. samgrh. forustu um það og við fylgdum þar fast eftir. Þeirri reglu fylgjum við núna, og ég gleð hv. 2. þm. Austurl. með þessu. Auðvitað lítum við svo á það, þegar hann leggur til aukna tekjuáætlun eða auknar tekjur, því vafalaust þarf á þeim að halda einhvern tíma síðar.