17.12.1977
Efri deild: 36. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

99. mál, verðlagsmál landbúnaðarins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög, en það voru þó nokkur atriði í máli hæstv. landbrh. sem ég ætla rétt að víkja að og svo koma með nokkrar almennar aths. varðandi málið í heild, þó að hv. frsm. hafi nú gert því það góð skil að ég hef þar litlu við að bæta. Ég vil þó taka fram, að fyrir okkur vakir ekki einungis það, að kaupgjaldsmál bænda kæmust í betra horf með þessum hætti. Við teljum einmitt að það mikilvægasta við breytingu af þessu tagi yrði það, að þarna yrði ekki samið um kaupið eitt, heldur kjara-og réttindamál bændastéttarinnar í heild. Hliðstæðir samningar ættu sér sem sagt stað og eiga sér stað við aðrar stéttir. Þetta teljum við mjög þýðingarmikið, því að það er staðreynd að ýmis réttindamál bændastéttarinnar hafa orðið aftur úr. Ég nefni mál eins og orlofsmál þeirra, ég nefni mál eins og fæðingarorlof, sem enn er alls óleyst hvað bændakonur snertir, og fleiri almenn kjaramál þeirra mætti nefna sem kæmu hér inn í. Mér þætti líka ótrúlegt, ef þessi skipan hefði komist á, að þurft hefði að kæra til jafnréttisráðs það mál sem nú nýlega hefur verið kært til þess varðandi kaup bóndakvenna og mismun á kaupi bóndans og kaupi bóndakonunnar. Mér þætti ótrúlegt, ef svona samningar færu fram, að á þessu mundi stranda. Það væri sem sagt hægt að nefna ýmis dæmi af þessu tagi, en ég skal ekki eyða löngum tíma í það, aðeins undirstrika það, að með beinum samningum við ríkisvaldið, eins og við leggjum þarna til, hygg ég að almenn réttinda- og kjaramál bændastéttarinnar kæmust betur til skila og næðust betur fram en ella yrði.

Hæstv. landbrh. flutti hér mjög greinargóða og ágæta ræðu í gær og ég er honum þakklátur fyrir ýmsar þær upplýsingar sem hann gaf okkur. Það er alltaf mjög virðingarvert þegar ráðh. taka sig til og undirbúa mál sitt rækilega og vel, eins og hæstv. landbrh, gerði, og bera það á borð fyrir okkur þm. eins og fræðsluerindi sé um það mál sem fyrir liggur. Þannig leit ég á þessa ræðu hæstv. ráðh., og það var annað mál þó að ég í einhverju væri honum ósammála.

Ég vil aðeins taka það fram, af því að hæstv. ráðh. minntist eðlilega á Alþýðusamband Íslands og forustu þess varðandi afstöðu oft og tíðum til bændastéttarinnar, að ég vil ekki taka þá forustu í forsvar, hvorki hér né áður, því að þar tel ég forustu alþýðusamtakanna hafa beint spjótum sínum ranglega að hændum og oft svo að mér hefur blöskrað. Hitt er svo annað mál, af því að sá ágæti maður, formaður Stéttarsambands bænda, kom hér inn í mál hæstv. ráðh., að hann hefur ekki alltaf verið varkár í orðum sínum um launþega heldur, og gæti ég trúað að þar væri líkt á komið um fullyrðingar á báða bóga, hlýt ég að harma það, hvor aðilinn sem í hlut á.

Enn síður dytti mér í hug að mæla bót þeirri stefnu, sem hefur því miður verið allt of mikils ráðandi hjá Alþýðusambandi Íslands, að meta svo mikils sem raun ber vitni lækkun tekjuskatts. Ég hef verið algerlega andstæðrar skoðunar varðandi hag launafólksins í þessu landi. Ég tel einmitt hina óbeinu skatta, og þá söluskattinn sérstaklega, miklu hættulegri og verri en tekjuskattinn. Af honum verður hins vegar miklu meiri hávaði venjulega, þegar hann er á lagður en hitt gleymist, hve óbeinu skattarnir og þá sérstaklega söluskatturinn eru orðnir gífurlega háir og íþyngjandi fyrir launþega.

Þetta vildi ég aðeins taka fram út af því sem hæstv. ráðh, sagði um þetta mál. Hins vegar er það rétt, að neytendur hljóta ævinlega að vera vel á verði gagnvart öllu sem heitir verð á almennum neysluvörum og hljóta þar alltaf að vilja halda í við sem mest, en það má vitanlega ekki koma beint niður á launakjörum þeirra manna sem starfa að landbúnaði. Þeim óvinafagnaði ætti sem fyrst að linna sem þar hefur því miður oft borið allt of mikið á milli launþega og bænda, því að hér er um sömu hagsmuni að ræða eins og hv. frsm. þessarar till. okkar tók mjög skýrt og rækilega fram í ræðu sinni.

Hæstv. ráðh. ræddi töluvert um frv, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, sem lagt var fram á vinstristjórnarárunum. Mér heyrðist, — ég er þó ekki alveg nægilega viss um að ég hafi skilið það rétt, — að þetta frv. hafi í raun, kannske einmitt þetta atriði þess, jafnvel strandað á okkur Alþb.-mönnum. Ég held að mig misminni það ekki, að við, sem vorum þá í landbn. beggja d., höfum unnið allvel að þessu máli. Ég man ekki betur en þáv. varaþm. Sigurður Magnússon, sem starfaði í landbn. Nd. þá einmitt að þessu frv., hafi átt mjög góða samvinnu við formann landbn. Nd., hv. þm. Stefán Valgeirsson, og lagt sitt af mörkum ríkulega — og það hygg ég að hv. þm. Stefán Valgeirsson gat borið um — til þess að um þetta frv. gæti orðið samkomulag og það gæti náð fram að ganga. Það kann að vera að einhverjir okkar flokksmenn hafi ekki verið sáttir við þetta frv., en ég fullyrði að við, sem störfuðum að þessu máti fyrir hönd flokksins í landbn., sýndum því fullan skilning og meira en það. Við veltum því — og þessu atriði alveg sérstaklega — fullan stuðning. Ég vona að annaðhvort hafi mér misheyist eða ég hafi misskilið hæstv. ráðh., því að ekki strandaði á okkur Alþb: mönnum, allra síst hvað þetta ákvæði áhrærði, um beina samninga við ríkisvaldið.

Ég lagði fram fyrir nokkru fsp. til hæstv. ráðh. um veðdeild Búnaðarbankans. Þar hefur verið slæmt ástand að undanfornu. Reyndar er ástandið í máfum veðdeildarinnar slíkt, að úrlausn þess, ekki bara skammtímalausn, heldur framtíðarlausn, þolir í raun og veru enga bið, Ég fagna því, að í umr. í gær svaraði hæstv. ráðh. í raun fsp. minni varðandi vanda veðdeildarinnar á þessu ári, Ég tók það sem sagt sem svo, að fyrir því yrði séð að þessi vandi yrði leystur nú á næstu dögum, þannig að afgreiðsla jarðakaupalána gæti farið fram nú fyrir áramót. Ég fagna þessu og vil þakka hæstv. ráðh. fyrir að hafa upplýst okkur um það og þá um leið fyrir að vinna þannig að þessu máli að lausn fáist á því, því að hér eru margir sem biða úrlausnar, hafa beðið allt frá í sumar og jafnvel lengur eftir úrlausn og eru nú í viðbót við aðrar hrellingar, sem bændur búa við, orðnir langeygir eftir þessari fyrirgreiðslu. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þessar upplýsingar, en hlýt um leið að minna á, að eftir sem áður er vandi veðdeildarinnar sem slíkur óleystur með öllu. Hér er í raun og veru um gjaldþrotafyrirtæki að ræða, þar sem veðdeildin er.

Ég ætla ekki að fara miklu nánar út í það hér. Ég á sjálfur sæti í nefndinni sem hæstv. ráðh. skipaði til að reyna að fínna lausn á þessum málum. Við höfum unnið allmikið að þessum málum og málefnum stofnlánadeildarinnar einnig og höfðum þegar á s.l. vori eða s.l. vetri lagt fram drög að frv. til lausnar vanda stofnlánadeildarinnar, þar sem í raun er einnig að hluta til leystur vandi veðdeildarinnar. Það hryggir mig að það frv., sem þá komst í hendur hæstv. ráðh. og ég veit að hann út af fyrir sig var sammála, skuli ekki hafa náð fram að ganga. Ég veit mætavel að þar hafa aðrir staðið í vegi, en ég vona að hæstv. ráðh. nái vopnum sínum í þessu máli og takist að koma þessu frv. fram nú fyrir vorið, því að hér liggur við staða stofnlánadeildarinnar og veðdeildarinnar einnig, staða sem er í dag allhrikaleg, ef ekkert verður að gert. Þetta frv. vona ég sem sagt að komi fram, og ég hef lýst því yfir áður, að ekki skal standa á mér að stuðla að því að frv. náist í gegn þegar það sér dagsins ljós hér á Alþingi.

Þegar að stofnlánadeildarmálunum er komið, þá er auðvitað komið að verulegum þætti í kjaramálum bænda, þar sem eru lánamál þeirra, Ein ástæða til þess, hve bændur kvarta nú — af eðlilegum ástæðum — er einmitt erfiðleikar lánasjóðanna, sem hafa þó verið minni á þessu ári en á árunum þar áður. Þar hefur líka verið um hert lánakjör að ræða, þó að hvergi nærri hafi verið gengið eins langt í því að hækka verðtryggingu og farið hefur verið fram á af Seðlabankanum og þeim öðrum aðilum sem þeim peningamálum stjórna. Engu að síður er sú verðtrygging, sem þegar er í gildi, þungur baggi á bændum vegna þess eðlis sem landbúnaðarframleiðslan er og hve hún er annars eðlis en ýmis önnur atvinnustarfsemi hér, afsetningin miklu hægari og þetta er miklu seinna að skila sér en hjá mörgum öðrum aðilum.

Ég skal ekki fara miklu nánar út í þetta mál, vil aðeins beina fsp. til hæstv. ráðh. í framhaldi af þeim upplýsingum sem við höfum fengið um stöðu stofnlánadeildarinnar varðandi þá lánsfjáráætlun sem nú er í burðarliðnum hér í þinginu. Við höfum fengið þær upplýsingar, að staða stofnlánadeildarinnar í þeim samanburði sé ákaflega óhagstæð, auk þess sem sú tala, sem þar er við miðað, sé röng. Nú vil ég ekkert um þetta fullyrða, því að þetta eru aðeins tölur sem okkur hafa verið gefnar upp. Samkv. því nefni ég aðeins þau dæmi um prósentuhækkanir sem okkur hafa verið gefnar upp, að á meðan fiskveiðasjóður hækkar um 17% miðað við næsta ár hækki stofnlánadeildin um 6.8%, en ef við rétta tölu sé miðað hækki í raun og veru framlagið til hennar um 7.6%. Ég tek enga ábyrgð á þessum tölum, en þó að hagstæðari talan sé rétt, þá er engu að síður ljóst, að ef hún er rétt, þá er staða stofnlánadeildarinnar miðað við ýmsa aðra fjárfestingarlánasjóði í landinu afar óhagstæð. Ég treysti hæstv. ráðh. til að gera sitt til þess, að þar verði ráðin á bót, ef hér er rétt með farið, en þetta eru þær upplýsingar, sem við höfum fengið í Stofnlánadeild landbúnaðarins varðandi samanburðinn við aðra fjárfestingarlánasjóði.

Þetta voru aðeins örfá atriði sem mér datt í hug undir ræðu hæstv. ráðh., en ég skal ekki nú í þessum þingönnum fara mjög mikið út í annað í till. okkar. Það er ljóst að óánægja bænda er mjög almenn um þessar mundir, og sú óánægja á við mikil rök að styðjast. Þeir hafa ekki náð sínum umsömdu launum, launin eru greidd seint og illa og margt hefur komið þar til sem gerir bændum erfiðara um vik en áður. Kostnaðaraukning í landbúnaði hefur orðíð gífurleg. Henni hefur þó verið mætt með sífelldri stækkun búanna. Menn hafa komist í eins konar vítahring, eins konar kapphlaup sem hefur í raun og vera orðið þeim ofviða. Þeir eru bundnir á klafa, ekki aðeins mikillar fjárfestingar og dýrrar, heldur einnig á klafa allt of mikillar vinnu, allt of mikils vinnuálags. Ég stórefa að það sé nokkur stétt í þjóðfélaginu í raun og veru sem þarf að leggja aðra eins vinnu af mörkum og bændastéttin, og þegar þar við bætist svo, að á móti þessu vinnuálagi koma ekki einu sinni umsamin laun, þegar það tekst ekki einu sinni, þá er vitanlega von að í bændum heyrist þótt þolinmóðir hafi verið lengi, allt of lengi og að mörgu leyti, að mér hefur fundist, oft of sinnulausir um kjör sín.

Ég veit að kerfið, sem nú gildir, er síður en svo eitt sekt um þetta. Þar koma mörg atriði inn í, sem ég skal ekki fara nánar út í kór. Það er eðlilegt að öll þessi mál séu skoðuð í fullu samhengi, að ríkisvaldið móti heildarstefnu varðandi stéttina og það sé enginn milliliður þar á milli, enginn sem hægt er beint eða óbeint að skjóta sér á bak við.

Sú framkvæmd, sem við leggjum hér til í till., á nú vaxandi fylgi bænda að fagna og meira en það. Bændur eru mjög opnir fyrir hugmyndum um breytingar almennt, m.a. um skipulag framleiðslunnar, og engir gera sér ljósari grein fyrir því en bændur, að mikið er í húfi að það skipulag megi takast sem allra best. Ég held að það sé lag nú að koma þessum málum í betra horf, ekki síst sakir þess að bændur virðast vera tilbúnir sjálfir að taka myndarlega á þessum málum, ef komið er nægilega til móts við þá og þeim tryggt það, að kjör þeirra séu sambærileg við kjör annarra stétta.

Ég ætla ekki að fara hér út í umr. um útflutningsbætur og allt það fjaðrafok sem út af þeim hefur orðið, allt tal um umframframleiðslu og annað því um líkt, sem er mér eins og hæstv. ráðh. í hæsta máta ógeðfellt. Það er þó svo, að hjá einstaka bændum hef ég orðið var við það, að þeir tortryggja nokkuð vegna þess kerfis, sem nú gildir, þá aðila, sem flytja vörur þeirra út, þeir vinni ekki nægilega vel og rösklega að markaðsöflun. Ég tala nú ekki um ef maður hittir þann ágæta heiðursbónda Svein Jónsson á Egilsstöðum og fær hann til þess að lýsa markaðsmálum landbúnaðarins og hvernig að þeim er staðið. En þó ég taki nú ekki svo djúpt í árinni, þá er það hins vegar mjög einkennandi nú, að hjá bændum vakna ýmsar spurningar um það, hvort þeir, sem flytja út vörur þeirra, geri sinn hlut nægilega vel í þessum efnum. Það er eðlilegt að þeir segi þetta, af þeirri ástæðu að sá aðili, sem flytur þessa vöru út, hefur allt sitt á þurru, hann nær sem sagt þessu verði að fullu, því að ríkið tryggir útflutningsbæturnar sem á vantar. Ég vil ekkert um þessar fullyrðingar segja til eða frá, en þær hafa heyrst á bændafundum, sem ég hef verið á, og mér finnst ekkert óeðlilegt að þessar spurningar vakni hjá bændum. Eins tel ég, að það séu ekki bara þessir söluaðilar sem eiga hér að vinna að, heldur eigi ríkisvaldið sjálft ekki síður, eins og það á hér mikilla hagsmuna að gæta, að hafa forustu um markaðsleit og markaðsöflun fyrir okkar landbúnaðarvörur, því að ég er sammála Sveini Jónssyni á Egilsstöðum um það, að eiginlega er alveg ómögulegt að trúa því, að fyrir þessa ágætu vöru okkar, sem íslenska dilkakjötið er, fáist ekki meira verð en nú er hægt að fá, eitthvað hljóti þar að vera að, hverjum sem þar er um að kenna.