17.12.1977
Neðri deild: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

126. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vona, að hv. kvenkyns þm. Sjálfstfl. hverfi ekki af fundi. Ég hafði ekki ætlað mér að halda nema eina ræðu um þetta mál, en hv, þm. Sigurlaug Bjarnadóttir komst þannig að orði tvívegis í ræðu sinni, að ég kvaddi mér hljóðs. Þetta fer að verða svolítið íhugunarefni með kvenkyns þm. Sjálfstfl. Ragnhildur Helgadóttir kveikti í mér í gær og hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir í dag. Ég held að kvenkyns þm. Sjálfstfl. þurfi að vara sig.

Hv. þm. Karvel Pálmason svaraði ýmsum atriðum úr ræðu hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur, og ég fer að sjálfsögðu ekki að ítreka það á neinn hátt. En það kom fram eitt atriði í ræðu hennar sem hneykslaði mig stórlega. Það var það atriði, að hún tók undir það sjónarmið, að eitt af því, sem ætti að gera í sambandi við sjúkrahúsamál á Íslandi, væri að láta sjúklinga borga fyrir matinn sinn. Hún tók undir þetta sjónarmið hér úr ræðustóli hins háa Alþingis.

Hún gerði meira. Hún sagði: Það eru til menn sem hagnast á því að liggja á sjúkrahúsi, því að þar fá þeir ókeypis mat. Þarna er peningahyggjan komin inn á alvarlegt svið, þegar sjúkdómar manna eru metnir út frá peningasjónarmiðum. Ég hef sjaldan heyrt öllu viðurstyggilegri röksemd. Menn fara ekki á sjúkrahús að gamni sínu, og að meta sjúkrahúsdvöl út frá peningasjónarmiði sýnir aðeins það sem ég var að tala um áðan, hvernig peningahyggjan farin að gagnsýra þjóðfélagið. Það væri herfilegt fyrirkomulag, ef sá háttur yrði tekinn upp á sjúkrahúsum, að menn ættu að borga fyrir matinn sinn. Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir viðurkenndi að hluti þjóðarinnar gæti þetta ekki og þeir ættu þá ekki að þurfa að borga, þeir ættu þá sem sé að vera á sjúkrahúsum eins og þurfalingar að fornu. Er það kannske hugmynd þessa hv. þm., að á sjúkrahúsum séu tvöföld borð, ódýrari matur handa þurfalingunum og betri matur handa þeim sem geta borgað fyrir matinn sinn? Með þessu móti væri verið að búa til viðurstyggilega stéttaskiptingu, og hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttur er ekki sæmandi að láta sér detta slíkt í hug, hvað þá að segja það opinberlega.

Sjúkrahúsakerfinu á Íslandi á að halda uppi með skattheimtu eftir tekjum manna, en það á ekki að koma fram á mismunun við menn eftir því, hversu háar tekjur þeir hafa. Slík hugsun er algerlega röng og stenst ekki neitt félagslegt mat. Þetta er ósiðlegt, að taka peningasjónarmið til þess að meta erfiðleika sjúks fólks. Þurfalingar átu úti í horni og fengu þar ruður og leifa. Eru það slíkir hættir sem hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir vill láta taka upp í ísenskum sjúkrahúsum, þegar á að fara að meta matinn ofan í menn eftir peningasjónarmiðum? Það er vægast sagt furðulegt, að hugmyndir af slíku tagi skuli koma fram frá nokkrum manni, og ég skil ekki hvernig slíkar hugmyndir geta komið fram hjá fólki sem nær því trausti að vera kjörið á Alþingi Íslendinga. Sjónarmið af þessu tagi eru fyrirlitleg.

Hv. þm. talaði sitthvað um verðbólgu, eins og ég gerði raunar líka í ræðu minni, og það var sameiginlegt í ræðum okkar og í umtali allra, sem tala um verðbólgu, að menn eru á móti henni. En hrekkur þetta ekki afskaplega skammt? Menn verða að gera sér grein fyrir hvað verðbólgan er. Mér er kunnugt um að uppi eru um að margar kenningar í heiminum hvað verðbólga sé og menn hafa skrifað lærðar bækur um alls konar afkima í sambandi við verðbólgu. Upp er komið ósköp svipað ásetan og August Strindberg lýsir í Röda rummet, þegara hann talar um knappologi eða hnappafræði, þar sem menn söfnuðu alls konar hnöppum af mismunandi stærðum og litum og mismunandi efnivið, mismunandi mörgum götum, o.s.frv. og bjuggu til um þetta vísindakenningu. En verðbólgan á Íslandi hefur eitt meginatriði sem þessi hv. þm. og allir hv. þm. ættu að gera sér ögn grein fyrir. Verðbólgan er gróðamyndunaraðferð á Íslandi og hefur verið það í æðimarga áratugi. Það er á þann hátt sem gróðinn færist til í þjóðfélaginu á mill þeirra, sem ekki hafa aðstöðu og hinna, sem aðstöðu hafa. Ég vil minna menn á að það var framkvæmd eignakönnun hér í tíð þeirrar ríkisstj. sem var eignakönnun hér í tíð þeirrar ríkisstj. sem var 1956–1958. Hvað leiddi sú eignakönnun í ljós? Hún leiddi það í ljós, að sá útgerðamaður á Íslandi, sem talið vað að ætti í mestum bágindum, sem átti í erfiðleikum með að borga kaup á réttum tíma og var talinn í óhemjulegum erfiðleikum, var auðugasti maður landsins. Hvers vegna? Vegna þess að hann hafði fengið lánsfé úr bönkum og fest það í steinsteypu og framleiðslutækjum sem hækkuðu í takt við verðbólguna, en hann þurfti að borga miklu verðminni krónur til baka þegar hann greiddi af skuldum sínum. Verðbólgan er gróamyndunaraðferðin á Íslandi. Í verðbólgu skerðast sífelldlega kjör launafólks og gildir einu hversu rammlega er gengið frá samningum um vísitölubætur og annað slíkt. Með vissu millibili er slíkum samningum alltaf rift með lagasetningu á Alþ. til þess að jafna metin. Verðbólgan er enn gróðamyndunaraðferð á Íslandi, og það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur að standa hér upp í ræðustól og segja: Ég er á móti verðbólgunni — vegna þess að sá flokkur, sem hún er fulltrúi fyrir hér á Alþ. er hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir ekki á móti verðbólgunni, hún er með verðbólgunni, því að verðbólgan er einmitt sú aðferð sem ég var að lýsa. En þetta er vissulega hættuleg braut, ein og ég hef verið að lýsa. Hún er hættuleg efnahagslega, hún er hættuleg atvinnulega, og hún er hættuleg siðferðilega. Ef við höldum áfram á þessari braut kunna að gerast mjög alvarlegir atburðir.

Ég minnist þess, að maður, sem eitt sinn var formaður Sjálfstfl., Ólafur heitinn Thors sagði að hægt væri að lækna verðbólguna með einu pennastriki. Það er ekki hægt að lækna verðbólguna með einu pennastriki. Svo til allir Íslendingar eru búnir að flækja sig í neti verðbólgunnar, t.a.m. í sambandi við kaup á húsnæði, og það er ekki hægt að lækna þetta með neinu pennastriki nema einhver óhemjuleg ótíðindi hljótist af. Það er ekki hægt að lækna þetta mein nema með einu móti, með því móti að samtök launafólks, sem verða að beita samtökum sínum til þess að reyna að halda í við verðbólguna og gera háar prósentukröfur, vegna þess að verðbólgan er svo mikil, geri sér ljóst að þau verða að fá sama styrk hér á Alþ. og þau hafa á vinnumarkaðnum. Það þýðir lítið fyrir mig að segja þetta hér yfir hv. þm. En almenningur í landinu þarf að gera sér þetta ljóst, og hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir verður að gera sér ljóst, að verðbólgan er hreyfiaflið í þessu svokallaða auðvaldsþjóðfélagi.

Þessu pilsfaldakapítalistaþjóðfélagi sem við lifum í á Íslandi. Hún ber fulla ábyrgð á verðbólguþróuninni með því að vera þ.m. fyrir þennan flokk.

Ég skal ekki tala lengi. Ég veit að hv. stjórnarliðum er dálítið illa við það, að hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir fór að efna hér til eldhúsdagumr. Ég gæti talað ákaflega lengi í tilefni af r æðu hennar. En ég vil minnast á eitt atriði. Ég benti á það í ræðu minni áðan, að hægt væri að ná í þessa peninga, sem um er að ræða í þessu frv., eftir öðrum leiðum. Ég benti á þann þjófnað, gjaldeyrisþjófnað, sem nú er staðfest að hefur átt sér stað í óhemjulega ríkum mæli, að það væri hægt að ná þessum peningum með því að hæstv. dómsmrh. gegndi starfi sínu eins og honum ber að gera og klófesta eitthvað af þessum peningum. Þá þyrfti ekki að leggja nein gjöld frekar á þjóðina á þessu ári.

Hv. þm, Gylfi Þ. Gíslason benti á aðra leið. Hann benti á fyrirtækin á Íslandi. Það eru 1600 fyrirtæki á Íslandi sem ýmist borga ekki neitt eða hreinan hégóma í tekjuskatt. Hann benti á að það væri hægt að hækka almennt gjald af þessum hlutafélögum um 0.3% til þess að ná þessari upphæð. Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir sagðist vera sammála þessu sjónarmiði, og nú vil ég taka hv. þm. á orðinu. Ég skora á hv. þm. að setjast með mér í hliðarherbergi og við skulum fá með okkur hv. þm. Gylfa Þ. Gíslason og gera þessar hreytingar á frv, Það er ekki nema klukkutímaverk fyrir okkur að ganga frá því. Og ég óska þess, að hv. þm. svari þessari áskorun minni hér úr stóll Alþingis. Mér er þetta fullkomin alvara, Ég skal vinna að því með þessum hv. þm. að breyta þessari gjaldtöku á þennan hátt. Ef hv. þm. er alvara, þá á hann að taka þessu boði.

Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir talaði um kapphlaup eftir peningum, að forustumenn verkalýðsfélaganna væru ekki á því að slá af kröfum sínum. Hvers vegna tekur þessi hv. þm. ekki upp fordæmi Jóhannesar skírara? Af hverju gefur hún ekki eftir af þingmannskaupi sínu og lætur sér nægja til að mynda kaup eins og Sóknarstúlkur hafa? Ég hef haft kynni af þeim á sjúkrahúsum og það eru góðar konur. Hv. þm. getur ákaflega vel gefið eftir af kaupi sínu og sýnt þannig fordæmi eins og Jóhannes skírari og lagt þessa peninga í sameiginlegan sjóð til að halda uppi heilsugæslu á Íslandi. Hver veit nema slíkt fordæmi frá hennar hálfu gæti haft afleiðingar? Vill ekki hv. þm., í stað þess að snupra aðra, sýna fordæmi sitt í verki?

Ég hef lokið ræðu minni, hæstv. forseti.