19.12.1977
Efri deild: 42. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að endurtaka það sem ég sagði áðan, enda höfum við hv. síðasti ræðumaður oft rætt þetta, og ég hygg að við séum báðir sammála um að þarna þarf að verða breyting á. En það þýðir ekki að hlaupa eftir stundarfyrirbærum eins og þessu. Við þurfum að skoða þetta á miklu breiðari grundvelli. Ég vil heita á hv. þm. að við, eins og við höfum rætt um, athugum hvort við getum ekki stuðlað að því að tekjuöflun til flugmála verði á annan máta en verið hefur. T.d. vil ég geta þess, að tekjur af Keflavíkurflugvelli umfram gjöld renna í ríkissjóð. Mér sýnist það vera óeðlilegt. Ég held að eðlilegra væri að það rynni í flugvallasjóð, sem líktist t.d. Vegasjóði, og þá þarf að setja um það mál sérstök lög. Ég sé ekki að mál flugvalla séu leyst með því að láta þetta renna til flugvalla út af fyrir sig, þegar í fjárl. er gert ráð fyrir ákveðinni fjárveitingu til flugvalla. Þegar hefur flugráð gert till. um ráðstöfun þess fjármagns í samræmi við það sem er í frv. til fjárl. Ég held því, að þessi breyting verði að bíða síðari tíma, og vil endurtaka það, að ég vil mjög gjarnan standa að breytingu á þessu á breiðari grundvelli.