19.12.1977
Efri deild: 45. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

94. mál, læknalög

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir þetta nál., sem lýst var hér nú, með fyrirvara vegna þess að í fyrsta lagi fannst mér ekki vera nógu tryggilega gengið frá því, að hér væri gætt fylista öryggis, og kannske líka vegna þess, að ég lit á þetta mál sem allstórt mál, þó að það láti frekar lítið yfir sér.

Eins og sagði í grg, með frv. er frv. orðið til fyrst og fremst til að fá inn í læknalögin aftur atriði sem féll burt 1973, og það var um veitingu takmarkaðra lækningaleyfa.

Til þess að geta fengið lækningaleyfi á Íslandi þurfa læknadeild og landlæknir að mæla með veitingunni. Þetta leyfi fæst eftir a.m.k. 6 ára nám í læknaskóla og þarf á eftir a.m.k. eitt ár til eitt og hálft ár í verklegu framhaldsnámi í sjúkrahúsum. Þegar svo er eru það sem sagt læknadeild og landlæknir sem mæla með veitingu lækningaleyfis við heilbrrh.

Þegar um takmörkuð lækningaleyfi er að ræða, er það nokkuð óákveðið hvað um sé að ræða. Ef maður af einhverjum ástæðum missir lækningaleyfi, þá getur hann fengið takmarkað lækningaleyfi á ný og eru þá yfirleitt sömu aðilar sem mæla með því, en starfsstéttir svo sem tannlæknar og nuddarar voru í gömlu ákvæðunum taldir upp sem aðilar er hlytu takmarkað lækningaleyfi.

Nú var það svo, að þegar n. fór að ræða þetta mál varð okkur ljóst að á þessum breytingatímum og tímum fjölbreytilegrar menntunar hafa komið upp ýmsar stéttir sem telja sig hafa rétt til starfa á svipuðum sviðum og svipuðum grunni og læknar, en þó með miklu styttra nám og ófullkomnara. Þessar stéttir hafa hjá okkur á undanförnum árum verið afgreiddar á þann hátt, að það hafa verið sett hér í Alþ. sérstök lög fyrir hverja starfsstétt, og það er ekki nema nokkrir dagar síðan við afgreiddum frá þessari deild frv. til l. um iðjuþjálfa. Við höfðum í fyrra afgreitt lög um sjúkraþjálfa, og fleiri slík lög hafa verið afgreidd héðan. Hins vegar, þegar um er að ræða takmarkað lækningaleyfi, þá gegnir nokkuð öðru máli. Eins og ég sagði, krefst það mikils undirbúnings og er mikið nám að fá hér almennt lækningaleyfi, og við verðum að líta þannig á varðandi þá aðila og þær stéttir sem lækna, þó að á takmörkuðum sviðum sé, að tryggt verði að þær hafi þá grunnmenntun sem nauðsynleg er til þess að geta fyrirbyggt mistök, að svo miklu leyti sem unnt er. Og það er kannske þarna sem meginmálið er, að þótt vissar stéttir eigi að fara höndum um ákveðin svæði líkamans, þá geta þeir grunnsjúkdómar, sem á að lækna, verið fjölbreytilegir og margir og jafnvel í fjarlægð frá því svæði sem þessum aðilum er ætlað að hafa áhrif á. Þess vegna er talið að það sé mikils virði, að strangt aðhald sé og mikið fylgst með þeirri grunnmenntun sem þessir aðilar hafa.

Ég verð að viðurkenna það, að mér finnst eðlilegt að starfsstéttum innan heilbrigðisstétta fjölgi mikið og taki að sér hluta af því verkefni sem læknar höfðu áður. En ég lit svo á að við verðum að vera mjög gætnir og að fólkið í landinu geti treyst því, að ekki sé slegið af þeim kröfum sem gerðar eru til sjúkdómsgreiningar, sem er alger undirstaða undir því, hvernig meðferð skuli fara fram. Því er það, að við höfum í dag fengið á nefndarfund landlækni og forseta læknadeildar, þá tvo aðila sem ætlast er til að hafi áhrif á hvort takmörkuð lækningaleyfi séu veitt eða ekki. Í viðræðum við þá kom það fram, að þá greindi í raun og veru ekki mikið á um það, hvernig fara skyldi með þessi mál. Og ég verð að segja, að mér fannst eftir þann fund að málið væri í raun og veru auðveldara en ég hafði haldið og þarna gæti orðið samstarf og samvinna og fyllsta réttlætis gætt í því efni að veita takmörkuð lækningaleyfi. Ég útbjó því skýringu eða vil láta það í ljós hér, að þau áhrif, sem ég varð fyrir af viðræðum við þessa tvo aðila, gerðu það að verkum, að ég hefði viljað að aftan við nál. væri hnýtt svolátandi atriðum:

Í viðtali n. við þá aðila, sem ættast er til að hafi samráð um meðmæli til ráðh. varðandi veitingu takmarkaðra lækningaleyfa, kom fram, að það er sameiginlegt álit landlæknis og forseta læknadeildar að því aðeins verði mælt með leyfisveitingu að báðir aðilar telji faglegan grundvöll fyrir hendi.

Þetta þóttu of ströng ákvæði og of bindandi. Ég verð að segja það, að mér finnst þó að ég geti eftir atvikum fellt mig við afgreiðslu n. á þessu máli, eftir að ég hef kynnt mér sjónarmið þeirra aðila sem um þessi leyfi eiga að fjalla í framtíðinni, þótt ég hefði kosið að strangara væri að orði komist í nál.