19.12.1977
Neðri deild: 39. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

87. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. þm. Ellert Schram sagði, að mér skildist, að það lýsti hálft um hálft óvirðingu gagnvart Alþ. að svo skömmu eftir að lög hefðu verið samþ, þar væri breytt frá þeim ákvæðum sem þar væru. Hann sem lögfræðingur veit að við framkvæmd laga kemur það æ ofan í æ fyrir, að skömmu eftir að lög hafa verið afgreidd á Alþ. kemur í ljós við framkvæmdina, að á þeim þarf að gera einhverjar minni háttar breytingar. Venjulegt hátturinn, ef þannig stendur, hefur verið að gera það með brbl. Auðvitað hefði ég getað farið þá leið. En ég vildi ekki fara þá leið nú, heldur taldi eðlilegra að leita til Alþ. um samþykkt á þessu, og voru allir samningar þetta varðandi auðvitað gerðir með það fyrir augum, að málið hlyti samþykki réttra aðila.

Ég get því ekki fallist á að það hafi neitt verið vegið að virðingu Alþ. með þeim starfsháttum sem hér hafa verið viðhafðir. Ég held að það sé algjör óþarfi hjá hv. formanni allshn., hv. þm. Ellert Schram, að vera með einhverja hótfyndni í sambandi við það. Hér hefur Alþ. alls engin óvirðing verið sýnd, síður en svo.

Reglan við húsakaup á vegum ráðuneyta er sú, að viðkomandi ráðuneyti í sambandi við fjárlaga- og hagsýslustofnun tekur ákvarðanir um það. En það er aldrei borið sérstaklega undir ríkisstj. Og fjárlaga- og hagsýslustofnunin er einmitt eins konar umboðsmaður fjvn. í þessu skyni, enda hygg ég að þar séu oft með í ráðum þeir um. úr fjvn. sem starfa að staðaldri, formaður og varaformaður. Það var gert í þessu tilfelli, og meira að segja var það fjárlaga- og hagsýslustofnunin sem benti á þetta húsnæði. Og fyrir fjvn. var þetta lagt og fengið samþykki hennar. Hv. þm. Ellert Schram var að vísu ekki þá kominn í fjvn. Það getur verið að það hefði staðið eitthvað á samþykki hans, ég skal ekki segja um það. En það stóð ekki á samþykki annarra fjvn.-manna.

Hv. þm. heldur því fram að þarna skorti bílastæði. Sjón er sögu ríkari, og væntanlega geta allshn.-menn, ef þeir fresta nú afgreiðslu málsins fram yfir nýárið, farið á staðinn og skoðað hann. Þá mun koma í ljós m.a. eins og liggur fyrir í upplýsingum um þetta, að gert er ráð fyrir að það sé hægt og leyfilegt að reisa þarna allverulega viðbyggingu. Það er mikil baklóð þarna. Ég vænti þess, að hann og aðrir nm, muni sjá að þar eru nokkur bílastæði eða hægt að koma við nokkrum bílastæðum. Ég hef ekki komið þar nýlega og veit ekki og geri raunar ekki ráð fyrir því, að lóðin sé að þessu leyti komin í það lag sem hún á að verða í.

Eins og ég sagði áðan, þá legg ég það á vald n., hvort hún treystir sér að taka ákvörðun um þessi einföldu atriði nú eða ekki. Ég sagði að ég væri þakklátur n. ef hún treysti sér til þess. Ég er þakklátur þeim nm. sem hafa lákið það í ljós að þeir gætu ákveðið sig um þessi efni. Ég endurtek það líka, að ég hef ekki oft farið fram á það, að þingmál væru afgreidd með þessum hætti. Ég hef yfirleitt fylgt því að gefa hv. þm. nægilegt ráðrúm til þess að athuga frv. Og svo ætti að vera um frv. En er það svo? Er það kannske einsdæmi og undantekning algjör, að það sé lagt fram frv. hér sama daginn og það er afgreitt? Þekkir hv. þm. Ellert Schram ekki dæmi slíks? Hvað hefur verið að gerast hér undanfarna daga? Er hann samþykkur eða ósamþykkur þeim vinnubrögðum sem hafa veríð höfð við varðandi þau frv.? Það væri fróðlegt að heyra það. (Gripið fram í.) Ég heyri nú ekki hvað hv. þm. segir. (Gripið fram í.) Nú, já, það er alveg rétt. En ég vil bara segja það, að það situr síst á þessum hv, þm. annars stjórnarflokksins að tala um að það sé óvenja og ósiður, að afgreiða frv. með þeim hætti að þau séu lögð hér fram og afgreidd á einum eða tveimur dögum í gegnum Alþ. Það eru aðrir en ég sem hafa staðið fyrir því.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., eins og ég sagði líka í minni frumræðu, að auðvitað skiptir það engum sköpum hvort þetta frv. verður afgreitt eða ekki, vegna þess að nægileg heimild fæst í fjárlögum þegar þau verða væntanlega afgreidd á morgun og væntanlega eftir ítarlega athugun á öllum liðum þeirra.