24.10.1977
Neðri deild: 5. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

29. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Jónas Árnason:

Herra forseti. Það er hverju orði sannara, að mikils er vert fyrir okkur Íslendinga að hafa sinfóníuhljómsveit og sjálfsagt metnaðarmál okkar að halda henni uppi. Manna síðastur mundi ég telja eftir fjármuni sem fara til þess að reka svo ágætt fyrirtæki. En því miður er það svo, að ekki gætir alltaf samræmis í stuðningi hins opinbera við menningarviðleitni í þessu landi. Sums staðar er þar að finna afskaplega mikið ósamræmi.

Samkv. þessu frv. og grg. með því hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands fengið af opinberu fé árið 1976 rúmlega 135 millj. kr. Og hér er að sjálfsögðu stefnt að því að draga ekki úr framlögum. Það er gott. Í frv. því til fjárl., sem fyrir okkur liggur núna, er gert ráð fyrir beinu ríkisframlagi til Sinfóníuhljómsveitarinnar að upphæð 80 millj, kr. Það er aðeins hluti af því sem hún á að fá, kannske ekki nema helmingur, þegar allt kemur til alls í þessu sama frv. eru ætlaðar til leiklistarstarfsemi í landinu annarrar en starfsemi Þjóðleikhússins 26 millj. Það er aðeins þriðjungurinn af því, sem Sinfóníuhljómsveitin á að fá á fjárlögum núna og aðeins 1/6 kannske af því, sem hún mun sennilega fá allt í allt. Þetta er að mínum dómi ekki gott. Það er gott að Sinfóníuhljómsveitin fái peninga til þess sem hún þarf. En það er slæmt, að til leiklistarstarfseminnar í landinu, áhugastarfseminnar allrar saman, Leikfélags Reykjavíkur og Leikfélags Akureyrar, skuli ekki fara meiri fjármunir en þetta. Ég hika ekkert við að segja það hér, að sú starfsemi er, þrátt fyrir mikla þýðingu Sinfóníuhljómsveitar Íslands, miklu, miklu meira virði fyrir menningu þessarar þjóðar heldur en starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar. Þar er enda um að ræða starfsemi sem ekki leikur nokkur vafi á að öll þjóðin nýtur. Þar er ekki um að ræða neina menningarlega stéttaskiptingu, þátttakendur í leikhúslífi á Íslandi í dag eru svo að segja allir Íslendingar. Aftur á móti grunar mig, að Sinfóníutónleikana sæki ekki nema tiltölulega mjög fáir.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, og það kemur einnig fram í grg, með þessu frv., að aðsókn að hljómleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar hafi verið að aukast. Þeir fara fram, eins og menn vita, í Háskólabíó sem tekur 976 manns í sæti. Eins og segir í grg. hefur húsið yfirleitt verið þéttsetið. Nú langar mig að vita: Hvaða fólk er þetta? Það er hægt að kanna það. Þetta er iðulega kannað í sambandi við menningarstarfsemi víða í löndum. Ég veit t.d. að Þjóðleikhús Breta kannaði það ekki alls fyrir löngu, hve margir væru verkamenn eða fólk af því tagi sem Bretar nefna „manual workers“, þar með eru taldir iðnaðarmenn, hve stór prósenta af því fólki sækti Þjóðleikhús Breta. Og könnunin leiddi í ljós, að það var aðeins 1%. Þetta var við fyrstu könnun. Síðan fór fram könnun, held ég, tveim árum seinna, og þá hafði verið reynt mjög til þess að auka aðild þessa fólks að þessu menningarstarfi, auka aðsókn þess að leikhúsinu. Þá er það orðið 1.5%. Ég vil segja hér, að ef niðurstaðan yrði sú, að þessir 976, sem sækja tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar hér í Reykjavík, væru yfirleitt hinir sömu 976, þá get ég ekki sagt að þar sé um að ræða almenna þátttöku á þessu sviði menningarlífsins.

Athugun á þessu ætti að vera auðveld. Og ef niðurstaðan verður sú, að þarna komi ekkert við sögu tilteknar stéttir og kannske þær sem fjölmennastar eru, þá sýnist mér að gera þurfi eitthvað til þess að auka aðild þeirra stétta, kenna þeim að meta þetta ágæta starf.

Það er rétt, að Sinfóníuhljómsveitin hefur stundum farið út á landsbyggðina. Og gott er að heyra hæstv. ráðh. leggja áherslu á það hér, að gjarnan mætti auka það. Sannleikurinn er sá, að sú starfsemi, sá þáttur í starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur hvergi nærri verið nógu mikill. Ég þekki þetta í Borgarfirði. Við höfum þar tónlistarfélag. Og það vantar ekki að tónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar vekja þar mikla athygli, mikla gleði, mikla ánægju, það er mikil aðsókn að þeim. Þar þarf enga sérstaka könnun til þess að átta sig á því, að þar kemur allra stétta fólk. Mér er nær að halda, að í starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands sé þessi þátturinn mikilvægastur, þarna fái hún í salinn það fólk sem kannske mestu skiptir að komi á sinfóníutónleika. Þetta þarf að auka, segi ég. Og í leiðinni vil ég láta í ljós furðu mína yfir þeim kveðjum sem við Borgfirðingar fengum í fyrra, þegar verið var að halda listahátíð með pomp og prakt hér í Reykjavík. Sinfóníuhljómsveitin átti þá samkv. áður gerðu samkomulagi að koma til okkar. En listahátíð í Reykjavík er mikill viðburður, mestur listaviðburður hér á Íslandi. Ekkert er til sparað, eins og allir vita, og ekkert vafamál, að þar gerist margt gott. Þar er vakin athygli á menningarstarfsemi þessarar þjóðar. En spyrja má aftur hvort hinir 976 á sinfóníutónleikum á listahátíð séu ekki e.t.v. hinir sömu og á öllum öðrum sinfóníutónleikum.

Er skemmst frá því að segja, að þann dag, sem við Borgfirðingar áttum að fá Sinfóníuhljómsveitina gat hún því miður ekki komið. Hún ver önnum kafin við listahátíð í Reykjavík. Við fengum í staðinn ágætan kór, kór Menntaskólans hér við Hamrahlíð. En það var ekki Sinfóníuhljómsveitin.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi, að ég tel það mikils virði að hér starfi Sinfóníuhljómsveit. Og einmitt vegna þess að hún fær opinberan styrk, svona mikinn opinberan styrk, þá er sjálfsagt að við gerum til hennar miklar kröfur.

Ferðir Sinfóníuhljómsveitarinnar út á landsbyggðina skipta miklu máli fyrir okkur sem þar eigum heima. En einn er sá hængurinn á þeim ferðum; eins og líka leikferðum atvinnuleikhúsanna, að þessar leikferðir eru yfirleitt ekki farnar nema á sumrin. Sinfóníuhljómsveitin hefur yfirleitt bundið sig við þann árstíma með ferðir sínar út á landsbyggðina. En hún á líka að heimsækja okkur í skammdeginu. Og það eiga líka leikflokkarnir að gera. Í skammdeginu er þetta enn meira virði fyrir fólkið úti á landsbyggðinni heldur en í dýrð sumarsins. Í skammdeginu mundi landsbyggðarfólkið kunna góðum listamönnum enn meiri aufúsu.

Úr því ég kvaddi mér hljóðs í sambandi við þetta mál, þá hlýt ég að láta í ljós nokkur vonbrigði, ekki vegna starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar sem slíkrar, heldur hins, að hún skuli ekki hafa vakið upp meiri viðleitni hjá íslenskum tónskáldum heldur en raun hefur á orðið, viðleitni til að semja tónverk sem samboðin væru svo ágætri hljómsveit.

Þar er mikill munur á að því er varðar leikritun. Eins og öllum má vera ljóst, stendur hún nú með miklum blóma í þessu landi. Höfundar úti á landsbyggðinni eru jafnvel sjálfir farnir að semja þar fyrir sín leikfélög. Þannig á þetta að vera. Mér liggur við að segja: til þessa er einmitt leikurinn gerður. Við eigum sjálfir að annast sköpunarstarfið á sem flestum sviðum. Þeim mun fleiri íslensk tónverk sem Sinfóníuhljómsveitin býður upp á, góð íslensk tónverk, þeim mun betra. Við eigum ekki endilega að sækja í því efni allt til þeirra hinna útlendu meistara, sem eru flestir hverjir dauðir.