20.12.1977
Efri deild: 50. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Málefni lífeyrissjóðanna hefur mjög borið á góma, sem ekki er að undra, og í þeim umr., sem hér hafa farið fram, hefur mest verið um það rætt, að í frv. sem hér liggur fyrir, sé verið að leggja hömlur á lífeyrissjóðina, sé verið að samþ. lagafrv. sem valdi því, að lífeyrissjóðirnir sæti afarkostum. Í sambandi við þetta mál er þó nauðsynlegt að menn hafi í huga að þessir Lífeyrissjóðir voru fyrst og fremst til þess stofnaðir að tryggja mönnum sómasamlegan lífeyri í ellinni. Það er rétt, að verkalýðshreyfingin vaknaði allt of seint. Henni varð allt of seint ljóst hversu mikið var hér í húfi, og þeir verkamenn og launamenn, sem ekki hafa notið þessa á við opinbera starfsmenn hafa goldið þess fram að þessu, að verkalýðshreyfingin setti lífeyrissjóðamálin ekki á oddinn í samningagerð fyrr en raun varð á. Það er að sjálfsögðu dapurleg saga sem ástæðulaust er að rekja hér, enda er sú saga öllum alþm. kunn.

Ég vil fyrst í sambandi við þær umr., sem hér hafa orðið um þetta mál, einkanlega út af ummælum hv. 12. þm. Reykv., þar sem hann vitnaði í formann Verslunarráðsins, vekja athygli á því, að Verslunarráðið hélt viðskiptaþing nú fyrir skömmu, þar sem málefni lífeyrissjóðanna voru tekin til umr. Í þeirri ályktun segir svo m.a., með leyfi hæstv, forseta:

„Í landinu eru um 100 lífeyrissjóðir sem hvorki geta fullnægt eftirspurn sjóðfélaga né atvinnulífsins eftir lánum. Framlög til sjóðanna, allt að 10% af launum starfsmanna, eyðast í verðbólgunni og fyrirsjáanlegt er, að sjóðirnir muni ekki geta staðið við raunhæfar greiðslur lífeyris til félaga sinna þegar þar að kemur.“ Síðan segir í þessari ályktun, með leyfi hæstv. forseta: „Lífeyrissjóðum verði heimiluð raunhæf vísitölubinding útlána. Þá gætu þeir lánað sjóðfélögum mestan hluta byggingarkostnaðar til langs tíma og greitt eðlilegan lífeyri þegar þar að kemur.“

Í þessari ályktun Verslunarráðsins er því m.ö.o. slegið föstu, að til þess að hægt sé að tryggja félögum lífeyrissjóðanna sómasamlegan lífeyri sé nauðsynlegt að verðtryggja útlán þeirra.

Ég hef litið svo á, að það sé eitt af markmiðum þeirrar ríkisstj., sem nú situr, að vinna að því að þetta mál fái framgang, Það er eitt af höfuðmarkmiðum þeirrar ríkisstj. sem nú situr. Og þessi lagasetning, sem hér um ræðir, að skuldbinda lífeyríssjóðina til þess að binda 40% af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á skuldabréfum með fullri verðtryggingu til langs tíma, er hér ákveðin í samræmi við þá stefnu, vegna þess að það hlýtur að vera heilbrigt að lífeyrissjóðirnir sjálfir standi undir þeim skuldbindingum sem þeim ber. Í verðbólguþjóðfélagi eins og því, sem við búum við, verður það ekki gert án vísitölubindingar, nema það sé stefna einhverra hv, þm., einhverra ábyrgra aðila hér á landi, að skella þessu öllu saman á ríkissjóð, að lífeyrissjóðirnir haldi áfram að lána og lána með lágum vöxtum óverðtryggt fé sem verður að engu. Það er algjört ábyrgðarleysi að mínu viti.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, hvernig lánamarkaðurinn er samansettur hér á Íslandi. Við höfum hér annars vegar opinbera starfsmenn sem hafa margvísleg fríðindi fram yfir þá menn sem eru á hinum almenna launamarkaði. Ég skal telja það tvennt sem mestu máli skiptir í því sambandi. Það er raunar hryggilegt að vita til þess, að ýmsir af forustumönnum opinberra starfsmanna skuli gera lítið úr þessu og láta sem það sé ekki neinn munur. Við, sem höfum kynnst hvoru tveggja, vitum að hann er verulegur. Ég vil þar fyrst nefna það orlof sem opinberir starfsmenn hafa vegna veikinda sem er mjög verulegt og er það sem mestu munar á hinum frjálsa vinnumarkaði og hjá opinberum starfsmönnum. Þetta vita allir sem þessu hafa kynnst, að það er allt önnur aðstaða fyrir opinbera starfsmenn, sem missa heilsuna, heldur en menn hjá einkafyrirtækjum. Í öðru lagi er það verðtryggður lífeyrir. Síðan er margt eitt sem hægt er að tína til, t.d. betra fæðingarorlof, viss atvinnutrygging og þar fram eftir götunum.

Hv, 5. þm. Norðurl. v. hafði mörg orð um það, að með þessum ráðstöfunum, sem ríkisstj, beitir sér fyrir nú, sé verið að herða mjög að íbúðabyggingum í landinu. Þó liggur fyrir að stefnt er að því að auka íbúðabyggingar um 6% á árinu 1978. Við getum að sjálfsögðu orðið sammála um það, að æskilegt sé að lána þeim, sem eru að byggja húsnæði, sem mest með lægstum vöxtum til sem lengsts tíma, en það er margvíslegum örðugleikum bundið þegar verðbólgan er jafnmikil og raun ber vitni. Við getum ákveðið að við skulum gefa svo og svo mörgum mönnum hér á landi íbúðir að meira eða minna leyti. Við getum komið okkur saman um það, hverjir það eru sem eiga að velja þá menn úr.

Staðreyndin er sú samt sem áður, að höfuðmálið í sambandi við lífeyrissjóðina er að tryggja sómasamlegan ellilífeyri, og það er ekki hlutverk lífeyrissjóðanna að standa undir íbúðabyggingum í stórum stíl þannig að það skaði þá sjálfa í sambandi við þær skuldbindingar sem þeir vorn stofnaðir til þess að inna af hendi. Þetta vil ég að komi skýrt fram. Ég vil vekja athygli á því einnig í þessu sambandi, að í þessu frv. er gefið visst valfrelsi samkvæmt 2. mgr. 3. gr., þar sem segir svo um þessa bindingu fjárins:

„Að því marki sem þarf til að lífeyrissjóðir geti fullnægt ávöxtunarákvæðum í 1, mgr. er fjmrn. skylt að hafa verðtryggð skuldabréf til sölu — bæði eigin skuldabréf og bréf Framkvæmdasjóðs Íslands og Byggingarsjóðs ríkisins — og skal andvirði bréfanna ráðstafað samkvæmt lánsfjáráætlun ríkisstj. Þá skal og öðrum stofnlána- og fjárfestingarsjóðum heimilt að gefa út og selja lífeyrissjóðum skuldabréf er fullnægja verðtryggingarákvæðum 1. mgr. að mati Seðlabanka Íslands.“

Þarna er gefið visst val um ráðstöfun þessa fjár, og ég fyrir mitt leyti treysti því, að þetta verði framkvæmt þannig að lífeyrissjóðirnir geti vel við unað.

Annars er það út af fyrir sig tilefni til nokkurs ræðuhalds, ef svo er komið nú að þeir hv. þm„ sem sitja hér fyrir Alþb., eru orðnir talsmenn þess að ekki megi hafa yfirstjórn ríkisfjármála, að ekki megi stjórna lánveitingum í landinu. Skal ég ekki ræða það, en þessi lagagrein er einn liður í því, að hægt sé að hafa nokkra stjórn á lánveitingum til íbúðabygginga og atvinnurekstrarins. Ég álít, eins og nú standa sakir, að það sé nauðsynlegt.

Það er að sjálfsögðu alltaf auðvelt fyrir þá, sem verða fyrir skerðingu af þessu tagi, að setja saman mótmælaskjal. mótmæla því að svona og svona sé bundið af ráðstöfunarfénu. En satt best að segja mundu stjórnir lífeyrissjóðanna bregðast sínu hlutverki ef þær reyndu ekki að mögla, ef þær mótmæltu ekki þeirri skerðingu sem hér á sér stað. Auðvitað hljóta þessar stjórnir að halda á rétti lífeyrissjóðanna í svo miklum mæli sem þær treysta sér til. En aðalatriðið í sambandi við þetta er það, að hér er annars vegar bætt úr brýnni lánsfjárþörf, bæði til íbúðabygginga og atvinnuvega, og á hinn bóginn er hér um mjög verulega verðtryggingu á fjármunum lífeyrissjóðanna að ræða. Það tel ég eitt stærsta mál launþega í dag, þeirra sem ekki vinna hjá opinberum aðilum.

Ég veit að allir þeir hv. þm., sem hafa kynnst verkalýðshreyfingunni og hafa rætt við þá menn, sem þar starfa og vinna, taka undir þau orð, að þetta er höfuðatriðið í sambandi við þetta mál. Það er enginn vafi á því, að hinn almenni launamaður leggur mest upp úr því að tryggja það, að hann hafi sómasamlega ellidaga og geti vegnað sæmilega vel í framtíðinni.

Ég vil aðeins í lokin vekja athygli á einu sem fram kemur í ályktun viðskiptaþings 1977, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárfesting landsmanna, sem hefur numið allt að þriðjungi af tekjum þjóðarinnar, skilar einungis hálfum arði í samanburði við aðrar þjóðir. Ef við næðum sama arði af fjárfestingu okkar og gerist t.d. í Bandaríkjunum, sem þó er enginn afburðaárangur, gætum við dregið úr fjárfestingu um helming, en aukið einkaneyslu um 25%.

Ég geri ráð fyrir að flestir hv. þdm. geti tekið undir það, að hér á landi fer fram margvísleg fjárfesting sem er óarðbær og óþörf og ráðist er í fyrst og fremst vegna verðbólgunnar, vegna þess að viðkomandi hafa ráð á því að fá ódýrt fjármagn sem þeir þurfa ekki að endurgreiða nema að litlu leyti. Þessi aukna vísitölutrygging lánsfjár er einnig ætluð til að sporna við þessu, þannig að menn verði að skila sömu verðmætum og þeir hafa fengið að láni. Ég geri ráð fyrir því, að við þessum ummælum mínum geti menn fært fram þær mótbárur, að eðlilegt sé að gefa vísitölubindingu lánsfjár frjálsa að öllu leyti, hafa hana ekki undir opinberu eftirliti, undir opinberu aðhaldi. Má vera að slíkir menn hafi nokkuð til síns máls. En ég álít þó, að meðan við erum að þreifa okkur áfram, meðan við erum að fóta okkur sé nauðsynlegt að gæta fyllsta aðhalds og eftirlits af opinberri hálfu.

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson): Herra forseti. Ég harma það, að hér hefur komið til umr. atvik sem kom fyrir á nefndarfundi í morgun. Ég tel að deilt hafi verið á þann embættismann, sem þar kom, á óverðugan hátt, sérstaklega með tilliti til þess að hann getur ekki svarað fyrir sig hér. Að öðru leyti mun ég ekki ræða það mál.

En aðeins ein athugasemd við það sem kom fram hjá hv. 12. þm. Reykv. Hann sagði að ég hefði haldið því fram, að þar sem um enga aðra peninga væri að ræða væri ekkert annað að gera en ná í þá aura sem aðrir ættu. Ég held að það sé alveg ljóst að við getum fengið nóg af erlendum lánum. Það virðist ekkert lát vera á því, að menn vilji lána okkur. Þess vegna væri sjálfsagt unnt að bæta á þann hátt nokkrum milljörðum við þessa lánsfjáráætlun. En það hefði hins vegar margvísleg önnur áhrif á verðbólgu, á viðskiptahalla o.s.frv. Það er út af fyrir sig gott og gilt að vera á móti öllum ráðstöfunum í ríkisfjármálum á lánsfjármarkaði og í tekjuöflun. En ég er helst á því, að verðugt væri fyrir hv. þm. að fara nú að leggja þetta saman og athuga síðan hvaða efnahagsleg áhrif það hefði í þjóðfélaginu.