06.02.1978
Efri deild: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

166. mál, viðskiptabankar

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vil fagna því, að þetta frv. er fram komið. Þar sem nokkuð hefur verið rætt hér um, að sú n., sem ég á sæti í, fjh.- og viðskn., muni geta gert sínar athuganir á þessu frv. eins og henni sýnist, eins og n. að sjálfsögðu gerir í öllum málum og á að gera og allar n, þingsins, þá hlýtur það hins vegar að vera ljóst, að menn verða á þeim stutta tíma, sem eftir er af þinghaldi, að gera upp á milli aðalatriða og aukaatriða í þessu máli, ef það á fram að ganga á þessu þingi. Í þessu frv, eru mjög margar veigamiklar breytingar, sem lagt er til að verði gerðar, og ég býst við og er fullviss um að það sé mjög mikilvægt að þær nái fram að ganga. Og mér finnst það vera út af fyrir sig nokkuð mikið vafaatriði, hvort spurningin um sameiningu og samræmingu í bankakerfinu og sú vinna, sem þar þarf að framkvæma, eigi að tefja framgang þessa máls.

Ég er mjög sammála því og hef lýst því yfir áður hér í umr., þegar frv. til l. um Búnaðarbanka Íslands var lagt hér fram og samþykkt 1976, að ég er því fylgjandi, að bankakerfið verði samræmt og einingar þar sameinaðar. En það er ekki endilega fullvíst, a.m.k. ekki í mínum huga, að eina skynsamlega breytingin, sem þar sé hægt að gera og beri að gera, sé,að sameina Búnaðarbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands. Það eru fleiri bankastofnanir sem koma inn í dæmið, eins og Landsbanki Íslands og Iðnaðarbanki Íslands. Og ég get ekki séð að n. út af fyrir sig hefði möguleika á að leggja slíkt til nema að undangenginni mjög ítarlegri athugun. Þetta vil ég að komi skýrt fram. Þótt ég hafi vissulega mikinn áhuga á því, að eitthvað slíkt verði gert, þá finnst mér vafasamt hvort það eigi að tefja framgang þessa máls eins og það lítur út núna. Hins vegar ef það kemur í ljós, að þetta sé ekki mjög mikið mál, þurfi ekki mikinn undirbúning og horfi til mikils hagræðis, þá er náttúrlega ekkert í veginum fyrir því, að n. leggi slíkt til, ef samstaða verður um það. En mér býður svo hugur að slíkt sé allmikið verkefni sem þurfi nákvæman og góðan undirbúning, því að ef um slíka breytingu verður að ræða, þá þarf að undirbúa slíkt mjög vel. Það er einnig nauðsynlegt, þótt viðkomandi bankar eigi náttúrlega ekki að ráða ferðinni, að það sé fullur vilji í viðkomandi stofnunum til slíkrar samvinnu og slíkrar sameiningar. Það er ekki gott að leggja til slíkar breytingar og slíkar ráðstafanir nema fyrir því sé góður vilji í viðkomandi stofnunum að vinna samkv. því skipulagi. Það gæti orðið örlagaríkt að lögfesta slíkar breytingar nema sjá fyrir þær afleiðingar sem slíkt hefði.

Ég vil fagna því, að hér eru komin inn í frv. víðtækari ákvæði en verið hafa varðandi endurskoðun og eftirlit. Ég vil aðeins í því sambandi vitna í það sem ég sagði við umr, vorið 1976, þegar frv. til l. um Búnaðarbanka Íslands var hér til umr., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil beina því til þeirrar n., sem fær þessi mál til athugunar, að þetta atriði“ — þ.e.a.s. endurskoðun reikninga bankans — „verði athugað betur. Bankar eru afskaplega viðamiklar stofnanir og þeir fara með ýmis málefni sem þarf vissulega að hafa eftirlit með. Það hefur aldrei verið gerð nokkur krafa til þekkingar á þessum málum til þess að verða endurskoðandi viðskiptabanka. Og það er í raun og veru fáránlegt að maður, sem endurskoðar banka, skuli ekki þurfa að hafa nokkra sérþekkingu á því sviði, Þetta er mál sem ég hef lengi furðað mig á, löngu áður en ég kom í þessa stofnun, og þess vegna vænti ég þess, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, athugi hvort ekki sé rétt að breyta hér einhverju um og það sé gerð einhver krafa um þekkingu þeirra manna, sem fá þetta vandasama starf og eiga vissulega að bera þar mikla ábyrgð.“

Það var ekki gerð breyting á þessu í lögum um Búnaðarbanka Íslands á sínum tíma og fékk litlar undirtektir hér í d. En ég vil sem sagt fagna því, að nú skuli vera gerðar till. um breytingar í þessum efnum. Hitt er svo annað mál, að menn skulu varast að gera allt of mikið í þessum efnum, því að eftirlit kostar peninga. Og það getur verið spurning um það, hversu miklu skuli kosta til eftirlits. Ég sé að í þessu frv, er gert ráð fyrir mjög mikilli aukningu í þessum efnum. Hér kemur fram að bankaráð ræður forstöðumann endurskoðunardeildar bankans, og ég lít þá svo á að endurskoðunardeildin heyri undir bankaráðið, fyrst bankaráðið ræður forstöðumann endurskoðunardeildar, Það er einnig gert ráð fyrir því, að bankaráðið hafi heimild til að ráða sér starfsmann sem ekki hafi með höndum önnur störf í þágu hankans, sem er þá maður sem skal annast ýmis störf og eftirlit á vegum bankaráðsins. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því, að Alþ. kjósi tvo endurskoðendur, og í fjórða lagi að ráðh, skipi löggiltan endurskoðanda til tveggja ára í senn. Ég held að það sé rétt að auka þessa eftirlitsstarfsemi. En menn mega líka varast það, þótt upp komi leiðindatilvik og atvik, sem alltaf geta komið upp þrátt fyrir alla þá endurskoðun sem í er eytt og framkvæmd er, að byggja upp allt of mikið og flókið bákn í kringum þetta eftirlit.

Ég hef nokkuð lengi velt því fyrir mér, hvernig slíku eftirliti og endurskoðun sé hest fyrir komið á vegum ríkisins, og álít að þessu væri best fyrir komið í höndum ríkisendurskoðunar, að ríkisendurskoðun annaðist endurskoðun og eftirlit í öllum ríkisstofnunum og í þeim félögum og fyrirtækjum sem ríkið á meiri hluta í — eða þá að ríkisendurskoðun kveddi til sérfróða menn til að annast það fyrir sína hönd. Ég tel hins vegar að það þurfi að verða verulegar skipulagsbreytingar á ríkisendurskoðun, m.a. sú skipulagsbreyting að ríkisendurskoðun falli undir Alþ., en ekki undir ráðh. Það væri eðlilegt að ríkisendurskoðun væri eftirlitsstofnun Alþ., sú stofnun sem hefði eftirlit fyrir hönd Alþ. með störfum framkvæmdavaldsins, En hér væri, ef svo væri gert, vissulega um það að ræða að auka og efla mjög þá stofnun, og það þarf náttúrlega mjög náinnar athugunar við.

Herra forseti, Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta mál, enda fæ ég aðstöðu til þess að kynna mér það í þeirri n. sem fær það til meðhöndlunar. En ég vil aðeins taka fram varðandi það sem hv. þm. Jón Sólnes sagði áðan, að bankar gætu hömlulaust ávísað á Seðlabankann, að ég tel þetta ekki rétt. Það er gert sérstakt samkomulag við viðskiptabankana um útlánatakmörk sem miða að því að minnka útstreymi úr Seðlabankanum ef viðkomandi bankar eiga þar ekki fjármagn, og einnig er vaxtaákvæðum beitt til þess að koma í veg fyrir slíkt. Það er vissulega rétt, að í nokkrum tilfellum hefur veríð um það að ræða að bankar hafa safnað skuldum við Seðlabankann, og það getur verið eðlilegt á vissum tímum. En það er hins vegar ekki rétt að mínum dómi, að bankar geti hömlulaust ávísað á þann banka.