07.02.1978
Sameinað þing: 44. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

148. mál, hollustuhættir í síldar- og fiskimjölsverksmiðjum

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég sagði að hér væru starfandi 47 fiskimjölsverksmiðjur og þar af 24 sem vinna úr loðnu. Á loðnuvinnslunni er verið að gera margvíslegar breytingar til batnaðar. En í almennum fiskimjölsverksmiðjum er starfstíminn auðvitað allt annar, og á sumum minni stöðum er tiltölulega mjög stuttur starfstími í senn. Í loðnuverksmiðjunum hefur starfstíminn verið mjög skammur á undanförnum árum eða 21/2 mánuður, þangað til sumarloðnuveiði byrjaði. Þá fyrst var hægt að fara að ýta alvarlega á að verða við þessum kröfum. Fjárhagsstaða loðnuverksmiðjanna frá árinu 1974 og fram á árið 1977, eða 1974–1976, var með þeim hætti, að þær voru flestar hverjar ekki aflögufærar að ráðast í dýrar og miklar framkvæmdir. Það var einmitt í þessari grein sem mestar hráefnisskuldir voru við útgerðina á sínum tíma, á árunum 1974–1975, sérstaklega á árinu 1975. Þá var um það að ræða fyrir heilbrigðisyfirvöld að stöðva starfsemi þessara verksmiðja með öllu.

Hins vegar tek ég undir það með hv. fyrirspyrjanda, að það er mesta skömm að því að hafa ekki útvegað meira fjármagn en raun ber vitni til að bæta þessa starfsaðstöðu alla. í einum bæ ekki fjarri okkur verða nú gerðar gagngerar endurbætur, þ.e. í Hafnarfirði, og hefur fyrir milligöngu sjútvrn. tekist að útvega því fyrirtæki allverulegt lán til að sinna mengunarvörnum. Innan verksmiðjanna hefur þó verið gert mun meira, þó að enn þurfi stórátak, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um.