08.02.1978
Efri deild: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2045 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

167. mál, Fiskimálaráð

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Mér er gersamlega ómögulegt að svara fsp. um hvað eitthvert ráð á vegum rn. hefur haldið marga fundi á tilteknu tímabili og því síður hvað starfsemi ráðsins hefur kostað. Það er hægt að fá þessar upplýsingar, en þær hef ég ekki.

Ég held að allir þeir aðilar, sem rétt hafa til að tilnefna fulltrúa í ráðið, hafi notað rétt sinn samkv. 7. gr. laganna, en í stað Efnahagsstofnunarinnar kom Þjóðhagsstofnun, að mig minnir, nema nú um áramótin, vegna þess að ég sagði þá við nokkra aðila að ég hefði í hyggju að flytja frv. um að fella það niður, og það var ekkert ítrekað að þeir tilnefndu í ráðið.

Hitt vil ég ekki taka undir, að það séu meinleg örlög hjá mér sem 1. flm. málsins að leggja niður mál sem ég hef sjálfur verið 1. flm, að. Ég held að það eigi heldur að telja manni til tekna þegar hann sér að tilgangur þess, sem hann lagði til fyrir nokkrum árum, mætti í fyrsta lagi þeirri andstöðu, að ráðið varð vegna andstöðu ýmissa sérhagsmunasamtaka aldrei það sem til var ætlast og því var ætlað af löggjafanum að verða. Eftir það er þó búið að gera veigamikla skipulagsbreytingu á Fiskifélagi Íslands. Ég ætla ekki að berja hausnum við steininn og heimta að frá þeirri skipulagsbreytingu verði aftur horfið, rétt eftir að hún er komin í framkvæmd. Ég viðurkenni þá staðreynd, að þessi skipulagsbreyting átti sér stað. Hins vegar tók Fiskimálaráð mjög myndarlega á mörgum málum í upphafi og þó sérstaklega áður en lögum um Fiskifélag Íslands var breytt. Síðan hefur starf þess að verulegu leyti minnkað. Þó hefur ráðið alltaf sinnt töluvert fræðslustarfsemi í sjávarútvegi, og þar hefur framkvæmdastjóri ráðsins, sem hefur gegnt því starfi að litlum hluta, Eggert Jónsson, verið mjög virkur. Meðal annars, sem ráðið gerði meðan ég átti þar sæti, var útgáfa bókar um sjávarútveg, og sömuleiðis hefur þó nokkrum sinnum verið hvatt til þess að gefa út bækur sem hafa verið kenndar við sjómannafræðslu og aðrir útgefendur hafa ekki viljað gefa út vegna þess hversu fá eintök af þeim eru keypt. Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég hefði talið það vera meinlegri örlög fyrir mig að flytja ekki frv. um að leggja niður Fiskimálaráð, eftir að það er orðið jafnstarfslítið og raun ber vitni, og bíða eftir því, að einhver annar sjútvrh., næsti eða þar næsti, gerði það.