09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

168. mál, þingfararkaup alþingismanna

Ellert B. Schram:

Virðulegi forseti, Ég þarf ekki mörgu við þá framsögu að bæta sem hér hefur verið flutt með þessu frv., en tel þó ástæðu til að taka til máls til að undirstrika örfá atriði sem mér finnst skipta máli í þessu sambandi.

Það er öllum ljóst, að launakjör alþm. hafa mjög verið í sviðsljósinu nú að undanförnu og mikill misskilningur komið fram í almennum umræðum, meðal almennings og í fjölmiðlum. Hafa menn ruglað saman launum þm. og öðrum kjörum þeirra, og virðast ákaflega litlar tilraunir hafa verið gerðar til þess að kanna málið ofan í kjölinn og líta á það af fyllstu sanngirni. Jafnvel hafa komið fram alvarlegar ásakanir á hendur okkar um svik og misnotkun þegar þm. hafa haft afskipti af þessum málum. Undir þessu er mjög hart að sitja. Sannleikurinn er auðvitað sá, að allur þorri þm. hefur lítil sem engin afskipti af kjaramálum sínum, heldur tekur við þeim launum og þeim kjörum sem að þeim eru rétt og ákveðin eru lögum samkv. og í gildi hafa verið um langan tíma. Það er mjög ómaklegt af þessum sökum að þm. séu jafnvel ásakaðir um skattsvik og um óheiðarleika, vegna þess að hér hefur a.m.k. allur þorri þm. — ég held ég fullyrði: allir þm. haft það eitt við sem þeir hafa talið réttast lögum samkvæmt. Ég leyfi mér að fullyrða, að til skamms tíma, — og á það kannske við í sumum tilfellum enn í dag — hafi þm. þurft að borga með sér, og ég þekki engan, sem nú situr á Alþ., sem hefur efnast á því að sitja hér.

Með lögum, sem sett voru 1964, varð allveruleg breyting á kjörum þm., því að þá var samþykkt að þeir fengju árslaun, og hefur sú regla verið í gildi síðan. Hins vegar er það mjög útbreiddur misskilningur, sem mér finnst rétt að leiðrétta enn einu sinni, að þm. fái greitt fyrir nefndarstörf hér í þinginu og hafi ýmsar aðrar sporslur. Þetta er ekki alls kostar rétt, því að þm. fá að sjálfsögðu ekki greitt fyrir nefndarstörf, hvort sem þau eru lítil eða mikil, og á það jafnt við um almennar nefndir sem um stærri n. eins og fjvn., sem vinnur mikið starf, eins og öllum er kunnugt. Hins vegar hafa þm. allir ákveðinn afslátt á símgjöldum sínum og fá fastan ferðastyrk, þessi regla gildir um alla þm., en síðan fá þeir þm., sem utanbæjar eiga heimili eða eru þm. fyrir dreifbýliskjördæmi, greitt upp í þann kostnað sem þeir verða fyrir vegna starfa sinna, svo sem dvalarkostnað, fæðispeninga o.s.frv.

Ég hef aldrei farið dult með þá skoðun mína, að mér finnst laun þm. ekki hafa verið nægilega rífleg, og ég er þeirrar skoðunar, að launum þm. eigi ekki að halda niðri. Rök mín fyrir þessum skoðunum eru einkum þrenns konar. í fyrsta lagi held ég að ef launum þm. er haldið niðri muni það leiða til þess, að góðir og hæfir menn sækist ekki eftir stjórnmálaafskiptum eða þingmennsku, og það mun, þegar til lengdar lætur, koma niður á þessari virðulegu og mikilvægu samkundu sem Alþ. er. Ég held að það hljóti að vera nauðsynlegt og æskilegt fyrir þetta þjóðfélag, að bestu menn þjóðarinnar sækist eftir því að komast til áhrifa á stjórnmálasviðinu og að þeir taki sæti hér á þingi. Ef laun og kjör þm. eru svo slök að þau séu ekki sambærileg við önnur góð störf í þjóðfélaginu, þá dregur það úr áhuga manna á að sækjast eftir þingstörfum.

Önnur ástæðan er sú, að ef kjörin eru ekki nægilega góð, þá leiðir það menn, sem hér sitja, til þess að sækjast eftir öðrum störfum samhliða þingmennsku. Ég tel að það sé ekki heppilegt. Ég hef haldið því fram, að í nútímaþjóðfélagi sé nauðsynlegt fyrir þá, sem sitja hér, að geta snúið sér alfarið að þingstarfinu meðan þeir eiga sæti á Alþ. Menn geta komið úr hinum ýmsu atvinnugreinum og hinum ýmsu áttum úr þjóðfélaginu á þing, með margvíslega þekkingu og reynslu, en þegar þeir sitja hér er nauðsynlegt fyrir þá að þeir geti einbeitt sér algerlega að því að sinna þingstarfinu sem allra best. Ef þetta er ekki gert á þingið undir högg að sækja, þá eru menn ekki eins vel settir til þess að takast á við vandamálin, þeir hafa ekki tíma til að setja sig inn í þau og fyrir vikið verða þeir undir í valdastreitunni þegar þarf að takast á um hagsmuni og þegar við þurfum sem þm. að vernda hagsmuni umbjóðenda okkar og geta litið á málin af réttsýni og þekkingu. Þjóðfélagið er orðið það flókið og það eru svo mörg mál sem berast á borð þm., að það er útilokað, að hægt sé að vinna það í hjástundum og nánast aukastarfi. Þess vegna er nauðsynlegt að kjörin séu það góð, að menn þurfi ekki þeirra vegna að sækjast eftir öðrum störfum, og þetta er önnur ástæðan fyrir því, að ég held að kjörin eigi að vera rífleg.

Í þriðja lagi — og það er kannske mikilvægasta ástæðan — er mjög mikilvægt, lífsnauðsynlegt, að launin séu góð til þess að koma í veg fyrir að þm. þurfi að standa frammi fyrir freistingum um að á þá sé borið fé. Nú er engin ástæða til þess að halda því fram eða halda að slíkt hafi átt sér hér stað á Íslandi. En þess eru mörg dæmi erlendis frá, að þm. séu á mála hjá ýmsum hagsmunasamtökum og þeir láti stjórnast af þeim vegna þess að þeir njóta ýmiss konar fyrirgreiðslu, jafnvel launa, hjá slíkum aðilum. Þessar hættur ber mjög að forðast, og þeir, sem bera hag lýðræðisins fyrir brjósti, ættu að skilja þetta, frekar en að saka þm. sífellt um að þeir skammti sér of há laun. Ég skammast mín því ekkert fyrir það og fer aldrei dult með þá skoðun mína, að laun þm. eigi frekar að vera hærri heldur en lægri. Og ég held að þjóðin öll eigi að hafa skilning á því.

Misskilningur sá, sem veður uppi um það, að þm. ákveði laun sín sjálfir, stafar sumpart af mjög ruglingslegum lögum sem nú eru í gildi. Upphaflega, þ.e.a.s. með lögum frá 1964, var ákveðið að laun þm. skyldu fylgja launum opinberra starfsmanna, og í þeim lögum var tekið fram, að mig minnir í I. gr., að þingfararkaupsnefnd gæti hækkað eða lækkað laun að sama skapi og almennar launabreytingar í landinu ættu sér stað. Með breytingu, sem gerð var nokkrum árum síðar á þessum lögum, var ákveðið samkv. 1. gr. að laun þm. skyldu fylgja launaflokki R3 hjá opinberum starfsmönnum. Um leið og þessi lagabreyting átti sér stað, var ekki felld niður sú grein sem sagði til um það, að þfkn, gæti hækkað eða lækkað laun að sama skapi og almennar launabreytingar yrðu í þjóðfélaginu eða hjá opinberum starfsmönnum. Sú grein varð þó að mestu óraunhæf, vegna þess að í 1. gr. þessara laga var skýrt tekið fram, hvernig laun þm. skyldu ákveðin, og það þurfti ekkert annað ákvæði til þess að gefa þfkn. leyfi til að hækka eða lækka laun, því að það var búið að taka það fram, að þau skyldu fylgja ákveðnum launaflokki. Vitaskuld má snúa út úr þessu, eins og reyndar hefur verið gert, og segja: Þm. ákveða laun sín sjálfir — af því að þeir setja lög sem kveða á um það, hvernig þau skuli ákveðin. En þetta er aðeins útúrsnúningur og hann er „billegur“, sá útúrsnúningur, vegna þess að ef menn vilja víkja út frá þessari reglu, þá verður auðvitað að segja að það eigi að taka löggjafarvaldið af Alþ., en ég hef engan mann heyrt halda því fram í alvöru að slíkt ætti að gera. Alþingi hefur samkv. stjórnarskránni það vald í sínum höndum að ákveða og setja lög, og þá verður ekki undan því vikist af þinginu að setja lög um það, hvernig laun og kjör þeirra, sem þar sitja, skuli ákveðin. Og þá er það auðvitað hitt, sem skiptir máli, hvernig þau lög eru úr garði gerð. Sannleikurinn og staðreyndin er sú, að í dag eru í gildi lög sem fela það ekki í sér, að þm. taki ákvörðun um það sjálfir.

Með hliðsjón af þessu, sem auðvitað skiptir meginmáli í þessum umr„ er ástæðulaust stolt hjá þeim sem ríghalda í núgildandi löggjöf vegna þess að þeir vilja ekki svipta Alþ. þessum rétti.

Það er raunverulega búið að því með þeim lögum sem í gildi eru.

Eins og fram kom hjá hv. frsm. og meðflm. mínum að þessu frv., hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, höfum við tveir áður lagt fram frv, um að Kjaradómur ákveði laun þm. Við höfum nú vegna þeirra umr., sem átt hafa sér stað í þjóðfélaginu, endurflutt þetta frv. í bættum búningi. Við teljum að með þessari leið sé það hafið yfir allar deilur, hvernig laun þm. séu ákveðin, þm. séu ekki bornir þeim sökum. Þetta frv. er líka flutt til þess að eyða hvers konar tortryggni og koma í veg fyrir að heiðarleiki þm. sé dreginn í efa hvað þetta snertir. Það ætti væntanlega líka að koma í veg fyrir þarflausar og skaðlegar umr. um launakjör þm. Þau þurfa, eins og ég sagði áðan,að vera góð,en sanngjörn, og þau þurfa og eiga að vera ákveðin af hlutlausum aðila sem hefur þetta vald í sínum höndum hvað ýmsar aðrar stéttir áhrærir.

Í dag ákveður þfkn. samkv. lögum ýmis önnur kjör, svo sem dvalar-, fæðis- og ferðapeninga, og í þeim umr., sem fram hafa farið, hefur oft verið bent á að þessar ákvarðanir séu óeðlilegar og séu þm. þar að ákveða sér betri kjör en almennt gerist hjá t.d. opinberum starfsmönnum. Það er fullyrt að þau séu víða miklu lakari en hjá þm. Ég legg ekki neinn dóm á þetta atriði. Mér er það að mestu ókunnugt sem þm. héðan úr Reykjavík, þar sem ég af þeim sökum fæ ekki slíkar greiðslur. En þfkn, hefur skilmerkilega gert grein fyrir því, hvernig þessar ákvarðanir hafa verið teknar, og gert samanburð á þessum kjörum hjá þm. annars vegar og opinberum starfsmönnum hins vegar, og ég dreg þær upplýsingar ekki í efa. Þm., sem eiga heimili utan Reykjavíkur eða eru þm. dreifbýliskjördæmis, þurfa allajafna að halda uppi tveimur heimilum, og það er varla við því að búast og varla gert ráð fyrir því af kjósendum þeirra, að þeir greiði með sér í þessum efnum. Þess vegna hef ég góðan skilning á því, að dvalar-, fæðis- eða ferðapeningar þurfi að vera þannig a.m.k. að þm. þurfi ekki beinlínis að greiða með sér.

Margt er þó í þessu sem mætti laga og ég skal ekki fara orðum um hér. En ég tel ástæðulaust að láta þm. sitja undir því, að þeir séu að ákveða sér betri kjör en öðrum, því að ég held að þegar allt kemur til alls séu þau öllu lakari, Ég held líka að þm. sé enginn greiði gerður með því að láta þfkn, taka þessar ákvarðanir. Þess vegna teljum við flm. þessa frv., að það sé eðlilegt og í samræmi við hina aðalregluna um launin, að Kjaradómur ákveði sömuleiðis upphæðir dvalarkostnaðar, ferðakostnaðar o.s.frv. Þó er gert ráð fyrir því, að þfkn. hafi þar tillögurétt, og þá geti þm. komið sjónarmiðum sínum á framfæri eftir þeirri leið.

Ég hygg, virðulegi forseti, að eins og nú er málum komið sé skynsamlegt okkar vegna og þessa máls alls að stíga til fulls þetta skref, sem frv. gerir ráð fyrir, og það sé heppilegast fyrir alla aðila, bæði okkur og kjósendur okkar, að þessi kaleikur sé frá okkur tekinn. Þess vegna er þetta frv. flutt, og þess vegna eru það eindregin tilmæli mín til hv. þm., að þessari brtt., sem frv. felur í sér, verði vel tekið og frv. verði samþykkt.