09.02.1978
Efri deild: 59. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

175. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið til meðferðar frv. til I. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt. Minni hl. n„ hv. þm. Ragnar Arnalds og hv. þm. Tón Árm. Héðinsson, skilar séráliti, og hv. þm. Albert Guðmundsson sat hjá við afgreiðslu málsins.

Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til að hafa langt mál um þetta frv. Það hefur komið fram við 1. umr. málsins, að hér sé um að ræða gengisfellingu sem efnahagsúrræði, að gengisfelling og gengissig séu hluti af fastmótaðri stefnu ríkisstj. og gengið sé látið elta verðlagsþróunina. Það fer ekki á milli mála, að gengisfelling og gengissig er út af fyrir sig engin merkileg efnahagsráðstöfun, heldur er hér fyrst og fremst um að ræða afleiðingu efnahagsþróunar. Þegar sú aðstaða skapast, að það verður misræmi á milli þróunar verðlags- og framleiðslukostnaðar í einu landi annars vegar og síðan miðað við helstu viðskiptalönd og önnur lönd, þá hlýtur það að hafa áhrif á gengið. Ef framleiðslukostnaðurinn hér vex það mikið, að tekjur útflutningsatvinnuvega duga ekki til, þá leiðir það til breytingar á gengi. Það eru að vísu ýmsir fleiri þættir sem hafa áhrif á gengi gjaldmiðils, og það er fyrst og fremst neysluvöruverðlag, það eru kauptaxtar launþega, það er innflutningsverð, það er útflutningsmagn og það er útflutningsverð. Allir þessir þættir hafa þarna vissulega áhrif. En aðalatriðið er það, að þegar verðlag innanlands hækkar eins gífurlega og það hefur gert hér á landi á undanförnum árum, þá hlýtur það að hafa áhrif á gengið. Þessi ráðstöfun nú er því ekkert annað en viðurkenning á þeirri staðreynd, eins og oft áður, viðurkenning á því, að við höfum ekki ráðið við það að halda jafnvægi í efnahagslífinu.

Inn í þetta spilar einnig afkoma helstu útflutningsatvinnuvega, eins og ég sagði áðan. Útflutningsatvinnuvegirnir þola ekki til lengdar svo mikla kostnaðarhækkun eins og hefur orðið án þess að til breytingar á gengi komi eða stórkostlegrar hækkunar tekna. En hitt er svo einnig ljóst, að gengislækkunin sem slík hefur náttúrlega veruleg áhrif í framhaldi af þessari ákvörðun á rekstrarkostnað viðkomandi atvinnugreina og á allt verðlag í landinu, þannig að slík ráðstöfun ber engan árangur nema til ákveðinna aðhaldsog hliðarráðstafana komi einnig.

Það er kannske rétt, vegna þess að ég minntist á afkomu sjávarútvegsins, að fara örfáum orðum um afkomu hans á undanförnum árum, þótt þar sé um að ræða meðaltal og við vitum að verulegur mismunur er innan greinarinnar. En það er talið að hreinn hagnaður sjávarútvegsins, þegar búið er að afskrifa og taka tillit til vaxta, hafi verið hvað bestur að undanförnu á árinu 1973, eða hagnaður upp á 5.6 milljarða. Síðan fer að síga á ógæfuhliðina 1974, tap upp á 6 milljarða, tap upp á 5.4 milljarða 1975, tap upp á 2.3 milljarða 1976, og miðað við þá gengislækkun, sem nú á sér stað, er búist við tapi allt að 3.5 milljörðum þegar vextir og afskriftir hafa verið reiknuð. Með þessu er tryggð e. t. v. svipuð og þó heldur lakari afkoma en var að meðaltali 1976, en hins vegar langt frá því sem var 1973.

Það er ljóst af því, sem ég hef sagt, að þessi ráðstöfun nú kemur í beinu framhaldi af þeirri verðlagsþróun sem orðið hefur í landinu, og það að koma í veg fyrir gengisfellingar og gengissig er fyrst og fremst að ráðast gegn verðbólgu með þeim afleiðingum sem það annars hefur, og ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það nú við umr. þessa máls. En þessi vandi er náttúrlega fyrst og fremst sá að viðurkenna ákveðin lögmál efnahagslegrar hagstjórnar og setja jafnvægi í efnahagslífinu ofar á listann með þeim markmiðum sem annars er keppt að. Það er alveg ljóst að við leysum ekki öll vandamál með því. Við fáum ný vandamál þótt við leysum verðbólguvandann. Þá skiptum við sjálfsagt á þeim vanda við ýmsan annan vanda. Og það er alver ljóst, að slíkar ráðstafanir koma við þorra manna í þessu þjóðfélagi, snerta bæði líf þeirra og afkomu. Hins vegar er það alveg ljóst, að við þekkjum þessar leiðir, við vitum út af fyrir sig hvað það er sem þarf að gerast, en hins vegar eru þær leiðir allt annað en þægilegar.

Ég vil aðeins minnast á það, vegna þess að það hefur oft komið fram, að laun þjóðfélagsþegnanna skipti minna háttar máli í verðlagsþróuninni og verðbólguþróuninni, þá vil ég aðeins geta þess, að laun sem hlutfall af okkar þjóðartekjum voru 1962 62.8%, 1974 73.6%, 1975 73.3% og 1976 71.8% af þjóðartekjum. Aðrar þjóðartekjur eru reiknaðar tekjur atvinnurekenda, fjármagnskostnaður, þ. e. a. s. hlutdeild fjármagnsins í þjóðartekjunum, og hagnaður. Það er alveg ljóst, að ef þessi þáttur, þ. e. a. s. launin, hækkar umfram það sem þjóðartekjur vaxa, þá getur ekkert annað gerst en að það fari út í verðlagið. Ég er ekki að segja þetta til þess að koma því á framfæri, að þetta sé eini þátturinn sem hefur áhrif á verðlagsþróunina og verðlagið í landinu, langt frá því. Það er ýmislegt annað sem þar kemur við sögu. Hitt er svo annað mál, að við skyldum varast að gera allt of lítið úr þessum þætti, því að það er ekkert annað en blekking.

Ég vil aðeins að lokum koma inn á þann lið í þessu frv. sem fjallar um ráðstöfun á gengishagnaði. Ég er því sammála, að meginhluti af þessum hagnaði fari í Verðjöfnunarsjóð, og ég get einnig fallist á það, að hinu verði ráðstafað til þess að milda áhrif gengislækkunarinnar á stofnfjárkostnaðarbyrði eigenda fiskiskipa og til þess að greiða fyrir hagræðingu í fiskiðnaði. Ég hefði út af fyrir sig talið eðlilegt að stofnfjárkostnaðarbyrði fiskvinnsluaðila og fiskvinnslufyrirtækja væri létt á sama hátt og hjá eigendum fiskiskipa. Ég hefði talið eðlilegt að þar væri samræmi á milli. En það hefur hins vegar komið fram, að þessu fjármagni, þ. e. a. s. 43% af þessum 35% sem á að verja til að greiða fyrir hagræðingu í fiskiðnaði, verður varið ásamt öðru fjármagni til þess að létta undir með rekstri fiskvinnslufyrirtækja og þá ekki aðeins þeirra, sem eiga eftir að koma á hagræðingu, heldur einnig þeirra, sem hafa jafnvel komið nýlega við einhverri hagræðingu, en eru með mjög verulega stofnfjárkostnaðarbyrði. Fyrst svo á að vera, þá tel ég það út af fyrir sig fullnægjandi.

Ég vil aðeins minnast hér á eitt mál sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson kom inn á, að hér er í fyrsta skipti gert ráð fyrir því, að það verði stofnuð sérstök deild við Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, sérstök deild fyrir saltsíld. Ég vildi að það kæmi fram, að það er verulegur gengishagnaður að sjálfsögðu af birgðum og því sem ógreitt er vegna saltsíldar. Hins vegar mun það vera svo, að útflutningur m. a. til Finnlands hefur ekki verið greiddur, en hins vegar hefur sú stofnun, sem sér um útflutning á saltsíld, síldarútvegsnefnd, þurft að taka lán erlendis í dollurum til þess að greiða saltendum hluta af andvirði útflutnings til Finnlands, og gengistap á þessum lánum mun nema um 40 millj. kr. Einnig mun það vera svo, að síldarútvegsnefnd skuldar verulegt fjármagn erlendis vegna þess, að mikið er ógreitt af andvirði þeirra tunna sem notaðar hafa verið við framleiðsluna og hafa verið seldar úr landi. Þetta nemur samtals 55 millj. kr., og hlýtur að vera eðlilegt að þessar upphæðir dragist frá áður en gengishagnaður í þessari grein er reiknaður. Ég hef rætt þetta mál við hæstv. forsrh. og sjútvrh., og ég tel að þeir hafi tekið þannig undir þessa skoðun mína að fullnægjandi sé.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en vil aðeins endurtaka það, að meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ.