10.02.1978
Neðri deild: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2214 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú gert grein fyrir því hinu síðara frv., sem ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ. í sambandi við efnahagsaðgerðir sínar að þessu sinni. Eins og öllum er kunnugt var fyrra frv. í rauninni aðeins um það að staðfesta breytingu á gengisskráningu, þ. e. a. s. að staðfesta það, að gengi krónunnar yrði lækkað um 13% nú í einu skrefi eða verð á erlendum gjaldeyri ætti að hækka um 14.9%. Um þessa sérstöku ráðstöfun höfum við rætt talsvert á Alþ. og ég hef þar allgreinilega tekið fram um afstöðu mína til þess máls.

Ég veitti því athygli. að hæstv. forsrh. komst þannig að orði varðandi það frv. og þá ákvörðun að lækka gengið, að það hefði verið athyglisvert að allir nm. í svonefndri verðbólgunefnd hefðu verið sammála um nauðsyn þess að það frv. næði fram að ganga eða sú gengislækkun yrði framkvæmd sem þar var gert ráð fyrir. Það var augljóst, að hann vildi láta í það skína að allir nm. í verðbólgunefnd hefðu í rauninni verið samþykkir þessari aðgerð. Þetta er að sjálfsögðu rangt, eins og komið hefur fram í umr. um málið og við atkvgr. hér á þingi. Hins vegar höfum við á það bent, að frv. um nýja skráningu krónunnar var í rauninni aðeins formleg aðgerð eftir að ríkisstj. hafði tekið ákvörðun fyrir löngu sem hún hafði miðað alla stefnu sína í efnahagsmálum við. Við höfðum bent á að þegar fyrir alllöngu var búið að taka inn í allar áætlanir um verðlagsþróun á yfirstandandi ári tiltekna gengislækkun í sambandi við afgreiðslu fjárl. Um miðjan desembermánuð var t. d. upplýst, að tekjur og gjöld ríkissjóðs væru við það miðuð á árinu 1978, að um 18% gengissig yrði að ræða á árinu, eða gengissig sem næmi 11/2% á mánuði. Einnig er staðfest í grg. þeirri, sem fylgir þessu frv., að þegar hafi verið búið að taka af hálfu ríkisstj. tillit til gengislækkunar í spám og áætlunum. Ég dró athygli manna að því, að sá vandi atvinnuveganna sem um hefur verið rætt og vissulega er fyrir hendi, miðað við þær áætlanir sem liggja fyrir, byggist að verulegu leyti á því, að útgjöld í atvinnurekstri eru þegar mörkuð af þeirri verðhækkunarstefnu og gengislækkunarstefnu sem fyrir löngu var ákveðin og hefur verið í framkvæmd, en hins vegar höfðu ekki verið teknar inn í áætlanir um afkomu atvinnuveganna hækkaðar tekjur í sambandi við þá gengislækkun sem þegar hafði verið ákveðin. Vandi atvinnuveganna var því allt annar, ef fullt samræmi var í þessu uppgjöri.

Ég skal svo ekki ræða frekar, vegna alllangra umr. áður, um gengislækkunarfrv. sem slíkt, því að það var fyrst og fremst formleg ákvörðun um þá stefnu sem áður hafði verið mörkuð af hæstv. ríkisstj. Ég mun nú snúa mér að efni þess frv. sem hér liggur fyrir og á að fela í sér tilteknar hliðarráðstafanir í sambandi við meginstefnuna.

Hvað er það þá sem felst í þessu frv. sem hér liggur fyrir?

Um það er ekki að villast, að meginefni frv., það sem frvgr. allar í rauninni snúast um, kemur þegar fram í 1. og 2. gr. frv., en þar er slegið fastri þeirri meginreglu að breyta skuli gildandi kjarasamningum launþega á þann hátt, að aðeins skuli koma til framkvæmda helmingur af vísitöluuppbót á laun miðað við það sem um hafði verið samið Þetta er meginreglan sem á að gilda. Frá henni er síðan vikið að því leyti til, að skerðingin verður ekki fullkomlega sem nemur helmingi vísitöluuppbótar á lægstu tekjum, eftir því sem nánar er hér skilgreint og ég kann að víkja nokkru nánar að.

Þá er fyrst spurningin: Hvað þýðir þetta í raunverulegum tölum? Hverju jafngildir þetta í sjálfu sér varðandi kjör launafólks í landinu? Hæstv. forsrh. hefur orðað það svo, og það kemur einnig fram í grg. frv., að afleiðingarnar af þessari ráðstöfun muni verða þær, að kaupmáttur launa muni verða svipaður á þessu ári, sem nú er byrjað, árinn 1978, eftir að þetta frv. hefur verið samþ., eins og meðaltalskaupmáttur launa var á s. l. ári, árinu 1977. Þetta lítur ekki illa út þegar það er sagt á þessa lund. En við skulum athuga málið nánar. Auðvitað hefur kaupmáttur launa verið fyrstu mánuði þessa árs annar en meðaltalskaupmáttur launa var á s. l. ári. Það byggist einfaldlega á því, að ekki var samið um nýjar kauphækkanir til þess að rétta við kaupmátt launa fyrr en 22. júní eða á miðju ári. Fyrri hluti ársins lá því þarna langt fyrir neðan. Leiðréttingin á kaupmætti launa kom á síðari hluta ársins og meðaltalskaupmátturinn er því miklu minni.

Nú liggja fyrir útreikningar margra aðila á því, hvað þetta mundi þýða í reynd, þetta ákvæði frv. um að greiða aðeins hálfar vísitölubætur á laun, með þeim öðrum ákvæðum sem fylgja með í þessu frv. Niðurstaðan er sú, að hér yrði um kaupmáttarskerðingu að ræða frá því sem kaupmáttur launa hefur verið undanfarna mánuði — des., jan. og það sem liðið er af febr. — sem nemur á milli 10 og 12%. Þegar til grundvallar er lagður kauptaxti, sem nefndur hefur verið bæði af Þjóðhagsstofnun og fulltrúum Alþýðusambandsins meðalkauptaxti alþýðusambandsfélaga, þá er hér augljóslega um kaupmáttarskerðingu að ræða, sem er verið að gera ráð fyrir, sem nemur um 11%. Það er það sem felst í þessu frv. Hér er verið að gera ráðstafanir til þess að færa kaupmátt launa aftur á bak almennt séð sem nemur í kringum 11% frá því sem kaupmátturinn hefur verið undanfarna mánuði. Niðurfærslan er heldur meiri en þetta þegar tillit er tekið til þess, að kaupgjaldssamningarnir gerðu einnig ráð fyrir að nokkur viðbótarkaupmáttaraukning yrði á síðari hluta þessa árs til viðbótar því sem komið var í janúarmánuði.

Þessi kaupmáttaraukning nær þó ekki til allra lægstu launa eða verður aðeins minni en þetta á lægstu laun. En hún er þó mjög veruleg einnig á lægsta taxta sem fyrir hendi er.

Hver er sá árangur sem ríkisstj, gerir ráð fyrir að ná með því að stíga þetta skref, rjúfa gerða kjarasamninga og þrýsta kaupmætti launa niður á þennan þátt frá því sem um var samið? Hvaða árangri á að ná með þessari aðgerð? Jú, það kemur einnig fram í grg. frv. Það er gert ráð fyrir, ef engar breytingar hefðu verið gerðar af hálfu stjórnvalda, að meðaltalsverðlagshækkun á árinn 1978 hefði orðið um 10%, segir í grg. frv. og í mörgum skýrslum frá Þjóðhagsstofnun. En hvað á þá að ná verðhækkuninni mikið niður með þessari aðgerð? Það er reiknað með því, stendur hér, að takast muni að ná meðaltalsverðhækkuninni niður úr þessum 40% væntanlega í 37%. Það verður því dálagleg dýrtíð og dýrtíðaraukning á komandi ári, þó að þessi spá stæðist. En talsverð hætta er á því, að hún standist ekki frekar en ýmsar aðrar spár sem lagðar hafa verið fram varðandi þessi mál.

Um það er ekkert að villast, að hér er gerð ráðstöfun sem miðar að því að draga verulega úr kaupmætti launa hjá almennu launafólki. Um það er ekkert að villast. Þær hliðarráðstafanir aðrar, sem fram koma í þessu frv., eru í sjálfu sér nauðaómerkilegar. Þar er gert ráð fyrir að auknar verði niðurgreiðslur, sem ættu að koma fram í verðlagi, sem nemur 1300 millj. kr. Auk þess er gert ráð fyrir að lækka svonefnt tímabundið vörugjald úr 18% í 16%, og er áætlað að verðlækkun af þessum ástæðum nemi í kringum 700–720 millj, kr. Hér er því um verðlækkunarráðstafanir að ræða sem nema rétt í kringum 2000 millj. kr.

En hvað kemur á móti? Það kemur í fyrsta lagi á móti, að hér er á ferðinni um 15% verðhækkun á erlendum gjaldeyri. Hvað þýðir það í raun og veru varðandi verðlagið í landinu þegar erlendur gjaldeyrir hækkar í verði um 15%? Við skulum fyrst taka verðmæti þess innflutnings sem fluttur var til landsins á s. 1. ári. Verðmæti innflutnings á s. l. ári var skráð 121 milljarður, — við skulum segja 120 milljarðar kr. Þessi fjárhæð hækkar augljóslega í innflutningsverði vegna gengisbreytingarinnar um 18 milljarða. En auðvitað þýðir sú hækkun miklu meira en 18 milljarða þegar hún er komin í verðlagið í landinu. Við þessa fjárhæð á eftir að bæta tollum, vörugjaldi, — vörugjaldinu sem átti að lækka en kemur til með að hækka í reynd vegna þess að það verður lagt á hærra vöruverð en áður, — og svo kemur til viðbótar söluskatturinn og síðan til viðbótar við þetta öll verslunarálagning í heildsölu og smásölu. Á því leikur enginn vafi, að þetta innflutningsverðmæti upp á um 120 milljarða, miðað við s. l. ár, hækkar ekki aðeins, eins og gjaldeyrisskráningin segir til um, í kringum 18 milljarða, heldur um tvöfalda þá upphæð, þannig að hér kemur út í hið almenna verðlag hækkun sem nemur á milli 30 og 40 milljörðum kr, En þess ber að gæta að ríkisstj. ætlar að lækka verðlag á móti upp á 2 milljarða. Þetta er dálagleg barátta gegn verðbólgunni í landinu sem allt stríðið stendur við og ríkisstj. hefur verið að rembast við allan tímann að vinna bug á ! En hún hefur allan tímann farið þessa sömu leið sem hún er að fara nú. Hún berst við verðbólguna með því að lækka gengi, með því að hækka skatta og með því að hækka verðlagið í landinu. Þetta getur tekist örstuttan tíma, m. a. á þann hátt að rjúfa gerða launasamninga, slíta þá í sundur, hvernig sem ástatt er og efna síðan til nýrra átaka á vinnumarkaði, uppsagna á öllum launasamningum, e. t. v. verkfalla, framleiðslustöðvunar, stóraukins vanda á allan hátt í rekstri þjóðarbúsins. Þetta er það sem hefur verið að gerast í tíð núv. ríkisstj.

Ég hef bent á það í umr. um þessi mál, að þessari stjórn hefur tekist þannig til, að í hennar tíð, frá því að hún tók við völdum og fram á þennan dag, hefur verðgildi Bandaríkjadollars hækkað um 156.7%. Gjaldeyrir ýmissa annarra landa hefur hækkað enn þá meira. Vitanlega er nauðsynlegt að hafa í huga, að þegar verið á erlendum gjaldeyri hækkar um 156% hækkar verð á varningi frá þessum löndum um sömu prósentutölu, einnig um 156%. Síðan á þessi ráðstöfun eftir að hafa víxlverkandi áhrif til verðlagshækkunar í landinu. Ég hef líka bent á það, að frá þeim degi að núv, ríkisstj. tók við völdum og fram á þennan dag hefur framfærsluvísitalan í landinu hækkað um hvorki meira né minna en 214%. Það þýðir, að verðlagið almennt í landinn, sem framfærsluvísitalan mælir, hefur hvorki, meira né minna en rúmlega þrefaldast. Ég held að það fari því ekkert á milli mála, að stefna hæstv. ríkisstj. hefur leitt til meiri verðhækkana en nokkur dæmi eru til um áður í tíð nokkurrar ríkisstj. Verðhækkunin hefur í rauninni verið hér í algleymingi.

Það bendir ekkert til að ríkisstj. sé að skipta um stefnu í þessum efnum. Það eina, sem fram hefur komið og bendir til þess að ríkisstj. hugsaði sér e. t. v. að breyta um stefnu, er að hæstv. forsrh. hefur nú sagt, að með því að lækka gengi krónunnar, eins og nú hefur nýlega verið ákveðið, áformi ríkisstj. að hætta við gengissigsaðferðina. Hún ætli sér að reyna að halda gengi krónunnar nokkuð föstu. Ég held hins vegar að þessu trúi enginn maður að fenginni reynslu og af því reynist ríkisstj. þetta með öllu ómögulegt. Sannleikurinn er sá, að ef takast ætti að halda genginu nokkurn veginn stöðugu þarf að breyta hér um efnahagsstefnu í grundvallaratriðum. Sú stefna, sem ríkisstj, fer eftir, eyðileggur öll slík áform.

Það er rétt að víkja svolítið nánar, áður en farið er lengra út í almennar umr. um stöðuna í efnahagsmálum, að efni þessa frv. Þó að þetta atriði, sem ég hef minnst á varðandi breytingu á launa- og kjarasamningum, sé auðvitað aðalefni frv. meginefni þess og það sem frv. er raunverulega samið út af, þá er að finna í þessu frv. enn þá meira. Þar er fyrst og fremst um að ræða ákvæðin sem eru í 3. gr. frv. En 3. gr. frv. er orðuð á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Frá og með 1. jan. 1979 skulu óbeinir skattar ekki hafa áhrif á verðbótavísitölu eða verðbótaákvæði í kjarasamningum. Kauplagsnefnd skal meta hvað telja skuli óbeina skatta í þessu skyni.“

Þetta er býsna athyglisvert ákvæði í þessu frv. Ljóst er, að ákvæði samkv. þessari grein eiga ekki að koma til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1979, kannske eftir daga þessarar ríkisstj. En henni þykir nú samt sem áður vissara að setja þetta ákvæði. Kannske er þetta hin eina formlega tilkynning sem komið hefur frá stjórnarflokkunum um það, Framsfl. og Sjálfstfl., að þeir ætli, hvað sem öðru líði, að reyna að halda áfram í ríkisstj. að kosningum loknum. Þetta verður að skoðast sem bein stefnumörkun af þeirra hálfu, tilkynning um það, hvað þeir ætli að gera eftir kosningar. Á ýmsan hátt er gott að stefnumarkandi ákvæði eins og þetta standa svört á hvítu á þennan hátt. Þeir geta þá kannske ekki alveg með sama hætti, framsóknarmennirnir, snúið sér við í einu kjördæminu eftir annað, þegar kemur út í kosningabaráttuna, og sagt að þeir séu alveg óbundnir af því með hverjum þeir ætli að vinna. Það liggur þá kannske nokkuð ljóst fyrir, hvert stefnt er. Það tekst þá kannske ekki eins vel að leika á kjósendur. En það er stefna út af fyrir sig, að þessir tveir flokkar ætli sér að mynda stjórn saman eftir kosningar og halda áfram þessari margumtöluðu efnahagsstefnu sinni.

Hvað felst svo nánar í ákvæðum þessarar 3. gr., að hverju er stefnt? Þarna er auðvitað um stórkostlega hótun að ræða við launþegasamtökin í landinu. Þarna er það boðað, að eflir 1. jan. 1979 skuli sá háttur vera hafður á, að þó að stjórnvöld hækki söluskatt um næstum að segja hvað sem er, hækki tolla, hækki hið margumtalaða vörugjald eða hækki bensínskattinn, þá eigi slíkar hækkanir á verðlagi ekki að teljast með í útreikningum í sambandi við verðbætur á laun. M. ö. o.: þetta mundi þýða það í framkvæmd, að ef launþegasamtökin semdu um tilteknar launabætur, þegar samningar renna næst út á þessu ári, 1. des., 5%, 10%, 15% eða hvað sem væri, miðað við aðstæður, þyrfti ríkisstj. ekkert að vera að velta því fyrir sér. Hún gæti samþykkt daginn eftir að taka allar launabæturnar, sem um var samið, til baka í því formi að hækka þessa skatta sem nemur launahækkuninni og þar með væri kaupmáttaraukningin strikuð út. Hér er vitanlega verið að kippa grundvellinum undan því, að launþegasamtökin í landinu geti samið til langs tíma með einhverjum öryggisákvæðum, eins og þau hafa gert. Það á að kippa öryggisákvæðunum úr sambandi.

En það er ekki aðeins þetta sem í þessu felst. Það sama má í rauninni lesa út úr frv. í heild, því að þetta frv. í heild boðar það, að sú ríkisstj., sem fyrir rétt rúmlega þremur mánuðum skrifaði hátíðlega undir launa- og kjarasamninga við starfsmenn sína eins og hver önnur alvöruríkisstj., kemur og ætlar að rifta þessum samningum, hún slítur þeim þremur mánuðum eftir að hún hefur undirskrifað þessar skuldbindingar. Það gefur auðvitað auga leið, að þau launþegasamtök, sem þannig á að fara með, geta ekki treyst undirskrift þessarar ríkisstj. á nokkurn hátt. Þau vita að undirskrift hennar er ómerk, hún getur hlaupið frá skuldbindingum sínum hvenær sem er. Hún getur alveg eins hlaupið frá þeim eftir einn mánuð eins og eftir þrjá mánuði. Hún vill ekki standa við gerða samninga. Önnur launþegasamtök í landinu, eins og t. d. félög Alþýðusambands Íslands, gerðu sína launasamninga 22. júní á s. l. sumri. Ríkisstj. var raunverulega beinn aðili að þeim samningum. Hún fylgdist með þeim stig af stigi og lagði blessun sína yfir þá samningagerð. Hún ætlar einnig að svíkja þessa samninga með þeim lógum sem hún ætlar sér að setja. Auðvitað er framkoma af þessu tagi siðlaus, þetta er alveg siðlaus framkoma. Og það er rétt fyrir ríkisstj. að átta sig á því, að svona siðlaus framkoma leiðir af sér að þeir, sem fyrir henni verða, telja sig ekki heldur bundna af neinum föstum reglum. Sá veldur miklu sem upphafinu veldur í þessum efnum. Menn þurfa ekki að halda að aðeins annar aðilinn geti sagt: Þið skuluð fara að lögum, ég þarf ekki að fara að lógum. — Þar skilur nefnilega á milli og menn eiga kannske eftir að verða varir við þetta á óþægilegan hátt.

Þrátt fyrir þetta allt, þó að svona sé staðið að málum, kemur hæstv. ríkisstj. og tekur undir það, sem fram kemur í skýrslu þeirri sem kennd er við verðbólgunefnd, að í rauninni sé ekki hægt að búast við neinum árangri í átökunum við verðbólguna nema gott samstarf takist á milli stjórnvalda og launþegasamtakanna í landinu. Lokaorð þessarar skýrslu hljóða á þessa lund, í beinu framhaldi af því, að stungið hefur verið upp á að komið yrði á sérstakri samvinnunefnd á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins, — þeirri samvinnuefnd sem hæstv. forsrh. ræddi um í sínu máli, — síðustu orð skýrslunnar eru á þessa lund:

„En á hinn bóginn er víst, að forsendurnar fyrir bættri stjórn á efnahagsmálum verða betri, ef þessari skipan er komið á, og verðbólguvandinn verður aldrei farsællega leystur nema með viðtækari samstöðu þeirra þjóðfélagsafla sem gert er ráð fyrir að aðild eigi að samvinnunefndinni.“

Menn búast sem sagt við því, að tekist geti eðlilegt samstarf á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda þegar stjórnvöld haga sér á þann veg sem hér er gert. Ég held að enginn þurfi um það að efast, að eftir það, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið að gera í efnahagsmálum, hefur hún fyrirgert öllum rétti sínum til þess að fara fram á traust launþegasamtakanna og fara fram á samstarf við þau samtök í landi okkar. Það er alveg augljóst mál, að samstarf af því tagi, sem hér er rætt um í skýrslu verðbólgunefndar, getur aldrei orðið á milli launþegasamtakanna og núv. ríkisstj. Það er útilokað með öllu. Og það er hæstv. ríkisstj. sem er að útiloka það með tillögugerð sinni.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er býsna einkennilegt á margan hátt. Allir kannast við það, að frá því hefði verið skýrt að fram hefðu komið í verðbólgunefnd ábendingar um fjóra valkosti sem til greina gætu komið nú til ákveðinna skyndiráðstafana í efnahagsmálum. Þarna var talað um fjórar mismunandi leiðir. Það er ljóst að hæstv. ríkisstj, hefur ekki valið neina þessa leið. Hún hefur að vísu krafsað nokkuð í allar leiðirnar, tekið eitt úr þessari og annað úr hinni og búið til þann óskapnað sem liggur fyrir í þessu frv. Hins vegar hafði komið fram hjá meiri hl. — ef hægt er að tala um meiri hl. verðbólgunefndar þar sem átt er við sex fulltrúa stjórnarflokkanna af 13 mönnum sem sátu í nefndinni — og er ljóst, að þeir lögðu til að farin yrði svonefnd fimmta leið. Frá henni er vikið í mjög ríkum mæli. Það var t. d. gert ráð fyrir því í þessari leið, sem formaður verðbólgunefndar hafði sett fram, að vörugjaldið yrði lækkað úr 18% niður í 9%. Í till. er gert ráð fyrir að gjaldið verði lækkað úr 18% í 16%. Einnig var gert ráð fyrir í þessum till. að auka niðurgreiðslur á vöruverði í landinu um 1900 millj., í till, ríkisstj, er farið í 1300 millj. Hins vegar er að finna í frv. ríkisstj, á ýmsan hátt miklu harðari aðgerðir en minnst hafði verið á í þessari svonefndu fimmtu leið hjá formanni verðbólgunefndar.

Ég hygg að enginn maður geti efast um það, sem lítur á þessi mál, að hér er ekki um að ræða líklega leið til árangurs í glímunni við verðbólgu okkar. Það er enginn vafi á því, að nær ráðstafanir, sem hér er um að ræða, munu í reynd ekki draga úr verðbólgunni. Þar munu miklu frekar magna vandann og gera hann meiri en hann var áður, því að ég held að mjög barnalegt sé af ríkisstj. að búast við því, að launþegasamtökin, miðað við þá stöðu sem þau hafa í dag, láti bjóða sér það þegjandi sem í þessu frv. felst eða þau láti við það eitt sitja að mótmæla þessum aðgerðum. Ég held að enginn vafi sé á því, að ríkisstj. verði að búa sig undir að þessu verði svarað af hálfu launþegasamtakanna í landinu með hörðum aðgerðum.

Í framhaldi af þessu, sem ég hef sagt, þykir mér nokkur ástæða til þess að víkja nokkrum almennum orðum að hinum sérstaka verðbólguvanda hér á landi. Að þessu atriði er nokkuð vikið í þessari skýrslu sem forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar tók saman og kennd er við verðbólgunefnd. Ég vil hins vegar undirstrika í máli mínu, að þessi skýrsla, sem hér liggur fyrir, er ekki skýrsla nefndarinnar sem heildar. Hið rétta er, að hún er tekin saman af starfsmönnum og forstöðumanni Þjóðhagsstofnunar, og það er fyrst og fremst forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar sem á þær hugmyndir og ábendingar sem hér koma fram. Það er hins vegar rétt, að sex fulltrúar í nefndinni, þ. e. a. s. fjórir, sem hægt er að telja í rauninni beina fulltrúa ríkisstj: flokkanna, og tveir aðrir, sem hafa verið ráðunautar ríkisstj. í efnahagsmálum, þ. e. a. s. forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar og seðlabankastjóri, Jóhannes Nordal, þessir sex fulltrúar skrifa undir þá yfirlýsingu, að þeir fallist á öll þau grundvallarsjónarmið sem koma fram í þessari skýrslu. Fimm aðrir fulltrúar sem sátu í þessari nefnd, þ. e. a. s. fulltrúi Alþýðusambands Íslands, fulltrúi BSRB og fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna þriggja, Alþb., Alþfl. og Samtakanna, taka hins vegar fram í sínu séráliti, að þeir standi ekki að þessu áliti, og gera sérstakar till. Fulltrúi Vinnuveitendasambandsins og formaður þess er svo með sérbókun, og er ekki hægt að sjá á henni að hann vilji binda sig við þetta álit. Formaður Stéttarsambands bænda og fulltrúi þess í nefndinni lætur líka bóka hér sérálit. Er augljóst að hann er með fyrirvara gagnvart mörgu af því sem fram kemur í skýrslunni, og skrifar ekki undir hana þannig að hann geri hana að sínu áliti. Í rauninni er því hægt að segja að þessi skýrsla sé skýrsla minni hl. nefndarinnar eða sex manna, en aðrir eru þarna með mikinn fyrirvara. Við, sem t. d. höfum tekið fram að við séum ekki aðilar að þessu áliti, höfum látið það koma skýrt fram, að að sjálfsögðu sé margt að finna í þessari skýrslu sem að okkar dómi væri réttilega á bent og þar kæmi fram rétt mat á vissum hlutum, við hefðum hins vegar ágreining uppi um margt annað, sem væri að finna í þessari skýrslu, og værum því ósamþykkir, kannske ekki allir ósamþykkir því sama, eins og verða vill. En hvað um það, komið hafa fram í þessari nefnd og þeim vinnugögnum, sem fyrir henni liggja, mjög margir þættir efnahagsmála almennt séð sem eru þess virði að þeir séu ræddir og þær staðreyndir séu dregnar fram.

Það var eitt verkefni þessarar nefndar, að hún átti að skilgreina hver væri ástæðan til hinnar miklu verðbólgu hér á landi undanfarin ár. Ég er á þeirri skoðun, að nefndin geti sagt það álit sitt á miklu einfaldari hátt en gert er í þessu plaggi og miklu skýrari hátt, því að ég held að menn hafi verið býsna sammála um nokkur meginatriði, þó að menn væru ekki sammála um allt. En það hefur nú tekist, eins og vill verða hjá hinum lærðu mönnum, að búa til langa og illlæsilega bók um þetta tiltölulega einfalda atriði, að gera grein fyrir því, hvernig staðið hefur á þessari íslensku verðbólgu undanfarin ár, þ. e. a. s. þeirri verðbólgu sem hefur verið hér umfram það sem þekkst hefur í okkar nágrannalöndum. Eigi að síður eru nokkur atriði, sem hér koma fram, sem eru þess eðlis, að ég held að ástæða sé til þess að víkja að þeim. Í upptalningu á þessum atriðum segir m. a. á þessa leið, — það er á bls. 7 í bókinni ef menn vildu fylgjast með, — orðrétt segir þar:

„Í fyrsta lagi jókst verðbólga að mun um allan heim á árunum um og eftir 1970. Þó keyrði um þverbak með verðhækkun hráefna 1972 og 1973 og var fjórföldun olíuverðs lokahrinan í þeirri hríð. Þessir atburðir höfðu mikil áhrif hér, fyrst með mikilli hækkun útflutningsverðs, sem kynti undir tekjuhækkun innanlands, og síðan með mikilli innflutningsverðhækkun. Viðskiptakjaraskellurinn, sem þessu fylgdi, var jafnaður með verðhækkandi ráðstöfunum innanlands.“

Í framhaldi af þessu segir í skýrslunni, að á því leiki enginn vafi, að einkum og sérstaklega á árunum 1972–1974 hafi erlendar verðhækkanir átt stóran hlut í verðbólgunni hér á landi. Þetta er auðvitað atriði sem ýmsir okkar hafa bent á margsinnis, m. a. bent á þá staðreynd, að á árinu 1973 er talið að meðalhækkun á innfluttum varningi til landsins hafi numið 14%, mælt í erlendri mynt, og á árinu 1974 hafi meðalhækkun á innfluttum vörum til landsins, mælt í erlendri mynt, numið 34%. Auðvitað hafði þessi verðhækkunarbylgja, sem gekk yfir í heiminum um þetta leyti, sín áhrif hér. En þetta snerist við upp úr árinu 1974. Þá kom hins vegar allt annað til greina. Þá var sáralítil hækkun erlendis eða sem nam, eins og segir í þessari skýrslu, í kringum 5% að meðaltali árið 1975 og árið 1976 og menn höfðu reiknað með í kringum 7% á árinu 1977. En þrátt fyrir að þetta gerðist var verðbólgan langmest hér á landi eftir að verðlækkunin fór að segja til sín í okkar viðskiptalöndum. Rétt er í þessu sambandi að rifja í stuttu máli upp í tölum hækkanir í hinni margumtöluðu verðbólgu á þessum árum.

Árið 1973 varð verðbólga hér á landi 22.1%. Þá var hún á innfluttum vörum 14%. Árið 1974 var verðbólgan hér á landi 43%, en hækkunin á innfluttum vörum 34%. En árið 1975 var verðbólgan hér 49.4%, hækkun á innfluttum vörum aðeins 5%. Og árið 1976 var verðbólgan hér á landi 32.2%, en verð á innfluttum vörum hækkaði aðeins um 5%. Á árinu 1977 var verðbólgan hér um 33% og innflutningsverðhækkunin á milli 6 og 7%.

Auðvitað fer ekkert á milli mála, að hér skilur stórkostlega á milli, og þess skal einnig gætt, að á árunum 1972, 1973 og fram á árið 1974 gætti ekki aðeins þessara erlendu áhrifa á verðbólguna hér á landi, heldur hækkaði kaupmáttur launa hér á landi á þeim tíma stórkostlega, eins og skýrslur sýna miðað við það sem áður hafði verið. En svo byrjar ógæfan með núv. hæstv. ríkisstj. Á árinu 1975 fer verðbólgan upp þrátt fyrir tiltölulega litla hækkun á innfluttum vörum og þrátt fyrir að búið var að skera niður kaupmátt launa. Það sama gerðist aftur á árinu 1976 það var mjög hagstætt framleiðsluár á allan hátt fyrir þjóðarbúið, hagstætt verð á erlendum mörkuðum, en samt var verðbólgan hér mjög mikil og áframhaldandi kjaraskerðing átti sér stað hjá launafólki. Og þetta gerist fram á mitt árið 1977. Allan þennan tíma var um kjaraskerðingu að ræða og tiltölulega lágt innflutningsverð, en bullandi verðbólga var hér á landi. Ekki þarf langt að leita til að átta sig á því, hvað hér var að gerast. Það, sem var að gerast, ef menn aðeins staldra við aðalatriðin, var þetta:

Hér var ríkisstj. við völd sem framkvæmdi þá stefnu í efnahagsmálum, að hún lækkaði gengið. Hún lækkaði gengið um leið og hún settist í stólana, strax daginn eftir. Hún lækkaði það aftur eftir 5 mánuði, í febrúarmánuði 1975. Og enn er hún að lækka gengið. Allan tímann þarna á milli hefur hún látið gengið siga með þeim afleiðingum sem ég nefndi, að erlendur gjaldeyrir hefur hækkað um 156% og leiðir af sér innlenda verðhækkun.

En ríkisstj. hefur gert betur á þessum tíma heldur en að beita þessu gengisvopni á þennan hátt. Þrátt fyrir hækkandi útflutningsverð, eins og á árunum 1976 og 1977, hefur hún einnig heimilað verðhækkanir á opinberri þjónustu langt umfram það sem verðlag hefur almennt hækkað í landinu. Ríkisstj. hefur gengið á undan með verðhækkanir. Það er sannleikur málsins. Og þegar einkareksturinn allur hefur séð að opinber þjónusta hækkaði enn þá meira en almennt verðlag í landinu, þá sótti einkaframtakið í sig veðrið og verðhækkanirnar innanlands urðu meiri. Hér var við völd verðhækkunarríkisstj. Svo fór hún að gripa til ýmiss konar ráðstafana. Alltaf var hún að rétta við ríkissjóð. Alltaf var verið að reyna að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Menn gátu lesið með ákveðnu millibili í Morgunblaðinu, að þeir voru þar að ná stórkostlegum árangri. Alltaf voru þeir að bæta stöðuna. Að vísu segja allar tölur sem liggja hér fyrir, m. a. í þessari verðbólguskýrslu, að ríkissjóður hefur verið rekinn þannig á þessu tímabili, þessu góðæri, eins og árunum 1976 og 1977, að skuldaaukningin við Seðlabankann á tímabili núv. ríkisstj. nemur um 15 milljörðum. Þessi 15 milljarða kr. skuldaaukning við Seðlabankann hefur vitanlega verkað eins og bensín á verðbólgubálið, hreinlega eins og bensín. En þeir hafa alltaf verið að ná árangri þarna í fjmrn. Svo vel hafa þeir staðið sig, — við skulum bara taka nýjasta dæmið, þó ekki þau sem hér liggja fyrir, en aðeins eldri, — að það er ekki lengra síðan en líklega 20. eða 21. des., rétt áður en þm. fóru heim í jólaleyfi, að hæstv. fjmrh. sagði ásamt öðrum ráðh. að afkoman á þessu ágæta ári sem væri að liða, árinu 1977, væri ágæt, það mundi standast, að jöfnuður yrði hjá ríkinu, hann mundi standa við það að lækka skuldina við Seðlabankann um 2 milljarða, eins og áætlað hafði verið í fjárlögum.

Þetta var rétt í kringum 20. eða 22. des. Svo fóru menn heim og lögðu sig fyrir jólin og lágu yfir jólin, en skoðuðu eitthvað á milli jóla og nýárs. Rétt upp úr áramótunum koma þeir með skýrslur og segja: hví miður, skuldin við Seðlabankann jókst um 3.7 milljarða. — Það er nú ekki lengi að hlaupa á milljörðunum hjá þessum aðilum. Auðvitað sýndi þetta dæmi, að fjármálastjórnin var ekki betri en svo, að menn vissu ekkert hvað var að gerast á því heimili. Þeir vissu ekkert um það. Og þannig hefur tekist til með fjármálastjórnina, eins og þessar tölur sanna, með tilheyrandi afleiðingum auðvitað í sambandi við óbein áhrif hér innanlands á verðbólguna.

En það er ekki aðeins á þessu sviði sem ríkisfjármálin og stjórn peningamála hafa komið út á þennan hátt og magnað þann efnahagsvanda sem við er að glíma. Við skulum líta á aðra þætti.

Það fer ekkert á milli mála, að hvernig sem menn vilja skipta þessari verðbólgunefnd í búta, þá held ég að næstum allir þessir bútar, sem er um að ræða í verðbólgunefnd, séu þó sammála um að gífurleg skuldasöfnun við útlönd á undanförnum árum, í tíð núv. ríkisstj., hefur líka verkað alveg eins og olía á verðbólgueldinn. Innflutningur fjármagns í jafnríkum mæli og þar hefur verið til almennra verklegra framkvæmda hefur vitanlega leitt til ákveðinnar peningaþenslu innanlands og ekki nóg með það, heldur hafa einnig verið tekin lán í stórum stíl, lán erlendis, bein gjaldeyrislán, til þess að standa undir alls konar innflutningi, þörfum og óþörfum. Það er þessi erlenda lántaka, það er þessi óráðsía í þessum efnum sem hefur líka að allra dómi haft sínar sterku afleiðingar á verðbólguvandamálið hér.

Við skulum taka einn þáttinn enn. Um það eru menn ekki sammála í verðbólgunefndinni. Það hefur mjög borið við hjá efnahagssérfræðingum þeim sem ríkisstjórnir, ekki aðeins þessi, heldur og aðrar ríkisstjórnir á undan henni, hafa stuðst við, að þessir sérfræðingar finna eitt út í dag og annað á morgun. Stundum var einhver ein kenning í rauninni lausn á öllu saman, ef menn framkvæmdu hana yrði þetta í lagi. Síðasta kastið, sem þeir fengu í þessum efnum, kom þegar öllu átti að kippa í lag með því að hækka vexti og enn eru þeir á þeirri braut að hækka vextina. Auðvitað hefur þessi gífurlega vaxtahækkun orðið til þess m. a., að afkoma atvinnurekstrarins í landinu, alveg sérstaklega útflutningsatvinnugreinanna, hefur alltaf farið versnandi og versnandi og afstaðan hefur orðið þeim mun bölvaðri sem verr hefur staðið á hjá þessum fyrirtækjum að öðru leyti. Síðustu skýrslur, sem liggja fyrir um afkomu frystiiðnaðarins í landinu og mest hefur nú verið talað um, sýna t, d. að frá árinu 1976 og til ársins 1978, sem skýrslan er fyrir, hoppar vaxtaútgjaldatalan úr rúmlega 2 milljörðum upp í 4.5 milljarða hjá frystiiðnaðinum eða hjá fiskvinnslunni. Auðvitað eykur þetta á allan hallareksturinn, en hefur ekki bætt nokkurn skapaðan hlut í sambandi við efnahagsmálin almennt séð í landinu. Og þó að efnahagssérfræðingarnir og hæstv. ríkisstj, hafi reynt að afsaka þessar aðgerðir sínar í vaxtamálum með því að á þann hátt væri verið að reyna að vernda sparifé hinna fátæku sparifjáreigenda, sjá allir, að þeim hefur ekki tekist á nokkurn hátt að auka vernd sparifjár þessara aðila. Hvað þýðir t. d. gengislækkunin, sem var verið að samþykkja hér í gær, fyrir sparifjáreigendur? Skýrslur, sem liggja fyrir, sýna að sparifjáreign í bankakerfinu var um síðustu áramót 76 milljarðar kr. Hvað þýðir í rauninni gengislækkun fyrir þessa fjárhæð sem þarna stendur inni? Hún þýðir einfaldlega það, að verið er að skera niður verðgildi þessara 76 milljarða um 13% eða skera í einu lagi niður verðgildi þessara innstæðna um 10 milljarða kr., með einu pennastriki í sambandi við kaupmátt þessara króna gagnvart innfluttum vörum. Svo geta menn auðvitað komið og sagt: Ja, við hækkum nú vextina um 2–3% á móti. — En auðvitað eru sparifjáreigendur verr settir eftir en áður. Vaxtahækkunarstefnan hefur auðvitað ekki leyst nokkurn vanda, en aukið á vandann, heldur áfram að magna verðhækkunarskrúfuna sem ýtir á gengislækkun, sem yrði fyrr, en ekki síðar, vegna hennar. Ég held að ákaflega nauðsynlegt sé að menn átti sig á því, að t. d. varðandi útflutningsfyrirtæki er þetta svo einfalt mál, að ef búið er að hnýta alla kostnaðarliði aftan í verðbólguna með verðtryggingu, ef búið er að hækka rafmagnið í hlutfalli við verðbólgu, ef búið er að hækka alla kostnaðarliði í hlutfalli við verðbólgu og vextina í hlutfalli við verðbólgu, þá leiðir af því sjálfkrafa að menn verða að hreyfa gengið líka um leið. Þetta er gengislækkunarleið, ósköp einfaldlega. Það er allt annað mál, eins og ég hef bent á, að meðan enn er ríkjandi verðbólga og hætta á því að útlán úr lánasjóðakerfi og úr bankakerfi geti farið til þeirra sem geta náð til sín verðbólgugróða í gegnum fasteignabrask, þá séu slíkir aðilar látnir borga háa vexti eða lagður á þá sérstakur verðbólgugróðaskattur og notaður til þess að verðbæta spariféð, en ekki á að fara þá leið að ofþyngja atvinnurekstrinum með vaxtaútgjöldum, svo að það geti í rauninni enginn heilbrigður rekstur átt sér stað.

Ég hef hér drepið á nokkur atriði af þeim, sem gefa skýringu á því sem hefur verið að gerast í okkar efnahagsmálum í tíð núv. ríkisstj. Þar hef ég minnst á gengislækkunarstefnu hennar og þar hef ég einnig minnst á léttleika hennar í því að leyfa sífellt verðhækkanir á öllum sviðum. Ég hef farið inn á vaxtahækkunina þar til viðbótar og sífellda skattahækkun sem látin hefur verið ganga út í verðlagið. En það er ekki aðeins í sambandi við þessi beinu áhrif þar sem þessar aðgerðir allar stefna til verðhækkana, heldur er það einnig með stjórn efnahagsmála á hinu óbeina sviði, þ. e. a. s. varðandi stjórn peningamála eða fjármála ríkisins og í sambandi við stjórn peningamála almennt séð, þar sem stefnan hefur verið röng. Ég ætla að bæta hér við einu atriðinu enn sem í rauninni er engin deila um heldur, það er greinilega skýring á þeirri óstjórn sem hér hefur verið á undanförnum árum í efnahagsmálum, en hún snýr að fjárfestingarmálum.

Það taka víst allir undir það nú orðið, að fjárfesting hafi nú á síðustu árum, miðað við alla efnahagsstöðu þjóðarbúsins, verið allt of mikil og að hún hafi verið mislukkuð að verulegu leyti. Hins vegar eru menn ekki á það sáttir, úr hvaða greinum fjárfestingarmálanna eigi helst að draga. Þar kemur upp ágreiningur. Ég þekki það t. d. af ráðum ýmissa sérfræðinga, — þeir eru sem betur fer farnir að minnka það nú eftir að hafa rekið sig á — og það hefur einnig komið oft fram hjá hæstv. ríkisstj., að það hafi verið lagt of mikið í fjárfestingu í sambandi við endurnýjun á atvinnutækjum okkar, eins og t. d. kaup á nýjum og góðum fiskiskipum og það hafi verið lagt of mikið í það að umbreyta þýðingarmesta útflutningsiðnaði okkar til meiri hagkvæmni, þ. e. a. s. fiskiðnaði okkar. Ég held að nú sé svo komið að þeir fari að verða fáir sem séu svo blindir, að þeir sjái ekki að þessi fjárfesting, sem sérstaklega átti sér stað á tíma vinstri stjórnarinnar, en sem betur fer hefur þó haldið áfram í tíð þessarar stjórnar, þó að hafi verið stórlega dregið úr þessari fjárfestingu frá því sem hefði átt að vera, — þessi fjárfesting hefur skilað vaxandi þjóðartekjum og arði í þjóðarbúið. En það er hins vegar önnur fjárfesting, sem óumdeilanlega liggur fyrir, sem er mjög mislukkuð.

Ég vil nefna í því sambandi, aðeins til þess að sýna dæmi sem skýri það sem ég er að segja, að auðvitað er Krafla langaugljósasta dæmið. Ég nefni hana engan veginn vegna þess að ég vilji kenna einum frekar en öðrum um þau mistök. Það er mál út af fyrir sig, hver þá sök á eða hvort yfirleitt er hægt að kenna nokkrum einstaklingi um það. En það er staðreynd sem við getum ekki umflúið, að í Kröflu eru komnir í kringum 9 milljarðar kr. og þessir 9 milljarðar kr. í fjárfestingu gefa ekkert af sér. Við verðum á þessu ári að borga með þeim talsvert á annan milljarð samkv. okkar fjárskuldbindingum án þess að leggja þar í nokkra viðbótarfjárfestingu. Fjárfesting af þessu tagi, sem hægt er að nefna viða, þó að þessi sé út af fyrir sig stærst, hefur reynst okkur dýr vegna þess að hér hefur verið ríkjandi það ástand í fjárfestingarmálum sem kalla má með sanni stjórnleysi. Hér hefur þetta verið látið reka á reiðanum, hvernig staðið væri að fjárfestingarmálum, og dregið hefur verið úr fjárfestingunni til okkar eigin atvinnuvega, þar sem helst var von á að arður kæmi í aðra hönd. Hins vegar hafa menn verið að eyða miklum fjármunum og taka stórlán til þess að undirbúa stóriðjudrauma sína. Menn hafa staðið í virkjunarframkvæmdum sem hafa algerlega verið hugsaðar út frá stóriðju. Það hefur auðvitað reynst efnahagskerfi okkar mjög kostnaðarsamt.

Núna stöndum við í einni þeirri vitlausustu fjárfestingu sem menn hafa lagt hér út í, en það er fjárfestingin uppi á Grundartanga. Á þessu ári, þegar menn eru að tala um samdrátt, er gert ráð fyrir, að framkvæmdirnar uppi á Grundartanga muni nema 8000 millj. kr. eða 8 milljörðum. Heildarframkvæmdirnar þar jafngilda örugglega að verðmæti þremur Kröflum, og ef þessar framkvæmdir reynast að öllu leyti mislukkaðar og við fáum ekkert fyrir þær nema kannske taprekstur, eins og áætlanir liggja fyrir um núna, þá er illa farið, þá segir þetta vitanlega til sín í afkomu þjóðarbúsins.

Það er vert að átta sig á því, að stefna núv. hæstv. ríkisstj. er ævinlega sú, að þegar kemur að því að glíma við hinn efnahagslega vanda, þá miðar hún ekki að því að gera breytingar í þessum efnum, sem ég hef hér gert að umtalsefni, þar sem gallinn liggur, þar sem skekkjan liggur, heldur setur ríkisstj, dæmið upp á þennan veg: Í rauninni er bara um að ræða þrjár leiðir til að leysa þennan vanda á. Það er í fyrsta lagi kaupið, það skiptir mestu máli að ná því niður. Í öðru lagi kemur alltaf til greina hjá henni og ýmsum efnahagssérfræðingum að skera niður ýmiss konar félagslega þjónustu, það er hægt að minnka hana, það er t. d. vel hægt að tala um hvort eigi ekki að láta sjúklingana fara að borga matinn ofan í sig á sjúkrahúsum, það er hægt að tala um það, það hafa ráðh. rætt um hér. Það er sem sagt spurningin um að draga úr félagslegri þjónustu. Og þriðja leiðin er svo sú, að menn geta líka hugsað sér að leysa vandann með því að draga úr félagslegum framkvæmdum. Búið er að draga stórkostlega úr því fjármagni, sem fer til hafnargerða í landinu, til skólabygginga í landinu, til sjúkrahúsabygginga, til barnaheimilisbygginga og annarra slíkra ráðstafana. Raunverulega er varið, miðað við verðgildi, minna fjármagni í þessar framkvæmdir nú en áður var. Þetta eru leiðirnar sem íhaldsstjórn af því tagi sem hér situr við völd nú getur alltaf hugsað sér. Á þessum liðum er hægt að spara. En hún er ekki til viðtals um að endurskoða neitt af þeim liðum, sem þó er óumdeilanlegt að mikil skekkja er í, þar sem gerðar hafa verið örlagaríkar villur.

Ég skal nú fara að stytta mál mitt, vegna þess að það liður ört á tímann. Hér eru að vísu mörg önnur atriði sem snerta þetta mál sem heild og fyllilega væri ástæða til að gera hér að umtalsefni, ekki síst í sambandi við þá skýrslu sem liggur fyrir frá þessari svonefndu verðbólgunefnd eða þeim hluta hennar sem að skýrslunni stendur. Ég skal fara að stytta mitt mál, en vil segja það undir lokin, að aðalatriðið er þetta:

Ríkisstj. heldur enn fast í sömu stefnu og hún hefur haldið í undanfarin ár. Hún er enn með gengislækkunarstefnu. Hún er enn með kauplækkunarstefnu. Hún er enn á því að hækka verðlag í landinu. Hún ætlar hins vegar að reyna að koma því þannig fyrir, að verðhækkanirnar verði ekki reiknaðar út, að þær komist hvergi inn í vísitölu sem menn geti miðað kaupgjald sitt við. Það var ríkisstj. sem reyndi þetta fyrir nokkrum árum, að banna að tengja kaupgjald á nokkurn hátt við vísitölu. Hún reyndi það. En auðvitað gátu menn reiknað út hækkun á verðlagi, þó að vísitalan næði ekki sem slík inn í kaupið. Og þeir, sem reyndu að slíta vísitölukerfið frá kaupinu á sínum tíma, gáfust upp, vegna þess að launþegasamtökin í landinu svöruðu þessum aðgerðum með því að semja aðeins til örstutts tíma. Samningar voru alltaf lausir. Það voru í rauninni alltaf átök á vinnumarkaði. Það var hægt að margbreyta kaupinu á hverju ári, þó að búið væri að slíta vísitöluna úr sambandi við kaupið. Og þeir, sem héldu að þetta væri leið út úr öllum vanda, hægt væri að plata launþegana í landinu á þennan hátt, komu niðurlútir aftur og vildu fá vísitöluna í samband svo að þeir gætu fengið eitthvert öryggi á vinnumarkaðinum í sambandi við launafyrirkomulag.

Auðvitað er engin leið út úr vandanum þó að ríkisstj. komi með ákvæði um að falsa vísitöluna. Launþegasamtökin á Íslandi eru svo sterk að þau geta alveg örugglega ráðið við slíkan vanda. En ég tek undir það sjónarmið sem kom fram hjá forstöðumanni Þjóðhagsstofnunar í sambandi við verðbólgunefndarálitið: Ég er á þeirri skoðun, að með öllu sé útilokað, eins og ástatt er í íslenskum þjóðmálum, að ná nokkrum tökum á efnahagsvandamálum þjóðarinnar nema takist tiltekið samstarf og ákveðinn trúnaður á milli þeirra, sem stjórna landinu og ráða þar meginatriðum, og hinna, sem skipa hin stóru og þýðingarmiklu launþegasamtök í landinu. Ég tel hins vegar að það sé orðið alveg augljóst, að ekki getur orðið um neinn trúnað að ræða á milli þessarar ríkisstj. og launþegasamtaka eftir þær aðgerðir að aðferðir sem ríkisstj. hefur beitt. Því er það skoðun mín, að leiðin út úr vandanum sé að losa sig við þessa ríkisstj. og reyna að koma hér upp annarri ríkisstj., sem gæti náð þessu trausti. Ef það ekki tekst, halda menn áfram að taka þær kollsteypur sem hér hafa verið farnar undanfarin ár. Auðvitað er hægt að fella gengið þrisvar — fjórum sinnum á ári. Það er hægt að slíta í sundur launasamninga. Það er hægt að fara í verkfall oftar en einu sinni á ári. Það er hægt að halda áfram þessum þýðingarlausa leik. En ég spái því, að þeir fjölmörgu launþegar í landinu, sem hafa látið villa sér sýn að undanförnu, með því að þeir héldu að þeir gætu barist fyrir kjaramálum sínum og launamálum almennt í sínum stéttarfélögum þó að þeir héldu áfram að styðja Sjálfstfl. og Framsfl. á pólitíska sviðinu, ég spái því, að nú fari þessir launþegar að átta sig á villu síns vegar, þeir sjái að þetta er með öllu vonlaust verk sem þeir hafa staðið i, það þýðir ekki fyrir þá að berjast fyrir launakjörum við samningaborðið og ganga svo að kjörborði og kjósa íhald og Framsókn á eftir, sem síðan kippir öllum samningum úr sambandi, og hefja svo launabaráttuna á nýjan leik og kjósa íhaldið og Framsókn aftur og standa í þessari þráskák. Hinn stóri launþegahópur áttar sig á samhengi þessara mála hann hlýtur að gera það nú í kosningunum í sumar. Það er búið að gera svo mikið í þessum málum, að útilokað er annað en nú hafi menn lært lexíuna til fulls. Þá er þetta líka greið leið, þegar menn eru búnir að átta sig á því, því að þá er ekkert annað en að hætta að krossa við íhald og Framsókn og losa sig við þau einu sinni fyrir allt.