10.02.1978
Neðri deild: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2252 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Við höfum hlýtt hér á langar ræður, aðallega af hendi stjórnarandstæðinga. Hæstv, forsrh. reifaði það mál, sem hér liggur fyrir, það vel og rækilega að ég ætla mér ekki að fara út í einstök atriði. Það eru þó nokkrar aths. sem ég vildi koma á framfæri nú þegar við 1. umr., áður en málið fer til nefndar.

Ég get lýst yfir því, að sem deild styð ég þær ráðstafanir í efnahagsmálum sem ríkisstj, hefur nú í dag og að undanförnu borið fram á hv. Alþ. Þetta er þó með nokkrum fyrirvara sem ég mun víkja að hér á eftir.

Hér er til umfjöllunar stórt og viðurhlutamikið mál og veltur því að sjálfsögðu á miklu að hv. Alþ. taki hér ábyrga afstöðu, — þá á ég við stjórnarþm. jafnt sem stjórnarandstæðinga. Það veltur ekki síður á miklu, að fólkið í landinu, hver fullþroska einstaklingur, reyni einnig að taka ábyrga afstöðu. Við heyrum nú þegar utan úr þjóðfélaginu háværar mótmælaraddir. Það er með miklum upphrópunum staðhæft að ríkisstj. fari með stríð á hendur launþegum, stríðshanskanum kastað framan í verkalýðinn og þar fram eftir götunum. Þessi viðbrögð þurfa kannske ekki að koma á óvart, en víst er að þau eru síst til þess fallín að stuðla að þeim samkomulagsvilja og sáttfýsi innan þjóðfélagsins, sem væri í dag æskilegt og nauðsynlegt að stuðla að.

Ég held, illu heilli, að við hugsum í vaxandi mæli í hópum. Við höfum tilhneigingu til þess að varpa frá okkur ábyrgð, hver einstaklingur, jafnvel í afdrifaríkustu málum, í hendur fárra manna sem við höfum kosið sem forsvarsmenn eða fulltrúa. Þar af leiðandi færast mikil völd, óeðlilega mikil völd og óeðlilega mikil áhrif á hendur fárra manna. Of fáir menn taka of miklar ákvarðanir fyrir of marga. Ég fæ ekki betur séð en okkar ágæta lýðræði sé þannig í æ ríkari mæli að verða fulltrúalýðræði, — fulltrúalýðræði sem ég tel að feli í sér mikla hættu vegna þess að hlutur einstaklingsins verður minni, áhugi og vilji hvers einstaklings minni til þess að brjóta sjálfur hlutina til mergjar, til þess að komast sjálfur að niðurstöðu eftir því sem dómgreind hans og skynsemi segir honum til. Það fer ekki hjá því að maður spyrji, hve margt fólk stendur raunverulega að öllum þessum háværu mótmælum sem okkur berast nú í rauninni áður en þjóðin veit hvað um er að ræða. Ég vil vona að nú, þegar við stöndum frammi fyrir miklum vanda, verði hin persónulega ábyrgð einstaklinga í landinu sem mest. En af því, sem ég sagði áðan, leiðir að hin persónulega ábyrgð í þjóðfélaginu er að hverfa meir og meir.

Talað er um árásir, þvingunarlög, svík, riftun samninga og fleira í þeim anda. Ég sjálf tel, og það hygg ég að við séum öll sammála um, að þessir kostir, sem eru valdir í þessu frv. til l. um efnahagsráðstafanir, séu ekki góðir kostir. Og ég veit að núv. ríkisstj. og sá hluti Alþ., sem hana styður, ber þetta frv. ekki fram að gamni sínu. Ég tel það öruggt mál, að engin ríkisstj. fyrr né síðar gripi til óvinsælla aðgerða í þjóðfélaginu að gamni sínu. Við grípum til þessara ráða nú í nokkurs konar nauðvörn. Við teljum að þarna sé um að ræða varnaraðgerðir til þess að verja þjóðina frekari áföllum af vaxandi verðbólgu og jafnvægisleysi í efnahagsmálum sem við stöndum frammi fyrir nú og búum við.

Það má segja að þessar ráðstafanir geti með réttu kallast bráðabirgðaráðstafanir. Þær eru það að sjálfsögðu að hluta. En ég trúi því, að þær beini þróun efnahags- og verðlagsmála í heillavænlegri farveg en þau eru í nú og þess vegna séu þær réttlætanlegar, þótt þær séu ekki fram bornar af sérlega horskum hug.

Það er líka talað um að tímasetning þessa frv. sé einkennileg nú, þegar tvennar kosningar eru í nánd, að ríkisstj, skuli voga sér að bera fram till. sem feli í sér vissa skerðingu á kjörum almennings. Ég tel þvert á móti að það væri ábyrgðarleysi að láta hræðslu við fylgistap í kosningum hræða sig frá því að gera þær ráðstafanir sem við teljum að gera beri af brýnni nauðsyn. Hitt má segja og ég get fallist á það, að ráðstafanir á borð við þessar og þó kannske ekki sams konar hefðu mátt koma til fyrr. Ég tel að við hefðum á s. l. vori með betra móti getað gripið inn i, þegar séð varð hvert stefndi í launamálum, og gert þá ákveðnar ráðstafanir, sjálfsagt óvinsælar í bili, en hefðu verið haldbetri en útkoman varð úr kjarasamningum á s. l. vori og s. l. hausti. Það hefði verið eðlilegt að mínu mati og sjálfsagt, og ég lét það koma fram hér á Alþ. og víðar, að ríkisstj. hefði gripið inn i, jafnvel með róttækum ráðstöfunum í þá átt að við hreinlega hefðum búið til þak á efstu laun og sett einnig lágmarkslaun og látið launþegasamtökunum eftir að skipta því sem skipta mátti þar á milli. Þá hefðum við örugglega ekki staðið í þeim sporum nú sem við gerum í dag.

Ég fagna því, þó ég sjái ýmsa erfiðleika og ýmsa agnúa á þessu frv., að óumdeilanlega hefur verið reynt að gæta hagsmuna þeirra sem helst þurfa þess með, og þá á ég við að hæstu verðbæturnar koma á lægstu launin og að vísu nokkuð upp eftir, allt að 176 þús, kr. mánaðarlaunum. Ég fagna því einnig, að sérstaklega hefur verið litið til barnafólks sem þarf á sérstökum ráðstöfunum að halda til að standast hátt verðlag. Og síðast, en ekki síst, tel ég að sómasamlega hafi verið sinnt þörfum aldraðs fólks og öryrkja. Auðvitað eru það þessir hópar í þjóðfélaginu fyrst og fremst sem okkur ber tvímælalaus skylda til að verja skakkaföllum þegar á bjátar í okkar kaupgjalds- og efnahagsmálum.

Ég vil líka ætlast til þess, að verði þetta frv. að lögum, þá verði reynt eftir megni að halda niðri verðlagi í landinu. Ég veit að það verður erfitt, en það verður að reyna að því marki, að fólk sjái að fleira er gert en að ætlast til fórna af hálfu almennings.

Þá vil ég víkja fáeinum orðum að þeim atriðum sem ég vildi sérstaklega gera aths, við. Ég hef lýst því yfir í mínum þingflokki afdráttarlaust, að ég muni ekki standa að kauphækkunum nú til þeirra hópa í þjóðfélaginu sem mestar kauphækkanir hafa fengið á s. l. ári. Það er því ekkert upphlaup hér af minni hálfu, að ég aðeins stend við þá afstöðu mína. Sú afstaða beinist aðallega að tveimur fyrstu gr. frv., um verðbótaákvæði, Í mínum huga komu til greina þrír valkostir. Ég vil taka það fram strax, að þeir eru hér settir fram mjög einfaldir og alls ekki útfærðir sem skyldi, enda á ég varla von á því, að þeir nái fram að ganga. En samt sem áður vil ég ætlast til að sú n., sem fær þetta mál til umfjöllunar, taki tillit til þeirra. Þessir þrír valkostir að því er varðar verðbætur á laun eru þessir:

1. Að alls engar verðbætur kæmu á laun hærri en 300 þús, kr. Ég var í rauninni upphaflega með í huga alls engar hækkanir, hvorki grunnkaupshækkanir né verðbótahækkanir, til þeirra sem ern á hæstu launum. En ég get fallist á þetta til málamiðlunar, að við tækjum aðeins verðbæturnar.

2. Annar valkostur, sem er í rauninni nokkuð hliðstæður þessum fyrsta, er sá, að engar verðbætur kæmu á tekjur, sem hækkuðu á árinu 1977 um 70% eða þar yfir.

3. Þriðji valkosturinn, sem sennilega er sá einfaldasti, er sá, að fullar verðbætur kæmu á allra lægstu laun. Þá hef ég ekki skilgreint hvar ég set markið við allra lægstu laun. Það gætu verið 106 þús., sem er það lægsta í dag, og eitthvað upp fyrir 125 þús. eða jafnvel meira, en síðan bættist á öll önnur laun sama krónutala og lægstu launaflokkarnir fá. Þetta er sennilega of einföld leið til þess að hlustað sé á hana.

Ég veit að jafnvel þessi leið, krónutöluleiðin, og hinar tvær öllu fremur eru sjálfsagt flóknar í framkvæmd. En hvaða ráðstafanir af þessu tagi eru ekki flóknar í framkvæmd? Og ég tek alveg undir það sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Eðvarð Sigurðsson, benti á, að þessi verðbótaákvæði verða vafalaust mjög erfið í framkvæmd, og það er einnig tekið fram í grg, með frv. Þetta, að ég set markmið við 70% hækkun á laun, stafar af því m. a, að talað var um á s. l. hausti, þegar opinberir starfsmenn gengu til samninga, að þessi launahópur í þjóðfélaginu hefði borið skarðan hlut launalega að undanförnu. Þess vegna hef ég ekki sett markið við 60%, heldur 70%, til þess að mæta óskum þeirra opinberu starfsmanna sem töldu sig hafa dregist aftur úr launalega. Ég er hins vegar í engum vafa um að þegar 20% hækkun kemur ofan á þau 60% á ári sem voru almennar launahækkanir í landinu, þá er of langt gengið og búið að stofna til röskunar á hlutföllum í launakerfinu. Ég er ekki talsmaður allsherjar launajöfnunar. Ég tel að sjálfsögðu að menntun, hæfni og dugnaður eigi að ráða miklu um launaákvarðanir launþega. En ég er í engum vafa um að einmitt með þessum óraunhæfu, gegndarlausu hækkunum, allt upp í 80%, hefur launahlutföllum í kerfinu verið gróflega raskað. Ég vona því að þetta skoðist ekki frá minni hálfu sem árás á opinbera starfsmenn. Það væri þá um leið árás á sjálfa mig, því að ég er í þeirra hópi, bæði sem alþm. þessa stundina og sem kennari að atvinnu þar fyrir utan. Ég er líka viss um að þessi ráðstöfun, þótt við tækjum allar launahækkanir af þeim sem fengu yfir 70% hækkun á s. l. ári, skiptir engum sköpum fyrir okkar efnahagsástand í dag eða þróun í launamálum. Það veit ég vel. Þetta er ekki það stór hópur né heldur stórar upphæðir. En ég held að það sé óendanlega mikilvægt að við, sem nú erum að ráða málum þjóðarinnar, reynum svo að þjóðin sjái og finni, að gæta sanngirni, jafnvægis og réttlætis eftir því sem framast er unnt. Það er það sjónarmið sem fyrir mér vakir með þessum hugmyndum.

Við heyrum fregnir frá grannþjóðum okkar sem eru að þrefa um og velta vöngum yfir 2–5% launahækkunum heima hjá sér. Við höfum á s. l. ári hækkað laun um 60–80% og við hljótum að spyrja: Erum við Íslendingar ekki háðir sömu efnahagslegu lögmálum og grannþjóðir okkar? Þolum við til lengdar svo gegndarlausar kauphækkanir sem hafa átt sér stað hjá okkur að undanförnu, og þolum við það öllu lengur til viðbótar þeim árum sem við höfum verið með frá 30 og yfir 50% verðbólgu? Stöndumst við öllu lengur slíkt? Að vísu hafði okkur tekist að ná verðbólgunni niður um meira en helming, en því miður hefur stefnan breyst og hún heldur upp á við aftur. Mér dettur ekki í hug að staðhæfa að þessi verðbólguþróun stafi eingöngu af hækkuðum launum. Þar kemur margt til fleira. En þó er það nú svo, að okkar sérfræðingar staðhæfa að launaþátturinn sé 70% verðbólguvaldur, þannig að hvernig sem við litum á málið þýðir ekki að líta fram hjá því, að launaþátturinn er þarna ákaflega mikill örlagavaldur. Annað væri hreinasta lýðskrum.

Ég vona að þjóðin öll fái að vita sem gleggst hvað hér er um að ræða og að þjóðin öll, hver einstaklingur geri átak til þess að hugsa málið sjálfur, reyni að komast að niðurstöðu, eftir því sem dómgreind hans sjálfs segir honum til um. Ég veit að þetta er ákaflega erfitt. Það er kannske of erfitt til þess að maður geti ætlast til þess af almenningi úti í þjóðfélaginu. Við eigum fullt í fangi hér á Alþingi, við alþm., með að átta okkur á öllum þeim flækjum sem okkar launamál eru komin i. Þau eru orðin að völundarhúsi, þau eru orðin, er ég hrædd um, að hálfgerðri svikamyllu sem leikur harðast þá sem síst skyldi. Búið er að finna upp alls konar útúrkróka og skúmaskot til þess að gera fært að skapa misvægi og ranglæti í launamálum sem full þörf væri á að leiðrétta.

Í því sambandi og áður en ég lýk máli mínu hlýt ég að víkja örfáum orðum að 3. gr. frv. sem mjög hefur orðið tíðrætt um, en það er að óbeinir skattar skuli frá og með 1. jan. 1979 ekki hafa áhrif á verðbótavísitölu eða verðbótaákvæði í kjarasamningum. Ég er sammála því, sem hér hefur komið fram, að í rauninni er þetta ákaflega viðurhlutamikið ákvæði og getur reynst hættulegt í höndum á mönnum sem ekki eru ábyrgir. En ég lít svo á að þessi ráðstöfun sé spor í rétta átt til þess að leiðrétta allar þær skekkjur og alla þá vitleysu sem viðgengst í útreikningi vísitölu og vísitölugrundvallar. Ég held að í höndum ábyrgra stjórnvalda, sem ekki sitja við stjórnvölinn til þess að níðast á þjóðinni, heldur til þess að standa vörð um hagsmuni hennar, sé þetta ákvæði til bóta og í rétta átt. En ég skal viðurkenna að það kemur nokkuð snögglega inn nú. Þetta hefði þurft að vera einn liður af mörgum í læknisaðgerð á því vísitölukerfi sem við búum við í dag, Ég held að það mundi í höndum ábyrgra stjórnvalda vernda hagsmuni launþega frekar en tefla þeim í háska og ég held, að það mundi stuðla að auknu efnahagslegu jafnvægi þjóðarinnar í heild.

Ég hef þessi orð ekki fleiri. Enda þótt ég hafi ekki borið þessar þrjár hugmyndir mínar sem komu fram hér að ofan, fram í brtt., þá vil ég vænta þess að hv. fjh: og viðskn. hafi hliðsjón af þeim þegar hún tekur til umfjöllunar þetta vandasama mál. Ég vil líka taka það fram að ég sé ekki ástæðu til að ætla að þessu frv., eins og það liggur fyrir nú, megi ekki breyta á einn eða annan hátt ef um það gæti tekist samkomulag og samstarf hinna vinnandi stétta, launþega í landinu. Því hlýt ég að gera ráð fyrir því, að einskis verði látið ófreistað til að komast að niðurstöðu sem allir gætu sómasamlega við unað.