16.02.1978
Efri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2490 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég var því miður forfallaður í gær sökum veikinda frá því að heyra ræðu svokallaðs utanrrh. Íslands, ef mér leyfist að heiðra hann með sams konar nafngift með sömu rökum og hann heiðraði fund formanna Alþýðusambands Íslands áðan í ræðu sinni. Ég hygg að hæstv. utanrrh. hafi nú þarna gerst sekur um það sem honum er annars ekki gjarnt, þ. e. að óvirða einstaklinga eða samtök viljandi í ræðum sínum. Sannleikurinn er sá, að hefði hæstv. utanrrh. mælt af alhug þegar hann sagðist vera þess fýsandi að sest yrði á rökstóla til þess að ræða við launþegasamtökin í landinu um raunhæfar aðgerðir í efnahagsmálunum, einmitt til þess að ræða um aðrar leiðir en þá sem boðuð er í frv. ríkisstj., þá hefði hann ekki þurft að grípa til þess ráðs að viðhafa þess háttar nafngiftir um æðsta ákvörðunaraðila Alþýðusambands Íslands, eins og nú standa sakir.

Sannleikurinn í málinu er sá, að Alþýðusamband Íslands ásamt Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja í nánu samstarfi við stjórnarandstöðuflokkana hér á hinu hv. Alþ. hefur boðið aðra leið í efnahagsmálunum, aðrar lausnir nú til bráðabirgða, sem hefðu nægt til þess að ríkisstj. hefði ekki orðið að ógilda gerða kjarasamninga og rifta samningum sem hún sjálf hefur gert fyrir skemmstu við opinbera starfsmenn. Við heyrum hérna fullyrðingu eftir fullyrðingu um það, að þau ráð, sem launþegasamtökin benda á ásamt fulltrúum stjórnarandstöðunnar á Alþ., séu óraunhæf. Aftur á móti séu ráð ríkisstj. rökstudd af þeim hinum sömu Jónum Sigurðssonum vorra tíma sem lagt hafa á hin fyrri ráðin, sem íhaldsríkisstjórnir þessa lands hafa fylgt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar, þessir sömu Jónar Sigurðssynir og Jóhannesar vorra tíma sem lögðu á ráðin, svo við víkjum að þeim hlutanum í ræðu hæstv. utanrrh., sem laut að fjárfestingum í orkuverum og iðjuverum, — sem lögðu á ráðin um álverksmiðjuna í Straumsvík, sem lögðu á ráðin um málmblendiverksmiðjuna í Hvalfirði, sem leggja á ráðin um Hrauneyjafossvirkjun og leggja á ráðin um það, að nú, þegar búið er að koma upp Kröfluvirkjun, þar sem hún stendur fullsköpuð og vantar aðeins gufuna sem við vitum að gnótt er af allt í kringum hana, — sem leggja á ráðin um það, að nú skuli hætta framkvæmdum, það skuli hætt við að sækja gufuna sem þarf til þess að knýja vélarnar í þessari nytsömu virkjun.

Ef við athugum lítillega snilldina, sem felst í þeim ráðstöfunum sem ríkisstj. ætlar nú að knýja fram hér á Alþ. þrátt fyrir eindregin mótmæli launþegasamtakanna, ef við hugleiðum snilldina sem í þessum ráðstöfunum felst, með sérstöku tilliti til hins sérfræðilega álits, sem þeir Jónar Sigurðssynir vorra tíma og Jóhannesarnir hafa fært hér fram, þá liggur hér fyrir ein spurning, sem ég vildi gjarnan að hæstv. ráðh. og aðrir meðmælendur þessa frv. svöruðu. Meginástæðan, sem tilgreind er fyrir nauðsyn þessara ráðstafana, er sú, að launastéttirnar hafi fengið þess háttar kjarabætur s. l. sumar og í haust að þjóðarbúið rísi ekki undir þeim. Og þá er spurningin: Hver fékk mismuninn á þeim kauphækkunum, sem þessir kjarasamningar leiddu til, og þeirrar kaupmáttaraukningar, sem launamenn fengu? Launamenn fengu 8% kaupmáttaraukningu, atvinnuveitendur og aðrir launagreiðendur greiddu 60% og upp í 80% umfram þau laun sem áður voru greidd. Þá vildi ég spyrja hæstv. utanrrh.: Hver fær þá mismuninn, þessi 52–72%? Launamenn fá aðeins 8%, atvinnuveitendur og launagreiðendur borga frá 60–80%, hver er það sem fær þessi 52–72%? Einhver hlýtur að fá mismuninn. Og nú vildi ég gjarnan að hæstv. utanrrh. svaraði þessu.

E. t. v. ern þeir Jónar Sigurðssynir vorra tíma, sem ég gat um áðan, og Jóhannesar ekki tilbúnir til þess að nafngreina þessa aðila. En mér finnst að sú skylda hvíli eigi að síður á ríkisstj. við þessar aðstæður að segja hv. Alþ. frá því, hver fær þessi 52–72%, fyrst launamenn fá ekki nema 8%. Raunar væri kannske tímabært á þessari stundu, þegar svo er komið að rætt er um æðstu stjórn ríkisins og þetta nafn ber á góma, að menn spyrji: Hvaða Jón Sigurðsson? — þegar vitnað er í hin æðstu „átoritet“ með þessu nafni, og kannske við hæfi að beina því til hæstv. ríkisstj., hvort ekki sé hægt að fela Rannsóknaráði ríkisins að komast að því með einföldum mælingum, hvort einn ákveðinn Jón Sigurðsson fyrri tíma snýr enn þá eins í gröf sinni.

Því miður, liggur mér við að segja, þá er nú þrátt fyrir allt hæstv. sjútvrh. fjarverandi þessar umr. sem hér fara fram. Á það var drepið hér í deildinni, þegar rætt var um frv. um gengisfellinguna, með hve sáralitlum hætti sú ráðstöfun kom sjávarútvegi að gagni við lausn aðkallandi vandamála, eins og þau nú eru á landi hér. Sjútvrh. hæstv. er farinn til Sovétríkjanna, efalítið að ræða sameiginleg vandamál hins íslenska og hins rússneska sjávarútvegs á þeirri stundu þegar verið er að fjalla um úrslitaatriði í íslenskum efnahagsmálum.

Enn ítreka ég það sem fyrr, og vitna þá raunar til ræðu hv. þm. Odds Ólafssonar, með hvaða hætti er séð fyrir raunverulegum mjög svo aðkallandi vanda útvegsins og fiskiðnaðarins á Suðurnesjum með þeim ráðstöfunum sem hér er verið að gera. Verða fiskiðjuverin þar opnuð, þau sem lokuð eru þegar í næstu viku vegna þess bjargræðis sem sjávarútveginum þar syðra til handa er fólgið í þeim ráðstöfunum sem hér er verið að fjalla um? Munu þeir Dalvíkingar, sem eiga nú von á því að fulltrúar frá Kanada komi hingað til lands í næstu viku til þess að semja um leigu á Dalborginni, eina djúprækjutogara Íslendinga, til rækjuveiða við Kanada, — mega þeir eiga von á því strax eftir helgina að geta sent þeim skeyti og sagt: Við höfum ekki áhuga á því lengur að leigja Dalborgina eða gera hana út vestan hafs, vegna þess að nú er búið að leysa okkar efnahagsvanda hér heima með nýrri lagasetningu? Eða mun allt sitja við hið sama í rekstri þeirra fyrirtækja okkar, sem vinna að grundvallarvinnslu, eftir sem áður?

Hæstv. utanrrh. sagðist svo sem ekki hafa verið hlynntur því að við stofnuðum til kísiljárnsverksmiðjunnar á Grundartanga í Hvalfirði, síður en svo, sagði hann, þó hann hefði greitt atkv. með því. Þessi hæstv. ráðh., sem að allra góðra manna dómi er þeirri dyggð prýddur a. m. k. til jafns við velflesta stjórnmálamenn, að honum er eiginlegt að segja satt þegar það hentar honum, hann gaf það í skyn áðan í ræðu sinni, sem hann veit þó fullvel að er ósatt, að ég hefði einhvern tíma verið fylgjandi hugmyndinni um málmblendiverksmiðju í Hvalfirði. Hæstv. ráðh. veit að þetta er ósatt. Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni, að Stefán Jónsson, 5. þm. Norðurl. e., virtist vera kominn á þá skoðun nú samkv. upplýsingum annars staðar frá, að markaður væri hæpinn fyrir kísiljárn úti í heiminum. Hæstv. ráðh. er nefnilega fullkunnugt um það, að þm. Alþb. greiddu allir sem einn atkv. gegn samningnum við Union Carbide. Honum er það einnig kunnugt, að annar af ráðh. Alþb. í vinstri stjórninni bókaði mótmæli flokksins gegn þeim samningum. Honum er það fullkunnugt, að stofnanir Alþb. höfðu ekki fjallað um þetta mál fyrr en ákvörðunin var tekin um að standa gegn þessum samningum. Ef hæstv. ráðh. ætlar að afsaka brotalöm samvisku sinnar vegna þeirra atkv., sem hann hefur greitt gegn henni samkv. eigin yfirlýsingu í þessu máli, með því að Alþb. hafi staðið að þessari samningsgerð, þá bætir hann aðeins gráu ofan á svart.

Hæstv. ráðh. er líka fullkunnugt um það, til hvers á að nota raforkuna frá Hrauneyjafossi þegar þar að kemur. Hann situr í ríkisstj. með ráðh. sem hefur þegar gert grein fyrir því, að ætlunin er að nota þessa orku til þess að stækka álverið í Straumsvík, til þess að bæta við málmblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Þetta er hæstv. ráðh. fullkunnugt. Hann veit líka fullvel, hæstv. ráðh., nöfnin á þeim sérfræðingum sem hann og meðráðh. hans og meðflokksmenn hafa treyst á í þessum málum. Honum er fullkunnugt um það, að það eru sömu ráðgjafarnir sem lagt hafa á ráðin um þær ráðstafanir sem þessi ríkisstj. er nú að gera í efnahagsmálunum. Þetta eru sömu mennirnir: Jónar Sigurðssynir vorra tíma og svo einn Jóhannes.

Ég spurði áðan hvað orðið hefði af 52%–72% sem horfið hafa á leiðinni frá kaupgreiðendum til launþega síðan samningarnir voru gerðir í sumar sem leið og nú í haust. Mér leyfist nú, af því að ég nafngreindi ráðunautinn Jóhannes, að líkja til annars Jóhannesar og afdrifa hans. Þá mætti e. t. v. spyrja, hvort þessar prósentur hefðu e. t. v. lent hjá dóttur Heródesar, ef svo mætti nefna kaupsýslustéttina, í nokkurn veginn réttum tengslum við hæstv. forsrh. Ég las fyrir skemmstu, ef ég mætti, með leyfi forseta, rifja upp þá sögu, sögukorn eftir Anatole France, sem hét: „Týndu blöðin hans Jósefusar“, og átt er þar við sagnfræðing þeirra Gyðinga sem eyddi hálfri ævi sinni í að réttlæta svik sín við þjóð sína í Gyðingauppreisninni forðum, þar sem Anatole Franee segir frá því, hver orðið hafi hin raunverulegu örlög Jóhannesar skírara, og heldur því fram, að það hafi svo sannarlega ekki verið vegna þess að hann hafi neitað dóttur Heródesar um smágreiða, að svo fór nú sem fór fyrir honum, heldur vegna þess að hann hafi gert of mikið fyrir föður hennar. Hann var nefnilega settur í það að verða undir handleiðslu dótturinnar ráðgjafi hans í efnahagsmálum Ísraelsríkis og fann upp á því snjallræði að taka gula sandinn undan rótum Gólanhæða og blanda saman við silfrið í talentunum, því þar vantaði fé, eins og í ónefndu öðru smáríki alllöngu síðar, og endaði svo með því, að það var kominn svo mikill sandur í talenturnar, það má heita að þær hafi verið felldar það mikið í gengi, að þær voru orðnar stökkar og brotnuðu. Og svo veit Heródes ekki fyrr en honum er fært höfuð Jóhannesar á silfurfati og hann leit á það og sagði: „Ja hérna, Jóhannes: Lengri var nú sagan ekki.

Hæstv. ráðh. er fullkunnugt um það, að þessir hinir sömu efnahagsráðgjafar, sem ráðið hafa vegferðinni, ekki bara hjá þessari ríkisstj., heldur fyrri ríkisstj., með þeim afleiðingum, að í íslenskum efnahag er nú komið sem komið er, — þessir sömu ráðgjafar hafa lagt ráðin á um efnahagsráðstafanirnar sem ríkisstj. stendur nú að. Og hæstv. ráðh. hefur enn ekki fært að því rök, að ráð þeirra hljóti að vera betri heldur en ráð þau sem launþegasamtökin í landinu hafa bent á. Hann trúir þeim bara betur. Og svo er enn eitt, að ráð þessara sérstöku ráðgjafa, þessara Jóna Sigurðssona vorra tíma og Jóhannesar, falla betur að efnahagsmálastefnu Heródesar heldur en ráð launþegasamtakanna, sem vilja breyta í grundvallaratriðum vinnubrögðum í sambandi við ákvarðanatöku sem lýtur að íslenskum efnahagsmálum og bjóða samstarf í staðinn fyrir stríð.

Það voru ekki launþegasamtökin, það var ekki Alþýðusamband Íslands, sem blés í herlúðurinn, og ekki Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Þessir aðilar buðu viðræður um aðrar leiðir í efnahagsmálunum, ný ráð í efnahagsmálunum, þannig að komist yrði hjá átökum á vinnumarkaðinum. Það voru þessir aðilar sem buðu rökstólana sem hæstv. ráðh. ræddi um áðan, rökstólana sem hæstv. ráðh. neitaði að setjast á.

Ég verð nú að segja alveg eins og er, að fegnastur hef ég þó orðið af því, sem fram hefur komið í þessum umr., þeirri ákvörðun ríkisstj. að fella niður 3. gr. í frv. Þá varð ég nú fegnastur, því af henni þóttist ég mega ráða að mikið illt mundi spretta. En við höfum ekki enn þá fengið skýringu á því, hvers vegna 3. gr. var látin vera í frv. í upphafi, því að í gagnrýni á þessari grein hefur ekkert komið fram, sem hæstv. ríkisstj. átti ekki að vera ljóst fyrir. Enn hefur okkur ekki verið sagt frá því, hvað fram hafi komið við umr. og umfjöllun sem til þess varð að greinin var tekin út. Tæpast trúi ég því, þó að svo beri upp á að það gerist samdægurs, að Sjálfstfl. birti framboðslista sinn við alþingiskosningar í Reykjavík og að fyrsti maður listans er hv. þm. Albert Guðmundsson, — tæpast trúi ég því, að hér sé það boðað að hæstv. forsrh. vilji ekki með þessum hætti binda hendur eftirmanns síns, því svo sem alþjóð veit hefur það ætið farið saman, að fyrsti maður á lista Sjálfstfl. í Reykjavík hefur verið forsætisráðherraefni flokksins. Tæpast trúi ég því, að þetta sé ástæðan. Hún hlýtur að vera einhver önnur. Er ástæðan sú, og nú er við hæfi að hæstv. utanrrh. svari þeirri spurningu, — er ástæðan sú, að þeir forustumenn stjórnarflokkanna, hæstv. dómsmrh. Ólafur Jóhannesson og hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson, hafi komið sér saman um það, að hræðilegt væri að láta koma fram með þessum hætti yfirlýsinguna um stjórnarstefnuna sem framfylgt verði að þessum kosningum loknum, ef flokkarnir fái atfylgi til myndunar annarrar stjórnar á næsta vori? Er þetta djúpt hugsuð aðferð til þess að lýsa yfir því, hvaða stefnu verði fylgt að kosningum loknum? Eða að öðrum kosti, er þetta bara asnaskapur og þá jafnt 3. gr. í sinni upprunalegu mynd sem ákvörðun um að taka hana út aftur?

Við höfum fyrir skemmstu lesið yfirlýsingu frá samtökum atvinnuveitenda, þar sem þau samtök hrósa sér af framsýni í viðræðunum við launþegasamtökin í sumar sem leið. Þeir rifja það upp þar, atvinnurekendur, að þeir hafi spáð því, að samningar af því tagi, sem þeir undirrituðu að yfirlögðu ráði eða, eins og yfirlagt ráð er stundum kallað, með köldu blóði, við verkalýðsfélögin s. l. sumar, mundu leiða til þess. að verð á Bandaríkjadollar yrði orðið 259 kr. í febrúar, þ. e. a. s. þeim mánuði sem við nú höfum, og kalla þetta spásögn. Ýmsum er aftur á móti ljóst, að þeir fara nú með stjórn á landi hér, sem er það mjög svo innan handar að ráða gengi íslensku krónunnar, og þeir aðilar hljóta nú að kalla þessi orð fremur hótun en spásögn og það, sem nú hefur gerst, framkvæmd á hótun um að beita afli sínu innan ríkisstj. til að framkvæma þessa gengislækkun.

Ég ítreka það nú, sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, að það hryggir mig, að ég skyldi ekki heyra þá ræðu hæstv. utanrrh. í gær sem knúði hann til þess að halda svo vonda ræðu í dag. En ekki kemur alltaf dúfa úr dúfueggi, svo sem sögurnar herma, þó hitt gerist sjaldnar. En ég ætla að ljúka orðum mínum með því að ítreka þessa bón mína til hæstv. ráðh., að hann segi mér og okkur hér í d., hvað hefur orðið af mismuninum á 8%, sem launþegar hafa fengið, og þeim 60–80%, sem atvinnurekendur og aðrir launagreiðendur inna af höndum, ef vera skyldi, — ég er ekki að segja að það sé, — ef vera skyldi að það kæmi í ljós, að einmitt í þessum mismun fælist að verulegu leyti sá 76% hagnaðarauki sem viðurkennt er að versluninni, sem ég leyfði mér áðan að kalla dóttur Heródesar, hefði hlotnast á árinu.