28.02.1978
Sameinað þing: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2658 í B-deild Alþingistíðinda. (1936)

338. mál, símamál

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Í ræðu hæstv. samgrh. kom mjög margt merkilegt fram um stöðu símamála í landinu í dag. Ég held að ég hafi náð því nokkurn veginn rétt, sem hann sagði, að samkv. fjögurra ára áætlun væru verkefnin það mikil, að kosta mundi nokkra milljarða að leysa þau. Einnig tók hann fram framarlega í ræðu sinni og nú í lokin aftur, að Landssíminn hefur ekki úr öðru að spila en eigin tekjum. Það hefur komið mjög oft fram í ræðum manna á Alþ. og seinast fyrir viku, að víða ríkir ástand sem má kalla neyðarástand, í símamálum okkar. Ég vil bera upp þá ósk við hæstv. samgrh., að hann geri í skýrslu til Alþ. grein fyrir stöðu þessara mála. Ég held að það hljóti að vera jákvætt til úrlausnar, að við fáum yfirlit yfir þarfir Landssímans og hversu langur biðlistinn er í hverju kjördæmi, þegar vandamálið er eins mikið og hann hefur glöggt gert grein fyrir nú. Ég held að það hljóti að vera eðlilegt, að Alþ. fái yfirlit nú um stöðu þessara mála, þar sem allir hv. þm. eru sammála um að gera verði sérstakt átak til að leysa þennan hnút. Hann virðist vera víða mun torleystari en við sumir þekkjum til, hér í nágrenni okkar. Ég mælist til þess, að hæstv. ráðh. gefi Alþ. yfirlit yfir þennan mikla vanda, sem hann var að gera grein fyrir áðan þegar hann svaraði fsp. hv. 5. þm. Norðurl. v. Sama kom reyndar upp í umr. um símamál fyrir viku. Mér finnst vel tímabært að Alþ. fái sérstaka grg. um þetta mikla vandamál, sem virðist blasa við Pósti og síma, ef hann á að mæta þeirri eftirspurn sem þegar er fyrir hendi og sýnilegt er að liggur einnig fyrir áætlun um á næstu fjórum árum.