26.10.1977
Neðri deild: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

29. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hv. þm. Magnús Torfi kom nokkuð víða við í ræðu sinni áðan. Komu þar ýmsir við sögu: ekkja Maós formanns, Mai Zetterling og General Transport Workers Union, svo að fáeinir aðilar sé nefndir. Allir þessir aðilar voru kvaddir til vitnis um það, hvað málflutningur minn í þessum umr. væri fáránlegur.

Eins og hæstv. forseti tók fram, má ég nú aðeins gera hér aths.; ég er búinn að tala mig næstum dauðan, eins og við köllum það. Þó vænti ég þess, að hæstv. forseti, sem er einn og sami maður og sá sem ég ætla að svara hér, taki svolítið tillit til þessa og leyfi mér fyrir bragðið að tala ofurlítið lengri tíma.

Að sjálfsögðu er það næstum að segja ósvífni að fara að eyða tíma þingsins í svör við þeim fréttum, að ég hafi fyrir nokkrum árum, ásamt konu minni, búið í tilteknu húsi í Englandi svolítinn tíma. Það var reyndar ekki í eigu þeirrar kvikmyndastjörnu sem hv. þm. Magnús Torfi nefndi, heldur hafði hún átt aðild að því að útvega okkur þetta hús til stuttrar dvalar. En jafnvel þó að hún hefði átt þetta hús vil ég taka fram, að ég mundi ekki þar með telja að ég bæri ábyrgð á kvikmyndaframleiðslu hennar. Það gæti jafnvel hugsast að þær skoðanir, sem komu fram í ívitnunum hv. þm. Magnúsar Torfa í danskan kvikmyndaspeking, þær skoðanir á kvikmyndum Mai Getterling væru nærri mínum skoðunum. En slíkt mundi auðvitað engu breyta um það, að ég er ágætur vinur þessarar ágætu konu og manns hennar, sem heitir David Hughes og er ágætur rithöfundur.

Ekkju Maós formanns og tilraunir hennar til að ráða menningunni í Kína — ég get nú ekki farið langt út í það. Ég tek undir það með hv. þm., að það kann ekki góðri lukku að stýra þegar einstaklingar ætla að taka sér allt vald í þessum efnum, segja fólki fyrir, og ég vísa því til föðurhúsanna að ég hafi hér staðið í þessum ræðustól undir því formerki að ég væri að eigin áliti sérstaklega útvalinn talsmaður alþýðu. Ég hef hins vegar leyft mér að benda á í sambandi við það fyrirtæki sem hér er til umr., að því eru fengin ærið rífleg fjárframlög af opinberri hálfu. Ég hef ekki talið þessi fjárframlög eftir, en ég hef gert samanburð á þeim og þeim fjárframlögum sem ætluð eru til menningarstarfsemi úti á landsbyggðinni, mjög svo þýðingarmikillar menningarstarfsemi.

Hvað veldur þessum ágreiningi fyrst og fremst? Hvernig stendur á því að eftir aldarfjórðung er svona mikið djúp staðfest á milli okkar, þessara tveggja þm., milli mín og hv. þm. Magnúsar Torfa Ólafssonar? Ég hef ósköp einfalt svar við því. Í fyrsta lagi er hv. þm. Magnús Torfi Ólafsson kominn býsna langt til hægri síðan við unnum saman á Þjóðviljanum. Þar að auki, — þó að ég segi sjálfur frá, ég vona að hv. þm. Magnús Torfi misskilji það ekki og fari að líta á það sem sjálfshól, — þar að auki hefur ferill okkar síðan verið næsta ólíkur. Rétt um það bil sem við hættum að starfa saman á Þjóðviljanum fluttist ég í sjávarpláss austur á landi og síðan hef ég ekki átt heima hér í Reykjavík. Ég er neyddur til að búa hér á veturna af augljósum ástæðum. En síðan hefur lögheimili mitt ekki verið í Reykjavík. Ég kæri mig ekki um að búa hér með allri virðingu fyrir þessum æskustöðvum mínum. Lífsviðhorf okkar er fyrir bragðið, — hvað sem við kunnum að hafa lesið okkur til í fræðunum í gamla daga, Marxisma og slíku, og jafnvel þó að við teldum okkur enn í dag báðir tveir Marxista er lífsviðhorf okkar orðið gerólíkt. Ég er ekki þar með að segja að lífsviðhorf mitt sé gáfulegra eða á einhverju æðra plani en lífsviðhorf Magnúsar T. Ólafssonar. Það er bara annað lífsviðhorf. Það byggist á allt annarri reynslu en lífsviðhorf hans. Ég er ekki í neinum vafa um að á þessum árum, sem þessi gáfaði maður — að mörgu leyti stórgáfaður maður, hefur dvalist hér í Reykjavík, hefur honum orðið mjög ágengt í því að þroska sjálfan sig andlega, bæði á sinfóníutónleikum og á öðrum vettvangi, á meðan hefur e.t.v. verið að aukast í manni eins og mér það sem mundi vera kallað sveitamennska í ekki mjög góðri merkingu. En við þessu fær enginn gert. Á reynslu sinni byggir hver maður lífsviðhorf sitt. Látum gott heita að í sambandi við músíkina byggi hv. þm. Magnús Torfi lífsviðhorf sitt á sinfóníutónleikum og mjög svo uppbyggilegum samræðum við hámenntað fólk í hléinu vestur í Háskólabíói, en ég aftur á móti á því að stunda ekki alveg eins menningarlegar samkomur uppi í sveit. Ég tel þó nauðsynlegt að hér á hinu háa Alþ. komi sjónarmið okkar sveitamannanna rækilega fram og ekki hvað síst í sambandi við menningarmál.

Af hverju hitnar manni í hamsi við að tónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar séu aðeins sóttir af sárafáum hér í Reykjavík? Ég er ekki í neinum vafa um að það fólk er allt af hinni mjög svo menningarlega þroskuðu stétt sem nefnist á útlensku „intelligensía“. Ég er ekki í neinum vafa um að það er það fólk sem stundar sinfóníutónleikana í Háskólabíói, en ekki verkalýðurinn. Af hverju hitnar manni í hamsi þegar það blasir við að ekkert stendur á fjárveitingu til þessarar stofnunar? Vel að merkja: ég er ekki að telja þær fjárveitingar eftir. Gagnrýni mín hefur beinst að því, að þarna sé ekki um að ræða nógu almenna listiðkun. Það þarf að gera eitthvað til þess að bæta úr því. En mér hitnar í hamsi þegar þetta er svo borið saman við þau fjárframlög sem ætluð eru til menningarstarfsemi úti á landi. Það er vegna þess að ég þekki til úti á landsbyggðinni og veit hvað fólk er þar tilbúið að leggja á sig til þess að taka þátt í menningarstarfsemi.

Ég var í vor á menningarviku austur á Höfn í Hornafirði. Eitt atriðið á þeirri menningarviku var kórsöngur. Menn höfðu komið á æfingar dag eftir dag, kvöld eftir kvöld, langan veg og skamman, þó yfirleitt langan veg. Sumir höfðu ekið dag eftir dag til þess að komast á þessar æfingar. Hvað halda menn langan veg? 50 km, eins og héðan austur á Þingvöll? 100 km, eins og austur á Þingvöll og til baka aftur? Nei, 250 km höfðu þeir tekið á hverjum einasta degi sem lengsta áttu leið að fara heiman og heim. Það er töluvert meira en hálf leiðin héðan úr höfuðstaðnum til Akureyrar. Þetta eru menn tilbúnir að leggja mikið á sig fyrir menninguna úti í dreifbýlinu. Ég veit ekki til þess að einn eða annar menningarsjóður hafi verið látinn borga olíuna eða bensínið á jeppana sem þarf til að koma þessu fólki fram og aftur. Og eftir því var söngurinn góður, einkenndist af sannri sönggleði, tiltölulega laus við tilgerð, eins og á að vera höfuðeinkenni alls söngs: sönggleði, ekki tilgerð.

Sjálfur hef ég tekið þátt í starfsemi af þessu tagi úti á landsbyggðinni, leikstarfsemi uppi í mínum dal, Reykholtsdal, og þess vegna getað fylgst náið með hvað fólk leggur á sig og þá um leið hvaða þýðingu þessi starfsemi hefur fyrir byggðarlagið, — hvaða þýðingu það hefur þegar allt byggðarlagið sameinast til þessa átaks, ekki bara þeir sem taka þátt í leiksýningunni, líka hinir, sem eiga að sjá um miðasöluna, auglýsingarnar o.fl., o.fl., áhuginn að fylgjast með hvernig gangi með aðsókn o.s.frv. Allt byggðarlagið lyftist fyrir þetta átak, — lyftist kannske ekki á annað eins æðra plan og fólk á sinfóníuhljómleikum í Háskólabíói, en lyftist. Og kannske er þarna einmitt mest þörfin. Æfingar eru kvöld eftir kvöld. Menn koma þreyttir frá vinnu sinni, konur og karlar. Yfirleitt er ekki hægt að byrja æfingar fyrr en kl. 10, því að þarna er ekki neinn þjóðleikhússtjóri eða annar leikhússtjóri sem ákveður æfingatímann, heldur kýrnar. Það er ekki hægt að byrja æfingar fyrr en búið er að mjólka. Svo er æft fram á nótt. Og menn vakna til mjalta eða gegninga eldsnemma morguninn eftir. Og svo kemur aftur kvöld og menn halda áfram að taka á sameiginlega, gleðjast við félagsskapinn, gleðjast við árangurinn.

Ég vil ekki halda því fram að Magnús T. Ólafsson mundi ekki skilja nauðsyn þessa, að efla þessa starfsemi, og mundi ekki njóta hennar og taka þátt í henni af áhuga ef svo bæri undir. En það ber ekki svo undir. Menningarvettvangur hans er ekki þarna. Og hér um að ræða eitt af æðimörgu sem veldur því varðandi landsbyggðina, sem við svo nefnum, og þéttbýlið, að það fer að verða erfiðara og erfiðara fyrir fólk að skilja hvort annað, kallast á yfir gjána. Það er mikil nauðsyn fyrir þjóðfélag okkar að við tökum höndum saman um að samband náist og brúum þessa gjá. Það verður ekki gert með því að mismuna á einn eða annan hátt, mismuna landsbyggðinni og láta hana gjalda þess að þeir, sem þar búa, eru ekki hér í hlaðvarpanum hjá þeim stofnunum sem yfir fjármagninu ráða og senda frá sér stærstu úrskurðina í menningarmálum.

Að lokum ítreka ég þá hvatningu mína í mestu vinsemd, að athugað sé hvernig háttað sé, eins og hv. þm. Karvel Pálmason orðaði það, samsetningu gesta á sinfóníutónleikum. Það ber reyndar ekki að skilja svo, að farið sé að sálgreina hvern og einn. Við eigum þarna að sjálfsögðu við hópinn. Okkur grunar að þarna vanti alþýðu manna. Við vildum gjarnan að hún færi að koma þarna við sögu. Okkur grunar að þetta sé yfirleitt sami hópurinn, þessir tæplega þúsund menn, kannske ekki einu sinni það, sem stunda þessa tónleika, en þeir eru, að mér skilst, 10 á ári. Ef ætti að reikna allt til, allan stuðning, alla niðurgreiðsluna, þá mundu miðarnir kosta kannske 10–15 þús. hver. Ef þetta er svona, þá er hér aðeins um að ræða þröngan menningarklúbb, mjög svo þröngan þegar tekið er tillit til þess að hljómsveitin heitir Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þá er þetta þröngur klúbbur fólks sem hefur áhuga á æðri tónlist, eða eins og það er stundum nefnt í gamni: hefur áhuga á „músík fyrir unnendur æðri tónlistar“.

Svo vil ég að lokum láta í ljós ánægju mína yfir þeirri brtt. sem hér er fram komu frá hv. þm. Lárusi Jónssyni. Ég styð hana heilshugar. Svo þakka ég mínum fornvini af Þjóðviljanum, hæstv. forseta, fyrir að leyfa mér að standa hér miklu, miklu lengur en þingsköp í raun og veru heimiluðu honum. Ég fyrirgef honum þetta brot á þingsköpum.