01.03.1978
Neðri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2719 í B-deild Alþingistíðinda. (1989)

203. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir) :

Hæstv. forseti. Það var svo sem vænta mátti, að hinn tignarstóri fugl, örninn, ætti hér málsvara á Alþ. Ég hefði nú haldið að æðarfuglinn ætti það skilið af okkur, einnig, að við hefðum taugar til hans, og höfða ég þá ekki sérstaklega til mín, sem hef alist upp með æðarfugli og lít á hann nánast sem mennska vini mína, eins og flestum, að ég hygg, er farið sem eru aldir upp við æðarvarp, því að æðarfuglinn hefur, held ég, fullt eins mikinn „karakter“ og örninn þó hann sé ekki eins grimmur. Hann hefur til að bera ýmsa ákaflega jákvæða og elskulega kosti, tryggð og vinfesti, sem jafnvel ná út yfir gröf og dauða. Ég má til með að upplýsa það hér, að æðarkolla, vinkona mín og heimamanna heima í Vigur, sem var auðkennileg að því leyti, að hún var blind á öðru auga og hafði átt hreiður við bæjargaflinn árum saman, þessi blindi fugl, vinur okkar, kom fram líklega 20 árum eftir að hún hlaut að vera öll. Hún kom fram á miðilsfundi ásamt með gamalli konu, gömlu dyggðahjúi sem varð oft gengið fram hjá hreiðri æðarkollunnar við bæjargaflinn hér í eina tíð. Þetta segi ég nú án þess að ég sé að halda uppi neinni vörn fyrir „spíritisma“, en margt gerist þar einkennilegt og þetta er meðal þess allra merkilegasta sem ég hef heyrt frá svokölluðum miðilsfundum.

En þetta var útúrdúr. Ég held að afstaða hv. 3. þm. Austurl. sé á furðumiklum misskilningi byggð og eiginlega undarlegt, að hann skuli gera sig sekan um útúrsnúninga í þessu máli. Niðurlag grg. okkar fyrir till. endar svona, og ég bið hv. þm. að lesa það, hver er okkar hugur í þessu máli: „Auk þess“ — segir í niðurlagi grg. — „væri tryggð betur en nú vernd arnarins og í senn æðarvarpsins gegn ágangi og tjóni af hans völdum.“ Sannleikurinn er sá, og ég hef heyrt bændur í Breiðafjarðareyjum lýsa áhyggjum sínum yfir því, að svo kynni að fara, þegar þolinmæði varpbænda væri þrotin, að þeir hreinlega bönuðu erninum. Það hefur skeð, og ég tel að þessi till., þessi breyt. á lögunum, mundi tryggja, kannske ekki fullkomlega, en hún kynni að geta afstýrt því, að slíkt ætti sér stað. Ég er sammála hv. þm. Sverri Hermannssyni að svartbakurinn er mesti skaðvaldur og e. t. v. meiri en örninn. En nú er hvarvetna að sjá í lögum um fuglafriðun og fuglavernd, og ég vænti þess að hv. þm. hafi lesið lögin yfir, að þar er iðulega tekið fram, að ýmis friðunarákvæði geti náð til sérstakra, afmarkaðra svæða. Það er einmitt það sem þetta frv. gerir. Það er borið fram, eins og segir í upphafi grg., með sérstöku tilliti til varplanda í Breiðarfjarðareyjum. Og svo ég vitni enn í varpbónda af Breiðafirði, tjáði hann mér ekki alls fyrir löngu, að nú í vetur hafi verið óvenjulega mikið um örn í byggðum eyjum Breiðafjarðar, meira en hann muni eftir áður, og þess vegna séu bændur nú sérstaklega uggandi um varpið á komandi vori.

Það má tala fjálglega um náttúruvernd og mannúð í umgengni við dýr. En ég bið hv. þm. að gera sér í hugarlund hvað skeður þegar örn venur komur sínar í varpland. Hann rífur upp hreiðrin. Hann rífur æðarfuglinn á hol eða hrellir hann að beini og þannig er aðkoman fyrir varpbónda að lokinni heimsókn arnarins. Ég er ekki að segja að það sé alltaf með þessum ósköpum, en þetta skeður, svo að þó við viljum vernda örninn, þá skulum við ekki gleyma því, að þetta er ránfugl. Þetta er hræfugl. Hann er það. Hv. þm. gat þess réttilega. Annars kom ég ekki inn á eiturspursmálið í þessari till. Það var óþarfi að fara út í það. Ég veit að ernir hafa drepist af eitri þegar eitrað hefur verið fyrir svartbak og hrafn.

Ég er hrædd um að hv. þm. og útgerðarmanni Sverri Hermannssyni yrði ekkert um það; ef þorskurinn væri hrakinn af miðum Ögra og Vigra af einhverjum illum vættum sem bægðu fiskinum frá veiðitækjum hans í sjó. Þess vegna ætti hann fullvel að geta skilið, að varpbændum hitni í hamsi þegar þeir sjá aðalnytjagrein á búinu lagða jafnvel í rúst. Við skulum vera sanngjörn og líta á hlutina æsingalaust. Ég vísa því á bug, að ég sé að gera hér árás á örninn. Ég er þvert á móti, að ég tel að bera fram breytingu á lögum sem gæti verkað alveg eins til varnar fyrir hann eins og til árásar. Það er rétt hjá hv. þm. að þessi grein, sem vitnað er til, 27. gr., hljóðar um það að ekki megi viðhafa styggð og truflun í varplandi hinna friðuðu fugla. Ég vil líta svo á að það séu ýmsar aðferðir tiltækar aðrar en að steypa undan erninum með því að hrekja hann frá hreiðrinu og lofa honum ekki að komast að eggjum sínum. Það eru ýmsar aðrar aðferðir til að stugga honum frá með öðrum hætti.

Ég veit til þess, að arnarhjón, sem urpu í Skáleyjum s. l. ár, komu ekki upp ungum sínum. Það var ekki af því að þeim væri veitt styggð. Dr. Finnur Guðmundsson fuglafræðingur veitti mér í rauninni skýringu á því, að karlfuglinn hefði verið ófrjór í þessu tilviki, verið margfalt yngri en kvenfuglinn og þess vegna hefði eggið verið ófrjótt. Þetta höfðu þeir fuglafræðingar athugað. Og ég vil taka fram að lokum, að þetta frv. er flutt í nánu samráði við dr. Finn Guðmundsson, sem ég hygg að sé alveg jafnannt um örninn og hv. þm. Sverri Hermannssyni.

En ég endurtek: Ég vil að þetta verði grandskoðað með hagsmuni varpbænda, með hagsmuni æðarfuglsins og með hagsmuni arnarins fyrir augum.