12.10.1977
Neðri deild: 2. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

Umræður utan dagskrár

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þau orð margra, að hér er hreyft ákaflega brýnu máli, og ég er mjög ánægður með að það skuli gert í upphafi þings þegar þingkosningar eru tiltölulega skammt undan.

Ég held að það væri ákaflega nauðsynlegt að hreyta kosningalögum eftir því sem unnt er til þess að auka jöfnuð á milli manna. Í mínum huga er kosningarréttur mannréttindi, og öll saga þeirrar baráttu, sem háð hefur verið fyrir kosningarrétti, staðfestir það sjónarmið. Ég vil minna á að það er ekkert ýkjalangt síðan konur höfðu ekki kosningarrétt. Það er ekki ýkjalangt síðan kosningarréttur var bundinn við þá eina sem áttu eignir. Barátta fyrir almennum kosningarrétti hefur alla tíð verið mannréttindabarátta, og í mínum huga er kosningarrétturinn mannréttindi og á að vera jafn hjá öllum þegnum þjóðfélagsins, hvort sem þeir eiga eignir, eins og áður var talað um, eða hvert er kynferði þeirra og einnig hvar sem þeir eru staddir í þjóðfélaginu.

Ég er ekki sammála því sem hv. þm. Jón Skaftason sagði, að ástæða væri til að vægi kosningarréttar sé meira úti um land heldur en hér í Reykjavík. Ég tel ekki að það eigi að leysa vandamál af þessu tagi, sem tvímælalaust eru uppi í þjóðfélaginu, með því að skerða mannréttindi. Það er röng stefna. Það verður að leysa þennan vanda eftir einhverjum öðrum leiðum. Menn eiga að hafa jafnan rétt á þessu sviði hvar sem þeir eru búsettir á landinu. Annað er ekki í samræmi við lýðræðishugmyndir okkar tíma.

Ég veit það ákaflega vel, að þeir, sem eru fulltrúar utan af landi, þurfa að sinna ákaflega mörgum verkefnum hér umfram t.a.m. okkur fulltrúa Reykjavíkur til þess að aðstoða kjósendur sína í samskiptum við ýmsa opinbera aðila sem aðsetur hafa hér í Reykjavík, og þar er unnið ákaflega mikilvægt starf. En ég vil ekki að þetta sé tengt við þingmennskuna á þann hátt, að sagt sé að Reykvíkingar eigi að hafa skert mannréttindi á við aðra þegna þjóðfélagsins. Það held ég að sé algerlega rangt. Þetta atriði verður að leysa eftir öðrum leiðum en þeim að skerða mannréttindi. Við verðum að halda fast í það sjónarmið, að allir eigi að hafa sömu mannréttindi á þessu sviði, og leysa þau vandamál, sem þessu eru tengd, út frá því sjónarmiði.

Ég hef mínar hugmyndir um hvernig hægt er að leysa þessi mál þannig að mannréttindi séu tryggð jafnt hjá öllum þegnum þjóðfélagsins. En ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að tíunda það núna. En ég vil ítreka það, að mér er ánægjuefni að þetta mál hefur verið tekið upp þegar í upphafi þings, og ég vona, að þingheimur beri gæfu til að gera þær breytingar sem unnt er að gera í lýðræðisátt þegar fyrir næstu kosningar.