07.03.1978
Sameinað þing: 52. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2780 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

173. mál, Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. mjög vel fyrir svörin, þau eru athyglisverð. Eins og ég hafði grun um, kemur meginframlagið frá þessum hóp manna. Ég held að ég brjóti ekki neinn trúnað þó að ég geti þess, að þessir menn hafa litla fyrirgreiðslu fengið hjá Fiskveiðasjóði, en vegna sérstaks velvilja hæstv. sjútvrh. hefur hann gengið í það fyrir einstaka menn, sem áttu við sérstaklega erfiðar aðstæður að búa, að fá lítils háttar lán úr Fiskveiðasjóði.

Nú eru uppi áform um það að koma með nýja löggjöf um lagmetisiðnaðinn í landinu og nýja tekjuöflun. Ég veit ekki hvað verður í því efni, en það er nauðsynlegt að íhuga þetta mál allt saman.

Hér kom ekki fram, að á s. l. 5 árum hefur ríkissjóður lagt þessari stofnun fram liðlega 100 millj. kr. Hér kom ekki heldur fram, að þessi stofnun hefur keypt núna um 400 m2 húsnæði og innréttað. Er það metið á milli 70 og 80 millj. kr. og mun vera einhver fínasta skrifstofa á öllu Íslandi. Það getur vel verið að nauðsynlegt sé að gera slíkt, þegar næsta þriggja ára áætlun um sölustarfsemi og markaðsöflun er upp á rúmar 300 millj. eins og hæstv. ráðh. gat um, en engu að síður hlýtur þetta að vera slík ráðstöfun á fjármagni, að við hljótum að fylgjast með á Alþ. Það er útilokað annað. Og ég vil hreyfa þessu máli í tæka tíð, ef þetta frv. er á næstu grösum, til þess að menn hugleiði það í tíma, með hvaða hætti á að leysa vandamál lagmetisiðnaðarins í landinu. Það verður ekki gert með meirihlutaframlagi frá grásleppuveiðimönnum um allt land. Það þarf meira til og er algjör ósanngirni, ef ekki verður bætt úr.

Það væri hægt að ræða þetta meira, en ég þakka hæstv. iðnrh. mjög vel fyrir þessar upplýsingar sem leiddu margt athyglisvert í ljós.