07.03.1978
Sameinað þing: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2799 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

83. mál, raforkusala á framleiðslukostnaðarverði til stóriðju

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka til máls við þessa umr. En ég stíg í ræðustól vegna aths., sem hv. þm. Ingólfur Jónsson gerði hér áðan. Ég læt þessa strax getið vegna þess að ég sé að það er fararsnið á hv. þm., en ég vildi gjarnan að hann yrði viðstaddur og heyrði aths. mína.

En fyrst vil ég þakka hv. 1. flm. þessarar till. fyrir þá ræðu, sem hann flutti hér áðan, fyrir þá úttekt, sem hann gerði á þeim málum, sem till. þessi fjallar um. Það hafa fáar ræður betri verið fluttar um þessi mál hér á Alþ. og verður sannarlega gott í vor í kosningaslagnum að hafa Alþingistíðindi við höndina til þess að vitna í ýmislegt sem fram kom í ræðu þessa hv. þm.

En sem sagt, ástæðan til þess að ég kem nú í ræðustólinn er skringileg aths., sem ég heyrði frá hv. þm. Ingólfi Jónssyni áðan.

Hér um daginn, þegar rætt var um till. okkar Alþb.-manna um það að nefnd kanni markaðshorfur Grundartangaverksmiðjunnar og framkvæmdirnar verði stöðvaðar, ef sýnilegur verði taprekstur á þessari verksmiðju, og aðstaðan þá notuð til einhvers skynsamlegra heldur en að framleiða járnblendi, þegar ég tók þátt í þeim umr., þá vitnaði ég í samtal sem ég átti við forstjóra Grundartangaverksmiðjunnar, ýmislegt sem hann hafði látið sér um munn fara í mín eyru varðandi markaðshorfurnar. Ég sleppti því að geta um eitt, vegna þess að ég hélt að þar væri um að ræða algerlega einstaklingsbundna truflun að því er varðar hagfræðilegan þankagang. Hann sagði, að segja mætti að nú væri einmitt mjög hagstæður tími til þess að reisa slíka verksmiðju. Af hverju? Vegna þess að markaðshorfur eru svo slæmar. Ástæðan er sú, að þá er hægt að kaupa tækin til slíkrar verksmiðju á svo lágu verði. M. ö. o.: það eru svo margir sem vilja losna við dótið, sem þarf í svona verksmiðju, að við getum fengið það á spottprís. Og þar að auki vildi forstjórinn benda mér á það, að verksmiðjan væri að mestu leyti reist úr stáli. M. ö. o.: verksmiðja, sem framleiðir efni til stálframleiðslu og er þar með varðandi markaðinn háð verði á stáli, — hagstæðasti tími til að reisa slíka verksmiðju er tíminn þegar verðið á framleiðslu verksmiðjunnar er svo lágt að það hlýtur að vera ódýrt að reisa slíka verksmiðju! Þetta er hagspekin. Eftir þessu ættum við að sjálfsögðu að reisa fiskiðjuver þeim mun fleiri sem markaðshorfur væru verri fyrir fisk. Ef t. d. markaðshorfur varðandi mjólk fara niður úr öllu valdi, hygg ég að góður búmaður — það var talað um búmennsku hér áðan af hálfu hv. þm. Ingólfs Jónssonar góður búmaður mundi að sjálfsögðu fara að kaupa kýr og mjaltavélar. Og sementsverksmiðju mundum við að sjálfsögðu reisa, þegar sementsverð væri mjög lágt, vegna þess að veggir sementsverksmiðju eru reistir úr sementi! Ég hélt sem sagt, að þetta væri einstaklingsbundin firra, sem ég heyrði í símanum, þegar ég var að tala við forstjóra Grundartangaverksmiðjunnar. En ég heyrði ekki betur en sá mæti maður, hv. þm. Ingólfur Jónsson, væri með sömu spekina hér áðan. Þetta vildi ég aðeins benda á til marks um það, hve gáfulegur er málflutningur þeirra stóriðjumanna.

Hitt hefur mér líka orðið umhugsunarefni í þessu sambandi, hvort talsmenn stóriðjunnar eru svona miklu miður gefnir heldur en þeir sem tala gegn henni, — þá á ég við stjórnarþm. — hvort það er vegna þess að málflutningur þeirra, sem tala gegn stóriðjunni af hálfu stjórnarþm., ber svona af eða hvort það er málstaðurinn sem þessu ræður. Til samanburðar eru þær ræður, sem hér hafa verið fluttar í dag af hálfu stjórnarþm., annars vegar ræða hv. þm. Páls Péturssonar og hins vegar ræður tveggja hv. þm. Sjálfstfl. Ég hef ekki komist að neinni niðurstöðu, hvort gáfnafar hv. stuðningsmanna ríkisstj. fer eftir því, hvort þeir eru með eða á móti stóriðju af því að þeir eru ekki allir jafnvel gefnir.

Því var haldið fram af hálfu annars þeirra hv. þm. Sjálfstfl., sem töluðu áður, að það gæti verið vit í því að selja rafmagn undir kostnaðarverði frekar en láta vatnið renna ónotað til sjávar. Eftir þessu fer að verða tímabært, sýnist manni, að athuga, hve miklu við höfum tapað á þessu í 1100 ár. Ég vek athygli á þessu til að menn hugleiði, hversu langt er gengið í vitleysunni þegar verið er að mæla fyrir stóriðju hér úr þessum stóli. Læt ég svo lokið máli mínu að þessu sinni.