09.03.1978
Sameinað þing: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2848 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

83. mál, raforkusala á framleiðslukostnaðarverði til stóriðju

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ein af ástæðunum fyrir því, hvað hv. þm. Steingrími Hermannssyni hefur gengið treglega að útskýra almennt fyrir hv. þm. verðmyndun raforku frá vatnsaflsstöðvum, er e. t. v. sú, að hann beinir fyrst og fremst máli sínu til þeirra sem vita hvað fasafrávik er og þýðingu þess. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi hv. þm. kemur hér í ræðustól til þess að vefja augljós sannindi í tæknilegt þvarg til þess að fela sín eigin augljósu mistök og það sem við blasir um árangurinn af því, þegar hann, eins og hann orðar það sjálfur, hefur gert tilraun til þess að skyggnast fram í tímann í þessum málum. Vitaskuld á hv. þm. Steingrímur Hermannsson sína sök á því, sem gert var í samningunum við Alusuisse á sínum tíma. Hann, eftir því sem ég best veit, á meginsök allra þm. á samningunum sem gerðir voru fyrst við Union Carbide og síðan við Eikem-Spigerverket með þeim endemum sem blasa við okkur. Og sök hans felst m. a. í því, að hann hefur komið hér í ræðustól fyrst og fremst sem rafmagnsverkfræðingur, sem „best adviser“ í sambandi við orkumálin, hefur vafið hugsun sína og tilgang í tæknilegt orðfæri með svipuðum hætti og hann gerði áðan, þó að tilgangur með till. þeirri, sem hér er til umr. um raforkuverðið, sé gersamlega ljós, jafnt þeim, sem gera sér grein fyrir því, hvað fasafrávik er, sem hinum, sem ekki gera það.

Ég bjóst að vísu ekki við annars konar útlagningu af hálfu hv. þm. en þeirri sem fyrir skemmstu lét í eyrum okkar. Tilgangurinn með flutningi þessarar till. er öllum þm. ljós, þeim sem vilja sjá hann. Hv. 1. flm., Páll Pétursson, gerði ákaflega ljósa grein fyrir því, að hann er ekki andvígur sölu á raforku til framleiðslu á áburði hér á landi og ekki til framleiðslu á sementi. Hins vegar hefur, hygg ég, enginn nema hv. síðasti ræðumaður skilgreint graskögglaframleiðslu sem orkufrekan iðnað. Hygg ég að hann hafi, er hann drap á graskögglaframleiðsluna sem slíka sem orkufrekan iðnað, gleymt eigin skilgreiningu á því, hvað er orkufrekur iðnaður, þ. e. hlutfalli orkukostnaðar í framleiðslunni sem til þess þarf að ná ákveðnu marki.

Á þriðjudaginn heyrðum við hv. þm. Ingólf Jónsson og Jóhann Hafstein yfirfæra umr. um till., sem hér er til umr., yfir á till., sem fyrr var til umr., um skipun nefndar til þess að framkvæma rannsókn á rekstrarhorfum járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði og stöðvun framkvæmda þar, ef í ljós skyldi koma að þar væri viðbúið stórtap af rekstrinum. Hv. þm. Ingólfur Jónsson var hér fyrir stundu, en hefur vikið frá í bili, en hæstv. iðnrh. hefur prýtt salinn með nærveru sinni í staðinn. Hv. þm. hélt því fram í ræðu á þriðjudaginn, að fráleitt væri að stöðva eða seinka nú framkvæmdum við Grundartanga og láta þannig „kapital“, sem komið er í framkvæmdirnar, liggja vaxtalaust eða ónotað. Virtist hann leggja þar að jöfnu stöðvun framkvæmda, ef í ljós skyldi koma að tap lægi við borð á næstu árum, og seinkun þeirra. Slíkt væri slæmur búmannsháttur.

Samkvæmt upplýsingum, sem fram komu hér í þinginu, höfðum eftir forstjóra járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði, — upplýsingum sem ekki var mótmælt hér eða hefur ekki verið mótmælt, — þá mun nú vanta 15% upp á að járnblendiverksmiðjan skilaði hagnaði ef í rekstri væri nú. Eins og verð er á framleiðsluvöru þessari á erlendum mörkuðum, mun vanta 15% til þess að járnblendiverksmiðjan mundi skila hagnaði ef hún væri nú í rekstri. Þetta virðist þýða að það yrði 15% tap á rekstri verksmiðjunnar miðað við „kapítalið“ sem hv. þm. Ingólfur Jónsson var að tala um að alls ekki mætti láta liggja vaxtalaust í verksmiðjunni. Ekki er það ljóst, vegna þess að stjórn fyrirtækisins, þ. e. a. s. járnblendiverksmiðjunnar, virðist ekki hafa handbærar neinar upplýsingar, við hvaða upphæðir er miðað þegar talað er um 15% tap. Við verðum því að miða við síðustu kostnaðaráætlun, sem nemur 25 milljörðum kr. a. m. k., sennilega 30 milljörðum, en áætlunin miðast við 25 milljarða kr. Ef við reiknum 15% af þeirri upphæð til þess að átta okkur á við blasandi tapi, þá nemur tapið á ársgrundvelli 3 milljörðum 750 millj. kr. — það tap sem stjórn járnblendiverksmiðjunnar viðurkennir að við hefðum haft af rekstri þessarar verksmiðju um þessar mundir á ársgrundvelli. En þá kunna menn, eins og hv. þm. Jóhann Hafstein, hv. þm. Ingólfur Jónsson og sennilega hæstv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen, að spyrja sem svo: Hvað þá um raforkusöluna, hagnaður af henni, og svo vinnulaun handa 150 starfsmönnum? Samkvæmt máli hv. þm. Ingólfs Jónssonar, sem tíundaði tekjur þjóðarinnar af álverinu í Straumsvík í ræðu sinni hér í fyrradag, þá hljótum við að taka þessi atriði einnig með í dæmið er við tölum um fyrirhugaðan hag, augljósan hag eða augljóst tap af járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði.

Samkv. upplýsingum Landsvirkjunar nemur raforkusalan til Járnblendifélagsins samkv. samningi 288 millj. kr. á þessu ári. Járnblendifélagið borgar orkuna samkv. samningi á þessu ári. Þetta er heildarupphæðin sem járnblendiverksmiðjan á Grundartanga borgar Landsvirkjun fyrir raforku á árinu 1978 samkv. samningi. Af því að verksmiðjan hefur ekki tekið til starfa, þá leggst upphæðin bara ofan á stofnkostnað. Ef miðað er við há meðallaun starfsmanna, þessara 150 starfsmanna sem eiga að vinna á Grundartanga, og þau áætluð 3 millj. kr. að meðaltali, þá myndu sem sagt launagreiðslur nema samtals 450 millj. kr. Það, sem blasir við okkur, er það, að þótt orkan til málmblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði yrði gefin og þótt vinnulaunin yrðu gefin járnblendiverksmiðjunni, þá yrði samt 3 milljarða halli á rekstri verksmiðjunnar. Svo kemur hv. þm. Ingólfur Jónsson, fyrrv. iðnrh. og fyrrv. ýmislegt annað, og segir okkur með spekingssvip að það sé um að gera að flýta byggingarframkvæmdum á Grundartanga til þess að höfuðstóllinn, sem lagður verði í verksmiðjuna, geti farið að skila vöxtum!

Í framsöguræðu sinni með hinu upprunalega frv. um stofnun Járnblendifélagsins, 10. febr. 1975, gerði hæstv. iðnrh. ráð fyrir stofnkostnaði sem næmi 80 millj. dollara. Þá ráðgerði hann 3 millj. dollara hagnað af rekstri járnblendiverksmiðjunnar fyrsta árið, en síðan ykist hagnaðurinn jöfnum skrefum í rösklega 6 millj. dollara á ári. Nú er stofnkostnaður áætlaður um 100 millj. dollara samkv. opinberum útreikningum og tapið á fyrsta ári er áætlað 15 millj. dollara. Við höfum farið fram á það að tafarlaust verði skipuð nefnd til þess af hálfu þingsins að athuga þetta mál og komast að því af hálfu Alþingis, hvort horfurnar séu slæmar, hvort þær séu svona slæmar, hvort hugsanlegt sé að þær gætu jafnvel versnað frá því sem nú er, svo að við notum sömu margfeldi og við gróðaútreikning hæstv. iðnrh. 1975, hvort tapið gæti kannske orðið rösklega 30 millj. dollarar á ári. Hv. þm. Ingólfur Jónsson mætti e. t. v. hugsa sem svo, ef hann kafaði örlítið dýpra í þetta mál, að ef við hættum núna fjárfestingu í þessari verksmiðju, ef niðurstaða nefndarinnar yrði sú, að slíkt teldist rétt og við hættum fjárfestingu í verksmiðjunni, þá yrði 15% tap af 10 milljarða fjárfestingu ekki nema 1500 millj. kr. á ári í stað þess að við blasir 3750 millj. kr. tap af fjárfestingu upp á 25 milljarða. Og þá er svo um þetta, sem hv. þm. Ingólfur Jónsson taldi fráleitt og slæman búskap að hætta framkvæmdunum, að þá yrði hagnaðurinn af því að hætta framkvæmdunum hvorki meira né minna en 2 milljarðar 250 millj. kr. á ári.

En hvernig svo sem þm. reikna dæmið, þá ætla ég að það muni ganga erfiðlega að sannfæra fólkið okkar um að tapið á járnblendiverksmiðjunni geti talist þjóðinni hagstætt í lengd eða bráð. Hv. þm. Jóhann Hafstein, fyrrv. iðnrh., sagði við umr. í fyrradag, að hagstætt gæti verið að selja raforku undir kostnaðarverði til stóriðju þegar til lengdar léti fremur en að láta árnar renna óbeislaðar til sjávar. Jafnframt hamraði hann á því, að orkuverðið, sem um er samið til Alusuisse óbreytt til ársins 1997, sé hagstætt. Meðalverðið mun nú ekki vera 1.25 kr., þegar allt er með talið í hinum langa samningi, heldur miklu lægra. Hér er reiknað verð inn í heildarsamninginn, verð sem til kom við aukningu á raforkusölu 1975 sem nemur 10% af hinum fyrra sölusamningi til orkuversins.

Fyrir liggur að Landsvirkjun selur raforku, það er sala, sem átti sér stað á árinu 1977 og var greitt fyrir þá, og sala, sem á sér stað núna, — Landsvirkjun setur raforku til Járnblendifélagsins á 1.60 kr. meðalverð fyrir kwst. Það telur Landsvirkjun framleiðslukostnaðarverð miðað við það orkuform, það afhendingarform sem þar á sér stað. Samtímis selur svo Landsvirkjun Rafmagnsveitum ríkisins kwst. í heildsölu á 3.12 kr. meðalverð og telur að lægra megi það ekki vera til þess að standa undir framleiðslukostnaðinum.

Nú skulum við bara reikna með hinu blandaða verði í gamla samningnum, þar sem samið er um óbreytt verð til ársins 1997, og nýja samningnum frá 1975 og reikna með meðaltalinu 1.25. Nú vil ég spyrja hv. þm. Jóhann Hafstein: Ef verðið 1.25 kr. á kwst. til ÍSALs er kostnaðarverð, hvar er þá allur hagnaðurinn af sölunni til Rafmagnsveitna ríkisins á 3.12 kr. kwst. og Járnblendifélagsins á 1.60 kr. kwst. eftir öll þessi ár? Ef það er kostnaðarverð, sem Alusuisse hefur borgað á þessu tímabili, hvar er þá hagnaðurinn af sölunni á hinu geipilega háa verði íslenskra aðila? Hv. þm. Jóhann Hafstein má vitna eins mikið og hann vill í sérstakar greinar, sem birtast í tímariti ÍSALs, um þann stórkostlega hagnað sem Landsvirkjun eða Íslendingar hafi af því að selja ÍSAL orkuna á þessu verði. Mig minnir að hv. þm. hafi verið með þetta tímarit ÍSALs fyrir framan sig og nafngreint það jafnvel. (Gripið fram í.) Já, já, það er rétt. Hann nefndi höfund greinarinnar einnig. Hv. þm. Ingólfur Jónsson má líka vitna eins mikið og hann vill í forstjóra Elkem-Spigerverkets því til sönnunar, hvílíkur gróði okkur sé búinn af rekstri Járnblendifélagsins í Hvalfirði, slíkar sem horfurnar virðast nú vera um útkomuna af honum. Elkem-Spigerverket getur beðið rekstrarins áhyggjulaust. Því er ekki ætlað að bera neina ábyrgð á fyrirsjáanlegu tapi. Framlag Elkem-Spigerverkets verður í mynd tæknilegrar þekkingar og markaðsaðstoðar. Íslenska ríkið ábyrgist allar skuldbindingar.

Þeir hv. þm. Ingólfur Jónsson og Jóhann Hafstein mega mín vegna — og hv. þm. Steingrímur Hermannsson má mín vegna líka bætast í þann hóp — útlista það fyrir þm., eins og þeir hafa áður gert, með hvaða hætti íslensku þjóðinni sé búinn hagur af því að reka fyrirtæki með tapi, af því að framleiða raforku og selja undir kostnaðarverði fremur en láta árnar renna óbeislaðar til sjávar. Hvað væri um að setja upp t. d. með sama hugsunarhætti og sömu hagspeki vindknúna verksmiðju með „kapítali“ upp á 25 milljarða í staðinn fyrir að láta vindinn blása óbeislaðan eitthvað út í loftið? Við skulum segja sem svo, að vextir af þessu „kapítali“ væru 12% og að við yrðum með 3% í afskriftir, þá væri hún komin upp í þetta 15% tap sem þarna er búið. Ég vil ekki leggja neinn dóm á þá greindarlegu hugsun, sem liggur á bak við svona ályktanir, og ég andmæli því, að nokkuð slíkt sé lesið út úr orðum mínum. Hérna er um að ræða tvo fleti á sama máli, skoðaða frá mismunandi sjónarhólum: Annars vegar flöt fáránleikans, sem manni finnst að gæti verið út úr sögu eftir Johan Faikberget þar sem hann var að lýsa því furðulega „økonomiska resonnement“, eins og það var orðað hjá Falkberget, sem átti sér stað inni í höfðinu á Bör Börssyni þegar hann var að hugsa um opinberar framkvæmdir, hins vegar frá almennu, alþýðlegu, skynsamlegu viðhorfi til arðbærrar fjárfestingar. En hvað sem því liður, þá vildi ég gjarnan að þeir yrðu nafngreindir, snillingarnir sem töldu hv. þm.fyrrv. iðnrh. og má bæta við núv. iðnrh. við í upptalninguna — trú um það, að við gætum haft hag af því að virkja til þess að selja raforku undir kostnaðarverði.

Fyrir tilkomu þeirrar till., sem hér er um að ræða í dag, eiga þm. einnig kost á því að endurskoða afstöðu sína til þessara mála og leggja dóm sinn á þessa hagspeki hv. þm.