27.10.1977
Sameinað þing: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

22. mál, uppbygging þjóðvega í snjóahéruðum landsins

Flm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Ég vil aðeins út af orðum síðasta hv. ræðumanns minna á yfirlýsingu ríkisstj. á s.l. vori við samþykkt vegáætlunar um aukningu vegafjár á næsta ári. Ég vil minna á að samkv. fjárlagafrv. er staðið við þau loforð sem þá voru gefin. Og ég vil í þriðja lagi minna á að á þessu ári, sem nú er að líða, — þó að ég hafi ekki nákvæmar tölur um það, þá hygg ég að það gildi líka um s.l. ár, þá hefur hlutfallslega meira af því fé, sem varið er til nýbygginga, farið til þess að byggja upp vegi heldur en að setja slitlag á þá, þannig að ég er þeirrar skoðunar að hlutfallslega hafi uppbyggingu þjóðveganna miðað hraðar og miklu hraðar en þessi ummæli hv. þm. gáfu tilefni til. Ég veit eins vel og hann að vegagerð hefur að nokkru goldið almenns samdráttar á framkvæmdafé með þjóðinni að undanförnu, en einmitt þessi þáttur hefur dregist hlutfallslega minnst saman í vegagerðinni.