27.10.1977
Sameinað þing: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

17. mál, efling útflutningsstarfsemi

Tómas Árnason:

Herra forseti. því miður gat ég ekki verið viðstaddur þegar hv. þm. Lárus Jónsson flutti framsöguræðu fyrir þessu máli. Ég var tepptur annars staðar. En ég get ekki stillt mig um að lýsa yfir ánægju með flutning þessa máls. Ég álít, að hér sé hreyft mjög merkilegu máli sem sé fyllsta ástæða til að rannsaka rækilega og gera úttekt á stöðu málsins í heild. Það var ekki meining mín að flytja hér langa ræðu. Það eru örfá atriði sem mig langar þó til að drepa á.

Málið fjallar um að gera úttekt á skipulagi og aðstöðu útflutningsverslunar landsmanna og leita leiða til að efla og samræma útflutningsstarfsemi fyrir íslenskar framleiðsluvörur og þjónustu. Síðan er í þáltill. í þessu sambandi og við þessa úttekt lögð áhersla á þrjú atriði sem sérstaklega eru tekin fram í till., þ. á m. að kanna hvort rétt sé og hagkvæmt að koma á samstarfi allra aðila sem vinna að útflutningsstarfsemi, m.a. í því skyni að stuðla á skipulegan hátt að almennri kynningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis og þjálfun starfsfólks sem vinni að hvers konar útflutningsstarfsemi.

Grg. með þessari till. er mjög ítarleg og mjög fróðleg. Þar er í stuttu máli sagt frá því, hvernig nágrannaþjóðir okkar hér á Norðurlöndum haga þessum málum, og kemur í ljós að hjá öllum þessum þjóðum, þ.e. í Noregi, Svíþjóð, Danmörk og Finnlandi, er verulega miklu meira skipulag í þessum efnum en er hjá okkur. Það þarf ekki að þýða að það sé betra í sjálfu sér. Ég hygg þó að ástæðan fyrir því, að þessar þjóðir allar hafa talið nauðsyn á að skipuleggja þessi mál á þann veg að margir aðilar, þ. á. m. ríkisvaldið og aðilar í framleiðslustarfsemi, sneru bökum saman í þessum efnum, sé fyrst og fremst sú, að allar þessar þjóðir eru tiltölulega fámennar. Þó að þær séu á sinn hátt sterkar á ýmsum sviðum, þá eru þær samt tiltölulega fámennar miðað við ýmsar þær þjóðir, sem þær þurfa að keppa við á heimsmarkaði, — þjóðir sem hafa fyrirtæki sem eru margfalt öflugri og margfalt stærri og sterkari en þau fyrirtæki hjá þessum tiltölulega fámennu þjóðum sem standa í samkeppni við stór og öflug fyrirtæki stórþjóðanna sem hafa möguleika á því og fjármagn til þess að eyða gífurlegum fjárhæðum og mikilli starfsorku til að greiða fyrir og efla markaði sína og sölumöguleika á heimsmarkaði.

Ef þetta er rétt ályktað hjá mér, að þetta sé ein af ástæðunum, þá ætti frekar að vera ástæða til þess fyrir okkur Íslendinga, sem erum afar fámennir og veikir, að sem flestir aðilar sneru bökum saman í því efni að vinna að útflutningsstarfseminni og sölu á íslenskum afurðum erlendis.

Nú er það svo, að svipuðu máli og hér um ræðir hefur áður verið hreyft á Alþ. Ég vil t.d. geta þess, að á Alþ. 1969–1970 fluttum við, ég og hæstv. núv. viðskrh., þáltill. sem var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. til l. um Útflutningsráð, er hafi það hlutverk að efla Íslenska útflutningsstarfsemi og annast um útflutnings- og markaðsmál í samvinnu við utanrrn. og viðskrn. Útflutningsráð verði sjálfstæð stofnun, skipuð fulltrúum helstu samtaka íslenskra útflytjenda og atvinnuvega. Viðskiptafulltrúar utanríkisþjónustunnar verði að hluta starfsmenn Útflutningsráðs.“

Þó að þessi þáltill., sem við fluttum á sínum tíma, sé ekki nákvæmlega eins að efni til og sú þáltill. sem hér er flutt, þá er hér um að ræða að mörgu leyti sama málið, og það er svipuð hugsun sem liggur til grundvallar báðum þessum tillögum.

Að sjálfsögðu eru ýmsir aðilar sem hafa unnið stórkostlega merkilegt starf í sambandi við markaðsleit og markaðsöflun fyrir okkur Íslendinga. Það langsamlega merkasta að mínum dómi, þó að margt fleira merkilegt mætti upp telja, er hvaða árangri við höfum náð á Bandaríkjamarkaði með okkar frystu fiskafurðir. Þess ber að geta að við höfum átt að mæta skilningi Bandaríkjamanna í þessum efnum. En það hefur einnig verið unnið að þessum málum þar vestra af miklum dugnaði og ég vil segja mikilli framsýni og við, svona litlir og veikir, höfum náð ótrúlega sterkri stöðu á þessum verðmæta markaði, þessum geysilega verðmæta markaði, sem auðvitað á stóran þátt í því, að okkar lífskjör eru eins góð og raun ber vitni. Þau væru mun lakari ef við hefðum ekki einmitt fengið þá fótfestu á Bandaríkjamarkaði fyrir frystar sjávarafurðir sem raun ber vitni. Að þessu hafa unnið sérstakir aðilar einstakra greina, eins og t.d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Samband ísl. samvinnufélaga. Auk þess eru ýmsir fleiri aðilar, eins og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda og síldarútvegsnefnd og margir einkaaðilar sem hafa unnið merkt starf á þessu sviði og engin ástæða er til að draga fjöður yfir. Eigi að síður hygg ég að það væri skynsamlegt fyrir okkur að reyna að snúa meira bökum saman í þessum efnum en við höfum gert fram að þessu, hafa meiri heildarsamvinnu um það hvernig menn vilja vinna þessum málum framgang.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, þó að margt hafi verið vel gert í þessum efnum hjá okkur, að hægt er að vinna miklu meira starf í þessum málum en gert hefur verið fram að þessu, ég held m.a. með því að hafa víðtækari samvinnu en verið hefur milli fleiri aðila.

Það mætti kannske segja, að það væru tvær stefnur sem væri um að ræða í þessum málum. Önnur stefnan er að láta hverja atvinnugrein fyrir sig setja upp sérstaka stofnun sem fjallaði um útflutnings- og markaðsmál. Hin stefnan er hins vegar sú að reyna að samræma og skipuleggja starfsemi allra útflutningsgreina, m.ö.o. að veita kröftunum í einn og sama farveg í þessum efnum, þ. á m. með stuðningi ríkisvaldsins.

Þegar við, ég og hæstv. viðskrh. fluttum till. okkar á sínum tíma um útflutningsráð, flutti ég langa framsöguræðu um það mál. og hún var að talsvert verulegu leyti byggð á því að gera grein fyrir hvernig Norðmenn höguðu þessum málum hjá sér. En það er engin ástæða til að endurtaka það, vegna þess að grg. með þáltill. fylgir stutt, en mjög glögg og greinileg lýsing á því, hvernig m.a. Norðmenn hafa hagað þessum málum hjá sér.

Ég geri mér grein fyrir því, að það er engin tilviljun að Norðmenn settu á stofn útflutningsráð árið 1945, einmitt í stríðslokin, og það er engin ástæða til að leyna því, að það gæti orðið talsverð tregða á því að fá menn til að koma upp hér á Íslandi svipuðu fyrirkomulagi og Norðmenn hafa gert. En það er kannske ekki óvinnandi vegur með góðvilja þeirra sem hlut eiga að máli. Atvinnugreinarnar ættu t.d. að sjá sér hag í því, ef hægt væri að fá ríkisvaldið til þess að gera sérstakt átak með þeim til þess að stuðla að sterkari starfsemi á þessum vettvangi en hægt hefur verið að koma við með því að dreifa kröftunum. Þó að ekki sé beint lagt til í till. að stofna t.d. útflutningsráð eða eitthvað slíkt, koma á svipuðu fyrirkomulagi og er á hinum Norðurlöndunum, þá er samt lagt til að gerð sé úttekt á hvort mögulegt sé að koma á fót slíku samstarfi. Ég held að það sé alveg rétt að nálgast málið á þennan hátt. Það hefur e.t.v. ekki verið tímabært og verið ein af ástæðunum fyrir því, að sú till., sem ég hef verið að minnast á og við fluttum á sínum tíma, var ekki samþ. að það var of fljótt að bera fram slíka till. og skynsamlegra að nálgast málið á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir: að það sé rækilega kannað hvort möguleikar séu á því að setja á fót stofnun sem gæti verið hliðstæða við norska útflutningsráðið t.d., þar sem atvinnuvegirnir og hinar einstöku framleiðslugreinar og fyrirtæki ráða algjörlega ferðinni.

Ég kynnti mér það á sínum tíma, hverjar skoðanir væru uppi í Noregi um árangurinn af þessari skipulagningu og þessari starfsemi, og ég fékk þau svör að árangurinn af þessu hefði verið mjög jákvæður, reynslan hefði sýnt að þetta fyrirkomulag hefði gefist vel þar í landi.

Ég skal ekki lengja þessa umr. frekar, aðeins endurtaka það, að ég álít að hér sé hreyft mikilsverðu máli, og ég vil lýsa stuðningi við þennan tillöguflutning.