30.03.1978
Efri deild: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

172. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. Ed. hefur fjallað um frv. til l. um varnir gegn kynsjúkdómum. N. hefur orðið einhuga um að mæla með því, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu einni, að í stað orðanna „alþjóðleg bók“ í lok 5. gr. komi: upplýsingarit.

Kynsjúkdómar hafa öldum saman verið viðloðandi hér hjá okkur eins og í flestum ríkjum. Þeir eiga sér merka sögu í íslenskri heilbrigðissögu á þann veg, að ein fyrsta tilskipunin í þessum málum kom frá einum biskupnum okkar, þar sem hann samdi við erlendan bartskera um að láta hann fá jörð, ágætisjörð, ef hann læknaði 100 fransóssjúklinga. Seinna meir var það einnig svo, að ágætur læknir, sem hafði lokið starfi sínu, fékk um það sérstaka skipun frá heilbrigðisyfirvöldum að fara til lækninga á fransós í ákveðnu héraði hérlendis. Var það starf hans um 20 ára skeið. Þetta sýnir, að þessir sjúkdómar hafa verið mikið vandamál hjá okkur og voru það reyndar hjá flestum þjóðum, sérstaklega þar til salvarsan eða 606 kom til sögunnar, sem var hið fyrsta virka lyf gegn sýfilis. En nú, með vaxandi þekkingu, tækni og bakteríudrepandi lyfjum, hefur þetta allt orðið auðveldara. Og enda þótt þessir sjúkdómar séu enn þá nokkurt þjóðfélagslegt vandamál víða um heim, þá má segja að þeir séu þó allt öðruvísi og einfaldari viðfangs en áður var. Þar fyrir gladdist n. yfir því nýmæli, sem er í þessu frv., og það er að hefja fræðslu um kynsjúkdóma í skólum. Leggur hún sem sagt til, að frv. verði samþykkt með þessari einu breytingu sem ég gat um.