31.10.1977
Efri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

37. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 12. þm. Reykv. fyrir lofsverðan áhuga á þessu máli. Hann hefur greinilega tekið sér góðan tíma til að kynna sér málið og flutti hér málefnalega ræðu sem byggðist á athugun hans á efni frv. Finnst mér svör hans vera nokkuð til fyrirmyndar miðað við það sem gengur og gerist hér í umr. á Alþ. En ég get því miður ekki fjallað nákvæmlega um tölulegar upplýsingar sem hann kom með hér, vegna þess að ég hef ekki átt þess kost að kynna mér þær, enda mun það ekki miklu breyta. Sjálfsagt er að athuga í nefnd þær tölur, sem hann lagði hér fram. Samt er það nú svo, að mig grunar að í útreikningi hans gæti nokkurs misskilnings, því að hann telur hér fram réttilega hver sé upphæð þeirra aðstöðugjalda á árinu 1977 sem þau félög mundu greiða til ríkisins sem fram að þessu hafa greitt aðstöðugjöld til Reykjavíkur, og það er sjálfsagt alveg réttilega fram talið, en hins vegar finnst mér að hann taki ekki fullt tillit til þess að 1/4 hluti landsútsvara fellur í hlut viðkomandi sveitarfélags í fyrsta lagi og í öðru lagi fær Reykjavíkurborg liðlega 40% af því sem kemur til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í formi landsútsvara, en það verður einnig að dragast frá, þannig að mig grunar að upphæðin, sem hann nefndi áðan um nettótap Reykjavíkurborgar af þessari breytingu, sé ekki alveg réttilega fundin. En þetta er atriði sem mætti athuga í nefnd.

Hv. þm. gagnrýndi frv. á þeim forsendum, að ekki lægi ljóst fyrir hvar mörkin lægju milli þeirra fyrirtækja, sem hefðu landið allt að viðskiptasvæði, og hinna, sem væru meira staðbundin. Þetta er út af fyrir sig aths. sem á fyllsta rétt á sér. En ég vil hins vegar vekja athygli á því, að landsútsvörum er þannig háttað, eins og þau eru lögð á í dag, að þar eru fyrirlæki sem skera sig ekki með neinum sérstökum hætti úr, þannig að vissulega má deila um hvort þau fyrirtæki, sem í dag greiða landsútsvör, eigi að takast út úr frekar en önnur. Ég nefni bara sem dæmi Sementsverksmiðju ríkisins eða Landssmiðjuna. Að hvaða leyti er eðlilegra að Landssmiðjan og Sementsverksmiðja ríkisins á Akranesi greiði landsútsvör heldur en t.d. Samband ísl. samvinnufélaga eða Flugfélag Íslands? Það er alveg rétt hjá hv. þm., að það er erfitt að draga mörkin. En löggjafinn hefur talið óhjákvæmilegt í sínum tíma að draga þau einhvers staðar. Hann tók nokkurn fjölda fyrirtækja sem ákveðið var að greiddu landsútsvör, og ég sé ekki að þau séu með neinum hætti sérgreind þannig að ekki sé vel hugsanlegt að bæta þar allmörgum fyrirtækjum við.

Hv. þm. nefndi að þessi fyrirtæki, sem greiddu nú aðstöðugjöld, hefðu starfsstöð í viðkomandi sveitarfélagi og væri því ekki óeðlilegt að þau greiddu nokkuð til þess. Ég vil vekja á því athygli, að í fyrsta lagi greiða þessi fyrirtæki öll fasteignaskatt, vegna þess að þau eiga yfirleitt stóreignir í viðkomandi sveitarfélagi, og ég tel að fasteignaskatturinn, sem þessi félög greiða og er orðinn mjög umtalsverð upphæð, enda er fasteignaskatturinn einn aðaltekjustofn sveitarfélaganna, sé alveg nægileg umbun af hálfu viðkomandi stofnunar til sveitarfélagsins vegna þeirrar þjónustu sem sveitarfélagið veitir. Í öðru lagi minni ég á það, að þegar um er að ræða landsútsvör fellur fjórði hluti landsútsvara í hlut viðkomandi sveitarfélags, þannig að það er síður en svo að það sé algerlega afskipt með skatta frá viðkomandi fyrirtæki.

Hv. þm. sagði að sér virtist að útibú fyrirtækja í öðrum sveitarfélögum væru ekki undanþegin greiðslu aðstöðugjalds þrátt fyrir ákvæði þessara laga. Það held ég að sé á misskilningi byggt, því að í 5. gr. frv. kemur alveg skýrt fram að þeim fyrirtækjum, sem ætlað er að greiða landsútsvar, skuli ekki greiða aðstöðugjald, hvorki í aðalstarfsstöð fyrirtækisins né í útibúum þess.

Ég tel ástæðulaust fyrir forsvarsmenn Reykjavíkurborgar að bregðast illa við frv. af þessu tagi, vegna þess að þeir hljóta að viðurkenna að Reykjavíkurborg nýtur mjög augljósrar forréttindaaðstöðu hvað snertir innheimt aðstöðugjöld, og forsvarsmenn Reykjavíkurborgar hljóta að vera reiðubúnir að rökræða það, hvort þessi forréttindaaðstaða á rétt á sér eða ekki. Ég tel að svo sé ekki, og ég tel að forsvarsmönnum Reykjavíkurborgar sé skylt að taka til yfirvegaðrar athugunar hvort ekki sé rétt að koma fram leiðréttingu.

Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þm., að atvinnutekjur íbúa Reykjavíkurborgar hafa ekki hækkað hlutfallslega jafnmikið og tekjur íbúa ýmissa sveitarfélaga úti á landi, sem stafar einfaldlega af því að í tíð fyrri ríkisstj:, vinstri stjórnarinnar, var mikið gert til þess að bæta atvinnuástand víða um land, og það hefur haft þær afleiðingar að tekjur hafa víða stóraukist. En mér finnst satt að segja að það gangi nokkuð langt ef forsvarsmenn Reykjavíkurborgar sjá ofsjónum yfir því að hlutur sveitarfélaga úti á landi, sem hafa átt við erfiðleika að stríða, batni. Þarna var um vandræðaástand að ræða og það hefur sem betur fer verulega lagast. Það þýðir ekki að hlutur Reykjavíkurborgar hafi minnkað þar fyrir, enda er alveg ljóst af þeim tölum, sem ég hef lagt fram í þessum umr., að á árinu 1975 er Reykjavíkurborg enn með verulegar tekjur umfram tekjur annarra sveitarfélaga í landinu, langt yfir meðaltali annarra kaupstaða, þannig að ég held að því fari víðs fjarri að Reykjavíkurborg þurfi neitt að kvarta. Og eins og ég benti á í framsöguræðu minni, þá fer því víðs fjarri að frv. þetta snúi hlutunum við þannig að hagur Reykjavíkurborgar verði stórlega fyrir borð borinn. Það, sem gerist við samþykkt frv., er það eitt að svolítið dregur saman með Reykjavíkurborg annars vegar og öðrum kaupstöðum hins vegar.

Ég held sem sagt að forsvarsmenn Reykjavíkurborgar og þ. á m. hv. 12. þm. Reykv. ættu að taka efni þessa frv. til athugunar og það hefur hv þm. reyndar þegar gert. Þess vegna finnst mér það skjóta nokkuð skökku við þegar hann leggur til að frv. verði fellt áður en það er athugað í n. Hann nefndi það áðan að ég hefði sagt að hér væri aðeins um að ræða skref í ákveðna átt, og hann spurði: Af hverju ekki að stíga skrefið til fulls? Ja, ég tek undir það með hv. þm. — hann segir nokkuð: Því ekki að stiga skrefið til fulls og láta ríkisvaldið innheimta öll aðstöðugjöld í landinu og skipta þeim síðan meðal sveitarfélaganna, eins og hann einmitt nefndi áðan að væri hugsanlegur möguleiki? Ég tek undir þessa hugmynd hans. Að vísu er ég ekki samþykkur þeim orðum hans, að ríkið mundi þá skipta þessum tekjum eftir geðþótta, engum mundi að sjálfsögðu detta það í hug. Ríkið mundi þá væntanlega skipta þessum tekjum í hlutfalli við íbúatölu á hverjum stað, sem sagt á fullkomlega réttlátan hátt. Ég er ekki í nokkrum vafa um að árangurinn yrði sá, að tekjur sveitarfélaga í landinu yrðu miklu jafnari en þær eru í dag. Þetta er atriði, sem mér finnst að ætti að ræða í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, og vissulega kæmi til greina að breyta aðstöðugjöldum almennt í landsútsvör þannig að viðkomandi sveitarfélag fengi bara hluta af þeim og að öðru leyti rynnu þau í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem skipti þeim á réttlátan hátt.

Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til að orðlengja um efni þessa frv. og vænti þess fastlega að því verði vísað til n. og sú n, kanni hverjar yrðu afleiðingar af samþykkt frv. miðað við tekjustofna sveitarfélaga eins og þeir eru í dag, því þegar frv. var samið lágu ekki fyrir upplýsingar yngri en frá 1975, en vafalaust er unnt í n. að fá upplýsingar frá árinu 1976.