03.04.1978
Efri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3037 í B-deild Alþingistíðinda. (2243)

121. mál, áfengislög

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til viðbótar því, sem ég áðan sagði, og í framhaldi af umr. sem síðan hafa orðið.

Það hefur ekki verið minnst á lagalegu hliðina, þ. e. a. s. framkvæmd laganna og viðurlög sem í núverandi áfengislöggjöf eru, umfram þá framsöguræðu sem flutt var af hálfu formanns n. í upphafi þessara umr. Af þeim ástæðum vil ég undirstrika þá skoðun mína varðandi aldurslágmark, sem hér hefur verið minnst á og í gildi er nú um aldur þess fólks sem koma má inn á vínveitingastaði þar sem vín er haft um hönd, að ekki einungis þessi löggjöf, heldur og allar aðrar lagasetningar um skyldur þjóðfélagsþegnanna og réttindi þurfi endurskoðunar við, ekki aðeins umgengni við áfengi. Það eru tiltekin ákvæði í lögum um kosningaaldur og kjörgengi, hvenær menn megi stofna til hjónabands og hafa heimilisforsjá, ásamt því, hvaða aldursflokkar megi vera inni á vínveitingastöðum. Það eru ákveðin aldursmörk um það, hvenær hið opinbera geti krafist gjalda af viðkomandi persónu o. s. frv. Ég held að þessi réttindi og skyldur þurfi nokkuð að haldast í hendur. Í dag er það svo, að mér skilst, að það sé til undanþága allt ofan í 17 ára aldur til þeirra sem mega ganga í hjónaband. 18 ára er mjög almennt og einstaka undanþága er niður í 17 ára. Ekki veit ég um sönnur á þessu, en þetta er mér tjáð. Ef viðkomandi aðill, karl eða kona, er talinn geta haft heimilisforsjá með þeirri ábyrgð, sem það hlýtur að krefjast, þá finnst mér nánast sagt hlægilegt — og tek að því leyti undir rök hv. 2. þm. Norðurl. e., að þarna sé gerður sá reginmunur á, að menn verði að bíða í þrjú ár, eftir að hafa gengið í hjónaband, til að mega koma inn á vínveitingastað og fá þar afgreiðslu. Ég tel að þarna þyrfti að vera manneskjulegt samræmi á milli. Ég tel að kvaðir, sem á þjóðfélagsþegnana eru lagðar, og þau réttindi, sem þeir eiga að njóta, þurfi að vera svo skýr að eftir sé farið. Og í þessu efni legg ég þó ekki að líku þá ábyrgð, sem hvílir á viðkomandi aðilum að stofna til heimilisforsjár, með öllum þeim skyldum sem því fylgja, og það að geta ljóst og feimnislaust sagt já eða nei við áfengisglasi á vínveitingastað. Mér finnast heimilisskyldurnar vera langtum stærri og viðameiri. Þarna eru þó gerðar samkv. núgildandi lögum miklu meiri kröfur til tvímælalaust hærri aldursmarka með hliðsjón af áfenginu. Þetta finnst mér að þurfi ekki einungis að samræma í þessari löggjöf, heldur og öll önnur aldursmörk í gildandi lögum um réttindi og skyldur þjóðfélagsþegnanna, þannig að þar sé eitthvert viturlegt samræmi, en ekki gapandi ósamræmi sem gildi í þeim, þó svo skýr ákvæði og ljós, að auðveld verði í framkvæmd.