03.04.1978
Neðri deild: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3042 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Hæstv. forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er samið í samræmi við ákvæði stefnuyfirlýsingar ríkisstj., en í stjórnarsáttmálanum sagði svo um þetta mál :

„Undirbúin sé ný löggjöf um verðmyndun, viðskiptahætti og verðgæslu. Stefnt sé í átt til almenns eftirlits neytenda með viðskiptaháttum til að tryggja heilbrigða samkeppni og eðlilega verðmyndun verslunar- og iðnfyrirtækja til bættrar þjónustu fyrir neytendur. Haft sé samráð við hagsmunasamtök þau, sem hlut eiga að máli.“

Í samræmi við þessi fyrirmæli var af hálfu viðskrn. hafist fljótlega handa um athugun á þessu máli. Sú athugun hófst með því, að Magna Guðmundssyni hagfræðingi var falið að gera könnun á þessum málum, en hann stundaði nám í þessum fræðum um þær mundir í Kanada og kom heim hingað og gerði allitarlega athugun, m. a. með spurningaskrá sem hann sendi út og vann úr. Þegar þessi athugun lá fyrir skipaði viðskrh. í mars 1976 þrjá embættismenn til þess að semja frv. til l. um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Að athuguðu máli þótti sú aðferð heppilegri að fela embættismönnum að semja frv., en þeir hefðu síðan samráð við þá hagsmunaaðila sem talað var um í fyrrnefndri tilvitnun. Var það talið heppilegra að láta hagsmunaaðila tilnefna menn í nefnd til þess að semja frv., enda er þá hætt við að komið hefðu fram ýmis sérálit. Þeir embættismenn, sem skipaðir voru í þessa nefnd, eru Björgvin Guðmundsson skrifstofustjóri í viðskrn., Georg Ólafsson verðlagsstjóri og Gylfi Knudsen deildarstjóri í viðskrn. Embættismennirnir skiluðu drögum að frv. í okt. 1976. Þau drög voru síðan send til umsagnar eftirfarandi aðilum: Verslunarráði Íslands, Félagi ísl. stórkaupmanna, Kaupmannasamtökum Íslands, Félagi ísl. iðnrekenda, Vinnuveitendasambandi Íslands, Sambandi ísl. samvinnufélaga, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna, Kvenfélagasambandi Íslands og Neytendasamtökunum.

Í öndverðu var gefinn ákveðinn frestur til að skila þessum umsögnum, umsögnunum átti að skila innan tiltekins tíma. Það gerðu sum þessara samtaka, en hjá öðrum dróst nokkuð að skila álitum. Umsagnir komu þó frá flestum eða öllum þessum aðilum, sem drögin voru send. Þær umsagnir, sem þannig bárust, voru með mismunandi hætti og ýmsar ábendingar, sem þar komu fram, og umsagnirnar voru misjafnlega jákvæðar. En ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í þær sérstaklega, þar sem þær eru prentaðar sem fskj. með frv. og hv. dm. geta kynnt sér þær þar og þær aths. sem þeir gerðu við þessi frv: drög. Eftir að allar umsagnirnar höfðu borist var farið yfir þær og drögunum breytt eftir því sem unnt þótti, tillit tekið til einstakra atriða sem rétt þótti að taka tillit til. Viðskrn. fór yfir umsagnirnar og voru síðan gerðar nokkrar breytingar á frv-drögunum og einnig eftir að drögin að frv. höfðu verið rædd í ríkisstj.

Mesta breytingin, sem gerð var, á 8. gr. frv., en eftir þá breytingu er kveðið mun sterkar á um það en áður, að verðlagning skuli vera frjáls ef samkeppni er nægileg, þ. e. a. s. það stefnumark er undirstrikað enn rækilegar en í frv.— drögunum. Embættismennirnir höfðu lagt til, að lögin tækju gildi einu ári eftir að Alþ. samþykkti þau. Þessu ákvæði var að minni ósk breytt á þann veg, að nú er gert ráð fyrir gildistöku sex mánuðum eftir samþykkt Alþingis,

Við samningu frv. var höfð hliðsjón af löggjöf um verðlagsmál í Noregi og Danmörku. Ræddu höfundar frv. m. a. við fulltrúa Monopolitisynet í Danmörku og einnig kynntu þeir sér samkeppnislöggjöf ýmissa annarra landa.

Frv. skiptist í sjö kafla, sem bera yfirskriftirnar: Markmið og gildissvið laganna, stjórnsýsla, verðákvarðanir, markaðsráðandi fyrirtæki og samkeppnishömlur, óréttmætir viðskiptahættir og neytendavernd, almenn ákvæði og meðferð og áfrýjun mála.

Frv. gerir ráð fyrir því, eins og áður er sagt, að verðlagning skuli vera frjáls þegar samkeppni er nægileg til þess að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag. Hins vegar er jafnframt bráðabirgðaákvæði um það, að öll verðlagsákvæði haldi gildi sínu við gildistöku laganna þar til verðlagsráð hefur tekið afstöðu til þeirra. Með því að næg samkeppni er alger forsenda frjálsrar verðlagningar er ekki unnt að gefa allt verðlag frjálst þegar við gildistöku laganna. Fyrst verður að vita hvar samkeppni er nægileg til þess að tryggja sanngjarnt verðlag, áður en unnt er að taka ákvarðanir um að gefa verðlagningu frjálsa. Þess vegna er bráðabirgðaákvæðið nauðsynlegt. Með þessu ákvæði og frv. að öðru leyti er gefið tækifæri til þess að sýna fram á og sanna það í reynd, sem af mörgum hefur verið haldið fram, að það mundi gera verslunina ódýrari og verðlagið hagstæðara ef verðlagning væri gefin frjáls. En hún verður ekki gefin frjáls fyrr en fyrir liggur að svo sé.

Ef ákvæði 2. gr. frv. eru borin saman við ákvæði núgildandi laga um verðlagsmál, kemur í ljós að valdsviðið yrði svipað og áður. T. d. mun ekki verða breyting á verðlagningu landbúnaðarafurða, hún mun áfram heyra undir sexmannanefnd og framleiðsluráð landbúnaðarins að óbreyttum lögum. Verðlagning á rafmagni og heitu vatni mun t. d. áfram heyra undir sveitarfélögin og hlutaðeigandi rn. Þær raddir hafa heyrst að flytja ætti þessa verðlagningu til verðlagsnefndar eða verðlagsráðs. Ekki er þó gert ráð fyrir því í þessu frv. Hins vegar segir svo í niðurlagi 4. gr. þessa frv.:

„Verðlagsráð getur ákveðið; að aðilar, sem fara með verðákvarðanir samkv. sérstökum lögum sbr. 2. mgr. 2. gr., tilkynni því verðákvarðanir sínar.“

Talið er æskilegt að áður en ákvarðanir um verðlagningu, t. d. landbúnaðarafurða, eru tilkynntar opinberlega, séu þær kynntar verðlagsráði.

Kaflinn um markaðsráðandi fyrirtæki og samkeppnishömlur eru svipaður kafla um sama efni, sem var í frv. til l. um verðgæslu og samkeppnishömlur, sem lagt var fyrir Alþ. 1969, en náði ekki fram að ganga. Þó eru þar nokkrar veigamiklar breytingar frá fyrri ákvæðum. T. d. eru ákvæði í þessum kafla um að samningar, samþykktir og annað samráð milli fyrirtækja um verð og álagningu sé óheimilt svo og samningar, samþykktir og annað samráð milli fyrirtækja við útboð. Eru ákvæði þessi í samræmi við norsk lagaákvæði þar um.

V. kafli fjallar um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd. Þar er í raun um að ræða endurskoðuð núverandi lög um varnir gegn óréttmætum verslunarháttum frá árinu 1933. Við þá endurskoðun hefur verið höfð hliðsjón af norrænni löggjöf um sama efni, en í þeirri löggjöf eru neytendasjónarmið mun ríkari en í íslenskum lögum. Tilgangur laganna frá 1933 var fyrst og fremst sá að koma í veg fyrir að kaupsýslumenn beittu óréttmætum viðskiptaháttum hver gegn öðrum. Þó að í lögunum sé líka að finna ákvæði sem eiga að veita neytendum nokkra vernd, þá var það samt ekki í svo ríkum mæli í þeim lögum frá 1933, að það veitti neytendum nægilega vernd og síst af öllu eins og framkvæmdin hefur verið. Reynt er að bæta úr þessu í hinum endurskoðuðu lagaákvæðum um óréttmæta viðskiptahætti. Gert er ráð fyrir að verðlagsstofnunin hafi eftirlit með framkvæmd lagaákvæða um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd og í því skyni starfi sérstök deild, neytendamáladeild, við stofnunina. Er það nýmæli, sem tekið er upp þar eð engin sérstök opinber neytendastofnun starfar hér á landi.

Ákvæði 27. gr. fela m. a. í sér, að óheimilt er að veita rangar eða villandi upplýsingar í auglýsingum. Gert er ráð fyrir að samkeppnisnefnd leggi úrskurð á það, hvort auglýsingar séu skaðlegar hagsmunum neytenda eða ekki. Telji samkeppnisnefnd auglýsingar skaðlegar mundi hún leggja bann við birtingu slíkra auglýsinga, er gilti þar til dómur hefði komist að annarri niðurstöðu. Einnig mundi verðlagsstjóri sem framkvæmdastjóri verðlagsstofnunar geta bent auglýsendum á, að auglýsingar brytu að hans áliti í bága við lagaákvæði um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd, og reynt að ná samkomulagi við auglýsendur um að draga slíkar auglýsingar til baka. Að þessu leyti til gæti verðlagsstjóri komið fram gagnvart kaupsýslumönnum og fjölmiðlum eins og umboðsmenn neytenda á Norðurlöndum.

Að vísu tíðkast ekki erlendis að steypa saman í eina löggjöf ákvæðum sem fjalla um verðlag og samkeppnishömlur annars vegar og reglum um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd hins vegar. Málefni þessi eru samt sem áður eðlisskyld og tengjast með ýmsum hætti. Því er ekkert athugavert við það að fella þau saman í einni löggjöf og láta sömu aðila annast framkvæmd allra þessara málaflokka. Þetta helgast einnig af þeirri nauðsyn að reyna að koma í veg fyrir fjölgun stofnana og helgast einnig af þeim sérstöku aðstæðum, sem hér eru, fámenni og að allt er fábrotnara en erlendis. Reynslan kennir okkur að miklu auðveldara er að koma á fót einhverri stofnun en að afnema hana. Þess vegna ætti að gæta nokkurrar varfærni við að setja á fót nýjar stofnanir, reyna heldur að koma því þannig fyrir að þær geti aðlagast með sæmilegum hætti íslenskum aðstæðum, þó að hægt sé að benda á að þær séu ekki alveg í samræmi við það sem annars staðar tíðkast. Yfirleitt held ég að við' þurfum að gá að okkur að taka ekki allt ómelt upp eftir öðrum, hvorki í löggjöf né öðrum efnum, heldur reyna að laga það að íslenskum aðstæðum, sem eru auðvitað sérstakar að mörgu leyti.

Ég mun nú víkja að einstökum atriðum þessa frv.

Í I. kafla er fjallað um markmið og gildissvið laganna. Segir í 1. gr. m. a. að lögin hafi það markmið að vinna gegn ósanngjörnu verði og viðskiptaháttum svo og gegn óréttmætum samkeppnisháttum og samkeppnishömlum.

Í 2. gr. segir að frv. fjalli um alla atvinnustarfsemi, hvort sem hún sé á vegum einkaaðila, ríkis eða sveitarfélaga. Er haft í huga að ákveðin atvinnustarfsemi geti lotið öðrum lögum og því geti verið hagkvæmt að önnur stjórnvöld hafi með hendi eftirlit háð atvikum í hverju einstöku dæmi að hve miklu leyti hægt er að nota hinar efnislegu reglur þessa frv.

Sú hugsun að láta frv. einnig ná til atvinnurekstrar á vegum ríkis eða sveitarfélaga byggist á því, að með slíkri ákvörðun má tryggja sams konar grundvallarlöggjöf um verðákvarðanir og samræma framkvæmd hennar á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins, óháð því hvort rekstur hinna ýmsu fyrirtækja er á vegum einkaaðila eða hins opinbera.

Frv. nær hvorki til launa og starfskjara né húsaleigu. Enn fremur er útflutningur undanþeginn ákvæðum frv. Þjónusta, er opinberir aðilar veita, svo sem fræðslustarfsemi, heilbrigðisþjónusta og rekstur sjúkrahúsa, félagsmálastarfsemi o. þ. h. fellur því ekki undir ákvæði frv. Aftur á móti ná lögin til samgangna og flutningastarfsemi, hvort heldur er á vegum einkaaðila eða opinberra aðila. Ríkisstj. sker úr um það, hvort tiltekin starfsemi sé háð ákvæðum frv. eða ekki.

Segja má að 2. gr. frv. gangi nokkuð í þá átt að samræma frekar en nú er verðákvarðanir opinberra aðila. Er það í samræmi við óskir t. d. Alþýðusambands Íslands, en þó gengur frv. engan veginn eins langt í því efni og ASÍ hefði kosið.

II. kafli fjallar um stjórnsýslu. 3. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Framkvæmd þessara laga skal vera í höndum verðlagsráðs, samkeppnisnefndar og verðlagsstofnunar.

Í verðlagsráði eru sjö menn. Viðskrh. skipar formann ráðsins án tilnefningar og auk þess fjóra menn, tvo eftir tilnefningu samtaka atvinnurekenda og tvo eftir tilnefningu samtaka launþega.

Hæstiréttur Íslands skipar tvo menn í verðlagsráð. Skulu þeir vera óháðir fyrirtækjum og samtökum þeirra, sem lög þessi taka til, og hafa þekkingu á viðskipta- og neytendamálum og kunnáttu í lögfræði eða hagfræði.

Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og um getur í 2. mgr. greinar þessarar. Ráðið er skipað til fjögurra ára í senn.

Nú notar einhver aðili ekki rétt sinn til tilnefningar, og skal viðskrh. þá skipa í þess stað án tilnefningar.“

Í 4. gr. er ákvæði um að samkeppnisnefnd skuli skipuð þrem mönnum, formanni verðlagsráðs og þeim tveim mönnum, sem Hæstiréttur skipar í verðlagsráð. Er þessi skipan samkeppnisnefndar ákveðin til þess að reyna að tryggja óhlutdrægni hennar. Hlutverk samkeppnisnefndar er að fella úrskurð um það, hvenær samkeppnishömlur teljist skaðlegar og hvenær ekki, svo og að hafa ákvörðunarvald í öðrum málum er varða samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Má því segja að samkeppnisnefndin fari í ýmsum efnum með mikilvægt úrskurðarvald. Er því eðlilegt, að reynt sé að tryggja, að hlutlæg sjónarmið ráði þar ríkjum og nokkur kunnátta sé þar fyrir hendi.

Eins og hv. alþm. vita er verðlagsnefnd í dag skipuð níu mönnum, fjórum frá launþegasamtökunum, fjórum frá samtökum vinnuveitenda og einum fulltrúa viðskrn. Samkv. ákvæðum frv. mundi fækka um tvo fulltrúa í verðlagsráði, en af þessum sjö nm., sem eiga að sitja í verðlagsnefnd, eru það tveir fulltrúar í samkeppnisnefnd, sem Hæstiréttur skipar. Má telja líklegt að þessi breyting stuðli að því, að ráðið starfi á faglegri grundvelli en áður, ef nota má það orðalag.

Lagaákvæðin um verðlagsstofnunina sjálfa eru svipuð og í gildandi lögum, að öðru leyti en því, að í 5. gr. er gert ráð fyrir því, að við verðlagsstofnunina starfi sérstök verðjöfnunardeild er annist framkvæmd lagaákvæðanna um óréttmæta viðskiptahætti. Eins og þegar hefur verið vikið að, er hér farin önnur leið en farin hefur verið í hinum norrænu löndunum, þar sem komið hefur verið á fót sérstökum neytendamálastofnunum. Til þess að sporna við fjölgun stofnana hér er — eins og ég hef þegar getið um lagt til að fyrsta sporið hér á landi verði að stofna neytendamáladeild við verðlagsstofnunina og sjá svo til hvernig þróunin getur orðið í því efni. Auðvitað er hugsanlegt að hún þróist upp í annað og meira síðar.

Ákvæði stjórnsýslukafla þessa frv. eru að sjálfsögðu verulega frábrugðin ákvæðum gildandi verðlagslaga um sama efni. Áður hef ég getið um breytingarnar á verðlagsnefnd, en samkeppnisnefndin er algert nýmæli og fær mikið hlutverk verði þetta frv. að lögum. Þessi nefnd er kölluð samkeppnisnefnd í þessu frv. E. t. v. geta einhverjir málhagir menn fundið betra heiti á hana, en til þessa hefur hún verið kölluð þetta.

III. kafli fjallar um verðákvarðanir. Mikilvægasta grein þess kafla er 8. gr., en hún hljóðar svo:

„Þegar samkeppni er nægileg til þess að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag, skal verðlagning vera frjáls. Nú hefur verðlagning verið gefin frjáls og getur verðlagsstofnun þá skyldað hlutaðeigandi aðila til að tilkynna stofnuninni verðhækkanir.

Reynist samkeppni takmörkuð, eins og nánar er tilgreint í IV. kafla, eða samkeppni er ekki nægileg til að tryggja sanngjarnt verðlag eða horfur eru á ósanngjarnri þróun verðhags og álagningar, getur verðlagsráðið ákveðið eftirtaldar aðgerðir til að ná því takmarki, sem getið er um í 1. gr.:

1. Hámarksverð og hámarksálagningu.

2. Gerð verðútreikninga eftir nánar ákveðnum reglum.

3. Verðstöðvun í allt að sex mánuði í senn.

4. Aðrar reglur um verðlagningu og viðskiptakjör, sem verðlagsráð telur nauðsynlegar hverju sinni.“

Segja má að í þessari grein komi fram eitt meginmarkmið frv., þ. e. a. s. að gefa verðlagningu frjálsa þegar samkeppni er nægileg. Ég legg sérstaka áherslu á það, að alger forsenda fyrir frjálsri álagningu og frjálsri verðlagningu yfirleitt er að samkeppni sé nægileg til þess að tryggja sanngjarnt verðlag. Í framkvæmd yrði þetta svo, að verðlagsráð mundi meta það, hvort samkeppni í ákveðinni vörugrein væri nægileg til þess að réttlæta frjálsa verðlagningu. Má því búast við, að frjálsri verðlagningu yrði komið á í áföngum.

Auðvitað er það svo, að þó að menn játi því, að frjáls verðlagning geti verið æskileg, þá verður ekki horft fram hjá því, að aðstæður hér á landi eru að ýmsu leyti aðrar en annars staðar, m. a. að markaðurinn er hér miklu minni og takmarkaðri en víðast hvar, auk þess sem ekki verður horft fram hjá því heldur, að við búum við sérstaka verðþenslu, sem væntanlega tekst að draga úr, en er samt mjög mikil eins og er. Hafi verðlagning verið gefin frjáls, getur bein íhlutun um verðlagningu og álagningu átt sér stað í tvenns konar tilvikum samkv. 3. mgr. 8. gr. Í fyrsta lagi getur íhlutun um verðákvörðun farið fram þegar um skaðlegar samkeppnishömlur er að ræða. Í öðru lagi er unnt að beita beinni íhlutun um verðlagningu, ef samkeppnin er ekki nægilega virk til þess að tryggja sanngjarna verðlagningu, enda þótt ekki sé um sannanlegar samkeppnishömlur að ræða. Bein íhlutun um verðlag getur einnig farið fram, þegar skilyrði eru fyrir ósanngjarnri þróun verðlags og álagningar frá þjóðhagslegu sjónarmiði.

Samkv. því, sem nú var sagt, getur verðlagsráð ávallt gripið til aðgerða ef frelsið er misnotað. Getur verðlagsráð þá, eins og segir í 3. mgr. 8. gr., ákveðið að setja vörur á ný undir hámarksverð og hámarksálagningu. Ákvæðið í 8. gr. um að heimila verðlagsráði að ákveða stutta verðstöðvun er hugsað þannig, að séu sérstakar forsendur fyrir hendi, er réttlæti verðstöðvun, sé skjótvirkara að ákveða slíka aðgerð í verðlagsráði en að lögfesta slíka aðgerð á Alþ. eins og venjan hefur verið. Langvarandi verðstöðvun er samkv. fenginni reynslu erfið í framkvæmd nema jafnframt sé um aðrar aðgerðir í efnahagsmálum að ræða. Þess vegna er talið nauðsynlegt að kveða skýrt á um það,að verðstöðvun ákveðin af verðlagsráðinu megi aldrei standa lengur en sex mánuði í senn.

Í núgildandi verðlagslögum er hvergi fjallað um það, að verðlagning skuli gefin frjáls sé samkeppni nægileg. Augljóst er þó, að verðlagsnefnd hefur heimild til þess að gefa verðlag frjálst. Með því að setja skýr ákvæði um þetta efni í lög fæst ákveðin stefnumörkun. Þá er það algert nýmæli að gefa verðlagsráði heimild til þess að ákveða verðstöðvun í allt að sex mánuði í senn, eins og um var talað.

Í 12. gr. eru leiðbeiningar fyrir verðlagsráð og verðlagsstofnun um það, við hvað skuli miðað þegar verðákvarðanir eru teknar. Þar segir svo:

„Verðákvarðanir samkv. 8. gr. skulu miðaðar við afkomu fyrirtækja, sem rekin eru á tæknilega og fjárhagslega hagkvæman hátt og nýta eðlilega afkastagetu.

Verð og álagningu má ekki ákvarða lægri en svo, að fyrirtæki þeirrar tegundar, er í 1. mgr. getur, fái greiddan nauðsynlegan kostnað við innkaup eða endurinnkaup vöru, framleiðslu, aðflutning, sölu, flutning ásamt afskriftum, svo og sanngjarnan, hreinan hagnað, þegar tekið er tillit til áhættuna við framleiðslu vörunnar og sölu.“

Í 13. gr. segir, að verðlagsstofnun skuli í því skyni að örva verðskyn neytenda, efla verðsamkeppni og til að tryggja sanngjarna verðlagsþróun rannsaka verð og álagningarhætti á einstökum vörum og vöruflokkum og birta greinargerðir og fréttatilkynningar þar um.

Verðlagsstjóri hefur að undanförnu nokkuð farið inn á þá braut, sem hér er fjallað um, eins og menn hafa ugglaust veitt athygli. Ekki hefur verið hægt að gera meira í því efni en raun ber vitni vegna mannfæðar og skorts á húsrými. Nauðsynlegt er að auka þessa starfsemi til þess að örva verðskyn neytenda. Að því miðar þetta ákvæði.

IV. kafli frv. fjallar um markaðsráðandi fyrirtæki og samkeppnishömlur. Í 14. gr. segir m. a.:

„... hefur verðlagsstofnun eftirlit með fyrirtækjum, sem eru ráðandi á markaðnum, og ákvörðunum, sem þau hafa tekið um samkeppnishömlur. Eftirlitið tekur til samninga og samþykkta um samkeppnishömlur.

Tilkynna skal til verðlagsstofnunar, samkv. kröfu samkeppnisnefndar, sbr. 4. gr., markaðsráðandi fyrirtæki og ákvarðanir, sem þau hafa tekið um samkeppnishömlur. Í tilkynningu skulu koma fram upplýsingar um helstu eigendur fyrirtækisins, hvaða vörur eða þjónustu fyrirtækið framleiðir eða selur, svo og verðákvarðanir fyrirtækisins, viðskiptaskilmála og ákvarðanir um samkeppnishömlur.

Samninga og samþykktir um samkeppnishömlur, er varða framleiðslu, sölu eða flutninga skal tilkynna verðlagsstofnun eftir kröfu samkeppnisnefndar. Samningar, samþykktir og annað samráð milli fyrirtækja um verð og álagningu er þó óheimilt, sbr. 21.–23. gr.

Í tilkynningu skal greina samninginn eða samþykktina orðrétt, nöfn og heimilisföng á þeim fyrirtækjum, sem samningurinn eða samþykktin nær til, svo og verð, afslátt, aðra viðskiptaskilmála og samkeppnishömlur, sem kveðið er á um í samningnum eða samþykktinni.

Breytingar á því, sem tilkynnt hefur verið, skal tilkynna, áður en þær ganga í gildi.“

Hér er sem sé gert ráð fyrir því, að verðlagsstofnun hafi eftirlit með þeim fyrirtækjum sem eru ráðandi á markaðnum. Þá er spurning, hvað teljist markaðsráðandi fyrirtæki. Í aths. með frv. segir, að með slíku fyrirtæki sé átt við fyrirtæki, sem hafi yfir 25% veltu í viðkomandi starfsgrein. Þessa skilgreiningu þarf sjálfsagt að fastákveða nánar í reglugerð.

Í 14. gr. segir að tilkynna skuli til verðlagsstofnunarinnar samkv. kröfu samkeppnisnefndar markaðsráðandi fyrirtæki og ákvarðanir sem teknar hafa verið um samkeppnishömlur. Við undirbúning frv. var nokkuð um það fjallað, hvort skylda ætti öll markaðsráðandi fyrirtæki til þess að gefa sig fram við verðlagsstofnun, þ. e. að þeirra eigin frumkvæði. Að athuguðu máli var talíð réttara, að frumkvæðið yrði hjá samkeppnisnefnd, og það talið raunhæfara, þannig að tilkynningarskyldan kæmi ekki til greina fyrr en samkv. kröfu frá samkeppnisnefnd. Mismunandi reglur gilda um tilkynningarskyldu slíkra fyrirtækja erlendis. Ljóst er að hér á landi starfa nokkur fyrirtæki sem augljóslega eru markaðsráðandi samkv. skilgreiningu frv., en önnur eru e. t. v. á mörkunum. Yrði samkeppnisnefnd þá að meta, hvort skráð væru slík fyrirtæki, og taka upp eftirlit með þeim eða ekki.

Í 18. gr. segir að samkeppnisnefnd geti ákveðið, að verð og álagning, sem ákveðin hefur verið af markaðsráðandi fyrirtækjum eða með samningum eða samþykktum, megi ekki hækka án leyfis verðlagsráðs. Þá má gera ráð fyrir því, að í framkvæmd yrði það yfirleitt svo, að markaðsráðandi fyrirtæki yrðu háð verðlagsákvæðum. Í 19. gr. segir m. a.:

„Nú telur samkeppnisnefnd, að samkeppnishömlur hafi skaðleg áhrif, og skal hún þá fela verðlagsstofnun að reyna með samningum að binda enda á þau.

Nú reynist eigi unnt að taka fyrir hin skaðlegu áhrif með samningum og gefur þá samkeppnisnefnd nauðsynleg fyrirmæli. Slík fyrirmæli mega taka yfir hæði breytingar og ógildingu að nokkru eða öllu leyti á samningum, samþykktum eða ákvörðunum. Enn fremur getur samkeppnisnefnd lagt til við verðlagsráð að ákvæðum 8. gr. verði beitt.“

Sem dæmi um aðgerðir samkeppnisnefndar má nefna, að sé um samtök milli fyrirtækja að ræða um að halda verði uppí mundi verðlagsstofnun væntanlega reyna með samningum að fá slík samtök leyst upp, en ella yrði lagt bann við þeim af samkeppnisnefnd.

Í 20. gr. er að finna skilgreiningu á því, hvað teljist skaðlegar samkeppnishömlur. Þar segir svo:

„Samkeppnishömlur teljast skaðlegar, þegar þær hafa ósanngjörn áhrif á verðmyndun og atvinnustarfsemi eða koma í veg fyrir bestu hagnýtingu í framleiðslu, vörudreifingu og þjónustu.

Skaðleg áhrif geta verið fólgin í ósanngjörnu verði, álagningu eða viðskiptaskilmálum, ósanngjarnri takmörkun á frelsi til atvinnurekstrar eða ósanngjörnum mismun í viðskiptakjörum.“

Ástæða er til þess að vekja sérstaka athygli á 21. gr. Þar segir að samningar, samþykktir og annað samráð milli fyrirtækja um verð og álagningu sé óheimilt. Er ákvæði þetta sniðið eftir hliðstæðu ákvæði í norsku verðlagslögunum. Með því að taka þetta ákvæði upp verður löggjöf um samkeppnishömlur mun strangari en ella. Í 14. gr. er, sem fyrr segir, kveðið á um eftirlit með samningum og samþykktum um samkeppnishömlur. Í 19. gr. er heimild fyrir samkeppnisnefnd til þess að banna samninga og samþykktir um verð, sem hafa í för með sér skaðlegar samkeppnishömlur. Í 21. gr. er gengið lengra en í 19. gr. Þar er lagt bann við samningum, samþykktum og öðru samstarfi milli fyrirtækja um verð og álagningu án tillits til þess, hvort afleiðingar slíks samráðs teljast skaðlegar samkeppnishömlur eða ekki.

Í skjóli langvarandi tiltölulega strangra verðlagsákvæða hefur þróast hér á landi náið samráð milli viðskiptaaðila um verð og álagningu. Nauðsynlegt er að slíkt samráð sé ekki stundað á óeðlilegan hátt, ef á að koma á frjálsri samkeppni. Þess vegna er 21. gr. mjög mikilvæg. Ef bann það, sem kveðið er á um í 21. gr., væri fortakslaust, mundi það einnig ná til sölusamtaka, en í 24. gr. eru ákvæði um undanþágur frá banni þessu. Á grundvelli þess undanþáguákvæðis mætti heimila starfsemi sölusamtaka, sem uppfylla skilyrði, sem þar eru tilgreind.

Í 22. gr. segir að samningar, samþykktir og annað samráð milli fyrirtækja við útboð sé óheimilt, og í 23. gr. er bannað að ákveða, samþykkja eða semja um ófrávíkjanlegt lágmarksverð eða álagningu er gilda skuli við endursölu á næsta sölustigi. Samráð milli aðila við útboð mun vera talsvert algengt hér á landi. Er talið rétt að hamla sem mest gegn því, svo að kostur útboða fái notið sín, en í vissum tilvikum getur slíkt samstarf vitaskuld verið réttlætanlegt, t. d. þegar margir íslenskir aðilar sameinast um að bjóða í verk gegn erlendum aðilum.

Í 24. gr. segir svo:

„Samkeppnisnefnd getur veitt undanþágu frá ákvæðum 21.–23. gr. Undanþágur má veita, ef samningar, samþykktir eða ákvarðanir, sem um ræðir í 21.–23. gr., eru taldar nauðsynlegar:

a) til að viðhalda samvinnu milli fyrirtækja, sem talin er leiða til lækkunar á kostnaði eða aukinna gæða framleiðsluvara eða stuðla að æskilegri hagræðingu,

b) til að vernda fyrirtæki gegn óæskilegum eða þjóðfélagslega skaðlegum samkeppnisháttum.

c) vegna sérstakra ástæðna, er samræmast þjóðarhagsmunum.“

Eins og ég sagði áðan, mundu undanþáguákvæði þessi t. d. geta gilt fyrir sölusamtök sem starfa hér á landi og sannað hafa gildi sitt.

Í 25. gr. segir að samkeppnisnefnd geti skyldað fyrirtæki til að selja nánar tilgreinda vöru eða þjónustu, ef synjun um sölu teljist skaðleg fyrir samkeppnishætti. Einnig segir þar, að sala gegn óvenjulegum skilmálum jafngildi synjun. Þá segir enn fremur svo um sölusynjun:

„Komist samkeppnisnefnd að þeirri niðurstöðu, að um sé að ræða skaðleg áhrif á samkeppnishætti, skal fyrst reyna í samráði við málsaðila að binda enda á sölusynjunina. Takist það ekki, skal samkeppnisnefnd gefa út fyrirmæli um, að innan nánar tilgreinds tíma skuli sala gegn venjulegum skilmálum fara fram. Seljandi getur þó alltaf krafist staðgreiðslu eða tryggingar fyrir greiðslu.“

Dæmi eru til þess, að sölusynjun hafi verið beitt hér á landi án þess að um frambærileg rök hafi verið að ræða. Hefur þá algerlega skort lagaákvæði til þess að byggja á aðgerðir eða nauðsynlegar ráðstafanir. Rétt er þó að taka fram hér, að þetta lagaákvæði á ekki að koma í veg fyrir að t. d. samvinnusamband geti hér eftir sem hingað til útvegað kaupfélögum vörur án þess að eiga yfir höfði sér að vera skyldað til þess að selja þær vörur öðrum.

Segja má að þau ákvæði, sem ég nú hef rakið varðandi markaðsráðandi fyrirtæki, eins og þau eru kölluð í þessu frv., og samkeppnisnefnd og heimildir þær, sem henni eru gefnar, og skylduna, sem lögð er á markaðsráðandi fyrirtæki gagnvart samkeppnisnefnd um tilkynningar, séu alger nýmæli í íslenskri löggjöf. Þan ákvæði eiga sér hins vegar fyrirmyndir og hliðstæður í erlendri löggjöf. Lögð hefur verið á það áhersla af ýmsum aðilum, að nauðsynlegt væri að setja slík ákvæði í íslenska löggjöf, og hefur verið gert ráð fyrir því, að slík lagaákvæði gætu haft heillavænleg áhrif hér á landi svo sem þau eru talin hafa haft sums staðar annars staðar. Úr þessu er ekki ástæða til að draga, enda þótt rétt sé að undirstrika hér, eins og ég hef áður gert, að aðstæður á landi hér eru á margan hátt aðrar en annars staðar. Enn fremur er ekki ástæða til þess að gylla þessi ákvæði eða að menn bindi neina oftrú við þau, vegna þess að sannleikurinn er sá, að í mörgum tilfeilum getur verið erfitt að hafa eftirlit með framkvæmd í þeim efnum. En þó hygg ég að ef vel tekst til um framkvæmdina í þessum efnum, þá geti þessi ákvæði orðið til góðs og jafnvel það að menn viti af því, að þessi ákvæði eru til, og hagi gerðum sínum samkv. því. Vel má vera að þar sem hér er um svo alger nýmæli að tefla þurfi menn tíma til þess að átta sig á þeim.

Ég kem þá að V. kafla frv., sem fjallar um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd. Allt frá árinu 1933 hafa gilt hér á landi lög um varnir gegn óréttmætum verslunarháttum. Í þeim lögum eru ýmis ákvæði sem eru mikilvæg frá sjónarmiði neytenda, þó að þau séu, eins og ég sagði áður, fyrst og fremst sniðin við það, að þeim er ætlað að hvetja heiðarlega samkeppni milli þeirra, sem bjóða vörur og þjónustu. Þau ákvæði laganna, sem helst geta komið neytendum til góða, eru 1. og 3. gr., um villandi upplýsingar og reglur 14. gr. um kaupbætismiða, happdrættismiða og vörugjafir. Nokkur vernd hefur þannig verið í gildandi löggjöf fyrir neytendur. Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Í gildandi lögum er ekki séð fyrir sérstöku eftirliti með því, að lögin séu haldin. Engum sérstökum aðila er falið að fylgjast með framkvæmdinni. Framkvæmdinni hefur því að ýmsu leyti verið áfátt. Það segir síg sjálft, að virkt eftirlit verður að vera með löggjöf sem þessari og framkvæmd hennar krefst óþrjótandi starfs, ef vel á að vera. Því varð ljóst að ekki nægði að endurskoða þessa löggjöf og færa hana til nútímalegra horfs. Hitt var ekki síður mikilvægt, að reyna að tryggja fullnægjandi framkvæmd hennar. Sýnt var að fela þurfti ákveðnum aðilum framkvæmdina, ef vel ætti að takast til. Því er það, að í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að sérstök deild við verðlagsstofnun, neytendamáladeild, starfi að framkvæmd ákvæðanna um óréttmæta viðskiptahætti.

Til þess að tryggja meðferð þýðingarmestu málauna fyrir neytendur og skilvirka framkvæmd þeirra er lagt til að samkeppnisnefnd verði veitt visst úrskurðarvald um mál er varða brot á 26. og 27. gr. Menn eru að sjálfsögðu ekki sviptir rétti sínum til þess að leita úrlausnar dómstóla með þessari skipan. Hins vegar geta þeir ekki skotið sér undan úrskurðum samkeppnisnefndar með málskoti til dómstóla. Úrskurðir og ákvarðanir nefndarinnar þar gilda þar til dómstóll hefur komist að annarri niðurstöðu.

Ég vil leggja alveg sérstaka áherslu á þessa breyttu framkvæmd og málsmeðferð sem fyrirhuguð er og ég tel að muni skipta mjög miklu í þessum efnum. Núna sæta mál af þessu tagi ýmist opinberri ákæru eða ákæru samkv. beiðni þess sem misgert er við. Ber ríkissaksóknara í fyrra tilfellinu að sjá um það af sjálfsdáðum, að enginn komist upp með það óhengt að brjóta lögin, en enginn sérstakur eftirlitsaðili hefur frumkvæði í þessum efnum, eins og áður hefur verið sagt. Mál þessi eru rannsökuð og dæmd af sjó- og verslunardómi. Þau dómsmál, sem risið hafa út af ákvæðum laga, hafa flest átt rætur að rekja til deilna á milli fyrirtækja. Þannig hafa samkeppnissjónarmið fremur orðið orsök málaferlanna en neytendasjónarmið.

Við endurskoðun laga um varnir gegn óréttmætum verslunarháttum hefur verið höfð hliðsjón af norrænum lögum um hliðstætt efni. Lög þessi eru nýleg og er í þeim, auk nýrra og endurskoðaðra efnisákvæða, kveðið á um stofnun embætta svokallaðra umboðsmanna neytenda, markaðsdómstól og sérstaka málsmeðferð. Norrænu lögin eru nokkuð mismunandi. Reynt hefur verið að velja það, sem virðist best henta íslenskum aðstæðum, og aðlaga það þeim. Hins vegar er ekki, eins og ég hef áður vikið að, framkvæmd og eftirliti fyrir komið með þeim hætti í þessu frv. sem er á hinum Norðurlöndunum, og er það einkum, eins og ég líklega hef gert grein fyrir, vegna sparnaðar og hagkvæmnissjónarmiða, að reynt er að fella saman þá þrjá höfuðmálaflokka, sem þetta frv. fjallar um: verðlagsmál, samkeppnismál og óréttmæta viðskiptahætti, í einn lagabálk og láta framkvæmd þeirra vera í höndum sömu aðila. En varasamt er, eins og ég hef þegar minnst á, að erlendar fyrirmyndir geti alltaf átt við óbreyttar hér á landi.

Af hálfu þeirra samtaka, sem vinna að neytendamálum, hefur verið óskað eftir því, að löggjöf um neytendavernd verði sett og þá í þeim skilningi, að felld séu í einn lagabálk þau ákvæði sem stuðla að vernd neytenda. Þeir, sem hafa litið á málin frá þessum sjónarhóli, hafa talið, að ákvæði frv. séu ófullnægjandi, og óttast, að það verði látið duga sem heildarlöggjöf um vernd neytenda. Þetta er að mínu mati á misskilningi byggt, þar sem ákvæði er snerta vernd neytenda, eru í mörgum lögum og að ýmsu leyti um ólík svið að ræða. Má sem dæmi nefna annars vegar kaupalög og hins vegar matvælaeftirlit. Fjölmargt er nú flokkað undir neytendamálefni. Flest er betur komið í lagabálkum, sem fjalla um ákveðið svið, þar sem það er í sínu rétta samhengi.

Ákvæði þau, sem hér liggja fyrir um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd, hafa víðast hvar verið talin sérstaklega mikilvæg fyrir neytendur. Á slíkri löggjöf byggjast m. a. eftirlits- og samræmingarkerfi neytendamálanna, neytendaumboðsmennirnir og markaðsdómstólarnir á Norðurlöndum. Þar sem í frv. er gert ráð fyrir sérstökum eftirlitsaðila og skjótvirkum úrskurðaraðila tel ég að sé um að ræða stórbætta vernd neytenda og lausn ýmissa knýjandi vandamála, þótt ég geri mér fyllilega grein fyrir því, að ýmislegt fleira þurfi að koma til. Þessi mál verða ekki leyst á einum degi og ekki er alls kostar sanngjarnt að benda sífellt á fyrirmyndarskipan erlendis í þessum efnum, þar sem unnið hefur verið að þessum málum áratugum saman, en í sumum ríkjum starfa mörg hundruð opinberir starfsmenn auk öflugra neytendasamtaka að vernd neytenda.

Ég skal þá aðeins víkja stuttlega að helstu ákvæðum V. kafla.

26. gr. er mikilvægt nýmæli, sem lagt er til að lögtekið verði hér á landi. Þar er um að ræða almenna reglu um bann við óheiðarlegum viðskiptaháttum. Slík regla hefur lengi verið í löggjöf víða erlendis og mikil reynsla fengist þar við beitingu hennar. Reglunni er ætlað að ná til ýmissa tilvika, sem aðrar greinar kaflans, er einkum fjalla um sérstakar viðskiptaaðferðir, ná ekki til. Vegna stöðugra breytinga viðskiptaháttanna væri hætta á því, að sérreglurnar næðu ekki til ýmissa þeirra tilfella sem ástæða væri að koma í veg fyrir. Meginhugtakið í greininni er góðir viðskiptahættir. Það er því vísað til þess. Það ræðst af atvikum á þeim stað og tíma, þegar verknaður er unninn, hvað telja beri góða viðskiptahætti. Mikið verk verður að móta !þessa grein í framkvæmd, þar sem fátt er við að styðjast hér á landi í þessum efnum. Þetta er önnur þeirra greina sem samkeppnisnefnd mun taka þátt í að framkvæma með ákvörðunum um bann. Að öðru leyti vísa ég til ítarlegra aths. við greinina, þar sem ég hygg að allt það, er máli skiptir, komi fram.

Í 27. gr. felast ýmsar breytingar frá gildandi lögum. Hér er fjallað um eina mikilvægustu meginregluna, sem löggjöf um ólögmæta viðskiptahætti hefur almennt að geyma. Um það er að ræða, að upplýsingar og önnur skírskotun til annarra, sem atvinnurekendur beita til framdráttar starfsemi sinni, mega ekki vera villandi. Þessi meginregla kemur einkum fram í tveimur greinum gildandi laga, þ. e. a. s. í 1. og 11. gr. 11. gr., sem 27. gr. frv. er ætlað að koma í staðinn fyrir, er fyrst og fremst stefnt að því að vernda kaupendur. Gert er ráð fyrir því, að 11. gr. gildandi laga falli niður sem sjálfstæð grein, en tekið verði tillit til þeirra hagsmuna, sem henni er ætlað að vernda, í 2. mgr. 27. gr. frv. 1 gildandi lögum er talað um villandi upplýsingar og villandi auðkenni. Þetta orðalag er of þröngt og er því lagt til, að það verði rýmkað að mun og talað verði um rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar. Ekki skiptir máli, í hvaða formi upplýsingarnar eru. Þær geta birst í margvíslegum myndum, sérstaklega er þó getið um auglýsingar, enda eru hin ýmsu form auglýsinganna langalgengust.

Með orðunum „öðrum viðskiptaaðferðum“ er ætlunin að ná til ýmiss konar yfirlýsinga og fullyrðinga sem ekki falla undir upplýsingagjöf.

Ólögmæti verknaður samkv. þessari grein er háð því, að þær aðferðir, sem notaðar eru, séu til þess fallnar að hafa áhrif á eftirspurn eða framboð vara eða þjónustu.

Með þessa grein að vopni er ætlunin að snúast gegn öllu því óskaplega og ég vil segja ógeðfellda skrumi sem á neytendum dynur í vöruframboði og einkum birtist í ýmiss konar auglýsingum. Til þess að tryggja sem virkasta framkvæmd ákvæða þessarar greinar er lagt til, að sami háttur verði hafður á og varðandi framkvæmd 26. gr., að samkeppnisnefnd geti lagt bann við verknaði sem telst brjóta í bág við ákvæði hennar. Hér er þó nokkur munur á. 26. gr. vísar til góðra síða og venja og því er forsenda viðurlaga algerlega háð því, að lagt hafi verið á bann samkv. ákvörðun samkeppnisnefndar og brotið hafi verið gegn slíku banni. Ef brot telst hins vegar varða við 27. gr. getur verðlagsstofnun metið hvort málið sé tækt með venjulegum hætti til meðferðar hjá dómstólum eða lagt fyrir samkeppnisnefnd til meðferðar samkv. ákvæðum þessa frv. Það mundi eflaust ráðast af því, hversu skjótra úrræða væri þörf, hvor leiðin yrði valin.

Um almenna leiðbeininga- og upplýsingaskyldu við framboð vara og þjónustu er fjallað í 28. gr. Hér er um nýmæli að ræða sem ætti að auka verulega rétt neytenda á þessu sviði, en oft hefur verið kvartað yfir því, að ófullnægjandi upplýsingar séu gefnar um þær vörur sem eru á markaði.

Reglur 29. gr. um ábyrgðaryfirlýsingar leiða í reynd til þess, að óheimilt verður að semja um skemmri ábyrgðartíma en þann sem kveðið er á um í hinum frávíkjanlegu reglum kauplaganna. Hér er um að ræða, að kaupandi verður, innan eins árs eftir að hann fékk söluhlut í hendur, að bera fyrir sig galla á honum. Í viðskiptalífinu hefur talsvert eða jafnvel mikið borið á því, að seljendur semji sig undan þessum ábyrgðartíma og ákveði hann miklu skemmri, bæði með sjálfstæðum ábyrgðaryfirlýsingum og yfirlýsingum, sem eru þáttur í stöðluðum samningsskilmálum, sem kaupendur eru látnir samþykkja.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um 30. gr, Þar er um að ræða reglur, sem auðkenna vernd, sem er í gildandi lögum. Greinin hefur skipt máli sem viðhót við þá vernd sem firma- og vörumerkjalög veita þessum auðkennum.

Í 31. og 32. gr. er fjallað um kauphæti. Gildandi lög hafa ákvæði um þetta efni, en nokkuð hefur borið á ólögmætum kaupbæti í viðskiptalífinu. Hafa nokkrir dómar fallið; þar sem reynt hefur á kaupbætisreglur gildandi laga. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þessar greinar. Þar er um nokkrar breytingar að ræða frá samsvarandi ákvæðum gildandi laga.

Nýmæli er í 33. gr., þar sem ætlunin er að koma í veg fyrir söluörvandi aðgerðir, sem fólgnar eru í úthlutun vinninga í formi verðlaunasamkeppni og á þvílíkan hátt. Ég tel rétt að sett verði ákvæði um þetta, enda þótt söluörvandi starfsemi af þessu tagi sé ekki mjög tíðkuð hérlendis. Í nágrannalöndunum er þessi aðferð algeng og er ekki ólíklegt að hennar fari að gæta meir hérlendis.

Ákvæði 34. og 35. gr. miða fyrst og fremst að því að koma í veg fyrir óhæfilega samkeppni milli fyrirtækja. Þar er annars vegar um að ræða bann víð mútugjöfum og hins vegar um vernd atvinnuleyndarmála og skyldra hagsmuna. Ákvæði eru í gildandi lögum um þetta efni. Hér er þó ýmsu breytt og ítarlegri reglur settar. Eru þær sniðnar eftir nýjustu reglum um þetta efni á Norðurlöndum.

Í gildandi lögum eru ítarleg ákvæði um útsölur. Þau eru hins vegar orðin úrelt og löngu tímabært að setja ný ákvæði um útsölur sem tryggja hefur rétt neytenda en gildandi ákvæði. Gildandi reglur fjalla einkum um það, hversu lengi útsölu megi halda. Ekki er ástæða til að hafa ákvæði um útsölur, sem fyrst og fremst er ætlað að vernda fyrirtækin gegn samkeppni. Keppt er að verðsamkeppni og gætu strangar útsölutakmarkanir hamlað gegn henni. Aðalatriðið er, hvort hætta sé á því, að neytendur séu beittir blekkingum í auglýsingum eða upplýsingum um útsölur. 36. gr. er ætlað að koma í veg fyrir slíkt, einkum með því að leitast við að tryggja að um raunverulega verðlækkun sé að ræða. Útsölur má hins vegar halda eftir þörfum ef skilyrði um verðlækkun og annað eru uppfyllt.

Ákvæði 37. gr. eru tekin úr gildandi lögum með nokkrum breytingum. Þar er um að ræða vernd ýmissa alþjóðamerkja, skjaldarmerkja og hliðstæðra auðkenna. Vafasamt er að þessar reglur eigi heima í þessu frv. Eðlilegra væri að þessum auðkennum væri veitt vernd í almennum hegningarlögum. Rétt er þó, a. m. k. til bráðabirgða, að hafa þessa reglu áfram í tengslum við ólögmæta viðskiptahætti.

Um ákvæði 38.–43. gr. og um meðferð mála sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða, nema hvað rétt er að undirstrika þá heimild, sem samkeppnisnefnd var veitt í 38. gr. til að beita svokölluðu févíti.

Í 45. gr. er lagt til, að verðlagsstjóri fái víðtækari heimild en hann hefur nú til að fyrirskipa verðmerkingar. Heimild þessi nær einnig til verðupplýsinga á vörum, sem seldar eru gegn afborgunum, svo og til að setja reglur um afborgunarskilmála.

Um VII. kaflann skal ég nú ekki fjölyrða. Þar er fjallað um meðferð og áfrýjun mála. Vísa ég til þess, sem þar segir, og til aths. Ég vil aðeins vekja sérstaka athygli á ákvæðum 51. gr. um birtingu ákvarðana og athugana samkv. frv. Opinber birting, sem þar er gert ráð fyrir, ætti að skapa skilning á framkvæmd þessara mála og leiða til þess, að stjórnvöld verði stöðugt háð gagnrýni almennings og fjölmiðla.

Ef þetta frv. verður að lögum, er vissulega farið inn á nýja hraut í verðlagsmálum. Stefnt er að frjálsri verðmyndun, er byggist á nægilegri samkeppni. Það er hins vegar mikill misskilningur, að ætlunin sé að leggja niður allt verðlagseftirlit. Þvert á móti yrði það aukið. En verðlagseftirlitið verður með öðrum hætti og allt öðrum hætti en áður. Það verður þá fyrst og fremst fólgið í því að fylgjast með verðlagsþróuninni í hverri grein, fylgjast með því, hvort samkeppni sé nægileg og hvort verðlag sé sanngjarnt. Slíkt eftirlit krefst margra vel menntaðra starfsmanna. Það krefst öflugrar og góðrar verðlagsstofnunar. Til þess að byggja upp slíka stofnun þarf verulegt fjármagn, og það tekur tíma að koma slíkri stofnun upp. Þess vegna þarf ákveðinn aðlögunartíma fyrir þá kerfisbreytingu sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Lagt er til í frv., eins og ég hef áður tekið fram, að sá tími sé sex mánuðir frá því að frv. er samþykkt á Alþingi.

Hér er um mikilvæg málefni að ræða, sem mikið hafa verið rædd að undanförnu. Íslendingar hafa lengi búið við verðlagsákvæði og verðlagseftirlit og misjafnar skoðanir hafa komið fram á þeim árangri sem sú starfsemi hefur borið. Ég skal ekki kveða upp neinn dóm um það, en ég hygg hins vegar að ljóst sé að löggjöf um þetta efni, sem lengi hefur í meginatriðum staðið lítt breytt, þarfnast endurskoðunar. Hún hefur, og framkvæmd hennar, tilhneigingu til þess að staðna. Þess vegna er æskilegt, að mínum dómi, hvað sem öðru líður, að koma nokkru róti á þessi mál með því að setja nýja og betri löggjöf um þetta efni. Ég er ekki í nokkrum vafa um, þó að skiptar skoðanir geti orðið um einstök ákvæði í þessu frv., að það verði í heild sinni til bóta. Það hefur að geyma mýmörg ákvæði sem geta orðið til góðs, þá ekki síst fyrir neytendur, ef vel tekst til um framkvæmd þeirra. En ég vil enga dul draga á það, og ég vil einmitt endurtaka það sem ég sagði áðan, að hv. þm. verða að gera sér grein fyrir því, að góð framkvæmd þessara laga kostar talsvert fé og hún þarf að hafa á að skipa hæfum mönnum sem geta unnið þetta verk. Þess vegna verða menn um leið og þeir afgreiða og samþykkja þetta frv. að vera við því búnir að láta nægilegt fjármagn í té til þess að halda þessari starfsemi uppi, svo að hún geti orðið að því gagni sem til er ætlast. Auðvitað kemur svo að því, jafnvel þó að þessi löggjöf verði afgreidd nú, að hana þarf síðar að endurskoða, vegna þess að það hlýtur alltaf að verða svo með þessa löggjöf um svona efni, að hana þarf að taka til endurskoðunar annað slagið. Ég býst við því að flestir játi því, að sem mest frelsi sé æskilegt í þessum efnum. En þá verða menn líka að taka tillit til þess, sem ég hef líka undirstrikað áður, að aðstæður hér hjá okkur ern að ýmsu leyti öðruvísi en í öðrum löndum, og það þýðir ekki að ætla að horfa fram hjá því og fara eftir óskhyggjunni einni saman í þessu efni og miða við eitthvað sem þeir hafa séð annars staðar og þótt gott. Ekki er alltaf gefið, að það eigi við hjá okkur.

Ég skal ekki þreyta þdm. á lengra spjalli um þetta mál, en ég tel það svo mikils vert, að ég hef talið réttmætt að gera nokkuð ítarlega grein fyrir því, ekki hvað síst vegna þess að e. t. v. hættir mönnum og hefur hætt til þess að taka afstöðu til þess fyrir fram án þess að hafa kynnt sér það rækilega, sem í frv. stendur, og þau markmið, sem stefnt er að með frv.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Ég leyfi mér að mælast til þess, þar sem langt er liðið á þingtímann, að sú n. hagaði störfum sínum þannig, að hún ynni eftir því sem við verður komið í samvinnu við tilsvarandi n. hv. Ed.