04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3107 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

356. mál, markaðsmál landbúnaðarins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég býst við því að verða að taka svar mitt í einhverri annarri röð heldur en fsp. eru.

Hin fyrsta er: „Hvernig er í meginatriðum háttað áformum íslenskra söluaðila um nýtt átak í markaðsleit fyrir íslenskt dilkakjöt?“ Og þá vil ég í því sambandi lesa grg. sem formaður markaðsnefndarinnar hefur samið um störf hennar.

„Með skipun markaðsnefndar landbúnaðarins, sem tók til starfa í ágústmánuði á s. l. ári, var reynt að koma á samstarfi milli fimm stofnana og fyrirtækja um stefnumótun í markaðsmálum. Aðilar að markaðsnefnd landbúnaðarins eru þessir:

1. Framleiðsluráð landbúnaðarins. Fulltrúi þess er Sveinn Tryggvason framkvæmdastjóri, sem er formaður nefndarinnar.

2. Landbrn. Fulltrúi þess er Sveinbjörn Dagfinnsson ráðuneytisstjóri.

3. Stéttarsamband bænda. Fulltrúi þess er Jón Helgason alþm.

4. Búnaðarfélag Íslands. Fulltrúi þess er Sveinn Hallgrímsson sauðfjárræktarráðunautur,

5. Samband ísl. samvinnufélaga. Fulltrúi þess er Agnar Tryggvason framkvæmdastjóri.

Starfsmaður n. er Jón Ragnar Björnsson. Alls hefur n. haldið 18 fundi og rætt ýmsa þætti varðandi markaðsmál.“

Þetta er skrifað 21. mars. En n. heldur yfirleitt fundi á hverjum þriðjudegi og sá síðasti var í morgun, svo að þeir eru eitthvað fleiri.

Segja má, að viðleitni n. hafi til þessa aðallega beinst að fjórum atriðum hvað varðar sölu á dilkakjöti:

1. Aukningu á sölu dilkakjöts innanlands og hagkvæmari skiptingu einstakra hluta skrokksins. 2. Hagstæðara verði á núverandi útflutningsmörkuðum. 3. Markaðsleit með þátttöku í sýningum og á annan hátt. 4. Framleiðslu nýrra vörutegunda úr dilkakjöti með útflutning í huga.

1. Markaðsnefndin beitti sér fyrir því að gera till. til sex manna n. um breytingu verðhlutfalla milli hinna ýmsu hluta dilksskrokksins. En verðmunur var orðinn mjög óverulegur milli t. d. læra og hryggja annars vegar og framparta hins vegar og olli söluerfiðleikum á framhlutum. Við síðustu verðlagningu kom Sex-mannanefnd nokkuð til móts við till. markaðsnefndar, og mun verða haldið áfram að vinna að breytingu verðhlutfallanna fyrir næstu verðlagningu búvara.

Markaðsnefndin beitir sér nú fyrir tilraunum með að pakka niðursneidda framparta í smekklegar umbúðir og væntir þess, að þær ráðstafanir stuðli að aukinni sölu á dilkakjöti innanlands. Þegar breyting á verðhlutföllum hefur náðst að fullu opnast möguleikar til að flytja dýrari hlutana út sér, en vinna ýmsa sérrétti úr frampörtunum.

2. Formaður markaðsnefndar, Sveinn Tryggvason, ferðaðist til Noregs og Svíþjóðar á s. l.hausti og átti m. a. viðræður við landbrh. beggja landanna og aðra ráðamenn á sviði markaðsmála. Var þar m. a. rætt um þann aðstöðumun sem er á milli þarlendra og íslenskra framleiðenda dilkakjöts, sem fólginn er í miklum niðurgreiðslum á sænsku og norsku dilkakjöti. Var þessu erindi Sveins tekið með skilningi af ráðamönnum, en niðurstaða liggur ekki enn þá fyrir. Hér vil ég bæta því við, að þegar ég fór á ráðstefnu FAO á s. l. hausti átti ég viðræður við alla landbrh. Norðurlandanna einmitt um þessi markaðsmál og enn fremur aðalforstjóra FAO. Þau erindi, sem við höfum sent þeim í sambandi við þessi mál, eru til athugunar hjá hverjum í sínu heimalandi, en á þeim eru ýmis vandkvæði, eins og fram kom í erindinu hér að framan, vegna þess hvað niðurgreiðslur á kjöti þeirra eru miklar heima fyrir. Þá ferðaðist starfsmaður markaðsnefndar, Jón Ragnar Björnsson, til Danmerkur og Svíþjóðar á síðasta hausti til þess að kynna sér verðmyndun og markað fyrir dilkakjöt og pörtun og pökkun á kjöti.

3. Markaðsnefndin var með í ráðum varðandi undirbúning að þátttöku Íslendinga að „grænu vikunni“ í Berlín. Þátttakan í sýningunni var undanfari markaðsfræðslu um dilkakjöt í Vestur-Berlín, en ástæða þykir til að kanna sölumöguleika þar, því að Vestur-Berlín er talin álitlegur markaður fyrir dilkakjöt. Frekari kynningar munu verða á kjötinu á ákveðnum hótelum og sérverslunum í Vestur-Berlín nú í vor, og munu þær að líkindum hefjast í þessum mánuði. Þess má geta, að á „grænu vikunni“ var notað vörumerkið DILK yfir dilkkjötsrétti sem á boðstólum voru, en ætlunin er að nota það orð fyrir íslenska dilkakjötið á erlendum mörkuðum. Þetta er íslenskt orð sem lætur vel í eyrum og er auðvelt að tengja öðrum orðum á ýmsum tungumálum.

Í annan stað hefur markaðsnefndin unnið allmikið að því að koma dilkakjöti til neyslu hjá bandaríska varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Það mál er enn á umræðustigi. Markaðsnefndin hefur óskað þess við Íslenskan markað á Keflavíkurflugvelli, að gerðar verði tilraunir í sumar með að kynna íslenskar búvörur í fríhöfninni, m. a. með því að gefa flugfarþegum kost á að bragða á íslenskum réttum og sérmeti, þar með talið reykt kjöt. Ætlunin er að reyna að gera markaðskannanir um leið. Um flugvöllinn fara hundruð þúsunda farþega á ári af fjölmörgum þjóðernum og því kjörið tækifæri að færa sér í nyt þá aðstöðu sem við höfum hér hjá okkur og gæti sparað verulegar fjárhæðir til markaðskannana. Undir þennan lið heyra annars vegar pörtun og pökkun og hins vegar framleiðsla sérmetis.

4. Markaðsnefndin hefur unnið nokkuð að undirbúningi á pörtun og pökkun dilkakjöts í neytendaumbúðir. Þessu starfi er hvergi nærri lokið, en unnið verður áfram að frágangi málsins. Flestir, sem til þekkja, telja að í framtíðinni muni útflutningur dilkakjöts byggjast á pökkun á kjöti allt frá pörtuðum stykkjum til fullgerðra sérrétta sem tilbúnir eru á borð neytenda. Flutningskostnaður er verulegt atriði í þessu sambandi, því að telja má að unnt sé að spara allt að helmingi rýmis sé kjötið flutt út partað og pakkað í stað heilla skrokka.

Markaðsnefndin hefur leitað til ýmissa aðila í kjötvinnslu og matargerð til þess að huga að framleiðslu sérmetis, sem orðið gæti útflutningsvara. Of snemmt er að segja nokkuð um þetta atriði, en nokkrar athyglisverðar hugmyndir hafa komið fram sem verið er að kanna.

Auk þeirra verkefna, sem hér eru talin, hefur markaðsnefnd unnið að framgangi ýmissa annarra mála, t. d. möguleika til heyflutnings o. fl.

Með þessu er ég búinn að svara 3. lið fsp. 2. liður er eftir. Það er matseðillinn frá „grænu vikunni“ í Berlín sem ég get látið hv. þm. í té á þýskunni þegar ég fer héðan úr ræðustólnum, en því miður er ekki hægt að bjóða hv. þm. í matinn, því að hann er þegar uppétinn. En á íslensku er matseðilinn þessi: Kavíar, reyktur lax, hangið læri, hanginn hryggur, London lamb, lambahryggur, lambakótelettur, lambageiri, lambalæri, lambasmásteik með sveppum og ostar. Þetta voru 11 réttir, sem þarna voru fram boðnir, og tóku neytendur þessum réttum mjög vel.

Ég vil svo, áður en ég lýk máli mínu, segja það, að það hafa verið miklar umr. um sölu á landbúnaðarvörum, sérstaklega á þessu og jafnvel síðasta ári. Á árunum frá 1971–1973 og reyndar áður þurfti aldrei að fullu á að halda því 10% framlagi til útflutningsuppbóta sem lög mæltu fyrir um. Hins vegar hefur það verið svo síðan 1974. Þá stóð þetta í járnum og reyndar hefur það gert það einnig árin 1975, 1976 og 1977. En um árið 1975 er það að segja, að þá náðist ekki fullt grundvallarverð, en hin árin öll hefur það náðst. Nú er hins vegar gert ráð fyrir því að framleiðslan á s. l. ári, vegna þess hvað tíðarfar var þá hagstætt og hvað landbúnaður er orðinn vel vélvæddur, verði meiri en hægt sé að neyta hér innanlands og setja innan þessara marka.

Hins vegar er rétt að benda á það, að frá árinu 1971 hefur orðið sú verðbreyting á milli landbúnaðarvara og sjávarútvegsvara, að 1971 var verðið á fiskblokkinni í Bandaríkjunum 21 cent, en nú er það komið í einn dollar og yfir 20 cent. Á þessum fáu árum hefur þessi breyting orðið svo gífurleg sem raun ber vitni um. Samt er það svo, að þeir, sem selja á þennan markað, telja sig ekki ofhaldna. Hins vegar hefur það verið þannig með landbúnaðinn, að vegna þess að verðbólgan í okkar landi hefur verið svo mikil sem vitað er, og svo hins, að Norðmenn hafa tekið upp niðurgreiðslur á sínum vörum á heimamarkaði, hefur besti markaðurinn, sem var í Noregi og er enn þá, breyst okkur í óhag. Þetta hefur gert það að verkum, að við gátum áður selt þar fyrir 70–80% af framleiðsluverði hér heima, en nú erum við öðru hvorum megin við 50%. Þetta sýnir þá miklu breytingu sem hefur orðið í óhag fyrir landbúnaðarvörurnar. Hins vegar hefur gærumarkaðurinn verið sæmilegur á síðustu árum, sérstaklega vegna þess að vinnsla á gærum hér heima fyrir hefur farið vaxandi, og sama er að segja um ullarmarkaðinn. Þó er það svo, að okkar verðbólga segir þar til sín eins og á öðrum sviðum þar sem útflutningur á sér stað.

Mér er það fullkomlega ljóst, að nauðsynlegt er og að því er unnið að skipuleggja betur landbúnaðarframleiðsluna en áður hefur verið gert. M. a. tók Búnaðarþing undir það sem fram kom í ræðu bæði formanns Búnaðarfélagsins og landbrh. við setningu Búnaðarþings 1977, sem var ábending um markaðsnefndina, sem stofnuð hefur verið, og um heildarskipulagningu þessara mála með þeim hætti að óska eftir að skipuð yrði n. til að fjalla um þessi mál í heild. Hún verður skipuð fulltrúum frá Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda og einum úr landbrn. Það er nú þegar búið að óska eftir tilnefningu í þessa n., og þar verður unnið að þessum málum á breiðum grundvelli.

Ég vil þessu til viðbótar — og vona að hæstv. forseti fyrirgefi mér það, þó að ég fari aðeins út fyrir þær spurningar sem hér liggja fyrir — geta þess, að n. sú, sem starfað hefur nú ein 2–3 ár að því að endurskoða framleiðsluráðslögin, — en störf hennar féllu niður vegna málaferla sem af hálfu Alþýðusambands Íslands voru höfðuð á hendur Stéttarsambandi bænda, — hún tók aftur upp störf í haust og nú er unnið af verulegum krafti að því að endurskoða framleiðsluráðslögin í heild. Ég geri mér vonir um það, að næsta haust liggi fyrir frv. um breytingar á þeirri löggjöf og þeim þáttum öðrum sem ég hef hér nefnt, því að í ályktun Búnaðarþings er gert ráð fyrir að hægt verði að skila áliti þessarar n. um mitt sumar. Ég held því að segja megi, að unnið sé að landbúnaðarmálum á viðtækan hátt nú og e. t. v. víðtækari en nokkru sinni fyrr.