04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3115 í B-deild Alþingistíðinda. (2291)

356. mál, markaðsmál landbúnaðarins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af því, sem hv. 8. landsk. þm. sagði hér áðan í sambandi við það sem ég sagði um útflutningsuppbæturnar, þá mun ég hafa talað það lágt að hann heyrði ekki, að ég miðaði við árin frá 1970, en fór ekkert inn á áratuginn frá 1960–1970. En það er rétt hjá honum, að megnið af þeim árum var farið upp í hámark. Ég mundi eftir því, að á árunum 1971–1974 rak þetta sig ekki upp undir fyrr en það náði því ári, 1974. Ég var hins vegar aðeins hærri með árin 1975 og 1976 heldur en raun ber vitni um, svo að okkur ber ekkert á milli, nema ég fór ekkert inn í eldra sviðið, því að ég hafði ekkert í höndunum þar um.

Það er gaman að heyra að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sé kominn til Þýskalands til þess að tala um landbúnaðarmál. Segja má um það eins og konan sagði, þegar hún kom inn í verslun ag bað um tvö pund af púðursykri. Búðarmaðurinn sagði: „Kíló er það nú kallað.“ Þá sagði gamla konan: ,Alltaf heyrir maður nú eitthvað nýtt. Er það ekki lengur kallaður púðursykur.“ Mér datt þetta í hug um ferðalag hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar. Ég efast ekki um að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason mun vinna þjóð sinni gagn þar ytra, jafnvel í landbúnaðarmálum, þó ég teldi annað hæfa honum betur og annar væri betur til þess fallinn að kynna landbúnað.

Í öðru lagi vil ég svo segja það, vegna þess að það féll niður hjá mér áðan, út af kjötinu í Færeyjum, að Færeyingar telja ekki íslenska kjötið hæft til þess að gera úr því „skerpikjöt“, en það er sú kjöttegund sem þeir meta mest. Þess vegna er hærra verð á þeirra kjöti sem til þeirrar neyslu gengur, heldur en á kjötinu frá okkur. Þetta er skýringin á því.

Út af því, sem hv. 6. þm. Suðurl. sagði hér áðan um reglugerðina, þá vil ég geta þess, að hún er komin út. Það var sett ný reglugerð í des. s. l., en hún tók ekki gildi og var ekki notuð við slátrun á s. l. hausti, og þess vegna hefur þetta farið fram hjá hv. þm. Hún tók gildi 1. jan. s. 1. Það hefur í raun og veru ekki reynt á hana nema þá bara vegna stórgripakjöts. En hún verður til framkvæmdar í sambandi við slátrunina á næsta hausti. Hins vegar vil ég geta þess og vona að það verði lagað, að til þess að koma þessu máli fram hefði þurft að breyta löggjöfinni á þann veg, að fjármagn hefði þurft að aukast til þess. Ég vil biðja hv. 6. þm. Suðurl. að muna það síðar.

Ég get ekki farið út í að afsaka það að konur skuli vera í þessari markaðsnefnd. Ég er hv. 9. landsk. þm. alveg sammála um það, að þær eru þess verðugar að eiga sæti í þeirri n. En þessi n. er skipuð af fulltrúum samtaka að einum undanskildum, ráðuneytisstjóranum, og þeir eru starfsmenn eða stjórnarnefndarmenn í þeim fyrirtækjum sem átti að tilnefna í þessa n., og af þeirri ástæðu mun þetta hafa orðið svona. En hitt er jafnrétt, að nauðsyn ber til að huga að þessu.

Ég vil svo að lokum segja það, að það kom fram hjá konsúl okkar í Berlín, að hann er allur af vilja gerður til þess að leggja sig fram um að kynna þessi mál í Berlín. Okkar sýningu þar var afskaplega vel tekið. Það var geysilega mikið af fólki, sem kom á sýninguna, og hennar var getið í öllum stærstu blöðum borgarinnar og sjónvarpi og útvarpi. Og það er þegar búið að tryggja stærstu og bestu hótelin og stærsta kjötmarkaðinn í Berlín, sem ég hygg að sé kjötmarkaður á heimsmælikvarða, til þess að taka inn í sína sölustarfsemi íslenska kjötið. Og það var gert ráð fyrir að hefja þessa starfsemi nú í apríl.

Fleira sé ég ekki ástæðu til að taka fram.