05.04.1978
Neðri deild: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3191 í B-deild Alþingistíðinda. (2373)

101. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Í ræðu minni fyrir nokkru, þegar mál þetta var til umr., gaf ég nokkrar talnalegar upplýsingar um hver áhrif þess mundu hafa orðið og mundu vera, ef bað kerfi, sem þetta frv. felur í sér, hefði verið samþykkt og væri í gildi nú. Mér finnst ákaflega leitt, ef ég hef í þessum samanburði misboðið skilningi hv. 3. þm. Norðurl. e. eða ef ég hef ofboðið reikningslist hans. Ég vil því, hæstv. forseti, fara yfir þetta aftur og geta það mjög hægt og rólega og varlega. Hver sem áhuga hefur á gæti því tekið sér penna í hönd og reiknað sjálfur eftir viðteknum venjum, sem kenndar voru í samlagningu og frádrætti, eftir þeim reikningsreglum. sem kenndar vorn í barnaskóla á þeirri tíð, þegar ég átti þar setu og væntanlega einnig á þeirri tíð, þegar hv. þm. Stefán Valgeirsson átti þar setu. Nú skulum við hv. þm. Stefán Valgeirsson hefja reikninginn.

Eins og segir á bls. 5 í þessu frv. mundi frv. hetta, ef að lögum hefði orðið á verðlagsárinu 1976–1977 hækka útflutningsuppbætur um 1 milljarð kr. frá því sem þá var, ef ekki hefðu komið til ákvæði 2. gr., sem segja m. a., þrátt fyrir ákvæði 1. gr. frv. um að ríkissjóður ábyrgist greiðslu 12% af framleiðsluverðmæti sauðfjárafurða og 10% af verði nautgripaafurða, þá megi til bráðabirgða fyrsta gildisár frv. taka sem nemur allt að 20% af framleiðsluverðmæti sauðfjárafurða til þess að verðábyrgjast útfluttar sauðfjárafurðir o. s. frv. Á bls. 6. í töflu 1, er síðan skýrt frá því, hvað áætlað er á verðlagsárinu 1975–1977 að séu afurðir annars vegar af nautgripum og hins vegar af sauðfé. Afurðir af nautgripum eru þar áætlaðar samtals að verðmæti 10 milljarðar 490 millj. kr. Verðlagsárið 1976–1977 var greitt í útflutningsuppbætur vegna útfluttra nautgripaafurða 330 millj. kr. eða talsvert lægri upphæð en nemur 10% af samanlögðu verðmæti nautgripaafurðaframleiðslunnar. Verðlagsárið 1976–1977 var samanlagt verðmæti sauðfjárafurðaframleiðslunnar 8 milljarðar 703 millj. Það ár var greitt í útflutningsuppbætur vegna sauðfjárafurða 1.971 millj. eða um það bil 22.5% af heildarverðmæti sauðfjárafurðaframleiðslunnar það ár. Ég vil aðeins vekja athygli hv. þm. á því í þessari ræðu, eins og í hinni fyrri, að á bls. 6 hefur sá ruglingur orðið, að þar sem stendur fyrir ofan þriðja síðasta talnadálkinn „vegna sauðfjárafurða“ á að standa: vegna nautgripaafurða, og öfugt í næstsíðasta talnadálkinum. Yfirskriftirnar yfir þessum tveim dálkum hafa ruglast. Og nú skulum við hv. þm. upphefja prósentureikning, samlagningu og frádrátt.

10% af 8 milljörðum 703 millj., sem afurðir af sauðfé námu á verðlagsárinu 1976-1977. eru 870.3 millj. kr. Við skulum sleppa aukastöfum eins og þeir gera í barnaskóla og segja bara 870 millj. Ef 10% af 8 milljörðum 703 millj. eru 870 millj., þá er mjög líklegt að 20% af sömu upphæð séu 1740 millj., en það er einmitt það sem 2. gr. frv. gerir ráð fyrir að heimilt hefði verið að greiða í útflutningsuppbætur vegna útfluttra sauðfjárafurða á verðlagsárinu 1976–1977, ef frv. hefði verið samþykkt það ár. Og nú skulum við leggja saman hægt og rólega: 1740 millj. vegna útfluttra sauðfjárafurða plús 330 millj. vegna útfluttra mjólkurafurða eru samtals 2070 millj. Ef við lítum nú á fjórða síðasta dálk, sem hefur yfirskriftina: „Útflutningsuppbætur úr ríkissjóði í millj. kr., þá kemur í ljós að verðlagsráð 1976–1977 voru greiddar úr ríkissjóði samtals 2301 millj. kr. í útflutningsuppbætur. Eins og við voru að enda við að fá út úr hinu litla reikningsdæmi okkar, hefði, ef frv. hefði verið í gildi, átt að greiða 2070 millj. kr. þetta verðlagsár. Ef við tökum okkur nú til og setjum upphæðina 2301 millj. kr. á blað og fyrir neðan hana upphæðina 2070 millj. kr.. setjum mínus fyrir framan neðri upphæðina, drögum síðan strik undir allt saman og reiknum, þá kemur í ljós að neðri upphæðin er 231 millj. kr. lægri en sú efri, þ. e. a. s. mismunur á þessum tveimur upphæðum er 231 millj. kr. Og ég fæ ekki betur séð en tiltölulega auðvelt sé að gera þennan útreikning. Skil ég ekkert í því, að hv. þm., sem er formaður í bankaráði eins stærsta og voldugasta banka með þessari þjóð og hefur þar ýmsar deildir, sem gætu orðið honum til ráðuneytis um slíkan reikning, hann skuli geta misskilið þetta eins og hann gerði. Feillinn liggur nefnilega í því, að hann tekur verðlagsárið 1976–1977, eins og ef frv. hefði þá verið í gildi, og dregur niðurstöðuna. sem hann fær út úr því, frá útflutningsuppbótunum eins og þær eru áætlaðar á yfirstandandi ári í fjárlögum. Hann dregur sem sé 2070 millj. kr., eins og útflutningsuppbæturnar hefðu verið á verðlagsárinu 1976–1977, 2963 millj. kr.. eins og útflutningsuppbæturnar eru á fjárlögum ársins 1978, tveimur árum síðar, og finnur bað út af sinni alkunnu snilld, að þarna muni hvorki meira né minna en tæpum 1000 millj. kr. — Ég mælist till þess við hv. þm., að hann fletti upp í reikningslistarbókum sínum frá barnaskólaárunum og læri svolítið betur.

Ég vil einnig vitna til þess í þessu sambandi, sem kemur m. a. mjög glöggt fram í grg. frv. þessa, að samanburðurinn milli annars vegar frv. og ákvæða þess, ef í gildi hefðu verið, og hins vegar gildandi laga er gerður á grundvelli þeirra síðustu upplýsinga sem fyrir lágu þegar frv. var samið, en það eru upplýsingar fyrir verðlagsárið 1976–1977. Ef menn vilja gera samanburð á grundvelli ársins 1978, verður að sjálfsögðu að liggja fyrir sundurliðun, skipting á áætluðu framleiðsluverðmæti landbúnaðarafurða á því ári, þannig að hægt sé að taka 10% af framleiðsluverðmæti nautgripaafurða annars vegar og 20% af framleiðsluverðmæti sauðfjárafurða hins vegar og bera það saman við núgildandi kerfi, sem gerir ráð fyrir því að verðábyrgðin megi nema 10% af samanlögðu framleiðsluverðmæti landbúnaðarafurða. Ég vil hæstv. forseti, algerlega frábiðja mér í umr. um mál eins og þetta að þurfa að koma fram með svona einfaldar leiðréttingar, sem — eins og ég sagði áðan — væri hægt að forðast ef menn legðu á sig að lesa frv. yfir áður en þeir halda sínar löngu tölur.

Að sjálfsögðu má lengi deila um það, við hvaða vísitölu á að miða ef menn ætla að fá út samanburð með einhverjum hætti á raungildi ákveðinna upphæða, sem varið er til ákveðinna þarfa, milli ára. Í þeirri töflu, sem tekin var saman fyrir mig af starfsmanni Hagstofu Íslands til þess að sýna þróun í raunverðmætum á útflutningsuppbótum á landbúnaðarafurðum frá verðlagsárinu 1963–1964 til 1976–1977, var framfærsluvísitalan notuð sem viðmiðun. Í ljós kom, ef verðlagsárið 1963–1964 var sett sama sem 0 og framfærsluvísitalan notuð sem verðvog, að útflutningsuppbæturnar á landbúnaðarafurðir hafa farið hækkandi í raunverðmætum ár frá ári og orðið t. d. allt að 68.9% hærri í raunverðmætum á verðlagsárinu 1973–1974 en þær voru verðlagsárið 1963–1964. Auðvitað má um það deila. hvort framfærsluvísitalan sé rétt vog í þessu sambandi. Sú vog var valin af þeim starfsmanni Hagstofu Íslands sem tók saman þessar talnalegu upplýsingar, en ekki af mér. E. t. v. mætti í staðinn velja t. d. vísitölu vöru og þjónustu eða kaupgreiðsluvísitölu, ef menn vildu það heldur, eða í þriðja lagi. bar sem um útflutning er að ræða, vísitölu meðalgengis íslensku kr. gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Einhverja af þessum vísitölum yrðu menn að velja, ef þeir ætluðu að mæla þá stærð, sem hér um ræðir, frá ári til árs í raunverðmætum. En hitt er auðvitað alveg út í hött og barnalega heimskulegt, að ætla að vega greiddar útflutningsuppbætur sem hlutfall af útgjöldum fjárl. milli ára, eins og báðir þeir hv. þm. hafa gert sem hér voru að tala áðan. Hvaða vit er í því, ef fjárlög hækka t. d. vegna eyðslustefnu ríkisstjórnar að þá eigi útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir skilyrðislaust að hækka um sömu prósentu? Hvaða vit er í því, svo að tekið sé annað dæmi, ákveðið er að gera stórátak á sviði almannatryggingamála, sem hefði í för með sér mikla hækkun á ríkisútgjöldum, að hækka þá útflutningsuppbætur að sama skapi? Ef ákveðið er að reisa stórt mannvirki eins og brú yfir Borgarfjörð, svo að dæmi sé enn tekið sem hefði áhrif til hækkunar á útgjöld fjárl., hvaða vit er í því að útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir ættu þá skilyrðislaust að hækka að sama skapi? Þetta er auðvitað algerlega út í hött. Það er algerlega fráleitt að ætla að bera saman útflutningsuppbætur eða aðrar slíkar greiðslur frá ári til árs sem hlutfall af útgjöldum fjárlaga, vegna þess að fjárlög og útgjöld þeirra ráðast af allt öðru en eðlilegt er að miðað sé við þegar ákveðið er um útflutningsuppbætur. Auðvitað er sú viðmiðun, sem eftir er sótt, annars vegar viðmiðun um magn hvað útflutninginn snertir, hvað útflutningurinn, umframframleiðslan sem þjóðin þarf ekki á að halda, hefur aukist í magni á þessu tímabili. Það er önnur viðmiðunin sem skiptir máli í þessum samanburði. Hin viðmiðunin er sú, hvað útflutningsuppbæturnar hafa aukist á milli ára í raunverulegum verðmætum. Það skiptir líka máli í þessu sambandi. En að fjasa eitthvað um það, hvað útflutningsuppbæturnar séu hár hluti af útgjöldum fjárlaga þetta árið eða hitt árið, er algerlega út í hött, sýnir það eitt, hversu þeir menn, sem slíkum röksemdum beita, eru langt frá því að skilja hvert á að vera markmið með styrk til atvinnuvegar af því tagi sem hér um ræðir. Ég er ansi hræddur um að lítið yrði eftir af því svigrúmi, sem Alþ. og ríkisstj. þurfa að hafa við fjárlagagerð, ef ætti að binda öll framlög hliðstæð þessu framlagi við hundraðshluta af útgjöldum fjárlaga á hverju ári. Væri þá ekki miklu nær, fyrst hv. þm. nota slíkan samanburð að þeir flyttu hreinlega brtt. við framleiðsluráðslögin þess efnis, að útflutningsuppbæturnar skuli ávallt vera einhver ákveðinn hundraðshluti af útgjöldum fjárlaga hverju sinni? Það er þá meira í þeirra anda, fyrst þeir vilja endilega nota þann samanburð.

Þá er það ranglega frá sagt, að megintilgangurinn með flutningi þessa frv. sé að draga úr útflutningsuppbótunum. Ef það hefði verið megintilgangurinn — auðvitað er það tilgangur líka — þá hefði verið eðlilegast að ná því marki með því að lækka þá hundraðstölu sem notuð er sem útreikningstala fyrir hverjar þessar uppbætur eigi að vera niður úr t. d. 10% á framleiðsluverðmæti landbúnaðarafurða, niður í 9%, 8%, 7%, 6% eða hvað vill. Auðvitað er megintilgangurinn með þessum tillöguflutningi að reyna að finna einhverja leið, sem sameinar í fyrsta lagi nauðsynina á því að breyta um verðtryggingarkerfi og í öðru lagi nauðsynina á því að draga eitthvað úr þeim miklu greiðslum sem þurfa að fara lögum samkv. á ári hverju til slíkra verkefna. Og ég legg mikla áherslu á bað, að ég geri mér alveg fyllilega ljóst að slíkt þarf að taka tíma, vegna þess að ef slíkt væri gert í einu vettvangi í þeim mælikvarða sem gera þyrfti, þá mundi það hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir íslenska bændastétt, en það er ekki tilgangurinn með þessu frv.

Um annað af því, sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði, get ég verið stuttorður. Ég vil aðeins benda hv. þm. á það, sem er alkunn staðreynd, að íslenskar ullarverksmiðjur flytja ekki inn erlent ullarband vegna þess, að ekki sé til nægilegt magn af ull í landinu, heldur vegna hins, að erlendu ullina fá þeir á lægra verði en þá íslensku. Ég vil aðeins benda hv. þm. Stefáni Valgeirssyni á að mjög mikið af íslensku ullinni er nú flutt út lítt unnið, bæði sem óunnin lopi og band. Þetta er hráefni sem mætti nota til iðnaðarframleiðslu hér á landi, en ekki er notað. Og ef iðnaðurinn krefst þess, að það sé framleitt 40–50% meira af dilkakjöti á ári en þörf er fyrir innanlands vegna ullarþarfar, þá er það auðvitað íslenskur iðnaður, sem verður að greiða kostnaðinn af því og borga það verð, sem þarf að fást fyrir slíka ullarframleiðslu, en ekki ríkissjóður og íslenskir neytendur í formi hundruð millj. kr. skattbyrðar vegna niðurgreiðslu á matvælum til erlendra neytenda. Ég vil enn fremur benda hv. þm. Stefáni Valgeirssyni á að markmið Inndjúpsáætlunar var fyrst og fremst að stuðla að aukinni mjólkurframleiðslu í Ísafjarðardjúpi, vegna þess að mjólkurframleiðslan í grennd við Ísafjarðarkaupstað var langt frá að fullnægja mjólkurþörfum kaupstaðarbúa og varð því að flytja mjólk flugleiðis til Ísfirðinga og annarra nágranna þeirra yfir vetrarmánuðina með mjög miklum tilkostnaði og þannig, a. m. k. á flestum vetrum, að ekki hefur verið hægt að tryggja eðlilega og örugga mjólkurflutninga til Ísafjarðar. Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir hefur nýlega flutt á Alþ. mál sem stefnir að því að bæta úr þessu ástandi ásamt með framkvæmd Inndjúpsáætlunar. Markmið Inndjúpsáætlunar var síður en svo að auka útflutning á íslenskum landbúnaðarafurðum með því að stuðla að offramleiðsla til útflutnings. Markmið Inndjúpsáætlunar var að tryggja Ísfirðingum, Bolvíkingum og öðrum íbúum þéttbýlissvæðanna á norðanverðum Vestfjörðum mjólk og mjólkurvörur allt árið um kring, sem ekki hefur verið hægt að tryggja þeim öðruvísi en með loftflutningum á mjólk yfir vetrarmánuðina með gríðarlegum tilkostnaði, miklu meiri tilkostnaði en tilkostnaðurinn mun verða af framkvæmd Inn-Djúpsáætlunar. Það voru ótrúlega háar upphæðir sem menn hafa orðið að verja í það að flytja mjólk loftleiðis frá Akureyri til þessara staða yfir vetrarmánuðina.

Hv. þm. dró einnig mjög í efa, að offramleiðsla á kindakjöti væri jafnmikil og ég gerði ráð fyrir, hún væri að magni til milli 40 og 50%, eða hefði verið undanfarin ár. Ég stend fast á því, að það sé rétt, að sú framleiðsla kindakjöts, sem við þurfum að flytja út úr landinu nú og höfum þurft að flytja út á allra síðustu árum, sé um 40–50% af heilsársframleiðslu. Ég vil aðeins benda á að fyrir um það bil 4 vikum var frétt um það í útvarpi, að áætlað væri að á árinu 1978 þyrfti að flytja til útlanda sem næst 50% af heils árs framleiðslumagni af kindakjöti. Við getum sannreynt þetta, en því miður hef ég ekki nákvæmar upplýsingar í höndunum, ég vona að hv. þm. Stefán Valgeirsson geti þá leiðrétt mig. En ef við aðeins lítum á það sem segir í töflu I, á bls. 6, um útflutning á landbúnaðarafurðum verðlagsárið 1976–1977, þá kemur í ljós að af 2301 millj., sem það ár var varið úr ríkissjóði til útflutningsuppbóta á landbúnaðarafurðir, fóru 1971 millj. eingöngu í að verðbæta kindakjöt til útflutnings, 1971 millj. samsvara 22.5% af samanlögðu verðmæti allrar sauðfjárafurðaframleiðslu á því verðlagsári. Útflutningsuppbæturnar, sem greiddar voru á útfluttar sauðfjárafurðir verðlagsárið 1976–1977, námu 22.5% af öllu samanlögðu verðmæti sauðfjárafurða á því ári. Sá fróði maður, hv. þm. Ingólfur Jónsson, gat upp á því áðan, að við mundum hafa fengið um það bil 50% af því verði erlendis á þessu ári sem við þurftum að fá til þess að geta skilað fullu afurðaverði hingað heim. Þetta samsvarar því, ef þessar tölu eru skoðaðar í samhengi að á verðlagsárinu 1976–1977 hafi magnútflutningur á kindakjöti alls ekki getað verið undir 35%. Hann hefur getað orðið allt að 45% það ár, en alls ekki undir 35% að magni til. Og ég held að þrátt fyrir allar hrakspár um það, að framundan geti orðið erfið hafísár og annað slíkt, þar sem ekki væri auðvelt um aðdrætti á matvælum til landsins, þá sé raunar enginn þm. þeirrar skoðunar, að það sé rétt af okkur Íslendingum að standa undir svo mikilli umframframleiðslu að magni til, sem ekki er notuð hér heima og verður að flytja til útlanda eða kasta í hafið.

Það má lengi deila um það, hvað eðlilegt sé að sveiflur megi verða í landbúnaðarframleiðslu milli ára til þess að tryggja landsmönnum örugglega þá fæðu sem þeir þurfa og landbúnaðurinn framleiðir. En ég fullyrði að hv. þm. Stefán Valgeirsson getur með engu móti sýnt fram á að eðlilegt sé að viðhalda 35–40% umframframleiðslu í því skyni, og ég tel að matarvenjur Íslendinga megi breytast mjög mikið á næstu árum, þar megi verða alger bylting frá því sem verið hefur, ef hægt er að búast við því, að innanlandsneyslan á kindakjöti eigi eflir að aukast svo mikið að sú framleiðsla, sem nú á sér stað í landinu, verði nýtt af landsmönnum sjálfum.

Ég held að ég þurfi ekki að fara öllu fleiri orðum um ræðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, nema hvað ég er alveg sannfærður um að hversu vel sem hann leitar í lögum annarra Norðurlanda finnur hann hvergi í framkvæmd stefnu eins og þá sem ég var að lýsa, enda veit ég ekki til þess að bræðraflokkar Alþfl. á hinum Norðurlöndunum hafi beitt pólitísku valdi sínu til þess að lögfesta svipaða framleiðslustefnu í landbúnaði þar þeirri sem ég hef gert að umræðuefni hér.

Ég vil aðeins láta í ljós þá von mína, að þm. í þessari hv. d. sýni því máli, sem hér um ræðir, þann sóma og einnig þeim aðilum, sem eiga hér hagsmuna að gæta, að gefa þeim færi á því að koma umsögnum sínum um þetta mál á framfæri við þingið og þn., sem kemur til með að fá þetta mál, með því móti að vísa frv. til meðferðar í n. Það er auðheyrt á hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að hann vill umfram allt koma í veg fyrir að unnt sé að leita til þeirra aðila, sem eiga hagsmuna að gæta, með umsagnir um þetta mál. Hann vill koma í veg fyrir að málið fái eðlilega þinglega meðferð. Það er hans mál. En ég leyfi mér að stórefa að margir þm. í þessari hv. þd., hver svo sem skoðun þeirra er á málinu, séu sama sinnis.

Herra forseti. Það var ýmislegt athyglisvert í ræðu þeirri sem hv. þm. Ingólfur Jónsson flutti áðan. Margar þær hugmyndir, þyrfti að athuga og er verið að athuga einmitt nú. Sú hugmynd, sem í þessu frv. kemur fram, er ein af þeim hugmyndum sem lagðar eru fram. Við höfum tekið það fram, þm. Alþfl., að við erum reiðubúnir til þess að ljá máls á því að gera þær breytingar eða lagfæringar á þessu frv. sem þn., er um það fjallaði, teldi rétt að gera. En okkur finnst það ekki réttlátt og ekki eðlilegt, að Alþ. eða hv. Nd. neiti að taka til athugunar eina af þeim hugmyndum sem verið er að ræða um nauðsynlegar breytingar á stefnunni í landbúnaðarmálum einmitt nú. Vil ég aðeins benda hv. þm. á, að þó að við viljum það gjarnan, þm., að Alþ. endurspegli þær umr. sem eiga sér stað með þjóðinni í hinum mikilvægustu málum, þá er það samt svo, að meginhluti umræðna um landbúnaðarmál fer fram utan sala Alþ. og flestar þær hugmyndir, sem fram hafa verið lagðar um breytingar, koma ekki frá mönnum sem eiga sæti í þessari stofnun, a. m. k. ekki á þeirra starfsvettvangi hér, heldur annars staðar í þjóðfélaginu. En þeir menn, sem þykjast eiga mestra hagsmuna að gæta og eiga sæti innan veggja þessa húss, sitja og þegja og virðast ekkert hafa til málanna að leggja annað en það, að í hvert skipti, sem ný hugmynd eða ný till. kemur fram um þessi mál innan þessara veggja, skora þeir á þingbræður sína að koma í veg fyrir að slíkt mál fái svo mikið sem þinglega meðferð. Það er von að ástandið sé ekki glæsilegt með bændastéttinni og í landbúnaðarmálunum þegar sjálfskipaðir foringjar þess atvinnuvegar og þeirrar starfsstéttar á Alþ. hafa ekki annað til málanna að leggja en t. d. það sem fram kom í ræðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar áðan.