05.04.1978
Neðri deild: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3209 í B-deild Alþingistíðinda. (2378)

246. mál, Seðlabanki Íslands

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það er nú þegar orðið nokkuð áliðið þessa dags og ég er frekar kvöldsvæfur maður, og af þeirri ástæðu einni út af fyrir sig skal ég ekki vera til þess að halda langa ræðu út af því frv. sem er til umr., enda er þess öldungis engin þörf, því að staðreyndin er sú, að samþykkt þessa frv. hefði í reynd ekki minnstu breytingu í för með sér á vaxtaákvörðun í landinu. Þetta vita hv. flm. allir því að ég hef þegar upplýst það oftar en einu sinni í þingflokki mínum, að ég veit þess ekkert dæmi, a. m. k. frá því að ég kom í bankaráð Seðlabankans skömmu eftir mitt ár 1976, að vaxtaákvörðun bankans hafi verið tekin í andstöðu við ríkisstj.

Ég hef spurt eftir því sérstaklega hjá þeim, sem starfað hafa lengur í bankanum en ég og þekkja gerla til mála, hvort það hafi yfirleitt gerst, að vaxtaákvarðanir í bankanum hafi verið teknar í andstöðu við ríkjandi ríkisstj., og hef fengið ótvírætt það svar, að svo hafi ekki verið gert. Þetta nær líka til þess, sem kom áðan fram hjá hv. 1. flm. þessa frv., þegar hann upplýsti að hæstv. bankamrh. í eina tíð, Lúðvík Jósepsson, hefði svarið af sér að hann bæri nokkra ábyrgð á vaxtaákvörðun sem þá var tekin. Ég get að vísu ekki fullyrt, hvort einhver skoðanamunur kunni að koma fram hjá einstökum ráðh. þegar vaxtamál eru rædd í ríkisstj., en hitt endurtek ég og fullyrði, að vaxtaákvarðanir hafa ekki verið teknar í Seðlabankanum í andstöðu við ríkisstj. Þegar af þessari ástæðu hefur frv. þetta í reynd engin áhrif. Auk þess sem ég hef upplýst þetta, eins og ég sagði, á þingflokksfundum, þá er það alveg ótvírætt, að lögin um Seðlabanka Íslands frá 1961 leggja þá ótvíræðu lagaskyldu á bankastjórnina, að hún í ákvörðunum sínum og starfi vinni ekki gegn þeirri stefnu sem ríkisstj. vill fylgja á hverjum tíma.

Hv. 1. flm. vék að 4. gr. laga um Seðlabanka. Ég held að ég lesi greinina alla. Hún hljóðar þannig:

„Í öllu starfi sínu skal Seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstj. og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Sé um verulegan ágreining í ríkisstj. að ræða, er Seðlabankastjórn rétt að lýsa honum opinberlega og skýra skoðanir sínar. Hún skal engu að síður telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því, að sú stefna, sem ríkisstj. markar að lokum, nái tilgangi sínum.“

Þessi lagagrein verður á engan hátt skilin á annan veg en þann, að um meiri háttar ákvarðanir Seðlabankans beri að taka fullt tillit til þeirrar stefnu sem viðkomandi ríkisstj. fylgir og vill framkvæma. Ég held að með þessu hafi ég sýnt ótvírætt fram á það; að samþykkt þessa frv. þó að samþykkt yrði hefði engar meiri háttar breytingar í för með sér í sambandi við vaxtaákvarðanir í landinu.

Nokkrum atriðum langar mig til þess að víkja að í framhaldi af þessu, þó að aðalerindi mitt hingað upp í ræðustólinn hafi verið að upplýsa þetta.

Í 13. gr. laga um Seðlabankann segir í upphafi, með leyfi hæstv. forseta: „Seðlabankinn hefur rétt til að ákveða hámark og lágmark vaxta, sem innlánsstofnanir, er um ræðir í 10. gr., mega reikna af innlánum og útlánum“ o. s. frv. Ég les ekki meira af greininni. Ég skil þessa grein þannig, að það sé réttur Seðlabankans að ákveða þessa vexti með tilliti til þess, að ákvarðanir séu ekki teknar í andstöðu við sitjandi ríkisstj. Þetta er réttur, en það er að mínu viti ekki skylda Seðlabankans samkv. þessari grein að ákveða hámark og lágmark vaxta. Ég fullyrði, að ef bankinn ákvæði ekki vextina og markaðsöflin á lánamarkaðnum hefðu verið látin ákvarða vaxtahæðina, þ. e. a. s. framboð á því lánsfé sem til er í bankakerfinu annars vegar og eftirspurn eftir þessu lánsfé hins vegar, þá væru vextir, þrátt fyrir að þeir séu háir í dag, enn hærri en þeir eru.

Um frv. vil ég segja til viðbótar, að ég hygg að það ákvæði, sem frvgr. ákveður, að hið formlega vald í þessum efnum skuli vera hjá ríkisstj., sé einstætt að því leyti til, að ég þekki ekki eitt einasta land í heiminum þar sem ákvörðunin um vextina er hjá viðkomandi ríkisstj. Ég held jafnvel að flestar ríkisstj. óski sér þess tæpast að hafa slíkt formlegt vald, vegna þess að yfirleitt er þetta vald eða meðferð þess ekki þess eðlis að það auki á vinsældir þeirra er með það fara. Og ég dreg talsvert í efa, að okkar ágætu ráðh. væri í reynd mikill greiði gerður með samþykkt þessa frv. En það er nú annað mál. Ég nefni þetta bara til þess að hv. þm. fái a. m. k. að vita það, að ég veit ekki dæmi þess, að þetta formlega ákvörðunarvald sé hjá ríkisstj í nokkru landi.

Hitt þekki ég hins vegar, að það er í mörgum löndum talið heppilegt í sambandi við stjórn efnahagsmála að auka sjálfstæði og vald svokallaðra miðbanka, eins og Seðlabankinn óneitanlega er. Ég vil nefna til tvö lönd þar sem þetta er sérstaklega áberandi, þar sem miðbankarnir hafa geysilega mikið sjálfstæði, jafnvel gagnvart ríkisstj. og þjóðþingum. Það er sérstaklega Vestur-Þýskaland, þar sem vald Bundesbank er gífurlega mikið og sjálfstæði hans mikið, og það eru Bandaríkin. Sannleikurinn er líka sá, að gjaldmiðill þessara þjóða er dálítið beysnari en okkar fátæklega króna sem flýtur á vatni. Hv. flm. segja í grg. sinni m. a.:

„Seðlabankinn hefur nú um nokkurt skeið ákvarðað vexti í landinu. Sú skoðun, að hlutur sparifjáreigenda hafi verið mjög fyrir borð borinn undanfarin ár og að rétta verði hlut þeirra, hefur ráðið ákvörðun Seðlabankans á seinustu missirum.

Þetta er rétt. Það er tillitið til hagsmuna sparifjáreigenda, sem hefur verið leiðarljósið í sambandi við ákvörðunartekt um vexti í landinu síðustu árin. Þrátt fyrir háa vexti er staðreynd, held ég, að raunvextir af sparifé síðustu 25 árin hafi aðeins tvö ár verið jákvæðir. Öll hin árin hefur sá, sem gegnt hefur því þjóðfélagslega þurftarverki að leggja inn fé í innlánsstofnanir svo að hægt sé að lána til atvinnulífsins, verið meira eða minna rændur hluta af því fjármagni sem hann hefur lagt inn í bankakerfið.

Ég hef — þegar rætt hefur verið um þessi vaxtamál, og ég veit — mér dettur ekki í hug að neita því — að erfitt getur verið að greiða þessa háu vexti í atvinnulífinu, a. m. k. mjög víða, þó að sums staðar sé allt of mikið gert úr því, — þá hef ég spurt þeirrar spurningar, — og ég spyr hennar nú, — og ég vona að menn komi sér ekki undan því, eins og nærri undantekningarlaust í umr. sem ég hef átt um þessi mál, að svara því, — hvernig þeir ætli, sem heimta lækkandi vexti í stórfelldri verðbólgu, jafnframt að tryggja sparifé í lánakerfi landsins svo að hægt sé að lána til atvinnuveganna og koma í veg fyrir að þeir stöðvist meira eða minna vegna þess að ekkert lánsfé er til. Ég skora á þá, sem hér kunna að tala á eftir, að svara mér ákveðið: Hvernig ætla þeir í verðbólguþjóðfélagi að tryggja að sparifé safnist upp í bankakerfinu, ef á að lækka vextina stórlega? Fyrir því er áralöng reynsla, að það er ákveðið og mikið samband á milli verðbólgu, vaxta og sparifjáraukningar. Til eru skýrslur yfir marga áratugi sem sýna ótvírætt að þarna er samband á milli. Það er svo greinilegt öllum þeim, sem lesa þessar skýrslur og vilja setja sig eitthvað inn í þær, að í vaxandi verðbólgu dregur úr sparifé, innlögum fólks sem er afskaplega eðlilegt, nema reynt sé að koma til móts við þessa sparifjáreigendur með hækkuðum vöxtum. Þetta er ekki skemmtileg staðreynd, en staðreynd er þetta engu að síður.

Þá segja hv. flm. þessa frv. m. a. í seinustu mgr. í grg. með frv.: „Þá eru of háir vextir hinn mesti verðbólguvaldur, auk þess sem þeir binda atvinnulífi í landinu byrðar, sem það fær ekki risið undir.“

Það má færa fyrir þessu nokkur rök, eftir því hvaða afstöðu menn hafa til orsaka verðbólgu. Það er enginn vafi á því, að háir vextir eru kostnaðarauki fyrir lántakendur og koma m. a. fram í hækkuðu verðlagi hjá þeim sem stunda atvinnurekstur og þurfa að selja framleiðsluvöru sína. Mér dettur ekki í hug að neita því. Það er ljóst. En ef menn líta á verðbólguna og ástæðurnar fyrir verðbólgunni frá nokkuð öðrum sjónarhól, sem ég tel ekki síður réttan, ef menn eru t. d. þeirrar skoðunar, — eins og ég er og ég held að allflest launþegafélög í landinu séu farin að aðhyllast þá skoðun, — að ein af meginástæðum verðbólgunnar á Íslandi sé sú ofsalega fjárfesting sem verið hefur í landinu marga undanfarna áratugi, þá er hægt að sýna fram á það og þá er það rökrétt, að háir vextir draga úr eftirspurn manna í lánsfé til þess að festa fé í framkvæmdum og öðlast verðbólgugróða. Háir vextir eru þá til þess fallnir að draga úr verðbólgu, en ekki auka hana.

Gæti ég flutt alveg jafngóð rök fyrir þeirri kenningu eins og hinni, að vextir hljóti ætíð, hvernig sem aðstæður eru í þjóðfélaginu, að vera verðbólguaukandi. Ég held að öllum hljóti að vera ljóst, sem hafa athugað efnahagslíf Íslendinga seinustu áratugina og fylgst með þeirri verðbólgu sem oftast hefur einkennt efnahagslíf okkar á þessum síðustu árum, að fjárfestingarþátturinn og hallabúskapur ríkissjóðs á ekki hvað sísta sök þarna á. Það er ekki nokkur minnsti vafi á því. Þess eru ótal dæmi, að menn hafa eftir öllum leiðum leitað eftir lánsfé, hversu dýrt sem fjármagnið hefur verið, til þess að festa í framkvæmdum sem oft og tíðum eru þess eðlis að þær bæta ekkert þjóðarhag. Þær skapa ekki auknar þjóðartekjur, en þær gefa verðbólgugróða þeim sem nær í þetta fjármagn og fjárfestir það í einhverju. Þær gera fáa einstaklinga ríkari á þeirri þróun sem í gangi er, án þess að þær auki á velmegun eða þjóðartekjurnar sem heild. Það er ekki minnsti vafi á því, að þetta er ein af ástæðunum fyrir verðbólgunni hér á landi. Eins og ég sagði áðan, hygg ég að flest launþegafélög í landinu séu komin meira og minna á þessa skoðun.

Ég skal nefna ykkur aðeins eitt lítið dæmi : Eins og menn vita hafa þessi ríkisstj. og þær næstu á undan verið að gefa út svokölluð verðtryggð spariskírteini mörg undanfarin ár. Ég sá nýlega nýjasta útreikning á verðmæti spariskírteina miðað við 1. apríl s. l. Þá var seinasti útreikningur gerður. Ég sá að spariskírteini, sem gefin voru út síðari hluta árs 1965, voru í dag á 26.4-földu innlausnarverði. Krónan á þessu ári er þetta miklu minni en hún var á árinu 1965. Það er ekki óeðlilegt, þegar menn hafa svona dæmi fyrir sér, að menn skilji það og viðurkenni, ef þeir bara vilja vera hreinskilnir, að staðreynd er að menn berjast um á hæl og hnakka enn í dag og taka lán jafnvel á 32% vöxtum til þess að fjárfesta í vissum framkvæmdum.

Ég get fullvissað ykkur um það, að þó að vextir séu hér háir, — og ég ætla ekki að neita því að þeir skapi erfiðleika, — þá hefur eftirspurn eftir lánsfé verið fyllilega nóg í þjóðfélagi okkar. Það eru nógir sem vilja fá lán enn í dag, og þó eru bæði vextir háir og verðtrygging tekin upp á svo til öllum framkvæmdalánum eða lánum til fjárfestingar úr hinum ýmsu fjárfestingarlánasjóðum í landinu. Sannleikurinn er sá, að það er það eina, sem vit er í, að menn viðurkenni þá staðreynd, að verðbólgan ekki einasta orsakar háa vexti í þessu þjóðfélagi og óáran í efnahagslífi þjóðarinnar, hún orsakar líka ýmsa þá stærstu siðferðilegu bresti sem við eigum við að berjast nú og því miður fara stórvaxandi.

Það er ekkert ráð til til þess að koma vöxtunum niður á einhvern skynsamlegan hátt nema lækka verðbólguna. Að því eiga hv. alþm. og raunar allir aðrir að beita kröftum sínum, en ekki vera með sýndarmennsku eins og ég tel að því miður gæti um of í ýmsum umr. sem verða hér á hv. Alþ. um verðbólgumálin, og ekki einasta hér á hv. Alþ., heldur meira og minna alls staðar í þjóðfélaginu. Það er varla haldinn sá fundur núna, hvar sem er á landinu, að allir séu ekki að álykta um skaðsemi verðbólgu. En samt þýtur hún áfram ár eftir ár. Við höfum ýmist vinstri stjórnir eða hægri stjórnir. Þeim virðist öllum meira eða minna mistakast í baráttunni gegn verðbólgunni. Ef menn væru heiðarlegri gagnvart sjálfum sér og öðrum og vildu viðurkenna vissar augljósar staðreyndir sem leiða til verðbólgu, m. a. þá, að þjóð, sem eyðir ár eftir ár miklu meira en hún aflar, er óhjákvæmilega að glæða verðbólguna, hvað sem hver segir, væri von um bata. Við erum alltaf að skipta fleiri krónum en til eru og þá er gripið til þess gamla ráðs, sem hér hefur verið stundað á Íslandi í nokkra áratugi, að krónunum r bara fjölgað, þær eru gerðar minni, en þær verða fleiri. Ef við finnum okkur ekki menn til þess að stöðva þennan hættulega leik, þá mun verðbólgan halda áfram eins og hún hefur gert og þá hefur einhver smálækkun vaxta engin áhrif til þess að lækka hana.