06.04.1978
Neðri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3227 í B-deild Alþingistíðinda. (2400)

121. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Þetta mál hefur gengið í gegnum hv. Ed. og verið samþ. þar. Það lýtur að breytingu á áfengislögunum og fjallar fyrst og fremst um breytingu á ákvæðum laganna í VIII. kafla, en sá kafli fjallar um refsingar og önnur viðurlög. Ástæðan til þess, að farið er fram á að breytingar verði gerðar á þessum ákvæðum, er sú, að refsiákvæðin í áfengislögunum eru mjög sundurliðuð og sett lágmark og hámark refsinga fyrir brot á einstökum greinum laganna. Er lágmarkið allt niður í 100 kr., en hámark hæst 200 þús. kr., auk lítragjalds, 400 kr. fyrir hvern lítra af ólögmætu, innfluttu áfengi. Þessi ákvæði öll eru að sjálfsögðu orðin úrelt vegna verðbólgu í landinu, en þessi ákvæði hafa staðið óbreytt frá árinu 1969.

Á undanförnum tveim þingum hafa legið fyrir hv. Ed. frv. flutt af þm. úr öllum flokkum, þar sem m. a. var leitast við að samræma sektarupphæðir að nokkru verðlagsþróun síðustu ára. Þau frv. fengu ekki afgreiðslu. Með þessu frv. er farið inn á nýja braut. Er lagt til að refsiákvæði laganna verði dregin saman í eina almenna grein og að refsiramminn verði almennt óbundinn. Er hætt við að refsirammi laganna verði fljótlega of þröngur ef áfram verður haldið sama hlutfalli, enda hefur komið í ljós að refsiramminn bindur um of hendur dómstóla við ákvörðun refsingar og einnig við ýmsar nauðsynlegar aðgerðir við rannsókn mála, t. d. húsleit. Með breytingu þessari verður hámarksupphæð sektar einungis bundin af almennu sektarhámarki í hegningarlögunum, en það er nú 5 millj. kr. Þetta er sem sagt meginbreytingin sem í þessu frv. felst. Sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um hana. Aðrar breytingar, sem felast í frv. þessu, leiðir af brottfalli lágmarksog hámarksrefsingar, en þar er ekki um efnisbreytingar að tefla.

Þá eru ákvæði um réttindasviptingu ekki eins bundin og í gildandi lögum.

Þá er reyndar einnig lagt til að breytt verði ákvæðum áfengislaganna, sem varða yfirstjórn áfengisvarna, til samræmis við breytingu þá sem gerð var í ársbyrjun 1970 með reglugerð fyrir Stjórnarráð Íslands, en hún var þá flutt frá dómsmrn. til heilbrrn.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv. Það er mjög einfalt og skýrir sig sjálft. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.