10.04.1978
Neðri deild: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3249 í B-deild Alþingistíðinda. (2439)

162. mál, kaupstaðarréttindi til handa Selfosskauptúni

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson):

Hæstv. forseti. Félmn. hefur haft þetta frv. til athugunar og ég mæli fyrir nál. meiri hl. n., en n. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Álit meiri hl. er á þskj. 481, en þar kemur fram, að 6 nm. mæla með því að frv. verði samþykkt óbreytt, en sjöundi nm., hv. þm. Gunnlaugur Finnsson, skilar séráliti, þar sem hann leggur til að frv. verði vísað til ríkisstj.

Tvær umsagnir bárust um frv.: Frá samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, en í þeirri umsögn segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn samtaka sunnlenskra sveitarfélaga telur, að samtökunum sem samvinnuaðila og sameiginlegri þjónustustofnun sveitarfélaga beri ekki að taka beina afstöðu til erindis þessa, en bendir á þá grundvallarstefnu allra sveitarfélaga, að þau hafi sem mest sjálfræði í eigin málum.“

Þetta er umsögn sveitarfélagasamtakanna. Má segja, að þau taki ekki beina afstöðu til frv. Þá barst umsögn frá sýslunefnd Árnessýslu, en sýslunefndin hélt sérstakan aukafund um þetta mál. Í bréfi til félmn., sem dags. er 25. mars, segir svo, þar sem samþykkt er í einn hljóði eftirfarandi yfirlýsing frá sýslunefndinni:

„Sýslunefndin er gersamlega andvíg því að rjúfa með öllu félagslega einingu Árnessýslu og ákveður að kjósa þriggja manna nefnd til þess að semja þar að lútandi grg. af hennar hálfu í ljósi þeirra umr., sem fram hafa farið í sýslunefndinni í dag.“

Þá barst félmn. annað bréf frá sýslunefnd, dags. 3. apríl, og með því bréfi fylgir raunverulega nýtt frv. til laga um kaupstaðarréttindi til handa Selfosskauptúni. Ég ætla ekki að rekja það frv. sérstaklega, enda liggur ekki fyrir nein till. um að það frv. verði flutt á þinginu, en það felur í sér, í sem stystu máli sagt, að Selfosskauptún skuli vera kaupstaður, en ekki sérstakt lögsagnarumdæmi eins og allir aðrir kaupstaðir á landinu eru. Tilgangurinn á bak við þessa tillögu sýslunefndarinnar er sá, að halda Selfossi sem sveitarfélagi í ákveðnum, en þó að minni hyggju mjög óljósum tengslum við sýslunefnd Árnessýslu. Ef farið yrði að þessari tillögu yrði komin þriðja tegund sveitarfélaganna í landinn, en á það getur enginn nm. í félmn. fallist, enda held ég að ekki sé hægt að segja að slíkt sé skynsamlegt. Á sama tíma og menn eru að tala um að réttarstaða allra sveitarfélaga í landinu verði hin sama er lítið samræmi í því að vera að koma með þriðju tegundina. Sveitarfélög skiptast núna annars vegar í hreppa og hins vegar í kaupstaði. Síðan hafa sýslufélögin í landinu ákveðna umsjón með hreppunum, en kaupstaðir heyra beint undir félmrn. eins og kunnugt er.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða neitt frekar um þetta mál. Eins og ég sagði, liggur engin till. fyrir þinginu um að taka upp þessa tillögu sýslunefndarinnar, og því er ekki ástæða til að ræða hana neitt frekar. Þetta frv., sem hér um ræðir, er algerlega samhljóða þeim frv. sem hafa verið samþykkt hér á undanförnum árum um kaupstaðarréttindi til handa fjölmörgum hreppum. Einkennilegt væri ef Alþ. ætlaði núna að fara að taka einhverja aðra afstöðu en það hefur tekið til alveg hliðstæðra mála.

Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.