11.04.1978
Sameinað þing: 64. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3275 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

349. mál, votheysverkun

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég er ekki sammála hv. 3. þm. Vestf., að ekki hafi orðið allmikil breyting frá því að þessi þáltill. var samþykkt. Hún var ekki afgreidd fyrr en 29. apríl 1977, en framkvæmdir á því sama ári voru þannig, að samanborið við 27 gryfjur, sem voru byggðar árið 1976, voru byggðar 58 á árinu 1977. Ég hygg að ef mörg mál, sem á hv. Alþ. eru samþ., fengju svo skjótan frama, væri framkvæmdahraðinn meiri en almennt gerist. Ég vil líka segja það, að þeim upplýsingum, sem hefur verið safnað hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Bútæknideildinni á Hvanneyri, hefur verið komið til bænda í gegnum leiðbeiningaþjónustuna sem ráðunautar annast. Í þriðja lagi vil ég svo geta þess, að eftir því sem ég best veit er það stefna stofnlánadeildar landbúnaðarins nú að láta votheyshlöður ganga fyrir þurrheyshlöðum í sambandi við lánveitingu. Mér finnst því allt hníga í sömu átt: verulegt átak hafi verið gert í þessa átt. En auðvitað eiga rannsóknir á heyverkunaraðferðum að halda áfram hér eftir sem hingað til, því að engin sannindi eru í þeim sem ekki eru breytanleg eða eiga ekki eftir að breytast frá því sem nú er.