12.04.1978
Neðri deild: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3360 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég skal reyna að stilla máli mínu í hóf, enda er nú hvort tveggja, að fundartími er liðinn, og svo hitt, að ég er nú að mestu búinn að gleyma því sem ég mun hafa ættað að segja þegar þessi mál voru síðast til umr.

Ég vil þó aðeins rifja það upp, að ekki var í sjálfu sér neitt gleðiefni að þurfa að gera þá samþykkt, sem gerð var á ríkisstjórnarfundi, að hækka taxta á hitunarkostnaði um 25%. Ég vil aðeins minna menn á hvernig mál stóðu þá. Þá voru málefni Rafmagnsveitna ríkisins í algerri sjálfheldu, bæði hvað rekstur snerti og framkvæmdir. Því þurfti að taka ákvörðun til að koma málunum úr þessari sjálfheldu. Ég veit að hv. 2. þm. Austurl. veit það og man, að á Reyðarfirði hafði legið efni í raforkustreng til Norðurlands og hafði ekki fengist útleyst vegna fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins. Segja má að þegar ég tala þannig, þá sé blandað saman rekstrarvanda og stofnfjárvanda, en í raun og veru blandast þetta saman að meira eða minna leyti og hefur gert, og þá var gerð þessi samþykkt að hækka hitunartaxtann um 25%. Eins og hæstv. forsrh. hefur gert grein fyrir, þá var sú ákvörðun byggð á till. nefndar sem hafði verið skipuð til þess að gera till. um úrræði í málum Rafmagnsveitna ríkisins. Tekið var fram í till. þeirrar nefndar, að eftir þá hækkun yrði samt hitunarkostnaðurinn ekki hærri en olíukyndingarkostnaður. Þessi samþykkt ríkisstj. var því byggð á alveg ákveðinni forsendu. Síðan komu svo fram og maður fór að heyra aðrar upplýsingar. Segja má að það hafi verið vanræksla af okkar hálfu að ganga ekki betur úr skugga um að það væri allt rétt og nákvæmt, sem fyrir okkur var lagt. En satt að segja fannst mér persónulega að búið væri að bíða nógu lengi eftir ákvörðun í þessum málum þó að hún væri ekki dregin öllu lengur. Eftir að það fór að heyrast, að þetta mundi ekki vera rétt, þá var einmitt af ríkisstj. hálfu óskað eftir nákvæmum upplýsingum um þessa sundurliðun, bæði frá Rafmagnsveitum ríkisins og Þjóðhagsstofnun. Eitt minnisblað er komið í mínar hendur um þetta efni. Það er ekki sú nákvæma sundurliðun sem ég óskaði eftir og ríkisstj. samþykkti að fengin skyldi. Það verða að koma nákvæmari upplýsingar um þetta efni til þess að menn geti vitað hvað rétt er í því efni. Ég segi: Mitt atkv. með þessari hækkun var byggt á þessari forsendu. Ef hún reynist ekki rétt, þá tel ég ekki mitt samþykki fyrir þeim fölsku forsendum og áskil mér allan rétt til þess að taka þá ákvörðun til endurskoðunar.

Þessi ákvörðun varð þó til þess að málið 1osnaði úr þeirri sjálfheldu, sem það var í, og efnið fékkst leyst út á Reyðarfirði og fleira. Vona ég að hv. 2. þm. Austurl. meti það nokkurs. Hitt er svo annað mál, að fjárhagsvandi Rafmagnsveitna ríkisins var ekki leystur með þessari samþykkt ríkisstj. þá, hvorki raunar rekstrarvandinn né heldur stofnfjárvandinn. Þessi hækkun á hitunartaxta, sem vitaskuld á bæði við íbúðarhúsnæði og eins náttúrlega atvinnuhúsnæði, var ekki talin gefa meira á árinu en 110 millj. kr., þannig að menn sjá að vandinn er ekki leystur, jafnvel þó að þetta komi til framkvæmda 1. maí.

En nefndin, sem um þetta fjallaði, hafði aðrar till. fram að færa, m. a. hækkun á verðjöfnunargjaldi úr 13% í 20%. Það átti að gefa nokkuð yfir 200 millj. Þetta er miðað við það sem eftir er ársins. Ríkisstj. taldi ekki fært á þessu stigi, eins og líka hæstv. forsrh. orðaði það áðan og í ræðu sinni um daginn, að fallast á þetta verðjöfnunargjald. Ég undirstrika það, að þar er ekki um neina endanlega ákvörðun að tefla. Verið getur að taka verði þá ákvörðun til athugunar aftur. En eins og málin stóðu þá þótti ekki fært að leggja í að setja þessa verðjöfnun á. En ég tel að það mál sé áfram til athugunar.

Að öðru leyti var fjárhagsvandi Rafmagnsveitna ríkisins ekki leystur nema á þann hátt að framlengja eða fá lán til þess að standa undir þeim skuldbindingum sem á þeim hvíldu, bæði vegna rekstrarhalla og eins vegna stofnfjárframkvæmda, sem sumpart voru skuldir sem höfðu komið til vegna þess að framkvæmdir höfðu farið fram úr áætlun, sumpart vegna þess að talið var óhjákvæmilegt — og var óhjákvæmilegt — að stofna til vissra framkvæmda, eins og t. d. rafstrengsins til Vestmannaeyja, sem ekki hafði verið gert ráð fyrir. Ég lít því svo á, að eftir sem áður sé höfuðfjárhagsvandi þessa fyrirtækis óleystur. Það má segja, að honum sé skotið á frest með lántökum. Eftir biður ákvörðun um það, hvernig þessar lántökur verði greiddar.

Það er engin ný bóla, að Rafmagnsveitur ríkisins séu í fjárhagsvanda, og til þess liggja sjálfsagt skiljanlegar ástæður. Svo er og svo hefur verið á undanförnum árum. Í þeirri stjórn, sem við sátum saman í ég og hv. 2. þm. Austurl., kom það, að ég best man, fyrir æ ofan í æ, að glíma varð eftir á við nokkurn fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins. Hann var greiddur. Ég man ekki betur en ríkið tæki á sig oftar en einu sinni vissan hala í þeim efnum.

Ég held að hv. 2. þm. Austurl. hafi lagt óleyfilega mikið í orð hæstv. forsrh., þegar hann vildi túlka þau svo, að þau hefðu verið tilkynning til landsmanna um að aðrir taxtar yrðu hækkaðir. Það, sem forsrh. sagði og hann endurtók áðan, var það, sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi og ekki er óeðlileg samþykkt að mínum dómi þegar menn standa andspænis svona vanda, að teknir skyldu til skoðunar allir taxtar og rekstur þessa fyrirtækis. Þetta verð ég að telja eðlilegt þegar svona stendur á, og það má hver lá mér sem vill að ég telji slíkt eðlilegt. En að það hafi verið gert í því skyni eða með það sérstaklega fyrir augum að hækka taxta og auka þar með á mismunun er alröng túlkun.

Það er reyndar mín skoðun, sem ég get vel sagt hér, að ekki verði hægt að bæta þennan halla, sem er þarna um að ræða, með hækkun taxta, það verði ekki gert nema af almannafé, þjóðfélagið taki það á sig. En það detta engir peningar til þess ofan af himnum. Þetta verður ekki gert nema með því að jafna niður, afla tekna eða þá að spara einhvers staðar á móti sem því svarar. Þetta veit hv. 2. þm. Austurl. allra manna best. Það er ekki um neitt annað að ræða í því eini en að horfast í augu við staðreyndir. Ég hef ekki trú á því, að hægt sé að rétta þennan halla á annan hátt. Hitt er annað mál, hvort menn vilja afskrifa þetta á þessu ári, næsta ári eða dreifa því á eitthvað fleiri ár. Það er annað mál. En spá mín er sú, að svo muni fara, hvaða orðalag sem menn vilja nota um það, hvort sem þeir vilja nota það orðalag, að menn neyðist til þess, eða eitthvert annað orðalag, að ekki verði hjá því komist að ríkissjóður taki þetta á sig. Það er meira fé, sem þar er um að ræða, en því verði jafnað niður með taxtabreytingu. Skal ég þá ekkert fara út í alla þessa taxta og meðaltaxta, því að búið er að gera það svo flókið mál, að fyrir mig sem leikmann er aldeilis óskiljanlegt og ógerlegt að bera það saman.

Hv. 2. þm. Austurl. var að leita mjög eftir því, hver væri stefna Framsfl. í þessum efnum. Það liggur nú ljóst fyrir, að stefna Framsfl. er að reyna að stefna að sem mestum jöfnuði í rafmagnsverði. Líklegustu leiðina til þess telur hann þá, að það verði einn framleiðsluaðili rafmagns, hvort sem menn vilja kalla það Landsvirkjun eða eitthvað annað, sem síðan selji dreifingaraðilum, héraðsveitum, landshlutaveitum — eða hvað sem menn vilja kalla það. Ég held að þetta sé líklegasta leiðin til þess að stefna að jöfnuði. Þar með er alls ekki tryggt að sama rafmagnsverð verði alls staðar vegna þess að það liggur í hlutarins eðli, að dreifingarkostnaðurinn á hinum ýmsu svæðum verður ólíkur. Því getur vel verið, að við hliðina á þessu þyrfti til að koma einhver verðjöfnun, og kannske verður aldrei fullum jöfnuði náð. Þetta er sú stefna sem við teljum líklegasta til þess að koma á jöfnuði. Þessa stefnu okkar höfum við markað í þáltill.

Það er ekkert launungarmál, að samstarfsflokkur okkar hefur nokkuð önnur sjónarmið í þessu máli, — ekki að því leyti til, að hann vill að sjálfsögðu stefna að sem mestum jöfnuði í raforkuverðinu, en hann telur, þó að ég eigi nú ekki að vera að túlka hans sjónarmið, að hægt sé að ná því — skulum við segja — eftir öðrum leiðum, og leggur þá áherslu á landshlutaframleiðslufyrirtæki, væntanlega út frá því sjónarmiði að sjálfs sé höndin hollust og að heimamönnum sé best trúandi til þess að fara með þau fyrirtæki og þann rekstur. Annars eru þeir réttir aðilar til þess að skýra sína stefnu í þessum efnum. En ég er ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli í þessu efni, vegna þess að það er vitað mál að sjónarmið eru skipt að þessu leyti. Og það er ekkert undarlegt, þó að ágreiningur sé um efni sem þessi á milli samstarfsflokka.

Sett hefur verð stjórnskipuð nefnd til þess að fjalla um þessi málefni, um stjórn og skipulag þessara mála. Sú nefnd er að starfi. Og ég veit að hv. 2. þm. Austurl. hlýtur að vera mér sammála um það, jafnþaulvanur stjórnmálamaður og með allra manna lengstan þingsetualdur að baki, að þegar þannig er í pottinn búið reyna auðvitað samstarfsflokkarnir í þeirri stjórnskipuðu nefnd að athuga, hvort þeir geti fundið samnefnara fyrir hinar tvær ólíku stefnur sínar. Þess vegna getur hann varla talið eðlilegt, að við látum reyna á það í þinginu núna, hvort þáltill. okkar hefur fylgi, fyrr en séð er hvort í þessari stjórnskipuðu nefnd fæst niðurstaða.

Herra forseti. Ég sé að ég gæti talað miklu lengur um þetta, en ég held ég láti hér staðar numið. Ég vona að ég hafi undirstrikað það, hver stefna Framsfl. er í þessum efnum, og hv. 2. þm. Austurl., sé ekki í vafa um það, en enn fremur sjónarmið Framsfl. til ákvörðunartöku í sambandi við þessi vandamál Rafmagnsveitnanna, sem hafa verið til meðferðar að undanförnu og helst til langan tíma hefur tekið að mínum dómi að taka ákvörðun um.