13.04.1978
Efri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3363 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að ræða um kosningalög og kjördæmaskipun að gefnu tilefni vegna frétta í dagblöðum undanfarna daga um þau mál og eins vegna fram kominna till. um þessi efni, einnig til að beina spurningu til hæstv. forsrh, um sama efni og til að lesa að lokum samþykkt, sem þingflokkur Alþb. gerði í gær um þetta mál.

Í Dagblaðinu, sem út kom í gær, er stutt grein um þessi efni á forsíðu. Þar er vitnað í viðtal sem blaðið átti við Benedikt Gröndal, formann Alþfl. Segir í upphafi þessarar fréttar: „Í viðtali við Benedikt Gröndal, formann Alþfl., í morgun kom fram, að stjórnarandstöðuflokkarnir telja orðið of seint að breyta lögunum. Þar sem samstaða verður ekki, þá tel ég að engar breytingar verði gerðar.“ Það leynir sér ekki á skrifum blaðamannsins, að hann er að koma því inn hjá lesandanum, að vegna afstöðu stjórnarandstöðuflokkanna til þessa máls sé ekki samstaða fyrir hendi.

Í Tímanum 11. apríl s. l., þ. e. í fyrradag, er stutt grein um sama efni. Þar er fyrirsögnin, með leyfi forseta: „Stjórnarandstæðingar andvígir breytingum á kosningalögum: Í upphafi greinarinnar segir: „Stjórnarandstöðuflokkarnir eru andvígir því, að breytingar verði gerðar nú á kosningalögunum. Þetta mun hafa komið fram á fundum þingnefndar þeirrar, sem sett var til þess að ræða þær till. og hugmyndir sem fram hafa komið í þessum efnum að undanförnu. Var nefndinni ætlað að reyna að fá fram samræmda afstöðu þingflokka til málsins.“ Og í niðurlagi greinarinnar segir: „Nú er talið ósennilegt, að nokkrar breytingar verði að sinni gerðar á kosningalögunum, þar sem ætlunin mun hafa verið að gera þær breytingar einar, sem alger samstaða yrði um, á þeim skamma tíma sem er til kosninga.“

Það leynir sér auðvitað enn síður á þessari klausu að tilgangurinn með henni er sá, að koma því inn hjá lesandanum, að stjórnarandstæðingar hafi komið í veg fyrir þá samstöðu sem nauðsynleg sé til þess að breytingar geti átt sér stað.

Um þetta efni er einnig fjallað í stuttum pistli á útsíðu í Morgunblaðinu í morgun, enda þótt það sé með nokkuð öðrum hætti gert. Þar er þessi sama tilhneiging ekki jafnopinská, en sagt — og haft eftir Geir Hallgrímssyni hæstv. forsrh. — að mál þetta verði tekið til meðferðar á ríkisstjórnarfundi í dag, á fimmtudegi, og muni ríkisstj. þá átta sig á því hvernig staðan er. Hér er sem sagt verið að gefa til kynna, að nú fyrst sé ríkisstj. að láta deigan síga hvað snertir frumkvæði í þessu máli. Í raun og veru er verið að undirstrika það sama sem fram kom í þeim fréttaklausum sem ég vitnaði í áðan, að einhverjir aðrir komi í veg fyrir að eitthvað gerist í þessum málum.

En er þetta sannleikanum samkvæmt? Hefur stjórnarandstaðan komið í veg fyrir að einhver hreyfing kæmist á þessi mál á Alþ.? Ég held að við ættum að líta á staðreyndir í þessum efnum. Ég vil rifja upp, að strax fyrsta dag þingsins var lagt fram þskj., sem varð þskj. nr. 4. Fól það í sér till. til þál. um breyt. á kosningalögum. Flm. voru 5 þm. Alþb. Í þessari till. var gert ráð fyrir því, að Alþ. kysi fimm manna nefnd, skipaða einum fulltrúa frá hverjum þingflokki, til þess að fjalla um breytingu á kosningalögunum, er miði að því, eins og sagði í till., að gera kjósendum auðveldara en nú er að velja milli frambjóðenda á þeim lista sem þeir kjósa. Þessari till. var vísað til n. fljótlega eftir að hún var flutt og rædd hér í þinginu og þar hefur hún legið óhreyfð allan veturinn.

Í öðru lagi urðu umr. utan dagskrár á öðrum degi þingsins að frumkvæði form. Alþfl., hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar. Þessar umræður fóru fram í Nd. Alþ. áður en nokkurt mál hafði verið tekið á dagskrá, sama dag og þingmenn Nd. kusu sér þingnefndir. Við þær umr. gaf hæstv. forsrh. hátíðlega yfirlýsingu um að ríkisstj. mundi beita sér fyrir viðræðum stjórnmálaflokkanna um hugsanlegar breytingar á kosningalögunum.

Síðan eru liðnar vikur og mánuðir. Frumkvæði forsrh. hefur orðið harla lítið í þessum efnum. Menn hafa beðið eftir því að hann efndi þetta fyrirheit. Það var ekki fyrr en s. l. föstudag, hinn 7. apríl, þegar aðeins voru eftir 3 vikur til þingloka, að við forustumenn stjórnarandstöðuflokka vorum kvaddir á fund til viðræðna um þetta mál. Á þeim fundi urðu stuttar umr. um þessi mál. Ég lýsti því m. a. yfir af hálfu okkar Alþb.-manna, að við hefðum ekki fengið neinar upplýsingar um það, hvernig þessum viðræðum yrði hagað, hvort áætlað væri að einn, tveir eða þrír menn tækju þátt í þeim viðræðum frá hverjum flokki, og þar af leiddi að við hefðum ekki veitt einum eða neinum umboð til að taka þátt í viðræðum, við lítum aðeins á þennan fund sem í mesta lagi formlegan undirbúningsfund að slíkum viðræðum þar sem við ættum eftir að kjósa okkur fulltrúa til að taka þátt í þeim. Á þessum fundi skiptust menn hins vegar á skoðunum um það, hvort tíminn væri forhlaupinn í þessum efnum. Ég heyrði ekki betur en að allir viðstaddir fundarmenn, sem tjáðu sig um þetta efni, að undanskildum hv. þm. Magnúsi T. Ólafssyni, væru þeirrar skoðunar, að um seinan væri að gera breytingar á kosningalögunum, þar sem framboðsundirbúningur væri það langt á veg kominn sem raun bæri vitni og hefði miðast við óbreytta löggjöf.

Er það þá stjórnarandstaðan sem ber ábyrgð á því, að þannig hefur farið? Við Alþb.- menn fluttum till. í upphafi þings um annan þátt þessa máls. Hún hefur ekki fengist afgreidd allan veturinn. Forustumaður Alþfl. vekur umr. um málið og fær fram ákveðið loforð af hálfu forsrh. Að sjálfsögðu er það ríkisstj. og hæstv. forsrh. alveg sérstaklega sem ber ábyrgð á því, að þannig hefur farið, að þessar viðræður hafa aldrei komist í gang. Ég held að atburðarás þessa máls í vetur beri þess ljósan vott, að þingmeirihluti stjórnarflokkanna og forustumenn ríkisstj. hafa beinlínis drepið þessum málum á dreif og komið í veg fyrir að nokkuð gerðist á þessum vetri, með því annars vegar að liggja á afgreiðslu þingmála og hins vegar að taka opinberlega að sér forustu í þessum málum — forustu sem síðan hefur engin orðið. Mér þykir harla óviðfelldið, að málgögn þessara sömu flokka reyni svo undir þinglok að varpa ábyrgðinni á stjórnarandstöðuflokkana vegna þess dráttar sem orðið hefur á því, að þessi mál væru lekin til umr. Það er algjör fölsun á þróun þessa máls í vetur og sögulegum staðreyndum.

Ég er hins vegar ekkert undrandi á því, að nú undir þinglokin skuli menn fara að keppast við að flytja till. um þessi efni í þinginu. Það er alveg ljóst, að stjskrn. hefur brugðist. Enginn fundur hefur verið haldinn í þeirri nefnd um mjög langt skeið og er ekkert útlit fyrir að hún hafi eina eða neina forustu um að breytingar verði gerðar.

Yfirlýsingar hæstv. forsrh. vöktu að sjálfsögðu vonir, m. a. hjá sumum þingmönnum stjórnarflokkanna, og þegar þessar vonir eru að engu orðnar kemur svo sannarlega ekkert að óvörum að menn vaði fram með ýmsar hugmyndir í frv.- formi, enda skammt orðið til kosninga og þá gott að veifa röngu tré frekar en engu. Hitt er vonandi öllum ljóst, að flutningur þessara till. er aðeins gárur á yfirborði málsins. Þær munu engu breyta. Þær munu engu breyta vegna þess að löngu er orðið vonlaust um afgreiðslu málsins. Mál af þessu tagi verður að undirbúa vandlega með viðræðum stjórnmálaflokkanna. Það eina, sem hægt er að gera nú, er að stjórnmálaflokkarnir fallist á að skipa nefnd nú í þinglokin til þess að fjalla um breytingu á kosningalöggjöfinni, svo að annað kjörtímabil liði ekki án þess að tekið sé á þessum málum á raunhæfan hátt.

Ég vil í framhaldi af þessum orðum mínum leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., hver hafi verið niðurstaðan á fundi ríkisstj. í morgun, ef þaðan er þá yfirleitt eitthvað að frétta, en þó alveg sér í lagi hvort hann og flokkur hans geti fallist á þá málsmeðferð sem ég drap á. Þó að vísu sé of seint að fara að undirbúa till. fyrir þessar kosningar, væri ekki úr vegi að nú yrði skipuð nefnd sem færi að undirbúa þessi mál, þannig að hægt væri að fjalla um þau á næsta kjörtímabili.

Þá get ég ekki látið hjá líða, úr því að ég hef lítillega vikið að frv. um breytingar á kjördæmaskipun og kosningalögum, að benda á frv. sem komið hafa fram seinustu dagana, að flm. þessara till. og frv. hafa bersýnilega verið að flýta sér æðimikið að kasta þeim inn í þingsali. Þeir hafa mjög kastað til þeirra höndum. Verður að segja eins og er, að breytingar, sem felast í þeim till., eru líklegri til að skapa vanáamál en að leysa þau.

Hv. þm. Ellert B. Schram, Jón Skaftason, Guðmundur H. Garðarsson og Ólafur G. Einarsson hafa borið fram till. þess efnis, að við úthlutun uppbótarsæta verði afnumin sú regla að veitt séu uppbótarsæti út á hæstu hlutföll í kjördæmum. Um leið gera þeir ráð fyrir því, að hægt sé að veita fleiri en eitt uppbótarsæti til sama flokks í sama kjördæmi. Ég er ansi hræddur um að þessi breyting kæmi ekki að ýkjamiklu gagni fyrir það kjördæmi sem bersýnilega er laklegast sett í þessum efnum, þ. e. a. s. Reykjaneskjördæmi. Ég álít að Reykjaneskjördæmi sé langverst sett hvað snertir vægi atkv., fjölda atkv. á bak við hvern þm. Mér sýnist á öllu, að þessi breyting yrði frekar til hins verra fyrir Reykjanes en hins betra. Ég get t. d. upplýst það, ef mönnum er það ekki ljóst, að ef þessi regla hefði gilt við seinustu kosningar og ef henni hefði verið beitt við úthlutun uppbótarþingsæta til Alþb., sem fékk þrjá landsk. þm. í seinustu kosningum, þá hefðu þeir allir komið í hlut Reykjavíkur og enginn í annað kjördæmi. En í dag er þessu svo varið, að einn okkar landsk. þm. kemur úr Reykjaneskjördæmi. Þm. fyrir Reykjaneskjördæmi úr okkar flokki mundi þannig fækka um einn. Ég get upplýst að þetta hefði að vísu jafnast þannig, að Alþfl. hefði væntanlega fengið í þessum kosningum tvö uppbótarsæti úr Reykjaneskjördæmi, þannig að Reykjanes hefði væntanlega í þessum kosningum fengið jafnmarga uppbótarmenn kjörna og það fékk samkv. núgildandi reglum. En því má bæta við, að ef reglu þm. Jóns Skaftasonar, Ellerts B. Schram, Guðmundar H. Garðarssonar og Ólafs G. Einarssonar, sem þeir hafa gert till. um á þskj. 510, hefði verið beitt í kosningunum 1971, hefðu þm. úr Reykjaneskjördæmi orðið einum færri. Hefði slíkt hið sama verið gert í kosningunum 1367, hefðu þm. Reykjaness orðið tveimur færri en þeir urðu. Þannig leynir sér ekki, að till., sem m. a. er flutt af tveimur þm. þessa kjördæmis, er bersýnilega mjög óhagstæð kjördæmi þeirra og mundi undir ýmsum kringumstæðum verða til þess, að þm. kjördæmisins fækkaði frekar en fjölgaði.

Um till. hv. þm. Odds Ólafssonar ætla ég ekki að fara mörgum orðum, enda verður hún til umr. í þessari hv. d. við síðara tækifæri. Ég minni á það eitt, að hún gengur m. a. út á það, að landsk. þm. verði fækkað úr 11 í 4. Ég verð að segja alveg eins og er, og áreiðanlega eru fleiri á sömu skoðun og ég, að þó að vægi atkv. eftir búsetu sé mikilvægt mál og illt að allt of mikið misvægi myndist í þeim efnum, þá væri hitt hálfu verra að mikil mismunun yrði milli flokka hvað snertir atkv. á bak við hvern þm. Mér sýnist að till. hv. þm. mundi hafa þær afleiðingar, að stjórnmálaflokkunum yrði verulega mismunað. Mér sýnist að með samþykkt hennar mundu menn fara úr öskunni í eldinn, kalla yfir sig enn stærra vandamál en þeir væru að leysa.

Ég sé svo, herra forseti, ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. En ég vil að lokum skýra frá því, að þingflokkur Alþb. hefur rætt þessi mál ítarlega á fundum sínum. Á fundi þingflokksins 12. apríl s. l. var gerð svofelld samþykkt einróma:

„Nú, þegar aðeins tvær til þrjár vikur eru eftir til þingslita, virðist kapphlaup hafið í þingsölum um flutning frv. til breytinga á kosningalögum í því skyni að rétta hlut Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis. Því miður virðist hér um sýndarmennsku að ræða, því að bersýnilega er vonlaust um afgreiðslu þessara mála fyrir þinglok. Mál þessi verður að undirbúa með viðræðum stjórnmálaflokkanna, en þau verða ekki leyst með tillöguflutningi einstakra þm. Auk þess eru frv. þessi með augljósum ágöllum, því að annað þeirra réttir ekki hlut Reykjaneskjördæmis, sem augljóslega er þó verst sett hvað þingmannafjölda varðar, og gæti fremur orðið til að fækka þm. úr þessu kjördæmi, en hitt frv. mundi hins vegar valda vaxandi mismunun milli stjórnmálaflokka hvað varðar atkv. á bak við hvern þm.

Þingflokkur Alþb. minnir á, að á öðrum degi þings á s. l. hausti gaf forsrh. yfirlýsingu þess efnis, að ríkisstj. mundi í vetur beita sér fyrir viðræðum flokkanna um hugsanlegar breytingar á kosningalögum. Við þetta fyrirheit var þó ekki staðið og það var ekki fyrr en 7. apríl s. l., að forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna voru boðaðir á stuttan fund um þessi mál til að staðfesta það, sem þá þegar blasti við öllum, að orðið væri um seinan að hyggja að verulegum breytingum á kosningalögum á þessu þingi, þar sem framboðsundirbúningur væri nú of langt á veg kominn og hefði miðast við óbreytta löggjöf.

Þingflokkur Alþb. minnir einnig á, að eitt fyrsta þingmál á þessum vetri var till. nokkurra þm. flokksins um skipun nefndar til að undirbúa frv. um aukinn rétt kjósenda til að hafa áhrif á hvaða frambjóðendur ná kosningu af þeim lista sem þeir kjósa. En till. þessi hefur legið óhreyfð í n. allan veturinn. Eins og nú er komið málum vill þingflokkur Alþb. skora á aðra stjórnmálaflokka á Alþ. að fallast á skipun nefndar nú í þinglok til að fjalla um breytingar á kosningalöggjöfinni, svo að annað kjörtímabil liði ekki án þess að tekið sé á þessum málum á raunhæfan hátt, þar sem sýnt virðist að stjórnarskrárnefnd er ekki líkleg til að hafa þar um forustu.“