14.04.1978
Sameinað þing: 66. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3450 í B-deild Alþingistíðinda. (2601)

343. mál, meðferð dómsmála

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég missti af fyrri hluta ræðu hæstv. dómsmrh., en ég hef lesið þessa skýrslu og hlýddi á mál hans að nokkru leyti. Ég vildi ekki láta þetta mál fram hjá Sþ. fara öðruvísi en láta þess getið, að ég tel vera mikinn feng í því, að þessi skýrsla sé lögð fram, og þakka hæstv. ráðh. fyrir að leggja hana fyrir hið hv. Alþ. og gera grein fyrir henni. Ég vil taka það fram, að þessi skýrsla kemur mér að ýmsu leyti nokkuð á óvart, vegna þess að hún upplýsir, að færri mál eru óútkljáð hjá dómstólunum en a. m. k. ég átti von á. Það má kannske vera að einhverju leyti skýring á þessu, að einmitt þessi skýrsla var í uppsiglingu og hún hafi, eins og hæstv. ráðh. gat um, rekið á eftir því, að mörg mál hlutu afgreiðslu.

Það er enginn vafi á því, að á undanförnum árum hafa verið gerðar mjög virðingarverðar tilraunir til þess að lagfæra ýmislegt í réttarfari okkar og til þess að einfalda málsmeðferð. Nú í vetur eru mörg mál af þessu tagi til afgreiðslu á hinu háa Alþ., hafa ýmist nú þegar verið afgreidd eða ern á lokastigi. Dómstólar eru í eðli sínu sjálfstæðar stofnanir og engu lítilvægari en aðrir þættir ríkisvaldsins, og Alþ. sem löggjafarsamkunda á að reyna að efla dómsvaldið, ekki með því að hafa bein afskipti af því, heldur að stuðla að skynsamlegri löggjöf og skapa dómstólum viðunandi starfsaðstöðu. Það er stundum kallað eftir því, að Alþ. hafi afskipti af einstökum dómsmálum, jafnvel að Alþ. taki slík mál til sérstakrar rannsóknar og kveði upp úrskurði um þau. Ég vil taka það fram, sem ég hef reyndar gert áður á öðrum vettvangi, að ég er andvígur slíkum vinnubrögðum, tel að Alþ. eigi ekki að fara inn á verksvið dómstóla og þeir eigi að fá að starfa mjög sjálfstætt áfram, óháðir afskiptum stjórnmálaflokka og þeirra, sem starfa á þingi, að öðru leyti en því sem ég gat um áðan varðandi löggjöfina sjálfa.

Ég vil geta þess í þessu sambandi, að enda þótt málin séu færri en ég gerði ráð fyrir sem enn eru óútkljáð hjá dómstólum, þá kemur fram í þessari skýrslu að enn leggja óafgreidd mál, sem voru þingfest á síðasta áratug, og fjölmörg mál, sem hafa dregist allt of langan tíma, og í því sambandi held ég að rétt sé að ég komi aftur inn á það sem ég ræddi í Nd. í gær, að allt of algengt er að mál séu rekin fyrir dómstólum og til þeirra sé stofnað af ástæðum, sem ekki séu vegna þess að kröfur séu vefengdar út í hörgul, heldur vegna þess að skuldunautar eða þeir, sem kröfum er beint að, sjá sér beinan hag í því að draga mál á langinn.

Hæstv. ráðh. kom aðeins inn á það, að oft væri það lögmönnum sjálfum að kenna að mál drægjust. Að vissu leyti er nokkuð til í því og á sér þá m. a. skýringar í því, að dráttur á málum veldur því að kröfur rýrna mjög verulega á meðan í málaferlum er staðið, og í þeirri verðbólgu, sem nú ríkir á Íslandi, hefur þetta leitt til þess, að kröfuhafar hafa glatað mjög verulega verðgildi þeirra krafna sem þeir áttu í upphafi. Þetta ástand er ákaflega óeðlilegt og nauðsynlegt að bregðast með einhverju móti við því. Í því sambandi hef ég leyft mér að leggja fram frv. til laga um viðauka við lög um meðferð einkamála, um dómvexti, sem er í því fólgið, að dæma megi vexti til samræmis við vaxtaaukakjör sem nú tíðkast, þannig að kröfur haldi sem mestu verðgildi sínu þegar þær eru endanlega dæmdar.

Annað atriði varðandi þessa skýrslu er líka það, að hvergi er minnst á Hæstarétt, en öllum er kunnugt, sem með þessum málum fylgjast, að þar er mikill flöskuháls. Gefur auga leið, að enda þótt mál gangi eitthvað hraðar hjá hinum almennu dómstólum, þá er lítið fengið með því ef mál hrannast upp hjá Hæstarétti. Nú skilst mér að svo sé komið að mál geti dregist í Hæstarétti, þau séu beinlínis ekki tekin fyrir í jafnvel 2–3 og allt upp í 4 ár. Þetta segl ég þó með fyrirvara, en þetta er mér tjáð. Alla vega liggur fyrir gífurlegur fjöldi mála hjá Hæstarétti sem óafgreiddur er og ekki fyrirsjáanlegt að fáist afgreiddur innan mjög skamms tíma. Það hefði verið fróðlegt að fá umsögn hæstv. ráðh. um þennan þátt dómsmálanna og hvort einhverjar hugmyndir eru uppi um lagfæringu í þeim efnum.

Ég held að ástæðulaust sé fyrir mig að fara frekari orðum um þessa skýrslu á þessu stigi málsins. Eins og ég sagði í upphafi, kvaddi ég mér hljóðs til þess að þakka fyrir hana og láta það koma fram, að hér yrðu þó a. m. k. einhverjar umr. um hana, og til staðfestingar á því, að þetta er mál sem okkur varðar og þm. eru ekki skeytingarlausir um hvernig meðferð dómsmála er í þessu landi.