01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

312. mál, bifreiðahlunnindi ráðherra

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Fyrirspurnin, sem ég leyfi mér að beina til hæstv. fjmrh. um bifreiðahlunnindi ráðherra, er svo hljóðandi:

„1. Hvernig er háttað fríðindum ráðherra varðandi eftirgjöf aðflutningsgjalda af einkabifreiðum og greiðslu rekstrar- og viðhaldskostnaðar slíkra bíla?

2. Hversu háa upphæð greiddi ríkissjóður árið 1976 til einkabílstjóra ráðherra?

3. Hvert er starf einkabílstjóranna í þágu hins opinbera annað en akstur hlutaðeigandi embættismanna?“

Hér er alls ekki að því vikið hvort launakjör ráðh. séu rýr, mátuleg eða of lág, heldur er 1. liður þessarar fyrirspurnar ætlaður til þess að svarið geti einfaldlega komið í stað sögusagna sem nú ganga manna milli.

Í fjármálaráðherratíð Magnúsar Jónssonar voru gerðar ákveðnar breytingar varðandi bílaútgerð ríkisins. Um þær ráðstafanir virðist hafa ríkt fádæma gott samkomulag hér á Alþ. á sínum tíma, enda breytingin til þess fallin að koma á samræmi í kjörum þeirra embættismanna sem fram að þeim tíma höfðu notið þeirra hlunninda að hafa bifreið frá ríkinu með embætti sínu. Einnig er ljóst af umr., sem urðu um þau mál og lesa má í Alþingistíðindum, ræðum sem þáv. fjmrh. flutti um málið, að hér var ætlunin að búa svo um hnútana að launakjör embættismanna, þ. á m. ráðherra, yrðu fremur á hreinu en áður hafði verið og losna þar með við eitt af tortryggnismálunum úr samfélagi okkar.

Nú er það skoðun okkar fyrirspyrjenda, að þörf sé á því að fá upplýsingar um þessi mál er síðan mættu verða til íhugunar um hvort ekki sé ástæða til þess að gera enn frekari ráðstafanir í hreingerningarmálunum á þessu sviði.

Þá er að víkja að 2. og 3. lið fyrirspurnarinnar sem varða heildarlaunagreiðslur ríkissjóðs til einkabílstjóra ráðh. og störf þeirra. Þessir liðir eru alls ekki til þess ættaðir að gefa í skyn að þeir menn, þessir einkabilstjórar, vinni ekki fyrir kaupinu sínu eða að laun þeirra kunni að vera of há. Hið gagnstæða er fyrirspyrjendum ljóst. Fyrirspurnin varðar það hins vegar, með hvaða hætti ráðh. hefja embætti sitt. Hún snertir m.a. inntak þingsetningarræðu forseta lýðveldisins nú á þessu hausti, þar sem er fjallað um gildi látleysisins í stjórn þessa fámenna ríkis. Mun ég svo ekki flytja lengri grg. fyrir þessari fyrirspurn að sinni.