17.04.1978
Efri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3490 í B-deild Alþingistíðinda. (2651)

63. mál, innkaupastofnun ríkisins

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Eins og kemur fram í nál., þá tók ég ekki afstöðu til afgreiðslu málsins í n. Því þykir mér hlýða við 2. umr. um þetta mál að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til þess. Hún er í stuttu máli sú, að ég styð heils hugar þá stefnu sem mörkuð er í þessu frv. Ég tel ekki óeðlilegt, að jafnumfangsmikil stofnun og Innkaupastofnun ríkisins er orðin, sem nú, eins og upplýst hefur verið í þessum umr., starfar í tveimur sjálfstæðum umfangsmiklum deildum, slíkri starfsemi yrði sett einhver yfirstjórn af hendi Alþ. Ég tel slíkt enga óhæfu. Og mitt álit er að vöxtur Innkaupastofnunarinnar hafi orðið allt of mikill, of hraður. Ég held að þessi stofnun sé orðin miklu viðameiri og umfangsmeiri en upphaflega var ætlast til.

Ég veit um dæmi þess, að það hefur beinlínis verið til óþurftar fyrir sumar framkvæmdir, t. d. í bæjarfélagi þar sem ég þekki til, að erfitt hefur verið að fá að hafa framkvæmdastjórn ákveðinna verka á vegum bæjarstjórnarinnar sjálfrar — verka sem vinna hefur átt og eru byggð upp þannig, að þau eru fjármögnuð að hluta af ríkisvaldinn og að hluta af bæjarfélaginu. Hefur þannig verið háttað um framkvæmd slíkra mála, að þau lúta eingöngu forsjá Innkaupastofnunarinnar. Í lögum mun víst vera ákvæði um það, að í vissum tilvikum sé heimilt að færa slíkar framkvæmdir undir forustu heimamanna, en reynslan hefur sýnt að þetta hefur verið mjög erfitt. Þarna held ég að sé komið út á braut sem getur í mörgum tilfellum verið háskaleg. Ég er þeirrar skoðunar, að heimamenn hafi í veigamiklum atriðum betri möguleika á því að hafa glögga heildaryfirsýn yfir slíkar framkvæmdir sem þarna er um að ræða og þeim sé oft betur treystandi til þess að sjá haganlega um framkvæmdirnar en einhverjum aðilum fyrir sunnan, og í mörgum tilfellum er ég ekki í nokkrum vafa um að við slíka tilhögun mundu sparast miklir fjármunir. Þess vegna held ég að sú stefna, sem kemur fram í því frv. sem hér er til umr., sé góðra gjalda verð.

Hins vegar er mér engin launung á því, að mér finnst ákvæði 1. gr. frv. að sumu leyti of afdráttarlaus, of þröng. Ég vildi hafa samráð við flm. frv. um það, að þessu yrði breytt. Á ég þar við það sem stendur í frv., með leyfi hæstv. forseta: „Stjórnin hefur yfirumsjón með starfsemi stofnunarinnar, tekur lokaákvarðanir um öll innkaup og framkvæmdir og ákveður starfshætti.“

Þetta orðalag finnst mér persónulega vera of þröngt. Ég tel eðlilegt að þarna yrði nokkuð slakað á. En með tilliti til þess, að ég er eindregið fylgjandi þeirri meginstefnu sem frv. kveður á um, og þar sem ég er ekki í vafa um að við síðari meðferð málsins mundi áreiðanlega vera hægt að fá samkomulag um orðalagsbreytingu á greininni, þá mun ég styðja frv. og greiða atkv. á móti tillögu meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed.