17.04.1978
Neðri deild: 77. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3511 í B-deild Alþingistíðinda. (2668)

243. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir) :

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. og hv. þm. Gunnlaugi Finnssyni fyrir undirtektir þeirra. Eins og kom fram í framsöguræðu minni, þá var mér kunnugt um að framleiðsluráðslögin væru í endurskoðun, þó ekki nógu örugglega kunnugt um það til þess að ég léti það aftra mér frá að hreyfa þessari hugmynd nú. En fram kom hjá hæstv. ráðh., að nýs lagafrv. væri að vænta á næsta hausti, og ég hygg að með því að hreyfa málinu nú þegar á þessu þingi mætti tryggja enn betur að þessi hugmynd um verðbætur á mjólk í landshlutum, þar sem er mjólkurskortur, kæmist inn í lögin.

Mér er kunnugt um, að framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins er mjög hlynntur þessari hugmynd og það hefur verið honum til baga, beinlínis til baga í starfi hans að hafa ekki heimild til þess að veita þær verðuppbætur sem hér er talað um.

Það kom fram hjá hv. 4. þm. Vestf., sem ég veit fullvel um og þeir sem kunnugir eru fyrir vestan, að þar er mikill mjólkurskortur alveg árviss, sérstaklega á vissum tímum ársins. Mér dettur í hug í því sambandi nokkuð sláandi saga frá höfuðstað Vestfjarða, Ísafirði, en þá stóð til að fresta yrði fermingu vegna þess að ekki var rjómadropi til í bænum. Framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs í Reykjavík brá við vel og drengilega og sendi flugvél með rjóma vestur, svo að þarna leystist úr stórum vanda fyrir þær fjölskyldur sem áttu hlut að máli. En svona er þetta oft og tíðum um stórhátíðir og þegar verst gegnir, þá er kannske ekki til dropi af rjóma eða spónn af skyri vegna þess að treysta þarf á aðfluttar vörur í þessu tilliti. Og það liggur auðvitað í augum uppi, það mæla öll rök með því, að þarna verði stefnt að því, að aðliggjandi landbúnaðarhéruð geti séð þéttbýlissvæðunum, — þá hef ég sérstaklega í huga Ísafjörð og Bolungarvík, sem mynda mesta þéttbýlissvæði Vestfjarða, — að aðliggjandi landbúnaðarsvæði geti séð þeim fyrir þessum nauðþurftum. Ég geri ráð fyrir að þessar aðstæður séu víðar fyrir hendi á landinu, en ég hygg að þó muni hvergi jafnbrýnt að bæta um og í þessum landshluta.

Ég vil taka það fram, að einmitt þegar verið var að endurskoða framleiðsluráðslögin fyrir 2 til 3 árum, þá minnist ég þess, að hv. 4. þm. Vestf., Gunnlaugur Finnsson, gerði hvað hann gat, vissi ég, ásamt mér og fleirum til að fá þessa breytingu fram, en tókst ekki. En ég vona að við getum leyft okkur að vera bjartsýn í þessum efnum nú.