21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3699 í B-deild Alþingistíðinda. (2868)

140. mál, vegáætlun 1977-1980

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Þegar mér hefur þótt sérstök ástæða til hef ég deilt óvægilega á meiri hl. fjvn. fyrir óviðunandi vinnubrögð gagnvart minni hl. n., bæði þegar veittur hefur verið of naumur tími til afgreiðslu mála og ekki síður þegar meiri hl. n. hefur haldið öllum störfum innan síns hóps og síðan lagt ákvarðanir sínar sem endanlegar niðurstöður fyrir alla n. En vegna þess að ég hef ekki látið slík vinnubrögð liggja í þagnargildi þegar um þau hefur verið að ræða vil ég á hliðstæðan hátt ekki láta hjá líða nú að færa formanni n., hv. 6. þm. Suðurl., Steinþóri Gestssyni, þakkir mínar, og ég veit að þar mæli ég fyrir hönd allra stjórnarandstæðinga í n., fyrir að vinnubrögðin í n. hafa við þessa endurskoðun vegáætlunar verið til sérstakrar fyrirmyndar. Á öllum stigum málsins hefur verið litið á n. alla sem eina heild og minni hl. átti aðild að öllum störfum í undirnefnd að athugunum og umr. með hæstv. samgrh. og starfsmönnum vegagerðar, en af hálfu Vegagerðar ríkisins, forstöðumanns og annarra starfsmanna, hefur eins og jafnan fyrr verið staðið að verki svo að til fyrirmyndar er fyrir aðrar stofnanir ríkisins. Ég vil því leggja sérstaka áherslu á þakkir mínar til hins ágæta formanns í n. fyrir það, hvernig hann hefur staðið að málum við störf n., og vænti þess, hvaða einstaklingar sem n. skipa á næstunni, að störfum verði hagað á hliðstæðan hátt og nú hefur verið gert. Það mun, eins og ég hef oft minnst á, verða farsælast, hverjir sem skipa meiri hl. eða minni hl. hverju sinni. Að sjálfsögðu ræður meiri hl. n. jafnan niðurstöðu, ef úr þarf að skera með atkvgr. en slík vinnubrögð hafa það í för með sér, að miklu sjaldnar en ella þarf að beita meirihlutavaldi, hverjir sem fara með það.

Við afgreiðslu vegáætlunar nú er um að ræða endurskoðun áætlunar fyrir árið í ár, sérstaka aukaendurskoðun, sem er nokkurs konar lokastaðfesting á því, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki tekist á öllu kjörtímabilinu að afgreiða vegáætlun með eðlilegum hætti í eitt einasta skipti, samtímis því að ákvarðanir hennar í vegamálum hafa fyrst og fremst verið ákvarðanir um stórrýrðar vegaframkvæmdir frá því sem um var að ræða á fyrra kjörtímabili. Fjárveitingar til vegamála hafa rýrnað, en með stórhækkun söluskatts, álagningu vörugjalds, gengislækkunum og öðrum ráðstöfunum hefur ríkissjóður hins vegar á sama tíma aukið mjög tekjur sínar af rekstrarútgjöldum ökutækja. Sú lítils háttar hækkun á framlögum til framkvæmda á þessu ári miðað við gildandi vegáætlun, sem byggð er á hækkun bensíngjalds og þungaskatts, dugar að sjálfsögðu nánast ekkert til að bæta fyrir þann stórfellda samdrátt sem orðið hefur í vegamálum á þessu kjörtímabili. En sá mikli samdráttur er enn alvarlegri en tölurnar einar segja til um, vegna þess að ökutækjum hefur fjölgað mjög á þessu tímabili þegar raungildi fjárveitinga til vegamála hefur minnkað svo mjög.

Í þáltill. um breytingu á þingsályktun um veg áætlun fyrir árin 1977–1980 á þskj. 280 er á bls. 4 gerð grein fyrir því, að í till. um endurskoðun fjárveitinga á árinu 1978 felist 930 millj. kr. aukning á raungildi fjárveitinga til nýrra framkvæmda í ár frá gildandi vegáætlun. Síðan þessi grg. var samin hefur áætlun um kostnaðarhækkanir milli áranna 1977 og 1978 verið endurskoðuð og er nú talið að verðhækkun geti orðið um 40% í stað 30% eins og reiknað er með í grg. Þetta hefur í för með sér að þessar upplýsingar á bls. 4 eru úreltar. Viðbótin til nýrra framkvæmda, 930 millj. kr., er nú að öllum líkindum komin niður í 500 millj. Í þessu sambandi ber að minnast þess, að hér er um að ræða aukningu frá gildandi áætlun um framkvæmdir 1978, en sé raungildi áætlaðra framkvæmda nú borið saman við framkvæmdir í vegáætlun 1977 er hækkunin einungis um ríflega 400 millj. kr. á verðlagi ársins 1978 eða um 290 millj. kr. á verðlagi ársins 1977, en 1977 var um lækkun að ræða frá 1976, 1976 var um lækkun að ræða frá 1975 og 1975 var um stórlækkun að ræða frá 1974. Þannig hefur hæstv. ríkisstj. haldið á vegamálum. Á verðlagi ársins 1977 námu fjárveitingar til nýbyggingar vega og brúa þannig á því ári, 1977, 2720 millj. kr., en í jafngildum kr. var framlagið 1974 5098 millj. kr. Þannig hefur þróunin verið. Ef borin eru saman árin 19I8, 1977 og 1976 annars vegar og þrjú stjórnarár vinstri stjórnarinnar hins vegar á verðlagi ársins 1977 hafa verið veittar til nýbyggingar vega og brúa annars vegar árin 1976, 1977 og 1978 8604 millj. kr. miðað við 40% verðhækkun milli ára 1977 og 1978, en árin 1972, 1973 og 1974 15003 millj. kr. Í þessu sambandi kemur í ljós að mismunurinn er um 6.4 milljarðar kr., þ. e. a. s. það vantar á þriggja ára tímabili hæstv. núv. ríkisstj. sem svarar ríflega tveggja ára framlagi miðað við það ársframlag til nýrra framkvæmda í vegamálum sem hér er verið að samþykkja fyrir árið 1978. Og ekki hefur þessi stórkostlegi niðurskurður þó orðið til þess að draga úr verðbólgu. Hún er meiri en nokkru sinni fyrr. Ekki hefur 43% niðurskurður að meðaltali allt þetta tímabil heldur orðið til þess að bæta hag ríkissjóðs. Skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann hafa tífaldast í krónutölu frá miðju ári 1974. Og ekki hafa álögur á eigendur ökutækja minnkað. En þetta er einn árangurinn af stjórnleysinu í efnahagsmálum í tíð núv. ríkisstj.

Um einstakar framkvæmdir í vegamálum er þess að geta, að upphaflegum till., sem lagðar voru fyrir fjvn., var breytt á þann veg, að dregið var nokkuð úr till. um fjárveitingar til Borgarfjarðarbrúar og framkvæmdir þar minnkaðar frá fyrstu till., en mismuninum var bætt við hlut þeirra einstöku kjördæma sem lækkað höfðu í prósentum vegna þeirrar upphaflegu till. að halda áfram byggingu Borgarfjarðarbrúar í samræmi við eðlilegan tæknilegan hraða. Við val á milli þessara tveggja till. togaðist á annars vegar þörfin á að nýta sem fyrst það mikla fjármagn, sem þegar hefur verið lagt í Borgarfjarðarbrúna, með því að standa að lokaframkvæmd verksins í samræmi við eðlileg tæknileg vinnubrögð með sem bestri nýtingu fjármagns og vinnuafls, og hins vegar það sjónarmið að láta þann framkvæmdahraða ekki draga svo úr framlagi til annarra framkvæmda sem raun hefði á orðið og gripa þá heldur til þess að hægja þess vegna ferðina. Ég fyrir mitt leyti hefði getað stutt fyrri till. um hraðari framkvæmdir við þetta stórvirki með tilliti til nýtingar á því mikla fjármagni sem komið er í verkið og ætlunin er eftir sem áður að verja til þess á þessu ári. Niðurstaðan varð samt sú að fara heldur hægar í framkvæmdir við Borgarfjarðarbrúna en gert var ráð fyrir í fyrstu till. og láta önnur verk gjalda þessarar framkvæmdar þeim mun minna í fjárveitingum. Jafnframt er þess að geta, að það er yfirlýst af hálfu fjvn., að í till. hennar um ráðstöfun vegafjár á þessu ári felist ekki heimild til að hefja neina nýja stórframkvæmd, sem gefi haft umtalsverð áhrif á það fjármagn sem kemur til skipta til annarra almennra framkvæmda á næstunni.

Varðandi vegaframkvæmdir í Reykjaneskjördæmi sérstaklega blasir það við, að þær hafa dregist mjög verulega saman hin síðustu árin, miklu meir en vegaframkvæmdir almennt. Fjárveitingar 1976, 1977 og 1978 nema samanlagt innan við 1/6 hluta af raungildi fjárveitinga til kjördæmisins árin 1972, 1973 og 1974 samanlagt. Er þó í þessu kjördæmi um að ræða óleyst vandamál umferðar þar sem umferðarþunginn er líklega um 24 þús. bifreiðar á sólarhring og um er að ræða einu umferðaræðina til Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Bessastaðahrepps og Suðurnesja. Það ber sérstaklega að harma, að leyst skipulagsmál hafa átt nokkurn þátt í að þessum vandamálum hefur svo lítt verið sinnt við afgreiðslu vegáætlunar hin síðustu ár, auk þess sem hér kemur til stórfelldur almennur samdráttur í fjárveitingum til vegamála. Á þessari umferðarleið, sem ekki hefur tekist að koma í viðunandi horf á svo löngum tíma sem liðinn er síðan vegamannvirkin við Kópavog komu í gagnið, er meiri slysatíðni en á nokkurri annarri umferðarleið og slysahættan fer sívaxandi með fjölgun ökutækja þegar fullnægjandi úrbætur í vegamálum fást ekki fram. Ef menn halda að öll umferðarvandamál í Reykjaneskjördæmi hafi verið leyst, þá er það mikill misskilningur. Umferðarvandinn, þar sem Hafnarfjarðarvegur liggur um Garðabæ, er óleystur, en sívaxandi. Óhjákvæmilegt er að framkvæmdir við vegamannvirki frá Elliðaám að Reykjanesbraut hefjist í síðasta lagi strax í kjölfar framkvæmda við Hafnarfjarðarveg í Garðabæ. Þá má einnig á það benda, að í töflu á bls. 10 í skýrslu um framkvæmd vegáætlunar 1977 kemur fram, að af alls 75 km vega, sem eru með óbundnu slitlagi og þar sem umferð bifreiða er á bilinu 1000–10000 bifreiðar á dag, eru 46 km eða 63% í Reykjaneskjördæmi. Það er að sjálfsögðu ljóst, að þegar um svo mikla umferð er að ræða kemur engin lausn á umferðarvandanum til greina önnur en lagning bundins slitlags.

Ég tel svo rétt, áður en ég lýk máli mínu, að geta um bókun sem við fulltrúar minni hl. í fjvn., þ. e. a. s. hv. 7. landsk. þm., Helgi Seljan, og hv. 8. landsk. þm., Sighvatur Björgvinsson, ásamt mér, stöndum að í tilefni af því, að í des. sl. var Áhaldahús Vegagerðarinnar látið taka 350 millj. kr. lán í Seðlabanka Íslands. Þetta lán er gengistryggt með 7.5% vöxtum og 0.75% árlegri álagsgreiðslu og var framlánað til nokkurra vegaframkvæmda, eins og fram kemur í skýrslu um framkvæmd vegáætlunar 1977. Nú er það ekki skoðun okkar minnihlutamanna, að fjáröflun til þessara framkvæmda hafi ekki verið nauðsynleg, en að henni bar að standa með öðrum hætti. Engin heimild var til slíkrar lántöku í vegáætlun eða fjárl. og ekkert samráð var haft við Alþ. eða fjvn. sem vann á þessum tíma að afgreiðslu fjárl. og sat daglega á fundum. Jafnvel mun form. n. ekki hafa haft hugmynd um lántökuna fyrr en byrjað var að vinna í fjvn. að afgreiðslu vegáætlunar í febr. s. l. Allar tilvísanir til þess, að heimilt sé að B-hlutafyrirtæki taki lán, ef fyrir hendi er samþykki viðkomandi ráðh., eru út í hött í sambandi við þessa heimildarlausu lántöku, vegna þess að að sjálfsögðu tók Áhaldahús Vegagerðarinnar, sem er B-hlutafyrirtæki, í rauninni ekki lánið, heldur Vegagerðin sjálf. Hvernig sem á er litið tók Vegagerðin lánið hjá Áhaldahúsinu og til þess þarf óumdeilanlega heimild í fjárl. eða öðrum lögum. Það er nauðsynlegt að halda aðskildum í þessu sambandi skilningi hv. alþm. og okkar minnihlutamanna í fjvn. ekki síður en annarra á fjárþörf Vegasjóðs og nauðsyn þeirra framkvæmda, sem féð var notað til, og hins vegar eðlilegum og sjálfsögðum aðfinnslum okkar fulltrúa stjórnarandstöðunnar í fjvn. vegna þess að hér er um að ræða heimildarlausa lántöku og ekkert samráð við Alþ., ekki einn sinni fjvn. var gert kunnugt um málið. Alþ. og fjvn. sérstaklega ber að hafa þann metnað að sæta því ekki án aðfinnslna að vera hundsað með þessum hætti.

Við, sem skipum minni hl. n., gerðum ítrekaðar tilraunir til að fá fram samstöðu í n. um það, að fundið yrði að þessari lántöku í sameiginlegu nál., og lögðum okkur í framkróka um að finna svo vægilegt orðalag að jafnvel þeir, sem viðkvæmastir eru og með inngrónasta varfærni gagnvart ráðh. sínum, gætu á það fallist. Við töldum nauðsyn á að n. stæði öll að einhverri slíkri aths., vegna þess m. a. að með slíkum óheimilum ráðstöfunum er verið að binda hendur n. fyrir fram um till. um ráðstöfun vegafjár án nokkurs samráðs við n. Reisn n. þyrfti að vera slík, að hún gæti sem heild staðið að slíkri aths. a. m. k., og skipti þá ekki máli hver á í hlut á hverjum tíma. En allt kom fyrir ekki. Enda þótt samkomulag hefði getað tekist með flestöllum nm. náðist ekki full og alger samstaða og því varð niðurstaðan sú, að ekki er á málið minnst í sameiginlegu nál. En minni hl. n. lét bóka sérstaka grg. vegna þessa máls. Þótt ég telji ávallt rétt að greina einungis frá leikslokum, en ekki vopnaviðskiptum í nefndarstörfum, vil ég geta þess, að eftirfarandi, sem við létum bóka, er að sjálfsögðu ekki það orðalag sem borið var fram sem till. okkar að aths. í sameiginlegu nál. ef til hefði komið. Bókunin er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Fjvn. fékk á fundi hinn 9. febr. s. l. upplýsingar um, að í des. s. l. hafi Vegagerð ríkisins verið látin taka 350 millj. kr. gengistryggt lán hjá Seðlabanka Íslands til 5 ára með 7.5% ársvöxtum auk 0.75% árlegs framlags. Lán þetta mun að langmestu leyti hafa verið notað til nokkurra verkefna í vegagerð, aðallega í Borgarfirði og á Holtavörðuheiði. Engin heimild frá Alþ. var fyrir þessari lántöku, hvorki í vegáætlun né í fjárlögum, og ekkert samráð var haft við fjvn. um lántökuna né ráðstöfun fjárins, ekki einu sinni við form. n., og enginn nm. mun hafa haft vitneskju um lántökuna fyrr en í febr. Við fulltrúar Alþb. og Alþfl. í fjvn. áteljum eindregið þessi vinnubrögð og leggjum áherslu á að einstakir ráðh. taki sér ekki vald sem á að vera í höndum Alþ. Við teljum ótækt að óheimilar lántökur bindi hendur Alþ. varðandi fjárveitingar til einstakra framkvæmda í vegáætlun í ár og næstu ár og því beri að ætla ríkissjóði að endurgreiða umrætt lán eins og gert hefur verið um alllangt skeið varðandi föst lán til vegaframkvæmda.“

Þótt Áhaldahús Vegagerðarinnar hafi verið látið taka þetta lán að nafninu til, var það nánast allt framlánað til einstakra verkefna í vegagerð, eins og fram hefur komið. Ég er á þeirri skoðun, að kanna beri hvort ekki væri skynsamlegt að veita Áhaldahúsinu heimild til að taka lán til eigin nota í því skyni að Vegagerð ríkisins eignist fullkomin tæki til að leggja varanlegt slitlag á vegi. Ég tel óviðunandi að Vegagerðin sé algerlega háð samningum við verktaka í þessu efni, ekki síst þegar ljóst er að samkeppnin í tilboðum í þessi verk er naumast sem skyldi, þegar verktakar standa sameiginlega að tilboðum til Vegagerðarinnar um framkvæmdir. Þróunin er sú, að sífellt stærri hluta vegafjár mun verða varið til varanlegs slitlags og jafnhliða meiri og meiri lögn þess eykst þörfin í sambandi við viðhald og endurnýjun. Því tel ég tímabært að gerð verði könnun á hagkvæmni þess, að Vegagerðin eigi sjálf slík tæki, miðað við það ástand sem nú ríkir, að stofnunin er í þessu efni öðrum háð að öllu leyti. Ég vænti þess, að hver sem fer með málefni Vegagerðarinnar á næstunni láti slíka athugun fara fram, svo að við afgreiðslu fjárl. geti Alþ. tekið ákvörðun um slíka fjárfestingu ef hún yrði talin hagkvæm.

Ég lýk svo máli mínu, herra forseti, með því að endurtaka þakkir mínar til form. fjvn. fyrir mjög lýðræðisleg vinnubrögð við endurskoðun vegáætlunar og drengilega afstöðu í hvívetna til okkar sem skipum minni hl. nefndarinnar.