22.04.1978
Efri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3775 í B-deild Alþingistíðinda. (2902)

291. mál, umhverfismál

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þakklæti hv. síðasta ræðumanns í garð hæstv. ráðh. fyrir að hafa lagt þetta frv. til laga fram nú til athugunar. Ég tel þetta góð vinnubrögð, að ætla einmitt nægan tíma til þess að athuga frv. Ég tel raunar æskilegra að leggja frv. fram núna í þinglok heldur en hitt hefði verið, að leggja það fram á haustdögum og ætlast til að frv. yrði afgreitt á þessu þingi. Hér er um að ræða mál sem ákaflega æskilegt er að alþýða manna ræði sín í milli og við fáum sem mestar umr. um meðal almennings áður en Alþ. fjallar endanlega um það, þannig að félög áhugamanna, náttúruverndarfélögin um landið og heildarsamtök þeirra geti fjallað um frv.

Nú er mér það kunnugt, að vel hefur verið vandað til undirbúnings þessa lagafrv., þar sem réttir aðilar hafa um það fjallað nú þegar. Ég er næstum viss um það, að hefðum við haft lög í þessa átt áður og sérstaka ráðuneytisdeild, er um þessi mál hefði fjallað, þá hefði okkur auðnast að sneiða hjá hættulegum ágreiningsmálum sem upp hafa komið.

Ég mun ekki fremur en síðasti ræðumaður, hv. þm. Jón Árm. Héðinsson, fara út í það að ræða einstakar greinar frv. Álitamál í frv. sjálfu eru mörg og margar greinar þarfnast skýringa umfram það sem er að finna í aths. við frv. En ég vil aðeins í lokin segja það, að fyrir þá forsjón, sem kemur fram í þessu frv., og fyrir frumkvæði hæstv. ráðh. í þessu máli er ég reiðubúinn að fyrirgefa ýmislegt.